Sveppir og sóun

Kári Stefánsson, læknir, getur ekki fundið neina vísindalega sönnun fyrir tengslum dvalar í húsnæði, þar sem raki er og sveppagróður, og heilsuleysis eða sjúkdómskvilla.  Hann líkir "trúnni" á þessi tengsl við draugatrú Íslendinga og rifjar upp frásögn föður síns, Stefáns Jónssonar, fréttamanns, af för sinni norður að Saurum á Skaga, þar sem fréttist af illvígum draugagangi forðum tíð.  Blekbónda rekur minni til að hafa skemmt sér ótæpilega við að hlýða á Stefán, fréttamann, og viðmælendur hans í þessu Sauramáli á sinni tíð.  

Bezt er að vitna beint í son hins frábæra fréttamanns, í grein hans í Fréttablaðinu, 5. september 2017, 

"Kólumkilli eða sveppasúpa":

"En það breytir því ekki, að þjóðin er enn staðföst í trú sinni á ýmislegt dularfullt og spennandi, sem ekki hefur verið sannað með aðferðum vísindanna [er það ekki "gelíska genið" ?-BJo].  Klárasta dæmið um þessa staðfestu upp á síðkastið er trúin á heilsuspillandi áhrif myglusveppa í húsum.  

Þrátt fyrir vandlega leit í læknisfræðibókmenntum okkar tíma hefur mér ekki tekizt að finna þess merki, að búið sé að sýna fram á, með vísindalegum aðferðum, að myglusveppir í húsum vegi að heilsu manna.  Þrátt fyrir það velkist íslenzk þjóð ekki í vafa um áhrif myglusveppa á heilsu, og má sjá merki þess víða í samfélaginu."

Raki og myglusveppur er ekki séríslenzkt fyrirbæri, heldur hefur sambýli manns og svepps verið við lýði frá fyrstu húsakynnum mannsins, og sveppir eru landlægir erlendis í vistarverum manna. Þótt ekki hafi tekizt að sanna læknisfræðilega sök sveppa á heilsuleysi manna, er þó ekki þar með sagt, að tengslin séu ekki fyrir hendi.  Sumir, sem veikir eru fyrir á ákveðnum sviðum, t.d. í öndunarfærum, kunna að veikjast við þetta nábýli, þótt aðrir, sem sterkari eru fyrir, finni ekki fyrir einkennum. Læknisfræðin hlýtur að taka tillit til mismunandi mótstöðuþreks.  

Kári, læknir, heldur áfram:

"Svo er það hús Orkuveitunnar [OR á reyndar ekki þetta hús lengur, heldur lífeyrissjóðir, þ.á.m. minn, þótt OR beri ábyrgð á rekstri, viðhaldi og opinberum gjöldum af húsinu.  Allt er þetta reginhneyksli. - BJo] og þúsundir annarra húsa víðsvegar um landið, og okkur er sagt, að tjónið af völdum myglusvepps á Íslandi nemi tugum milljarða.  Þetta byrjaði á því, að inn í hús nokkur kom ung kona í kafarabúningi (ghost buster) og fann myglusveppi grimmilega, sem hún lagði með mjaðmahnykk [?!].  Síðan þá hefur baráttan við myglusveppinn orðið mjög stór iðnaður á Íslandi og engin atvinnugrein vaxið meira í landinu, nema ferðaþjónustan."

Ætla má af lestri þessa texta, að læknirinn sé þeirrar skoðunar, að sveppasýkt húsnæði sé óraunverulegt vandamál.  Það sé huglægt fyrirbrygði, eins og trú á tilvist drauga.  Helzt er á honum að skilja, að flokka megi sýkingu mannfólks af völdum húsasvepps til móðursýki.  Hvað segir landlæknir ?  Hvers vegna tekur hann ekki af skarið um, hversu skaðlegur sveppagróðurinn er heilsu manna ?  Hefur hann heldur ekkert í höndunum ?  Er hættan ímyndun ein ? 

Ef frekari rannsókna er þörf, verður að framkvæma þær strax áður en hús, sem kostaði miaISK 11 að núvirði að byggja, og mörg fleiri, eru dæmd svo heilsuskaðleg, að þau verði að rífa vegna myglusvepps.  Um rannsóknarþörfina skrifar Kári:

"Þess vegna væri ekki úr vegi að byrja á því að rannsaka málið áður en hús eru dæmd ónýt og rifin og tugmilljarða króna tjón gert að raunveruleika.  Rannsókn á skaða þeim, sem myglusveppur kann að valda á heilsu manna, verður eingöngu unnin á Íslandi, vegna þess að í öðrum löndum búa maðurinn og sveppurinn í friðsömu sambýli, og hvorugur kvartar undan hinum."

Það er rétt hjá Kára, að myglusveppur viðgengst víða, einnig á hinum Norðurlöndunum.  Hefur þetta sveppafár hérlendis verið reist á ímyndun, eins og Kári Stefánsson, læknir gefur í skyn ?  Læknastéttin skuldar þjóðinni óyggjandi svar við því.  

Orkuveituhúsið var nefnt.  Hvað, sem sveppagróðri í vesturálmu þess líður, er það óbrotgjarn (?) minnisvarði um meðferð R-listans, sáluga, á opinberu fé.  R-listinn var samstarfsvettvangur vinstri manna og Framsóknarmanna.  Til hans var stofnað til höfuðs völdum Sjálfstæðisflokksins í borginni.  Hugarfar fólks, sem ber háskattastefnu fyrir brjósti, er virðingarleysi við einkaeignina, og tekjur fólks eru hluti af henni.  Þetta hefur verið límið í valdastöðu vinstri manna í borginni og hefur aldeilis krystallast í Orkuveitu Reykjavíkur-OR.

Fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar gumaði Dagur B. Eggertsson og fylgifénaður hans af viðsnúningi í rekstri OR.  Hver kom OR í klandur ?  Það var vinstra fólkið og Framsóknarfólkið í borgarstjórn, sem sukkaði og sóaði á báða bóga með allt of stórri Hellisheiðarvirkjun m.v. jarðgufuforðann þar undir og með allt of stóru monthúsi fyrir aðalstöðvar OR.  Stjórnendur OR og hin pólitíska stjórn hennar voru ekki starfi sínu vaxin.  Heimtaður var gjörsamlega óraunhæfur byggingarhraði bæði á OR-húsinu og á Hellisheiðarvirkjun með þeim afleiðingum, að eigendur OR, Reykvíkingar, Skagamenn og íbúar Borgarbyggðar, hafa orðið fyrir svakalegu tjóni, sem þegar getur numið um 1 MISK á hverja 4 manna fjölskyldu í þessum byggðarlögum.  Hér er um opinbert fyrirtæki að ræða, og eigendurnir eru ófærir um að komast til botns í þessu OR-hneyksli.  Þegar borgararnir verða fyrir viðlíka tjóni og hér um ræðir, verður að komast til botns í því, hvar var keyrt út af, og hverjir voru bílstjórar og meðreiðarsveinar í hverju tilviki.  

Hörmungar OR halda hins vegar áfram og munu halda áfram, ef róttækar umbætur á stjórnun verða ekki gerðar.  ON borar hverja holuna á fætur annarri í Hellisheiðina, en sá fjáraustur er eins og að míga í skóinn sinn.  Finna þarf nýjan virkjunarstað til að létta 100-200 MW af Hellisheiðarvirkjun.  Þegar menn eru komnir í foraðið, eiga þeir að hafa vit á að reyna að snúa við.

ON framdi í vor alvarleg mistök við rekstur einu vatnsaflsstöðvar sinnar, þegar gerð var tilraun til að hreinsa botnset úr inntakslóni Andakílsárvirkjunar með því að galopna framhjáhlaup í stíflunni.  Þessi heimskulega ráðstöfun fyllti alla hylji og þakti eirar Andakílsáar af leir með voveiflegum afleiðingum fyrir seiði í ánni og allt annað lífríki.  

Ekki tekur betra við í mengunarmálum hjá Veitum, öðru dótturfélagi OR.  Þar var viðbúnaður við bilun í frárennsliskerfinu fyrir neðan allar hellur í sumar, sem sýndi, að tæknilegri stjórnun er ábótavant.  Hausinn var bitinn af skömminni með því að reyna að þegja málið í hel, þótt heilsuspillandi aðstæður sköpuðust vikum saman í fjörunni og úti fyrir.  Siðferðið er ekki upp á marga fiska.

Gagnaveitan er þriðja dótturfyrirtæki OR.  Þar þverskallast menn, af einhverjum óskiljanlegum ástæðum, við að eiga samráð við Mílu um samnýtingu skurða fyrir lagnir.  Allt er þetta á sömu bókina lært.

Niðurstaðan af þessu öllu er sú, að OR-samsteypan hefur fyrir löngu vaxið borgarstjórn yfir höfuð.  Þar á bæ hafa menn ekki hundsvit á þeirri starfsemi, sem OR-samsteypan fæst við, og eru ekki í neinum færum til að veita henni aðhald, hvorki í borgarráði né í stjórn OR.  Borgarfulltrúarnir eru uppteknir við málefni, sem eru gjörólíks eðlis.  Eina ráðið til úrbóta er að skera á meirihluta aðild borgarinnar að stjórn OR með því að gera dótturfélögin að sjálfstæðum almenningshlutafélögum.  Með þessu móti verður hægt að greiða upp drjúgan hluta af skuldabagga OR-samstæðunnar, og stjórnun dótturfyrirtækjanna ætti að verða viðunandi fyrir eigendur, viðskiptavini og aðra hagsmunaaðila.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Bjarni,

Þetta var einfaldlega ekki rétt hjá Kára.  Það hefur verið sýnt fram á tengsl milli myglusveppa í húsnæði og ýmissa kvilla hjá íbúum, t.d. í öndinarfærum.  Það má finna greinar um þetta t.d. hjá CDC, sem birna í læknisfræðilegar rannsóknir á áhrifum myglusvepps.  Ég held það þurfi lítið annað en heilbrigða skynsemi til að sjá að frjó myglusvepps geti engan vegin verið góð til innöndunar.  Sumir eru ónæmir eða lítið næmir fyrir þeim, meðan aðrir eru mjög viðvæmir.  Eins og er með allt frjóofnæmi.    

Það að annarsstaðar búi menn við myglu í góðu sambýli, þá þarf Kári virkilega að lesa sér svolítið til!  Í Bandaríkjunum og Kanada er varið milljörðum dollara á hverju ári í varnir gegn myglu og í að lagfæra hús þar sem mygla er.  

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 17.9.2017 kl. 15:23

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Arnór;

Davíð Gíslason, sérfræðingur í lyflækningum og ofnæmissjúkdómum, sem ég tek mikið mark á, skrifaði um þetta í Fréttablaðið, 13. september 2017, greinina "Enn um rakaskemmdir í húsnæði".  Hann sýnir þar fram á með glöggum rökum og vísun til WHO, Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar, að óyggjandi samband er á milli raka/myglusvepps og "bólgu í afholum nefsins, berkjubólgu, lungnabólgu, mæði og úthaldsleysi, langvarandi hita, þreytu, vöðva- og liðverkja, drunga, minnisleysis, einbeitingarskorts og útbrota".  

Það er "hundalógík" hjá Kára, lækni, að íslenzka þjóðin og aðrir hafi búið í nábýli við sveppina frá örófi alda, og þess vegna geti sveppir vart verið skaðlegir.  Það hrjáðu almenning alls konar kvillar og sjúkdómar í gamla daga, og mannsævin var stutt.  Ætli megi ekki flokka þessa grein Kára undir elliglöp.  Ýmislegt fleira í fari hans að undanförnu bendir til hins sama. 

Bjarni Jónsson, 17.9.2017 kl. 18:15

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þegar ég bjó í Noregi fyrir nokkrum áratugum voru menn að vakna til vitundar um þessi mál og rannsóknir sýndu einmitt það sem að ofan er greint, auk þess sem fullyrt var að áhrifin á ónæmiskerfið væru þau að líkaminn væri í stöðugri baráttu við óværuna og því of upptekinn, ef svo má segja, til að bregðast við öðrum veirusýkingum og umgangapestum. Þetta birtist lika í stöðugri þreytu og magnleysi og oft alvarlegum þunglyndiseinkennum. Fólk var meira að segja misgreint af þessum sökum sem þunglyndissjúklingar og hlutu meðferð við því án nokkurs árangurs.

Ef Kári er þeirrar skoðunnar að fyrst þetta drap okkur ekki forðum, þá hljoti þetta að vera ímyndun, sýnir ekki mikinn skilning á samhenginu. Eins og bent er á þá þótti það gott að ná fimmtugu í þá daga og orsakirnar óljósar fyrir heilsubresti, þótt afleiðing væri ljós. Sem dæmi má nefna að það stendur ekki í neinu dánarvottorði að menn hafi dáið úr alkohólisma. Dauðinn er alltaf skrifaður á afleiddan heilsubrest. Þetta veit Kári væntanlega.

Jón Steinar Ragnarsson, 18.9.2017 kl. 09:50

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þessi mál hafa sterkan fjárhagslegan undirtón og ljóst að tryggingafelög og aðrir hagsmunaaðilar börðust á hæl og hnakka við að kveða niður drauginn, jafnvel að því marki að framkalla eigin rannsóknir með pöntuðum niðurstöðum.

Það er líka gríðarlegt hagsmunamál fyrir stór fasteignafélög og lifeyrissjóði að burðugar eignir á blaði verði ekki reiknaðar niður í hrakvirði. Menn munu því spyrna við fótum á meðan þeir geta. Þessi efnahagslegi undirtónn er greinilega helsta áhyggjuefni Kára og nefnir hann m.a. lífeyrissjóði í því sambandi og ræðst á vísindin með ad hominem og fullyrðingum, sem eiga sér enga stoð.

Sveppagró er víst mishættuleg. Sumar tegundir minna hættulegar en aðrar, og þá er bara verið að tala um bein eituráhrif. Það eru margar sögur úr fortíð sem benda t.d. til að neysla á mygluðum matvörum hafi valdið óráði, skynvillum og dauða.Það var algengur sjúkdomur hér áður að fölk væri haldið því sem þá var kallað hjartveiki. Þar var átt við þunglyndi eða depurð, sem oft varði alla ævi.

Jón Steinar Ragnarsson, 18.9.2017 kl. 10:03

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hér er mál í bandaríkjunum,þar sem mygla hafði m.a. í för með sér alvarleg alsheimer einkenni

https://youtu.be/rB9ef_P-6_c

Hér er annað með endurteknum barnadauða.

https://youtu.be/KQ5H4yAkBGU

Bara svona sem dæmi, fyrir Kára.

Jón Steinar Ragnarsson, 18.9.2017 kl. 10:13

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það er gríðarlegt hagsmunamál fyrir byggingariðnaðinn og allan almenning, að varanleg lausn finnist á því, hvernig hagkvæmast er að ganga frá útveggjum til að koma í veg fyrir rakamyndun.  Íbúarnir verða líka að vera meðvitaðir um mikilvægi kyndingar og loftræstingar (öndunar hússins).

Þakka þér, Jón Steinar, fyrir fróðleg innlegg þín um þetta mál hér á síðunni. 

Bjarni Jónsson, 18.9.2017 kl. 11:04

7 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Sammála þér um þetta. Fyrst og fremst þarf að herða eftirlit. Mörg af þessum málum í nýbyggingum ma skrifa á óðagot, eins og í OR húsinu. Steypan er ekki látin þorna í tilskilinn tíma og klætt og parketlagt með rakadrægum efnum ofan á rennblautan múr. Einni er loftun í timburhúsum mjög mikilvæg í þessu tilliti. Sérstaklega í utveggjum og þaki. Til eru strangar kröfur um þetta allt sem ekki er fylgt. Amatörar smíða heilu húsin með undirskrift meistara, sem aldrei kemur á byggingarstað.

Það er einfalt að auka eftirlitið með því að láta byggingaraðilann borga fyrir eftirlitið. Það yrði líka mjög sennilega ódýrara fyrir byggingaraðila í heildina litið.

Það er líka mjög algengt að ekki sé fylgst með því hvort byggingaraðili sé með meistaratryggingu. Margir hafa aldrei verið tryggðir og þegar eitthvað kemur uppá þá er enginn ábyrgur og verkkaupi situr uppi með skaðann.

Arkitektar ættu líka að bera meiri ábyrgð og vera rækilega tryggðir. Hönnunargallar virðast ekki á þeirra ábyrgð og oftar en ekki eru þeir verðlaunaðir með meiri vinnu við að laga skítinn eftir sjálfa sig. Ríkið hefur einatt tekið allan skaða af slíkum sköndulum. 

Það myndi kannski ýta við hinu opinbera ef hægt verður að sækja það beint um skaða fyrir yfirsjón í eftirliti. Hver sá t.d. Um eftirlitið í OR húsinu? Samkvæmt lögum ætti það að vera opinber aðili. Ríkið sjálft hlýtar að bera ábyrgð á handvömm þeirra.

Jón Steinar Ragnarsson, 19.9.2017 kl. 18:43

8 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Best væri náttúrlega að þurfa ekki að leita sökudólga endalaust niður alla línuna þegar skaðinn og sóunin hefur átt sér stað.

Traustari reglugerðir og strangt eftirlit og skothelt ábyrgðarkerfi ætti að koma í veg fyrir svona klúður að mestu. 

Það er kvartað yfir því að byggingarreglugerðir séu orðnar dragónískar og flóknar og keyri húsnæðisverð upp úr öllu hófi. Eg get verið sammála því.

Það þarf að einfalda þetta mikið, en þessir fáu lykilþættir sem skipta máli og eru algengasta orsök þessara mála ætti engum að vera ofviða að fylgja eftir. Loftun,þornunartími, raflagnir, vatn og skólp og brunavarnarkröfur hafa alltaf verið lykilatriðin og þar er flækjustigið hvorki keira né minna en alltaf. Sami prosess, sömu kröfur, hversu stórt sem byggingarverkefnið er.

OR líður fyrir gallaða hönnun og brot á byggingarreglugerðum. Í því tilfelli er skaðinn það stór að það er einum blóraböggli ofviða að standa undir. Að þetta hafi viðgengist er óskiljanlegt. Þetta var jú byggt þegar OR var gersamlega hrokkið af skaftinu í fylleríinu. Víðar er pottur brotinn m.a. Í trununum við Skúlagötu, sem enginn þorir eða má nefna.

Jón Steinar Ragnarsson, 19.9.2017 kl. 19:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband