19.6.2016 | 09:21
Reykjavíkurflugvöllur eftir dóminn
Dómur Hæstaréttar þann 9. júní 2016 sýnir aðeins, hve illa innanríkisráðherrann, Hanna Birna Kristjánsdóttir, hélt á hagsmunamálum ríkisins í október 2013. Henni varð þá á sá fingurbrjótur að afhenda Jóni Gnarr í umboði borgarinnar án skilyrða ríkisland, sem SV-NA-braut Reykjavíkurflugvallar stendur á, og samþykkja um leið lokun flugbrautarinnar þrátt fyrir mikilvægi brautarinnar fyrir nýtingu vallarins við viss veðurskilyrði. Gjörningur þessi var atlaga að nothæfi flugvallarins og að öryggi ört vaxandi fólksflutninga á Íslandi. Um lögmæti þessa landafsals ríkisins má deila, en Hæstiréttur var einfaldlega ekki beðinn um að úrskurða um það að þessu sinni.
Áður hafði jafnan verið miðað við, að afnám téðrar flugbrautar á Reykjavíkurflugvelli væri ógjörningur að hálfu ríkisins fyrr en samsvarandi braut á Keflavíkurflugvelli hefði verið enduropnuð. Til þessa liggja ríkar öryggisástæður. Heilbrigðiskerfi landsbyggðarinnar með Landsspítalann við Hringbraut sem þrautalendingu er t.d. skipulagt út frá greiðum samgöngum í lofti við höfuðborgina. Með afnámi einnar brautar af þremur er ómótmælanlega rýrt nothæfi flugvallarins. Er það siðferðislega, öryggislega og efnahagslega verjanlegur gjörningur ?Sjúkraflugið hefur farið ört vaxandi á síðustu árum, og um helmingur sjúkraflugs til Reykjavíkur er í tímaþröng, þar sem flugmenn og heilbrigðisstarfsfólk er bókstaflega með lífið í lúkunum. Ríkisvaldið hefur við þessar aðstæður og ríkjandi aðstæður í samgöngumálum landsins ekki leyfi til að hlaupa eftir einhverjum byggðaþéttingarduttlungum í borgarstjórn, nema gera samhliða víðtækar hliðarráðstafanir. Þær eru ekki á döfinni, enda eru þær margfalt dýrari en núverandi fyrirkomulag og þau áform, sem nú eru uppi og hafin við Landsspítalann og ljúka á að mestu árið 2022.
Árið 2013 var ferðamannaflaumur frá útlöndum þegar hratt vaxandi til Íslands, og árið 2014 nam fjöldi erlendra ferðamanna til Íslands um einni milljón manns. Líklega bjuggust þó fáir þá við, að fjöldinn með flugvélum til landsins á árinu 2017 mundi tvöfaldast á þremur árum og ná 2,0 milljónum, eins og nú er spáð, og forstjóri Icelandair Group, kjölfestunnar í íslenzku ferðaþjónustunni, hefur sagt í blaðaviðtali, að landsmenn ættu að búast við 3-5 milljónum í framtíðinni. Þetta er ofboðsleg flóðbylgja fólks, sem mun flest ferðast í meiri eða minni mæli um landið, þó að sumir láti nægja að dvelja á höfuðborgarsvæðinu. Núverandi samgöngukerfi landsins ber ekki þennan fjölda, og fjárveitingar til samgöngumála verða a.m.k. að vaxa um 40 % að raungildi og nema a.m.k. 35 miakr/ár næstu 15 árin, ef örygginu á ekki að verða alvarlega ógnað.
Téður flaumur felur í sér ögrandi viðfangsefni á mörgum sviðum, ekki sízt á sviði samgöngumála, og við þessar aðstæður er fullkomin tímaskekkja að fækka kostum í samgöngumálum, sem dregið geta úr umferð á vegunum. Reykjavíkurborg, eins og fyrri daginn, spilar einleik, er úti að aka í samgöngumálum og skynjar ekkert annað í skipulagsmálum en þéttingu byggðar. Það er brennt fyrir það, að borgaryfirvöld axli ábyrgð af höfuðborgarhlutverki sínu. Borgin skynjar ekki samábyrgð sína varðandi flutningakerfi landsins og nauðsynleg umferðarmannvirki, enda hefur núverandi meirihluti Samfylkingar, vinstri grænna, Bjartrar framtíðar og pírata samþykkt aðalskipulag, þar sem önnur flugbraut er tekin út af kortinu árið 2024, og með eftirstandandi einni flugbraut verður starfræksla flugvallar í Vatnsmýri í raun gerð ómöguleg. Landsstjórnin verður nú þegar að binda enda á þessa óheillaþróun og marka stefnu til framtíðar um skipulagsmál á ríkislandinu í Vatnsmýrinni. Of lengi hefur dráttur orðið á því.
Þetta setur í uppnám úrlausn þess viðfangsefnis að sjá allt að 5 milljónum ferðamanna auk hálfri til einni milljón íbúa á þessu landi fyrir öruggum samgönguleiðum til og frá höfuðborgarsvæðinu til framtíðar. Líklega kostar ný og sambærileg miðstöð innanlandsflugs ekki undir miakr 150 með vegtengingum. Slíka fjárfestingu verður ekki fjárhagslegt svigrúm til að fara í í fyrirsjáanlegri framtíð, þegar nauðsynleg innviðauppbygging er talin útheimta miakr 500 til viðbótar núverandi fjárveitingum á næstu 10 árum, þar af a.m.k. miakr 100 til samgöngubóta (án nýs flugvallar í stað Vatnsmýrarvallar). Vegakerfið hrópar á framkvæmdir við viðhald, breikkun, brýr, jarðgöng og klæðningu.
Það þarf með verðstýringu að beina fleirum í loftið. Einfaldast er að lækka opinber gjöld af flugstarfseminni, sem lögð hafa verið á á síðustu 7 árum, svo að ódýrara verði að fljúga innanlands. Járnbrautarlestir eru hér óraunhæfar, en flugið ber að efla. Um árið 2040 verður innanlandsflugið sennilega rafknúið, sem þýðir mengunarlaust flug og mun ódýrara en nú.
Við þessa stöðu mála eftir téðan Hæstaréttardóm verður ekki unað. Dómurinn um téðan ólánsgjörning stendur og mun standa, en með lögum má færa ríkisvaldinu skipulagsréttinn á landsvæði Reykjavíkurflugvallar til jafns við það, sem tíðkast á Keflavíkurflugvelli, enda er umrætt land í eigu ríkisins. Landið undir flugbrautunum þremur er ekki falt og verður varla næstu hálfa öldina, og þess vegna getur landið undir SV-NA-braut Reykjavíkurflugvallar ekki gengið ríkinu úr greipum með dæmafáum gjörningi fyrrverandi ráðherra, enda jafngildir hann stórtapi fyrir ríkissjóð og þjóðfélagið í heild. Ef landið undir téðri flugbraut ætti að ganga til borgarinnar, eins og fyrrverandi innanríkisráðherra (og forsætisráðherra ?) skrifaði undir, þá væri slíkt gjafagjörningur, þar sem ríkinu er bakað mikið fjárhagstjón, og svigrúm ríkisvaldsins til að skipuleggja samgöngumál landsins stórlega skert. Hvort tveggja stríðir gegn Stjórnarskrá. Þess vegna gæti ríkið höfðað mál til riftunar hinum alræmda samningi. Lögfræðingurinn, sem nú vermir stól innanríkisráðherra, er hins vegar ekki á þeim buxunum, og þá mun við fyrsta tækifæri koma til kasta Alþingis sem að ofan greinir, og Höskuldur Þórhallsson, Alþingismaður, hefur lýst yfir.
Eftir það, sem á undan er gengið, kemst ríkið þó vart klakklaust frá þessu máli með væntanlegri lagasetningu einni saman. Fébætur á einu eða öðru formi verða að koma til, enda vofa yfir Reykjavíkurborg févítur vegna vanefnda við verktakann, sem hafið hefur undirbúning vegna bygginga í aðflugslínu hinnar umdeildu flugbrautar. Ríkið, sem hið nýja skipulagsvald á svæðinu, þarf þá að gera Reykjavíkurborg og verktakanum, Valsmönnum, grein fyrir því, að öll leyfi fyrir mannvirkjum í aðflugslínu margumræddrar flugbrautar yfir tiltekinni hæð séu afturkölluð af öryggisástæðum og fyrir þann gjörning muni ríkið greiða bætur, sem aðilar semji um, ellegar verði greitt samkvæmt mati dómkvaddra matsmanna. Í heildina séð virðist útlátalítið fyrir verktakann að halda téðri aðflugslínu lítt snertri, ef götur eru undan skildar.
Síðan þyrfti ríkið að koma að fjármögnun umferðarmiðstöðvar í Vatnsmýrinni fyrir farartæki af flestu tagi í samvinnu við hagsmunaaðilana í Vatnsmýri, og borgin mun þar auðvitað fá fasta tekjulind, m.a. á formi fasteignagjalda, sem hún metur mikils til tekjuöflunar. Mega þá allir una glaðir við sitt næstu hálfu öldina eða svo ?
Málefni Reykjavíkurflugvallar er dæmi um það, hvernig stjórnmálamenn með asklok fyrir himin geta klúðrað einföldum hagsmunamálum þjóðar. Í aðdraganda forsetakosninganna 2016 hefur mönnum orðið tíðrætt um mismunandi leiðir fyrir beina aðkomu kjósenda að lagasetningu, sem kallar á Stjórnarskrárbreytingu. Væri nú ekki nær að hefja þessa vegferð í sveitarfélögunum og búa með lögum til leið eða aðferðarfræði fyrir kjósendur þar að ógilda t.d. aðalskipulag viðkomandi sveitarfélags, sem, eins og dæmin sanna, getur verið "alger steypa" ? Ein leið er t.d., að þriðjungur sveitarstjórnarfulltrúa geti framkallað almenna atkvæðagreiðslu viðkomandi kosningabærra íbúa um aðalskipulag vegna eins tiltekins atriðis. Hafni meirihluti kjósenda umræddu atriði, verði sveitarstjórnin að endurskoða aðalskipulagið til samræmis.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Ferðalög, Samgöngur | Facebook
Athugasemdir
Já, hrapallega illa hefur Hanna Birna haldið á spöðunum í sinni pólitík og valdið landinu miklu tjóni. Þó ber að verjast eins lengi og stætt er og styðja þá viðleitni sem Höskuldur Þórhallsson vill halda uppi á Alþingi í haust.
Einnig vek ég athygli á frábæru innslagi Ómars Ragnarssonar í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi, tímabæri hugmynd hans um björgun Neyðarbrautarinnar, með því að færa hana sunnar og út undir Skerjafjörð, um leið og hann talaði einkar skýrt fyrir neyðarhlutverki hennar fyrir sjúkraflugið.
Ég á í raun eftir að lesa þessa grein þína í heild, Bjarni, verð að víkja mér frá, en þakka þér árveknina í þessu flugvallarmáli.
Jón Valur Jensson, 19.6.2016 kl. 14:02
Sæll, Jón Valur;
Það er ekki öll nótt úti enn með flugvöllinn í Reykjavík fremur en Bromma í Stokkhólmi. Það er hins vegar ljóst, að Reykjavíkurflugvöllur verður ekki varinn án öflugs atbeina ríkisvaldsins, og mér sýnist löggjafinn munu eiga næsta leik.
Ef menn virða fyrir sér grunnmynd af svæðinu eða loftmynd, þá liggur í augum uppi, að útlátalítið ætti að vera að leyfa SV-NA-brautinni að vera áfram og halda aðflugslínu hennar frírri, þó að landið umhverfis verði nýtt til bygginga. Hitt er möguleiki að færa hana sunnar, en ætli það mundi ekki kosta svona miakr 10 ? (Skot út í loftið.) Það er svo svakalega djúpt þarna niður á fast. Getur flugið sjálft staðið undir þeim kostnaði ? Ég efa það. Í ríkissjóði gæti orðið til fé á næsta áratugi fyrir slíka fjárfestingu, ef hagkerfið þróast vel. Geta byggingarnar, sem reistar yrðu á brautarstæðinu og í aðflugslínunni e.t.v. staðið undir kostnaði við flutning brautarinnar ? Ef þessar lóðir eru jafnverðmætar og af er látið, þá ættu þær að geta fjármagnað téða hliðrun brautarinnar. Ég hef þó mínar efasemdir um arðsemi þessara lóða umfram aðrar jafnstórar lóðir.
Þar sem við erum að skrifa um lagasetningu, væri vissulega fróðlegt að frétta um afstöðu forsetaframbjóðendanna til flugvallarins í Reykjavík. Ég tel mig hafa fullvissu fyrir því, að Davíð Oddsson sé nú og hafi alltaf verið hlynntur þremur flugbrautum í Vatnsmýrinni, enda var hann og er vel meðvitaður um höfuðborgarhlutverk Reykjavíkur. Um hina frambjóðendurna treysti ég mér ekki til að spá, og ég treysti ekki orðum þeirra allra.
Með góðri kveðju /
Bjarni Jónsson, 19.6.2016 kl. 19:03
Fólk eins og Hanna B. virðisgt ekki ferðast um Ísland- ekki búast við að lenda í veikindum eða árekstrum á vegum utan 101.
ÞRÖNGSYNI OG AÐ EKKERT SKIFTI MÁLI NEMA HÖFUÐBORGIN ERU ÞAR STJÓRNENDUR ÞANKAGANGS MARGRA.
f´OLK Á lANDSBYGGÐINNI ÆTTI ÞVÍ AÐ HÆTTA AÐ BORGA SKATTA TIL rÍKISINS.
Erla Magna Alexandersdóttir, 19.6.2016 kl. 19:35
Sæl, Erla Magna;
Ég er sammála þér um það, að þröngsýni er skaðvaldurinn að baki þeirrar áráttu borgaryfirvalda o.fl. að vilja loka Reykjavíkurflugvelli. Árið 2024 á sem sagt að gefa flugstarfseminni í Vatnsmýrinni náðarhöggið. Við þurfum hins vegar víðsýni við ákvarðanatöku um þetta mál og önnur; hætta að hafa asklok fyrir himin. Ég fullyrði, að samgönguþörfum Reykjavíkur og nágrennis verður bezt borgið með efldri flugstarfsemi í Vatnsmýri, en ekki skertri. Þá mundi draga úr umferðinni á vegum út frá höfuðborgarsvæðinu.
Það er sjálfsögð skylda höfuðborgarinnar að hlúa að fluginu innan sinna vébanda, farþegaflugi, einkaflugi, kennsluflugi og sjúkraflugi; allt á það heima þar og hvergi annars staðar. Heildaröryggi í samgöngum eykst með eflingu flugsins, því að að sama skapi dregur úr umferðarþunga á vegunum. Flugið eru okkar lestarsamgöngur.
Bjarni Jónsson, 19.6.2016 kl. 21:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.