PISA ríður nú um þverbak

Fyrir tveimur áratugum ferðaðist blekbóndi til hinnar miklu iðnaðar- og viðskiptaborgar Mílanó á Norður-Ítalíu og þaðan með lest til hinnar stórkostlegu höfuðborgar Toskana-héraðs Etrúskanna fornu, Flórens.  Þeir voru á hærra þekkingarstigi en Rómverjar á 1. öld fyrir krist, t.d. í verkfræðilegum og listrænum efnum, en höfðu ekki roð við rómverska hernum, og Rómverjar innlimuðu Etrúskana í ríki sitt og lærðu margt af þeim. Þetta hernám styrkti Rómarveldi mjög. 

Á ferðum blekbónda um Toskana var m.a. komið til hafnarborgarinnar Pisa,og var ætlunin að fara upp í turninn fræga, en þegar að honum var komið, var hann girtur af og lokaður ferðamönnum, því að hallinn var farinn að nálgast hættustig, og voru Ítalir að undirbúa að draga úr hallanum.  Sú aðgerð krafðist mikillar tækniþekkingar og nákvæmra vinnubragða, eins og nærri má geta.

Það er bráðnauðsynlegt, að skólakerfið hlúi að og rækti þá hæfileika, sem í æskunni búa, svo að þjóðfélagið allt megi njóta ávaxta sköpunargleði og frumlegrar hugsunar, þar sem hana er að finna, og frumlegrar hugsunar við lausn óvæntra viðfangsefna, eins og að minnka halla á um 500 ára gömlum turni. Skólakerfið er síður en svo hjálplegt við slíka þróun, á meðan höfuðáherzlan er á að steypa alla einstaklingana í sama mótið. 

Nú eru greinileg teikn á lofti um, að grunnskólinn sói tíma nemenda með slæmu skipulagi, svo að hæfileikar margra þeirra fara í súginn í stað þess að þroskast og dafna, einstaklingsbundið. Þess vegna er rík ástæða til að spyrna hraustlega við fótum með því að losa um viðjar miðstýringar ríkis og sveitarfélaga og virkja einkaframtakið þó án aukinnar beinnar kostnaðarþátttöku aðstandenda barnanna, því að jöfn tækifæri til náms, óháð efnahag, er öflugasta samfélagslega jöfnunartækið og nokkuð góð samstaða um slíkt í þjóðfélaginu. Stefnan er þá sú, að allir fái að njóta sín, en margir detti ekki af vagninum, af því að þeir passi ekki í sniðmát embættismanna og stjórnmálamanna.    

Því er þessi Pisa-saga leidd fram hér, að kunnáttumat 15 ára unglinga frá 2015 með sama nafni, PISA - Programme for International Student Assessment, hefur nýlega verið gert opinbert. Það er skemmst frá að segja, að niðurstaðan er með öllu óviðunandi fyrir Íslendinga, þar sem íslenzku nemendurnir voru undir meðaltali OECD-landanna og á niðurleið. 

Hugmyndir yfirvalda menntamála hérlendis um viðspyrnu og viðsnúning bera þess þó enn ekki merki, að um viti borið fólk, sem vinni fyrir kaupinu sínu, sé að ræða á Menntamálastofnun, þar sem eina hugmyndin, enn sem komið er, er sú að ausa meiru opinberu fé í málaflokkinn. Árangurinn hingað til stendur þó í öfugu hlutfalli við opinberar fjárveitingar, svo að ráðleysið virðist algert á þeim bænum.  Eina huggun Arnórs Guðmundssonar, forstjóra Menntamálastofnunar, er sú, að mesta jafnræðið innan OECD sé á meðal íslenzkra skóla.  Það er slæmur og óviðeigandi mælikvarði, því að einsleitni skólanna kann að vera verulegur hluti meinsemdarinnar í þessu tilviki, þegar góðar fyrirmyndir og valkosti bráðvantar. Það er nefnilega í þessu tilviki jafnað niður á við að hætti kratismans í sinni verstu mynd.  Því verður að linna, ef ekki á mikill sálarháski að hljótast af, og það er framkvæmanlegt strax. 

Vilji er allt, sem þarf, en ef ályktun téðs Arnórs um, að ekki beri "að líta á þessa slæmu niðurstöðu sem áfellisdóm yfir einum né neinum", á að ráða för, þá eru öll sund lokuð áður en lagt er upp í umbótaleiðangur. Skilja má á forstjóra Menntamálastofnunar, að hann vilji láta allt hjakka í sama farinu, aðeins með meiri fjárútlátum. OECD hefur þó komizt að þeirri niðurstöðu, að hafi framlög hins opinbera náð kUSD 50 á nemanda allan tímann hans í grunnskóla, þá sé nemendum gagnslaust, að framlög séu aukin.  Framlögin hér eru hærri en þetta í öllum sveitarfélögum landsins. 

Niðurnjörvuð einhæfni og einsleitni skólanna, þar sem hvata skortir á öllum sviðum til að skara fram úr, er sökudólgurinn.

Ingveldur Geirsdóttir gerði góða grein fyrir PISA í Morgunblaðsfrétt, 7. desember 2016: 

"Nemendur aldrei komið verr út":

"Íslenzkir nemendur koma mjög illa út úr PISA-könnuninni, sem var lögð fyrir 2015.  Niðurstöður hennar voru kynntar í gær, og benda þær til þess, að frammistaða íslenzkra nemenda sé lakari en árið 2012, þegar könnunin var gerð síðast.

PISA-könnunin er alþjóðleg og er lögð fyrir 15 ára nemendur til að mæla lesskilning, læsi á náttúrufræði og stærðfræði [reading, mathematics and science - betri þýðing er lestur, stærðfræði og raunvísindi - innsk. BJo], á þriggja ára fresti. Þetta er eina alþjóðlega samanburðarmælingin á frammistöðu menntakerfisins, sem fram fer hér á landi. 

Niðurstöður PISA 2015 sýna, að íslenzkum nemendum hefur hrakað mikið á síðast liðnum áratug í náttúruvísindum.  Þeim hefur einnig hrakað stöðugt í stærðfræði, frá því að færnin var fyrst metin árið 2003, og lesskilningur hefur minnkað frá 2000 til 2006, en eftir það hefur hann nánast staðið í stað. 

Árangur íslenzkra nemenda er lakari en á hinum Norðurlöndunum í öllum fögunum þremur.  Þá hefur nemendum, sem geta lítið, fjölgað, og afburðanemendum hefur fækkað."  

Ískyggileg lýsing að tarna fyrir samkeppnishæfni þjóðarinnar í náinni framtíð.  Til að við stöndum öðrum þjóðum á sporði, hvert sem litið verður, og til að í landinu verði áfram menningarlegt velferðarsamfélag, verður grunnskólinn að vera í lagi.  Hann er það augljóslega alls ekki núna, og yfirvöld menntamála með Menntamálastofnun framarlega í fylkingu eru greinilega heldur ekki í lagi, því að þau virðast algerlega ráðalaus, og viðbrögðin þar á bæ eru helzt þau, að hella þurfi meiru opinberu fé í málaflokkinn.  Það er vonlaus aðferð, sem hefur verið beitt undanfarin ár og engum árangri skilað.

Verður nú gripið niður í Óðin í Viðskiptablaðinu, 8. desember 2016:

"Reyndar er ekki rétt, að ekkert hafi gerzt í skólamálum, frá því að íslenzkir skólakrakkar tóku fyrst þátt í PISA-könnuninni árið 2000.  Frá árinu 1998 hafa útgjöld sveitarfélaga til grunnskólanna aukizt um 60,9 % á föstu verðlagi, samkvæmt tölum Hagstofunnar.  Kennurum hefur fjölgað um 20,5 %, og þar af hefur kennurum með kennsluréttindi fjölgað um ein 38,3 %, og eru þeir nær einráðir í kennslu í grunnskólum. 

Útgjöld sveitarfélaganna á hvern nemanda hafa aukizt um 56 %, og útgjöld á hvern kennara hafa aukizt um 33,5 % á sama tíma. Þetta hefur allt gerzt á sama tíma og nemendum í grunnskóla hefur aðeins fjölgað um 3,2 %."

Þessi fjáraustur er birtingarmynd rangrar skólastefnu og ráðleysis, enda eru nú útgjöld á hvern grunnskólanemanda einna hæst á Íslandi af samanburðarlöndunum.  Af ofangreindum tölum að dæma lítur út fyrir, að spara megi fé án þess slíkur sparnaður bitni á árangri nemenda. Ýmis kostnaður er orðinn öfgakenndur, t.d. er talið, að fjöldi nemenda, sem skólasálfræðingur úrskurðar, að þurfi sérkennslu, sé nú tífaldur sá fjöldi, sem búast má við, eða 25 %-30 % af heildarfjölda nemenda. 

Í þessu viðfangsefni er hins vegar þrennt, sem þarf aðallega að gefa gaum: nemendur, kennarar og kennsluumgjörðin.

Nemendur þrífast greinilega illa í skólunum (af árangri þeirra að dæma), enda er þeim skipað saman í bekki án tillits til áhuga og getu.  Slíkt kallar Menntamálastofnun skóla án aðgreiningar og hefur lengi verið kratískt trúaratriði, en er sennilega til ills eins fyrir alla hlutaðeigandi.  Þetta er gildishlaðið orðalag og minnir á "Apartheit" eða aðgreingu kynþátta.  Ekkert slíkt er á dagskrá hér, hvorki á grundvelli uppruna, efnahags, litarafts né trúarbragða.  Hér skal fullyrða, að heilbrigður metnaður nemenda fær ekki að njóta sín, nema færni þeirra og geta, sem eru saman í hópi að reyna að tileinka sér boðskap kennarans, sé á svipuðu stigi.  

Við beztu aðstæður fá nemendur að keppa um sæti í þeim bekk, sem hugur þeirra stendur til, eða að verja sæti sitt með því að leggja sig fram.  Með "kerfi án aðgreiningar" fær enginn að njóta sín, hvorki nemendur né kennarar.  Efnilegum nemendum leiðist aðgerðarleysið, og hinir fá minnimáttarkennd, af því að kennarinn er stöðugt að stagla í þeim. Báðir hóparnir verða órólegir og tefja óafvitandi hvor fyrir öðrum. Fyrir kennarann verður starfið mun erfiðara en ella, þar sem mikill munur er á getu nemenda, því að beita verður ólíkum kennsluaðferðum á ólíka nemendur í sömu deild. Afleiðingin verður sú í sinni verstu mynd, að allir dragast niður á lægra plan en nauðsynlegt er.   

Menntun kennara er á háskólastigi, eins og eðlilegt er, en hún var nýlega lengd undirbúningslítið í 5 ár hérlendis.  Þessi gjörningur þarfnast endurskoðunar og sömuleiðis allt námsefni kennara og þjálfun til að miðla þekkingu á raungreinafögum með fullnægjandi hætti, en þar virðist pottur helzt vera brotinn í færni nemenda auk ófullnægjandi lestrarkunnáttu.

 Fæstir kennaranemar koma af raungreinabrautum framhaldsskóla, og hafa þess vegna haft lítinn gáning á slíkum fögum. Það þarfnast þá átaks að verða fær um að miðla slíkri þekkingu af góðri yfirsýn og með líflegum hætti, ef áhugann hefur vantað áður. Það ætti að þjappa kennaranáminu saman á 4 ár í stað útþynningar, eins og nú er, og veita hins vegar kost á framhaldsnámi í 1-2 ár með hærri námsgráðu.  Námskröfur til kennara þarf að herða, svo að tryggt sé, að þeir valdi því vel, sem þeir eiga að miðla. Hvernig skyldu þeir standa sig á PISA-prófi ?

Hvað hafði Óðinn meira að skrifa um árangursleysi fjárausturs í grunnskólann ?:

"Gríðarleg útgjaldaaukning hefur hins vegar ekki skilað neinu, nema versnandi árangri íslenzkra grunnskólanemenda.  Nú er svo komið, að tæpir 9 nemendur eru á hvern grunnskólakennara, en þeir voru tæplega 10,5 árið 1998.  Ef aðeins er miðað við kennara með kennsluréttindi, eru nemendur á hvern slíkan kennara nú 9,5, en voru 12,7 árið 1998. 

Fleiri kennarar, meira menntaðir kennarar og stóraukin útgjöld.  Árangurinn er hins vegar verri en enginn."

Það er áreiðanlegt, að þegar nemendum er hrúgað saman í bekk án tillits til færni, þá kemst kennarinn ekki yfir að aðstoða hvern og einn samkvæmt einstaklingsbundnum þörfum í sama mæli og í einsleitari bekkjardeildum. 

Þegar blekbóndi var í grunnskóla fyrir meira en hálfri öld, þá voru iðulega 30 nemendur í bekk og einn kennari kenndi öll fögin, nema teikningu, tónmennt, söng, leikfimi og sund. Kennslan gekk samt ágætlega, enda voru kennararnir þá afar hæfir (í minningunni), þótt sennilega hafi þeir haft styttri skólagöngu en kennarar, sem útskrifast úr háskóla nú á dögum. Það þarf ekki að orðlengja, að í þá daga var nemendum raðað í deildir eftir getu og áhuga. 

Kennararnir höfðu strangan aga á sjálfum sér og nemendum sínum, og stundum  þurfti að tukta nemendur til, aðallega strákana. Kennararnir ólu líka heilbrigðan metnað með nemendum um að hækka sig upp í betri bekk eða að halda sæti sínu í góðum bekk, þar sem þeir vildu vera.  Einkunnir á skyndiprófum voru lesnar upp, þannig að innbyrðis keppni var á milli nemenda í hverjum bekk.  Þetta jók áhugann fyrir náminu og kynti undir metnaði, sem nemendur tileinkuðu sér.  Allt er þetta með öðrum, verri og vonlausari brag til árangurs nú á dögum, og þess vegna sekkur íslenzki grunnskólinn nú til botns í feni jafnaðarmennskunnar.

Sú óheillaþróun, sem PISA endurspeglar, jafngildir glötuðum tækifærum einstaklinga í tugþúsundavís og gríðarlegu tekjutapi og kostnaðarauka fyrir samfélag, sem eyðileggur möguleika fjölda manns á að þróa með sér þá hæfileika og þroska, sem gott grunnskólakerfi getur leitt fram.  Eina ráðið til úrbóta er kerfisbreyting, þar sem einsleitni og ímynduðum jöfnuði er kastað fyrir róða, en lögð áherzla á fjölbreytni skóla, samkeppni á milli þeirra og á milli nemenda.

Sveitarfélögin keppa nú þegar um hylli íbúanna, og ríkisvaldið þarf að efla þessa samkeppni íbúunum til hagsbóta.  Það þarf að afnema gólf útsvarsins, veita sveitarfélögunum fullt svigrúm við álagningu allra annarra gjalda og síðast, en ekki sízt, þarf að veita þeim frelsi til að keppa sín á milli á grundvelli gæða grunnskólans, sem er á þeirra snærum. 

Þetta þýðir, að skólar í hverju sveitarfélagi eiga að ráða því, hvernig þeir haga niðurröðun nemenda í bekki, og hvernig þeir meta námsárangur.  Þegar kemur að lokaprófi upp úr grunnskóla í 10. bekk, þarf þó e.t.v. samræmd próf í einni eða fáeinum greinum samkvæmt ríkisnámskrá og staðlað árangursmat til að auðvelda val framhaldsskólanna á nemendum. Annars eiga skólarnir að hafa frjálst val um námstilhögun, námsefni og námsmat, en ríkisnámskrá grunnskóla skal aðeins vera til hliðsjónar. Þetta yrði róttæk breyting til að efla sveitarfélög, skóla þeirra, kennara og nemendur til dáða.

Til að auka líkurnar á betri árangri nemenda og meiri starfsánægju kennara en raunin er í einsleitu kerfi opinbers rekstrar þurfa sveitarfélögin að lýsa yfir áhuga sínum á að fjölga rekstrarformum grunnskólanna, breyta rekstrarformi einhvers eða einhverra núverandi skóla, eða að nýir skólar skuli feta sig áfram á braut, sem vel er þekkt erlendis, einnig á hinum Norðurlöndunum, og fellur undir hugtakið einkarekstur, ekki einkavæðing. 

Þar getur t.d. verið um að ræða sjálfseignarstofnun eða hlutafélag.  Skilyrði er, að hið opinbera standi straum af rekstrinum, eins og það gerir nú, með umsömdu greiðsluþaki, svo að hið opinbera skaðist ekki fjárhagslega af þessu fyrirkomulagi, og gjaldtaka af foreldrum verði bönnuð með sama hætti og í skólum með gamla fyrirkomulaginu.  Enginn ætti að skaðast fjárhagslega, en stefnan með þessari tilraun væri að auka frelsi skólastjórnenda og kennara og bæta líðan nemendanna með viðfangsefnum, sem eru í meira samræmi við getu hvers og eins.   

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband