18.1.2017 | 12:19
Þverstæðukennd frásögn
"Óþarft að virkja til aukinna orkuskipta" hljómaði fyrirsögn í Fréttablaðinu á bls. 6 þann 17. janúar 2017. Hún er vægast sagt afar villandi og ber ekki góðum vinnubrögðum vitni, svo að ekki sé sterkar að orði kveðið.
Ónákvæmnin er yfirþyrmandi, því að við hvað eru "aukin orkuskipti" miðuð ? Viðbót við hvaða orkuskipti ? Síðan kemur í ljós, hvaðan blaðamaðurinn hefur vizku sína:
"Framkvæmdastjóri Orkuseturs telur hægt að orkuskipta öllum bílaflota Íslendinga með þeirri orku, sem nú er fyrir hendi.
Sigurður Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs, segir orkuskipti í samgöngum möguleg án þess að virkja þurfi frekar. "Tíu prósent landsmanna hita hús sín með rafmagni. Það er hægt að fækka þeim með varmadælum. Ef við myndum losa helminginn af því rafmagni, sem fer í húshitun, gæti það rafmagn dugað á um 116 þúsund rafbíla. Einnig má ná miklum sparnaði í raforku með LED-lýsingu á götum sveitarfélaga. Rafmagnið er til, við þurfum að nýta það betur", sagði Sigurður."
Hér er vaðið á súðum með villandi og óábyrgum hætti, eins og nú skal sýna fram á:
- Jarðefnaeldsneytisbílar á landinu voru í árslok 2016 um 240´000 talsins, en með hópbifreiðum, sendibifreiðum og vörubifreiðum taldi flotinn tæplega 280´000 bíla. Gerum ráð fyrir, að í tilvitnun sé átt sé við fólksbílaflotann. Áætla má árlega raforkuþörf hans eftir rafvæðingu þannig: E=4,5 MWh/b x 240 kb = 1,1 TWh/ár. Þessi raforkuþörf samsvarar meðalálagi yfir árið 125 MW, en því fer fjarri, að rafbílaálag á rafkerfið verði jafnt. Uppsett afl hleðslutækja þessara 240´000 bíla gæti orðið 3600 MW. Ef samtímaþáttur er 0,2, þá verður hámarksálag um 720 MW af 240´000 fólksbílum og jeppum.
- Á móti þessari álagsaukningu leggur téður Sigurður til, að fjárfest verði í varmadælum, sem spari helming raforkunnar, sem nú fer í rafhitun húsnæðis. Ætla má, að árleg orka til rafhitunar húsnæðis sé: Eh=40 MWh/íb ár x 7000 íb = 280 GWh/ár með toppafli 50 MW. Helmingurinn jafngildir 140 GWh/ár og 25 MW.
- Það er einnar stærðargráðu munur á því, sem Sigurður Friðleifsson telur vera lausn og viðfangsefninu, sem er rafvæðing bílaflotans.
- Hvað dugir "varmadælulausnin" til að rafvæða marga bíla ? M.v. íslenzkar aðstæður má reikna með raforkunotkun meðalfólksbíls 0,3 kWh/km, og ef meðalaksturinn er 15´000 km/ár, mun einn bíll þurfa raforkuna: Eb=0,3 kWh/km x 15000 km/ár = 4,5 MWh/ár. Þá dugir "varmadælulausnin" fyrir: n=140000/4,5 = 31´000 bílar eða 13 % af fólksbílaflotanum. Þetta eru 85´000 færri bílar en Sigurður Friðleifsson slengir fram í tilvitnuðu viðtali.
- Orkusparnaður með LED-væðingu götulampa um land allt gæti e.t.v. haft í för með sér helmingsorkusparnað á við "varmadælulausnina", svo að alls mundu þessar tvær orkusparnaðaraðferðir gefa um 210 GWh/ár, sem er innan við 20 % af raforkunni, sem þarf fyrir núverandi fjölda fólksbíla, sem brenna jarðefnaeldsneyti. Bæði er, að þeim fer fjölgandi og að þeir eru aðeins hluti af heildarflotanum eða innan við 86 %.
- Kostnaðarlega er það alveg út úr kú að tengja þessi tvö sparnaðarverkefni saman við orkuskipti. Það er miklu ódýrara að virkja og framleiða viðbótar MWh, eins og þarf, en fjárfesta í varmadælum og í mörgum tilvikum vatnsofnum og pípulögnum í stað þilofna eða í LED-lömpum, þar sem meginsparnaðurinn er fólginn í minna viðhaldi, en ekki í orkusparnaði.
Það er mjög ámælisvert að fara með fleipur um mikilvæg verkefni á landsvísu. Orkuflutningsfyrirtækið Landsnet hefur aftur á móti lagt spilin á borðið, og eftirfarandi er skrifað í þessari umræddu frétt:
"Í skýrslu Landsnets er dregið fram, að ef eigi að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, með orkuskiptum, upp á 1,5 milljónir tonna á ári, þurfi um 880 MW af rafmagni til þess."
Megnið af þeirri losun, sem á að hverfa samkvæmt þessari sviðsmynd, kemur frá landumferð. Það er himinn og haf á milli málflutnings Orkuseturs og Landsnets. Blekbóndi telur málflutning Landsnets og téða sviðsmynd um aflþörf á réttu róli, ef álaginu verður ekki stýrt. Blekbóndi hefur hins vegar bent á, að draga má verulega úr aflþörfinni með því að bjóða hagstæðan næturtaxta. Slíkt breytir þó engu um orkuþörfina. Að vanmeta hana getur orðið afdrifaríkt.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Fjármál, Fjölmiðlar | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.