Af orkumálum Englands

 

 

Bretar, og einkum munu það hafa verið Englendingar, sýndu ótrúlegt stjórnmálalegt sjálfstæði og þrek 23. júní 2016, þegar meirihluti kjósenda þar á bæ, um 52 %, hafnaði áframhaldandi veru Stóra-Bretlands í Evrópusambandinu, ESB, þvert gegn mesta og harðvítugasta áróðursmoldviðri sem sézt hefur frá bæði innlendum og erlendum stjórnmálamönnum, viðskiptamönnum og fræðimönnum. 

Var hér s.k. "elíta" eða hin ráðandi öfl saman komin.  Minnti þetta moldviðri marga Íslendinga óþyrmilega á hræðsluáróður gegn höfnun "Icesave"-samninganna, þar sem vinstra liðið og rebbarnir, sem nú skríða í "Viðreisnar"-grenið, vildu á ísmeygilegan hátt smeygja drápsklyfjum um háls íslenzkum skattborgurum vegna gjaldþrots einkabanka. Hér, eins og á Bretlandi í aðdraganda "Brexit", máluðu háskólastarfsmenn og forkólfar í samtökum atvinnulífsins skrattann á vegginn í mjög sterkum litum. Þó dró verkalýðsforystan á Bretlandi lappirnar, en hér dró hún ekki af sér.   

Blekbóndi vonaðist eftir niðurstöðunni, sem varð á Bretlandi, og telur, að Bretar hafi hér tekið "rétta" ákvörðun, bæði hvað eigin hagsmuni og framtíð Evrópu varðar.  Ákvörðunin veldur vatnaskilum í Evrópusögunni, eins og ákvörðun Breta um að stemma stigu við veldi Frakka og berjast gegn Napóleóni, keisara, sem þeir réðu að lokum niðurlögum á í bandalagi við Prússa árið 1815, eftir að franski herinn hafði orðið að hörfa, stórlaskaður, frá Moskvu  1812. 

Rúmlega hálfri öld síðar hreyfðu Bretar hvorki legg né lið, þegar Prússar þrömmuðu alla leið inn í París, enda sat þá klækjarefur mikill að völdum í Berlín, Ottó von Bismarck.  Um svipað leyti sameinaði hann þýzku ríkin "með blóði og járni", og tók þá að fara um brezka ljónið, hvers mottó var að "deila og drottna" í Evrópu. 

Því miður tók ábyrgðarlaus gemlingur, stríðsæsingamaðurinn Vilhjálmur 2. við keisaratign í Berlín, og hann tók sér stöðu við hlið kollega síns í Vín eftir morðið á krónprinsi Habsborgara í Sarajevo 1914.  Í oflæti sínu atti hann Reichswehr til að berjast bæði á austur- og vesturvígstöðvum. 

Í þetta skipti sneru Bretar við blaðinu og tóku afstöðu gegn Prússum og með Frökkum.  Brezki herinn stöðvaði framrás þýzka hersins í Frakklandi og bjargaði þessum forna andstæðingi Englendinga frá falli með ægilegum blóðfórnum í ömurlegum og langdregnum skotgrafahernaði, þar sem eiturgasi var beitt á báða bóga.

Bretar reyndu lengi vel að friðþægja foringja Þriðja ríkisins, en var að lokum nóg boðið með útþenslutilburðum og samningasvikum hans og sögðu Stór-Þýzkalandi stríð á hendur 3. september 1939, sem um hálfum mánuði fyrr hafði gert griðasáttmála við Sovétríkin. Af þessum sökum mættu Þjóðverjar vanbúnir "til leiks", þó að Albert Speer, sem gerður var að vígbúnaðarráðherra í febrúar 1942, hafi náð eindæma afkastaaukningu í framleiðslu hergagna fyrir Wehrmacht, en það var þá of seint, enda mesta iðnveldi heimsins komið í stríðið gegn Þriðja ríkinu.  

Leiðtogar Þjóðverja, Angela Merkel, Wolfgang Schäuble og iðnjöfrar Þýzkalands, hafa gert sér grein fyrir vatnaskilunum, sem úrsögn Breta veldur fyrir ESB, þ.e. þróun í átt til stórríkis Evrópu hefur verið stöðvuð, og hér eftir mun ESB líklega þróast meira í þá átt, sem Bretar börðust jafnan fyrir, þegar þeir voru innanborðs, þ.e. í átt til viðskiptabandalags, en hin stjórnmálalega sameining hefur mistekizt.  Hið sama má segja um hina fjármálalegu og peningalegu sameiningu.  Það eru þverbrestir í peningabandalaginu (monetary union), sem hljóta að leiða til þess, að úr því kvarnast fyrr en síðar. Hvergi þykir lengur eftirsóknarvert að komast í þetta myntbandalag, nema í hópi sérvitringa á Íslandi, sem finna má unnvörpum undir merkjum Píratahreyfingarinnar, Samfylkingar og Viðreisnar.   

Hver er staða orkumálanna í Evrópu á þessum umbrotatímum ?  Hún er þannig, að verð á allri frumorku, olíu, gasi, kolum og rafmagni, hefur lækkað mikið síðan 2014.  Hlutdeild endurnýjanlegra orkulinda, vinds og sólar, hefur vaxið, en skuldbindingar ríkjanna um minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda uxu í flestum tilvikum líka á Parísarráðstefnunni í desember 2015, svo að flest ríkin munu eiga fullt í fangi með að ná markmiðum sínum 2030.  Hlutdeild kolakyntra orkuvera er há og eykst enn í sumum löndum, því að kolaverð hefur lækkað á markaðinum, eftir að offramboð varð á þeim í Bandaríkjunum, sem þá hófu útflutning, þegar jarðgasvinnslan tók stökk þar í landi með nýrri tækni, leirsteinsbroti (e. fracking).  Allar Evrópuþjóðir, sem nú nota kjarnorku til raforkuvinnslu, virðast stefna á að draga úr hlutdeild hennar eða að leggja niður öll sín kjarnorkuver af ótta við kjarnorkuslys og óviðráðanlega geislun á þéttbýlum svæðum.  Ekki bætir úr skák, að meðferð geislavirks úrgangs úran-kjarnakljúfanna er ábótavant.   

Af þessum sökum er ekki ljóst, hvernig ýmsar Evrópuþjóðir ætla að brúa bilið á milli gömlu kolefnistækninnar og næstu orkubyltingar.  Til að þjóðirnar verði óháðar jarðefnaeldsneyti, verður að öðru óbreyttu að koma ný tækni fram á sjónarsviðið, sem staðið getur undir grunnraforkuvinnslunni.  Vonir eru bundnar við þóríum-kjarnakljúfana, sem hægt verði að klæðskerasauma að þörfum notenda, og að þess vegna verði ekki þörf á stórum flutningslínum til viðbótar við núverandi öflugu línur. 

Lítum nú á, hvað Bretar eru að hugsa í þessum efnum, og drepum niður í grein í The Economist, 6. ágúst 2016, "When the facts change ... "

"Fyrir tæplega 3 árum gerði brezka ríkisstjórnin samning við EdF, sem er Landsvirkjun og Landsnet Frakka undir einum hatti í eigu franska ríkisins, um að niðurgreiða orkuverð frá fyrsta kjarnorkuveri, sem reist hefur verið á Bretlandi síðan 1995: Hinkley Point C við strönd Somerset.

Þann 28. júlí 2016, nokkrum klukkustundum eftir að stjórn EdF samþykkti með litlum meirihluta að halda áfram með Hinkley Point fjárfestinguna upp á miaGBP 18, jafngildi miaUSD 24 (miaISK 2800), steig ríkisstjórn Theresu May óvænt á bremsurnar og boðaði verkefnisrýni, sem ljúka mundi haustið 2016.  Haldið er, að ríkisstjórnin vilji gera samning við China General Nuclear Power, kínverskan risa, sem hefur boðizt til að leggja fram þriðjung fjárfestingarfjár í Hinkley Point og í staðinn fá að reisa eigið kjarnorkuver í Bradwell í Essex, en rýni nýju ríkisstjórnarinnar kann að leiða til kúvendingar.   

Hinkley er "stór og þar er um að ræða tækni síðustu aldar, sem er ekki það, sem brezka orkukerfið þarfnast í framtíðinni", segir Michael Grubb í Lundúnaháskóla. 

Árið 2012 spáðu brezkir orkuspekingar því, að verðið á öðrum orkuuppsprettum en kjarnorku, t.d. jarðgasi, mundi í fyrirsjánlegri framtíð verða meira en tvöfalt núverandi verð.  Þannig spáðu þeir, að heildsöluverð raforku, sem er viðmið fyrir niðurgreiðslur til EdF, mundi verða yfir 70 GBP/MWh eða  yfir 110 USD/MWh. Heildsöluverðið er núna undir 40 GBP/MWh eða undir 50 USD/MWh.  Í júlí 2016 tilkynnti ríkisendurskoðunin brezka, The National Audit Office, að skekkjan í þessum spám hefði næstum fimmfaldað niðurgreiðsluupphæðirnar yfir 35 ára rekstrartímabil Hinkley Point C-kjarnorkuversins, þ.e. úr miaGBP 6 í miaGBP 30. 

Þarna er um gríðarlegar upphæðir að ræða í niðurgreiðslur á orkuverði, svo að eðlilegt er, að ríkisstjórn, sem ber ábyrgð á aðþrengdum ríkissjóði, staldri við. 

Hérlendis birti Landsvirkjun árið 2010 svipaða spá um þróun raforkuverðs á Englandi, og stjórn fyrirtækisins mótaði síðan þá fáránlegu stefnu að láta raforkuverð á Íslandi hækka í sama hlutfalli og á Englandi, þ.e. að raunvirði yrði það nú orðið tvöfalt hærra en nú hérlendis, ef þessari stefnu hefði verið fylgt. Hún kom eins og skrattinn úr sauðaleggnum, og var í raun tilræði við neytendur, sem fór hljótt, enda gekk hún alls ekki eftir. 

Liður í að þrýsta upp raforkuverðinu hérlendis átti einmitt að vera að samtengja raforkukerfi Englands og Íslands.  Þetta fáránlega uppátæki mun ekki ganga eftir af ýmsum ástæðum, t.d. vegna þróunar orkuverðs og vegna einarðrar andstöðu hér innanlands, en þyngst á metunum vegur þó, að, eins og nú horfir með Rammaáætlun, munu ekki nógu margir virkjunarkostir verða settir í nýtingarflokk til að standa undir vaxandi innanlandsþörf og útflutningi raforku um sæstreng.   

Nú verður sýnt, hvernig spár um raforkuverð árið 2025 úr öllum helztu orkulindum, nema úraníum í kjarnakljúfi, hafa lækkað á tímabilinu 2012-2016 í USD/MWh:

  • kjarnorka 2025, spá 2012: 110-160; miðg.135
  • kjarnorka 2025, spá 2016: 120-190; miðg.155
  • vindorka á hafi,spá 2012: 190-260; miðg.225
  • vindorka á hafi,spá 2016: 100-160; miðg.130
  • vindorka á landi,sp 2012: 110-180; miðg.145
  • vindorka á landi,sp 2016:  60-100; miðg. 80
  • sólarorka 2025, spá 2012: 200-380; miðg.290
  • sólarorka 2025, spá 2016:  60-100; miðg. 80
  • jarðgas 2025,   spá 2012: 140-150; miðg.145
  • jarðgas 2025,   spá 2016:  90-100; miðg. 95

Samkvæmt þessu má búast við markaðsverði raforku á Englandi árið 2025 að jafngildi um 90 USD/MWh, sem er 80 % hærra en var í raun árið 2016, að því tilskildu, að Bretar haldi áfram að niðurgreiða raforku frá vindorkuverum úti fyrir ströndinni og að þeir hætti við Hinkley Point C. 

Þetta verð, 90 USD/MWh, er fjarri því að geta staðið undir kostnaði við virkjanir  og flutningslínur á Íslandi og 1200 km sæstreng ásamt endamannvirkjum og skilað eigendunum ásættanlegum arði.  Til þess þarf verðið á Englandi að verða 130 USD/MWh, og það er mjög ólíklegt langvarandi verð þar án uppbóta úr ríkissjóði.  Ástæðan er tækniþróunin við vinnslu rafmagns á sjálfbæran hátt og mikið framboð á jarðgasi.  Árið 2025 kunna þóríum-kjarnorkuverin að hafa rutt sér til rúms og munu þá um 2030 hafa lækkað markaðsverð raforku frá því, sem er á árinu 2016.  Við þetta er að bæta, að þróun rafgeyma tekur nú stórstígum framförum, og verð þeirra lækkar að sama skapi.  Risa rafgeymasett munu gera kleift að safna og geyma umframorku frá vindorkuverum og sólarorkuverum og nota hana á háálagstímum. 

Á tímabilinu 2016-2030 ætla Bretar að loka öllum kolakyntum orkuverum sínum og öllum, nema einu, kjarnorkuverum.  Þannig falla 23 GW á brott úr stofnkerfi Breta eða tæplega helmingur aflgetunnar.  Hinkley Point C, 3,2 GW, átti að bæta þetta brottfall upp með því að verða upphafið að byggingu fleiri kjarnorkuvera.  Einingarkostnaðurinn er 7,5 USD/MW, sem er þrefaldur einingarkostnaður meðalstórra virkjana á Íslandi. 

Ef niðurstaða rýni ríkisstjórnar Theresu May verður sú að hætta við risastór orkuver knúin ákveðinni úraníum-samsætu, þá verður stefnan tekin á gaskynt raforkuver, þó að slíkt þýði, að brezk orkumál verði háðari Rússum en nú er.  Gasverin færu þá í gang, þegar vantar vind og/eða sól.  Þetta mundi þýða, að Bretar gætu ekki staðið við markmið með lögum frá 2008 um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 80 % árið 2050 m.v. 1990, því að gaskynt raforkuver mundu þurfa að standa undir allt að 75 % af raforkuvinnslunni, þar til ný orkutækni ryður sér rúms. Um er að ræða fjölþrepa ver, CCGTS (Combined-cycle gas turbines), þar sem varmi kælibúnaðarins verður nýttur í mörgum tilvikum. 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband