11.12.2016 | 14:52
Söguleg umbrot
Sé litið yfir Evrópusöguna síðustu 2000 árin, má álykta, að upphaf stefnumarkandi þróunar á hverjum tíma eigi sér jafnan stað í Róm og/eða Lundúnum. Rómarríkið lagði grundvöll að samfélagi og menningu Evrópu fram á þennan dag og mótaði þá landaskipan, sem við nú búum við. Rómarkirkjan klofnaði á fyrri hluta 16. aldar vegna spillingar Páfadóms að tilstuðlan Englendinga og Þjóðverja, og oft hafa Þjóðverjar þróað hugmyndir og aðferðir hinna tveggja af sinni alkunnu skipulagsgáfu, festu og nákvæmni.
Iðnbyltingin hófst á Bretlandi um 1760 með mikilvægri tækniþróun, þar sem gufuvél James Watt markaði tímamót í frelsun manna undan líkamlegu oki erfiðisvinnunnar, og þar með kippti tækniþróunin fótunum undan þrælahaldi, sem hafði afar lengi verið undirstaða auðsköpunar hvarvetna. Um svipað leyti lagði Adam Smith fram fræðilegan grundvöll að markaðshagkerfinu, sem ásamt enska þingræðiskerfinu hefur knúið áfram vestræn þjóðfélög til nútíma velferðarsamfélags og staðið af sér ofstæki einræðisafla, iðulega með miklum blóðfórnum.
Uppruna þjóðernisjafnaðarmanna 20. aldar má rekja til niðurlægingar Fyrri heimsstyrjaldarinnar fyrir nokkur ríki Evrópu, þar sem Bretland og Bandaríkin réðu úrslitum á vígvöllunum, og stjórnmálaflokks Benitos Mussolinis, sem var fyrirrennari og að sumu leyti fyrirmynd þjóðernisjafnaðarmannaflokks þýzkra verkamanna Austurríkismannsins Adolfs Hitlers. Sá flokkur var vissulega vinstri flokkur að nútíma skilningi, þó að hann stillti sér upp sem höfuðandstæðingi kommúnismans, af því að hann vildi spenna auðvaldskerfið fyrir vagn ríkisvaldsins. Einstaklingarnir voru tannhjól í samfélagsvél ríkisins. Það er vinstrimennska. Að sumu leyti svipar kínverskum kommúnisma til þessa kerfis. Þar eru jafnvel stundaðar þjóðernishreinsanir, t.d. í Tíbet, og Han fólkið talinn yfirburða stofn kínverska ríkisins.
Evrópusambandið (ESB) er reyndar hvorki ættað í Róm né í Lundúnum, heldur í Stál- og kolabandalagi Benelux-landanna ásamt Frakklandi og Þýzkalandi um 1950, en stofnsáttmáli Evrópubandalagsins frá 1957 er þó tengdur við og kenndur við Róm. Vatnaskil urðu hins vegar í þróun Evrópusambandsins, þegar Bretar samþykktu 23. júní 2016 að segja sig úr ESB. Brezka þingið hefur nú innsiglað þá stefnumörkun. Þar með stöðvuðu Bretar stöðuga útþenslu þess, og samdráttur yfirráðasvæðis þess hófst. ESB mun ekki bera sitt barr eftir þetta, enda gætu fleiri, t.d. Danir, fylgt í kjölfarið og gengið í viðskiptabandalag með Bretum. Hafinn er nýr kafli í stjórnmálaþróun Evrópu að frumkvæði Lundúna.
Þann 4. desember 2016 gengu Ítalir að kjörborðinu og kusu um stjórnarskrárbreytingar, sem forsætisráðherrann, Matteo Renzi, hafði haft forgöngu um. Þær snerust um að styrkja miðstjórnarvaldið í Róm, og reyndist slíkt eitur í beinum Ítala. Renzi ætlaði að auka skilvirkni og draga úr spillingu með því að draga völd frá héruðunum og til Rómar. Sagðist hann draga burst úr nefi Mafíunnar með slíku, en Ítalir gáfu lítið fyrir það, enda hafa þeir aldrei verið hallir undir Rómarvaldið. Hinir fornu Rómverjar létu sér það í léttu rúmi liggja, svo lengi sem þeir fengu skattfé af íbúunum og liðsmenn í Rómarherinn. Allir kunnu þó að meta vegakerfi og áveitukerfi Rómverja, sem höfðu á að skipa beztu verkfræðingum Evrópu þess tíma, og Pax Romana, friði innan landamæra Rómarveldis.
Samkvæmt lagabreytingu, að frumkvæði Renzis, átti stjórnmálaflokkur, sem hlyti yfir 40 % fylgi í þingkosningum, að fá meirihluta þingsæta í neðri deild þingsins á silfurfati, og efri deild átti bara að verða ráðgefandi. Þetta hugnaðist Ítölum illa.
Renzi sagði strax af sér eftir ósigurinn, og formaður Fimm stjörnu hreyfingarinnar, Beppe Grillo, trúður að atvinnu, krafðist tafarlausra þingkosninga í kjölfarið, en flokki hans er spáð sigri í næstu kosningum. Eftir þær mun trúðurinn trúlega mynda ríkisstjórn á Ítalíu.
Beppe Grillo styður aðild Ítalíu að ESB, en hefur lofað Ítölum ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild landsins að myntbandalagi ESB, evrunni, komist hann til valda. Síðan Ítalir tóku upp evruna í byrjun aldarinnar, hefur hagkerfi Ítalíu ekki borið sitt barr, hagvöxtur verið sáralítill, ráðstöfunartekjum almennings hrakað, atvinnuleysi vaxið, einkum á meðal ungviðis og í suðurhlutanum, og skuldsetning allra kima þjóðfélagsins keyrt úr hófi fram, ekki sízt ríkissjóðs. Nú er mikið um vanskil í bönkum, og ítalska fjármálakerfið stendur tæpt, verst þriðji stærsti banki landsins og sá elzti, starfandi, kenndur við hina fögru borg Toscana, Siena. Hlutabréf hans hafa fallið um 85 %, sem segir sína sögu, og hlutabréf hafa almennt fallið á Ítalíu eftir ósigur Renzis og evran tekið dýfu. Fjármálamarkaðir finna á sér óveður í aðsigi.
Berlín hefur frestað gjaldþroti Grikklands og hjálpað Kýpverjum, Írum, Spánverjum og Portúgölum, en Berlín ræður ekki við að bjarga Ítalíu. Greiðsluþrot Ítalíu og brottfall úr myntbandalaginu verður reiðarslag fyrir myntsamstarfið, sem mun leika á reiðiskjálfi, og e.t.v. fá rothögg með heilablæðingu. Mikil atburðarás var þess vegna ræst í Evrópu sunnudaginn 4. desember 2016. Ekki er útlitið björgulegt fyrir íslenzka útflytjendur og ferðaþjónustu, ef svo fer fram sem horfir.
Lítum nú á, hvað fyrsti aðalhagfræðingur Evrubankans, Þjóðverjinn Otmar Issing, sagði um framferði Ítalans Mario Draghi og evrubanka hans ásamt stjórnmálamönnum evrulands haustið 2016 með tilvitnunum í grein Andrésar Magnússonar í Viðskiptablaðinu, 20. október 2016:
"Spilaborg evrunnar mun óhjákvæmilega hrynja:
""Einn dag mun þessi spilaborg hrynja" var á meðal þess, sem Issing sagði í viðtali við Central Banking á dögunum, en það er eitt vinsælasta tímarit seðlabankaheimsins. Hann sagði, að evran hefði verið svikin í tryggðum af stjórnmálunum og harmaði, að tilraunin hefði mistekizt allt frá upphafi, en hefði síðan úrkynjazt í fjármálapólitísk áflog, þar sem engin fantabrögð væru undanskilin.
"Ef við leggjum kalt mat á framhaldið, þá mun evran böðlast áfram, skjögrandi frá einni kreppunni til hinnar næstu. Það er erfitt að spá fyrir um, hversu lengi það mun ganga þannig til, en það getur ekki gengið að eilífu.""
Það er hafið yfir vafa, að hinn skeleggi Otmar Issing hefur lög að mæla. Það, sem hann á við, er, að stjórnmálamenn brutu reglurnar, sem að tilstuðlan þýzkra hagfræðinga voru settar um evruna, þegar hún var grundvölluð, t.d. með því að bjarga bönkum og ríkjum frá greiðsluþroti með ríkisfé og peningaprentun, með því að brjóta reglur Maastricht samkomulagsins um hámarks halla á ríkissjóðum 3 % af VLF ár eftir ár og með dúndrandi viðskiptahalla víða.
Issing spáir hruni evrunnar eftir ótilgreindan tíma, og nú bendir ýmislegt til, að sá tími sé að renna upp með hruni fjármálakerfis Ítalíu og/eða úrsögn Ítalíu úr myntsamstarfinu eftir þjóðaratkvæðagreiðslu í kjölfar valdatöku yfirtrúðs Ítalíu og Fimm stjörnu hreyfingar hans, sem þegar hefur náð völdum í Róm.
Heyrzt hefur, að eitt af "erfiðu málunum" í stjórnarmyndunarviðræðunum hérlendis í vetur hafi verið krafa tiltekinna stjórnmálaflokka um að setja aðildarumsókn Íslands að ESB á dagskrá aftur. Í ljósi raunveruleikans á Íslandi og í Evrópu er þetta alveg dæmalaus þráhyggja og pólitískur sauðsháttur. Nægir að benda á, að evran er á hverfanda hveli og að Samfylkingin fékk einn mann kjörinn í síðustu Alþingiskosningum (og 2 uppbótarmenn), sem má túlka sem höfnun kjósenda á stefnu hennar, m.a. um aðild Íslands að ESB og upptöku evru sem lögeyris á Íslandi. Aðrir flokkar héldu þessari stefnu lítið sem ekkert á lofti, og þess vegna er í meira lagi ólýðræðislegt og einstaklega óskynsamlegt að eyða púðri á þetta mál í íslenzkum stjórnmálum nú og á næstunni. Hvað hafði Issing að segja um stjórnendur ESB í Brüssel ?:
"Issing, prófessor, úthúðaði framkvæmdastjórn ESB, sagði hana pólitíska ókind, sem gæfist upp á að framfylgja grundvallarreglum sambandsins í öllum meginatriðum. "Freistnivandinn er yfirþyrmandi", segir hann um kommissara framkvæmdastjórnarinnar.
Hann var engu mjúkmálli um Seðlabanka Evrópu, sem hann segir vera á hálli braut til Heljar og hafa í raun eyðilagt hið sameiginlega myntkerfi með því að koma gjaldþrota ríkjum til bjargar þvert á vinnureglur bankans, lög og undirliggjandi milliríkjasáttmála. "Stöðugleikabandalagið hefur meira eða minna misheppnazt, og agi á markaði verið látinn lönd og leið með afskiptum Seðlabanka Evrópu. Fyrir vikið eru engin fjármálaleg stjórntæki lengur tiltæk, hvorki markaðsleg né pólitísk", sagði Issing og bætti við: "Þetta er allt, sem þarf til að kalla hamfarir yfir myntsamstarfið"."
""Efnisgreinin, sem bannar Seðlabanka Evrópu að hlaupa undir bagga með gjaldþrota ríkissjóðum, er þverbrotin daglega", segir Issing. Hann vísar úrskurðum Evrópudómstólsins um, að þær ráðstafanir sé lögmætar, á bug og segir þá einfeldningslega og dómarana blindaða af Evrópuhugsjóninni."
Það er ómetanlegt, að hinn vel upplýsti og hreinskilni Otmar Issing skuli tjá sig opinberlega um morkna innviði bæði ESB og ECB. Hann er í raun og veru að segja, að framkvæmdastjórn ESB og bankastjórn evrubankans, ECB, hafi látið reka á reiðanum og ekki haft bein í nefinu til að halda sjó í stormviðrum og miklum þrýstingi frá stjórnmálamönnum, forstjórum og bankastjórum í aðildarríkjunum, þegar framkvæmdastjórn og bankastjórn bar skylda til að standa vörð um grundvallaratriði, sem njörvuð höfðu verið niður í samningum á milli aðildarríkjanna. Með þessu hafi þeir grafið svo undan trausti á Evrópusambandinu og evrunni, að hvort tveggja sé nú sært til ólífis.
Hér eru þessir tveir sjúklingar, ESB og ECB, úrskurðaðir dauðvona án lífsvonar. Náið samband ólíkra ríkja Evrópu er að leiða til skilnaðar, af því að siðferðiskenndin er ólík og ósamrýmanleg. Það er andstætt mannlegu eðli, að svo ólíkt hugarfar, sem hér um ræðir, geti deilt sömu örlögum. Martin Luther var að breyttu breytanda talsmaður sömu viðhorfa og grundvallarafstöðu og Otmar Issing. Það verður að halda sig við Bókina í fjölþjóðasamstarfi, en prelátarnir mega ekki túlka hana út og suður að eigin vild, og slíkt hefur þá alvarlegar afleiðingar í för með sér.
Upp úr þessu umróti gætu risið "Suður-Kirkjan" og Norður-Kirkjan" með fríverzlunarsvæði og sameiginlega mynt innbyrðis og viðskiptasamning sín á milli. Bretland mun standa utan við báðar Kirkjurnar með sitt sterlingspund og fríverzlunarbandalag með þeim, sem ekki kæra sig um að vera í fyrrgreindum tveimur "Kirkjum" og auðvitað viðskiptasamning við þær.
Hvar halda menn, að Ísland eigi bezt heima í þessu tilliti ? Væri ekki ráð að staldra við, leyfa þróun Evrópu að hafa sinn gang og umrótinu að linna áður en gösslazt er út í viðræður við samband á fallanda fæti ? ESB hefur hvort eð er lýst því yfir, að engin ný ríki verði tekin inn fyrir 2020. Það er fullkomin tímaskekkja af tilteknum stjórnmálaflokkum á Íslandi að ræða það af tilfinningaþrunginni alvöru dag eftir dag í stjórnarmyndunarviðræðum að láta þjóðina kjósa um framhald aðildarviðræðna eða um aðild að ESB. Verði sú reyndin, verður hlegið um alla Evrópu, þótt Evrópumönnum sé sízt hlátur í hug, þegar talið berst að ESB.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Fjármál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.