Panama galdrafárið

Hegðun og málflutingur vinstri grænna ásamt meðreiðarsveinum þessa óþingræðislega stjórnmálaflokks er farin að líkjast galdrafárinu á Íslandi á 17. öld. Þá var nóg, að sinnisveikur ofstækismaður fullyrti, að eymd hans og pína væri af völdum forsendingar einhvers, sem hinum sinnisveika var í nöp við, til að meintur seyðkarl eða seyðkerling var tekinn höndum og yfirheyrður með harkalegum og ósvífnum hætti, jafnvel píndur til játningar, og að lokum brenndur á báli til fullnustu refsingar, lýðnum til hugarhægðar í vesöld sinni, andlegri og líkamlegri. Þá gilti ekki reglan um, að maður sé saklaus, þar til sekt hans er sönnuð, heldur varð fórnarlamb "réttvísinnar" að afsanna sekt sína, alveg eins og hjá dómstóli götunnar nú á dögum.  Leið til þess í Panama-fárinu er að birta skattaframtöl sín nokkur ár aftur í tímann, eins og David Cameron hefur gert.  

Í annars ágætan morgunþátt Óðins Jónssonar, fréttamanns, á Gufunni föstudaginn 8. apríl 2016, eftir að mikið gerningaveður hafði gengið yfir íslenzk stjórnmál og fellt forsætisráðherran, þó að tækist með harðfylgi að halda í stöðugleika stjórnarfarsins og koma í veg fyrir þingkosningar að kröfu Alþingis götunnar ofan í forsetakjör, var mætt Svandís nokkur Svavarsdóttir, hafði fengið "blod på tanden" og heimtaði nú meira blóð, enda eigi einhöm.  "Rökin" hjá henni eru samkynja "forsendingarrökunum" á galdraofsóknartímanum, en eru engan veginn boðleg á 21. öld og ber að vísa út í hafsauga.  Þau voru:

"hann er í Panama-skjölunum". Skýring á þessum galdraofsóknarmálflutningi er siðrof og siðblinda. Lögmenn nú á tímum fordæma málflutning af þessu tagi, og siðfræðingar ættu að gera það líka. Hugarheimur téðrar Svandísar minnir á myrkviði miðalda, og hún æsir skrílinn upp, alveg eins og sumir prelátar og sýslumenn gerðu á miðöldum til að skara eld að eigin köku.  Svandís heldur, að sér muni aftur skola upp í valdastólana á öldu múgæsingar, en hún hefur enga verðleika til að þjóna þar hagsmunum alþýðunnar.  

Vinstri hreyfingin grænt framboð stundar óþingræðisleg vinnubrögð innan þings og utan.  Á Austurvelli er verið með skrílslæti, sem eiga að svipta Alþingi starfsfriði og valda upplausn. Til þess eru refirnir skornir að torvelda þingmeirihlutanum störfin og þreyta hann. Þinghelgin er vanvirt, sem var alvarlegt afbrot til forna. Innan þings eru settar á langar ræður um allt á milli himins og jarðar í því augnamiði að drepa málefnalegum umræðum á dreif og tefja afgreiðslu mála, sem þingmeirihlutinn ber fyrir brjósti. Þarna er þingræðið tekið kverkatökum, og allt er þetta sett á svið til að grafa undan þingræðinu í landinu í þeirri von, að kjósendur gefist upp á ástandinu og komi þessum andlýðræðislegu öflum til valda á ný í flýttum Alþingiskosningum.  Það má ekki verða. Þetta er sama aðferð og þjóðernisjafnaðarmenn beittu til að brjótast til valda í Þýzkalandi og steypa Weimarlýðveldinu í glötun. Það er ekki leiðum að líkjast. Mega kjósendur á Íslandi búast við langþráðri siðbót í stjórnmálunum, ef þeir láta glepjast þannig ? Nei, það er af og frá, eins og nú skal rekja.

Valdatími vinstri grænna 2009-2013 vitnar ekki um siðbót, nema síður sé.  Að setja fólk á borð við Svandísi Svavarsdóttur til valda nú eða síðar á árinu væri að fara úr öskunni í eldinn.  Það voru hún, Katrín Jakobsdóttir, Steingrímur Sigfússon og allt liðið, sem stóð að vinstri stjórninni, alræmdu 2009-2013, sem neitaði ósk úr röðum þáverandi stjórnarandstöðu um að opinbera nöfn eigenda félaganna, sem voru kröfuhafar föllnu bankanna.  Ætli það hafi ekki verið maðkur í mysunni  þá, sem var valdur að höfnun þeirra á þessari sjálfsögðu beiðni ?  Af hverju mátti þá ekki vitnast, hvaða persónur og leikendur stæðu að Wintris, svo að eitt alþekkt dæmi sé tiltekið ?  Af hverju eru vinstri menn svona veikir fyrir auðkýfingum og hygla spákaupmönnum fram í rauðan dauðann, sbr afhendingu nýju bankanna á silfurfati til kröfuhafanna 2010 ? Af hverju samþykkti þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar græns framboð ekki tillögu Lilju Mósesdóttur á síðasta kjörtímabili um að gera gangskör að því að upplýsa um aflandsfélögin og hagsmunaaðila, sem að þeim stæðu ?  Líkleg skýring er, að vinstri menn hafi óhreint mjöl í pokahorninu.  Tvískinnungur forkólfanna, ekki sízt formannsins, Katrínar Jakobsdóttur, ríður ekki við einteyming.

Þá birtist á Sjónarhóli Morgunblaðsins þann 7. apríl 2016 grein, "Undanskot eigna í tvö ár", eftir Hauk Örn Birgisson, hæstaréttarlögmann, sem sýnir svart á hvítu, að valdhöfunum 2009-2013 er engan veginn treystandi til að fara fyrir baráttunni á Íslandi "gegn skattaskjólunum", því að þessir loddarar sýna með verkum sínum, að þeir draga taum fjársvikara og skattsvikara, eins og eftirfarandi tilvitnun í nefnda grein sýnir svart á hvítu:

"Undanfarin ár hefur borið á því, að einstaklingar, sem áður töldust auðmenn, hafa haldið því fram, að þeir séu uppiskroppa með fé, eða hafa jafnvel verið teknir til gjaldþrotaskipta, sem leitt hafi til þess, að takmarkað af eignum fannst í búum þeirra.  Hafa kröfur á þessa aðila því verið afskrifaðar í stórum stíl eða fallið niður af öðrum ástæðum. 

Meginreglan í íslenzkum gjaldþrotaskiptarétti er sú, að ef eignir gjaldþrota einstaklings finnast, eftir að gjaldþroti viðkomandi hefur lokið, eru skiptin tekin upp og eignirnar greiddar út til kröfuhafa. 

Í desember 2010 var gerð breyting á gjaldþrotaskiptalögum nr 21/1991, þar sem mælt var fyrir um, að allar kröfur á hendur þrotamanni fyrndust á tveimur árum frá skiptalokum.  Töldu margir á þessum tíma, að tvö ár væru of skammur fyrningartími, og í umræðunni fór einnig fyrir því sjónarmiði, að fjársterkir einstaklingar gætu skotið eignum undan og kröfuhafar hefðu takmörkuð úrræði, þegar svo bæri undir."

"Það verður fróðlegt fyrir kröfuhafa, sem nú hafa glatað kröfuréttindum sínum á hendur gjaldþrota einstaklingum vegna fyrningar, að skoða lista yfir eigendur aflandsfélaga, sem á næstu dögum eða vikum munu líta dagsins ljós í fjölmiðlum.  Mig grunar, að einhverjir þessara kröfuhafa muni sjá á eftir kröfum sínum og hugsa Alþingi þegjandi þörfina fyrir að hafa ekki tekið á slíkum undanskotum, þegar löggjöfinnni var breytt árið 2010." 

Það er með ólíkindum, að menneskja með slíka lagasetningu sem þessa frá stjórnarárum sínum í farteskinu, skuli dirfast að margendurtaka á blaðamannafundi stjórnarandstöðunnar í Alþingishúsinu þriðjudagskvöldið 5. apríl 2016, að henni og hennar flokki sé bezt, jafnvel einni, treystandi í baráttunni við aflandsfélögin.  Vinstri stjórnin dró augljóslega taum óreiðumanna, sem forðuðu fé undan gjaldþroti í skattaskjól.  Vinstri flokkunum er alls ekki á nokkurn hátt betur treystandi en borgaralegu flokkunum til að fást við skattaundanskot, hvort sem er á aflandseyjum eða annars staðar.  Í tíð núverandi fjármálaráðherra hefur verið unnið markvissara og með meiri árangri við að klófesta skattsvikara en allt tímabilið 2009-2013.  Skattrannsóknarstjóri hafði þegar keimlík lekagögn undir höndum og Panama-skjölin, þegar tekið var að birta úr þeim.  Fyrrverandi gjaldkeri Samfylkingarinnar er sá fyrsti og eini, sem opinberlega sannast á í þessari lotu, að hafi orðið uppvís að skattsvikum.  Um það segir í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 8. apríl 2016:

"Fram til þessa hefur einungis verið upplýst, að fv. gjaldkeri Samfylkingarinnar hafi sparað sér 70 milljónir króna í sköttum með því að borga þá ekki á Íslandi.  Árni Páll Árnason hefur lýst því, að framganga gjaldkerans sé til fyrirmyndar !"

Helgi,  þingmaður og pírati, heldur því fram, að orðið hafi siðrof í íslenzkum stjórnmálum með ömurlegu máli SDG, fyrrverandi forsætisráðherra, án þess að útskýra málið.  Ef siðrof verður, hlýtur einhver siður að hafa verið fyrir. Hér skal halda því fram, að siðrofið eigi sér stað hjá stjórnarandstöðunni á tveimur vettvöngum:

Í fyrsta lagi er óvirðingin, sem mótmælendur á Austurvelli sýna Alþingishúsinu ný af nálinni, ef Búsáhaldabyltingin er undanskilin.  Skrílslæti mótmælendanna eru til marks um siðrof og stjórnarskrárbrot og staðfesta fyrirlitningu stjórnarandstöðunnar á þingræðisfyrirkomulaginu. 

Í 36. gr. Stjórnarskrárinnar stendur:

"Alþingi er friðheilagt.  Enginn má raska friði þess né frelsi."

Austurvöllur er illa fallinn til mannsafnaðar síðvetrar og á vorin, þegar jörð er blaut og gróður að taka við sér.  Þarna hafa orðið gróðrarspjöll, svo að ekki sé minnzt á ruslið á jörðu og matvælin, sem fólkið, margt á framfæri hins opinbera,  spillir og fleygir í þinghúsið.  Það er kominn tími til, að lögreglan stöðvi þessi skrílslæti, sem eru gróft brot á 36. gr. Stjórnarskrárinnar.

Í öðru lagi felst siðrofið í, að logið er skattsvikum upp á stjórnmálamenn.  Þannig er því haldið fram með vísun í Panamaskjölin, að fjármála- og efnahagsráðherra hafi gerzt sekur um tilraun til skattaundanskota með skráningu félags á aflandseyju.  Hér hefur ein fjöður orðið að 100 hænsnum í meðförum ómerkilegra manna.  Landsmenn hafa margir hverjir, eins og bekbóndi, hlýtt á ráðherrann, nú síðast í Kastljósi RÚV í gjörningahríðinni í viku 14/2016, gera skilmerkilega grein fyrir því, að um var að ræða bæði löglega og siðlega fjárfestingu í íbúð í auðugu smáríki við Persaflóann, Dubai, sem hætt var síðan við og allt féð flutt heim og skattyfirvöldum skilmerkilega gerð grein fyrir málinu. Þetta var allt fyrir opnum tjöldum og aldrei ætlunin að flýja í skattaskjól, enda var féð talið fram til skatts á Íslandi.  Það er siðrof að japla á þessu lon og don og fullyrða, að ráðherrann sé vanhæfur út af þessu máli til að gegna sínu mikilvæga embætti.  Það er siðblinda að átta sig ekki á hróplegu óréttlæti og ósanngirni, sem ofsóknir af þessu tagi fela í sér.

Hér er við hæfi að lokum að vitna til greinar Jóns Steinars Gunnlaugssonar, lögfræðings,

"Aðför", sem hann ritar í Morgunblaðið þann 7. apríl 2016:

"Við skulum hafa það á hreinu, að stjórnmálamenn, sem gerast sekir um brot gegn landslögum, til dæmis með því að svíkja undan skatti, verða að víkja úr embættum sínum.  Fjölmiðlar hafa hlutverki að gegna við að upplýsa um slíkar sakir með gagnaöflun og umfjöllun.  Við þá starfsemi þeirra hljóta að gilda almennar reglur, sem samfélagið viðhefur og lúta að því að fjalla af sanngirni og málefnalegum heilindum um þau málefni, sem um er að ræða."

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefán Örn Valdimarsson

Eins og talað úr mínu hjarta. Það meinta siðrof sem mesti hávaðinn er um blignar í samanburði við ansi margt sem maður hefur upplifað síðustu vikurnar.

Stefán Örn Valdimarsson, 11.4.2016 kl. 10:13

2 Smámynd: Stefán Örn Valdimarsson

átti að sjálfsögðu að standa -"bliknar"

Stefán Örn Valdimarsson, 11.4.2016 kl. 10:16

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Góð grein Bjarni, en vantaði þó smá upplýsingar um Birgittu Jónsdóttur.

Hennar nafn kemur ekki fyrir í Panamaskjölunum og því sjálfsagt saklaus manneskja í augum vinstra liðsins. Þó hefur hún viðurkennt, eftir að vinnufélagi hennar erlendis benti á það opinberlega, að hún hefur unnið sér inn peninga erlendis. Birgitta sýndi þar afrit af skattskýrslu sinni, þar sem fram kom að hún hafi unnið sér inn 10.000 dollara og talið þá fram hér á landi.

Nú er það svo að margnefnd Birgitta hefur ítrekað haldið uppi þeim málflutningi að bæði Sigmundur og Bjarni séu einir til frásagnar um hvort eða hversu mikið fé þeir eiga eða hafa átt erlendis. Hefur margsinnist ýjað að því að eigur þeirra beggja séu mun meiri en þeir sjálfir halda fram.

Hvers vegna í ósköpunum ættum við þá að trúa því að hún sjálf hafi einungis unnið sér inn 10.000 dollara á Bandarískri grund. Starf hennar þar var fólgið í ráðgjöf við kvikmyndagerð og þeir sem til þekkja segja að verðlagning slíkrar ráðgjafar sé mun hærri en þetta, telja nær lægi að hún hafi unnið sér inn 70.000 dollara.

Í það minnsta er hún ein til frásagnar. Það er lítið mál fyrir hvern sem er að fela peninga í Bandaríkjunum, ekki síður en á Tortóla.

Meint siðleysi þeirra þriggja ráðherra sem nefndir eru í Panamaskjölunum er að þeir skráðu ekki þessar eignir sínar í hagsmunaskrá Alþingis. Birgitta skráði heldur ekki sínar erlendu tekjur í þá skráningu, hvorki 10.000 dollarana né það sem þar er hugsanlega í felum.

Eru komin ný viðmið í sekt og sakleysi fólks hér á landi? Er fólk sekt af því einu að nafn þess kemur fyrir í skjölum frá Panama, jafnvel þó engin lög hafi verið brotin,  að allt í lagi sé að sniðganga og jafnvel brjóta íslensk lög svo fremi að þessi lögfræðistofa á Panama viti ekki af því?!

Gunnar Heiðarsson, 11.4.2016 kl. 13:16

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Einmitt, Stefán Örn.  Það er t.d. siðrof, sem rannsóknarblaðamennirnir opinberuðu Íslendingum að kvöldi sunnudagsins 3. apríl 2016, þegar þeir notuðu sömu aðferðir gagnvart þáverandi forsætisráðherra Íslands og notaðar hafa verið við ótínda glæpamenn.  Það á eftir að koma í ljós, hvort ætlunin var frá upphafi einvörðungu að róta upp pólitísku moldviðri á Íslandi, því að varla gátu "slátrararnir" búizt við að komast nær sannleikanum með viðtalinu en unnt var með því að rýna í "Panama-skjölin". 

Hvað sem því líður er óþolandi að draga birtingu kjarnans í þessum alræmdu skjölum á langinn, og blaðamönnunum eða samtökum þeirra ber að fara að kröfu Ríkisskattstjóra og afhenda allt, er Ísland varðar, til Skattrannsóknarstjórans íslenzka.

Bjarni Jónsson, 11.4.2016 kl. 13:28

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Gunnar;

Þakka þér kærlega fyrir athugasemd þína, sem á vel heima hér.  Téð Birgitta hefur með vægðarlausum aðdróttunum í garð annarra reynt að draga upp þá mynd af sér, að hún sé vammlaus "heilög Birgitta".  Það er vel þekkt aðferð afbrotamanna að þyrla upp moldviðri um aðra til að leiða athyglina frá sjálfum sér og jafnvel til að hylja eigin spor.  Þar sem Birgitta dylgjar um aðra, verður hún að sætta sig við aurslettur í þessum leðjuslag.  Hvers vegna var þjónusta hennar metin langt undir markaðsverði ?  Hefði ekki venjuleg þóknun fyrir þjónustu á borð við hennar elendis verið nær kUSD 200 en kUSD 10 ?  Hver trúir því, að "kapteinn pírata", sem hefur "þónokkuð oft" orðið ber að því að rægja fólk, samkvæmt Helga, þingflokksformanni pírata, hafi hreinan skjöld, þegar að fjármálunum kemur ? 

Bjarni Jónsson, 11.4.2016 kl. 13:56

6 Smámynd: Elle_

Alveg lýsandi pistill yfir siðblint fólk sem kallar sig stjórnmálamenn. 2009 kaus ég VG en vissi strax í júní 2009 að það mundi ég aldrei aftur gera nema kannski ef mestöllum flokksmönnum væri úthýst fyrst. Það var ekki ætlunin að koma SAMfó til valda eins og VG gerði.

Elle_, 11.4.2016 kl. 18:02

7 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæl, Elle;

Þú ert þá á meðal þeirra kjósenda VG, sem urðu fyrir áfalli og voru bólusettir við VG-veirunni þann 16. júlí 2009, er þingmeirihluti ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, eftir nokkra kattasmölun, samþykkti að senda framkvæmdastjórn ESB ósk um aðildarviðræður.  Sumir þingmenn stjónarinnar gerðu grein fyrir atkvæðinu með neikvæðri lýsingu á ESB, en samþykktu svo "umsóknina".  Svandís lýsti við þetta tækifæri ESB sem óalandi og óferjandi auðvaldssamtökum, en vildi samt leita inngöngu.  Þetta voru svik við kjósendur í grundvallarmáli.  Hún er því "rúin trausti".

Bjarni Jónsson, 11.4.2016 kl. 18:59

8 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Og nú láta esb sinnar kné fylgja kviði og gera þetta uppþot að matarholu í áróðri sínum. Það gleymist þó að rót vandans liggur m.a. Í veru okkar í EES, þar sem leyfilegt er að búia sér til skúffufyrirtæki í hagstæðara skattaumhverfi en heimafyrir. Þar ræður fjórfrelsið rómaða mestu. Þessvegna verða líka kreppur harðari og erfiðari innan esb vegna þessa frjálslynda fjármagnsflótta.

Ekki nóg með það, heldur eru flest þekktustu aflandsskjólin og eyjarnar sólríku í lögsögu ESB og undir yfirráðum m.a. Breta Hollendinga og frakka. Þó ekki endilega svo langt að fara til að fela vafasamar fúlgur. Bara að skottast til Sviss, Lightenstein eða Monaco sem dæmi. Þar ríkir dragónísk bankaleynd með fullri blessun.

tvískinnungurinn og hræsnin hafa nú náð áður óþekktum hæðum. Leiðtogar sambandsins heita því að ganga í málið og það sem þeir ætla að gera er að skera niður firningartíma krafna. Maður veit ekki hvort maður á að hlæja eða gráta.

Allavega vonar maður að allar hirslur verði nú opnaðar í vatíkönum bankaleyndar og skattaundanskota sem eru með nokkurra skrefa millibili í sambandinu. Ég er ansi hræddur um að þá sitji ekki margir af aðlinum í evropuþinginu og evrópuráðinu mikið lengur.

Jón Steinar Ragnarsson, 11.4.2016 kl. 23:34

9 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jón Steinar;

Fyrsta verk nýs forsætisráðherra, Sigurðar Inga Jóhannssonar, var víst að kanna, hvað væri í vegi þess að banna íslenzkum þegnum að skrá félög í skattaskjólum.  Embættismenn tjáðu honum, að allt ESB/EES moðverkið, sem væri grundvallað á jafnræði þegnanna í öllum aðildarlöndunum, stæði gegn þessu.  Ábending þín um, að skattaskjólin finnast víðar en í Panama, á vel við í þessu moldviðri.  Arthúr Björgvin Bollason hefur upplýst, að Þjóðverja sé lítt eða ekkert getið í þessum Panamaskjölum.  Þeir gætu einmitt leitað sér nær og hafa þar úr nógu að moða.  Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra í Berlín, hefur gert 10 liða áætlun til að minnka vægi skattaskjólanna og bæta skattskil.  Ríkissjóðir allra ESB-ríkjanna eru illa settir og bráðvantar meiri tekjur vegna öldrunar samfélaganna.  Þessi þróun gæti knúið á um sameiginlegt átak Evrópuþjóðanna til að lyfta huliðshjálminum af skattaskjólunum.  Ef það gerist, verður eftirleikurinn auðveldur fyrir skattrannsóknarstjórana.   

Bjarni Jónsson, 12.4.2016 kl. 12:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband