23.9.2017 | 09:57
Sauðfjárræktin-dauði eða dagrenning
Það hafa ýmsir, þ.á.m. fráfarandi landbúnaðarráðherra, farið mikinn út af meintu kjötfjalli af völdum offramleiðslu sauðfjárbænda. Nú er komið í ljós, að allt er þetta stormur í vatnsglasi; birgðirnar við upphaf sláturtíðar haustið 2017 voru svipaðar og vant er, tæplega tveggja mánaða innanlandsneyzla. Verið er að kenna ferðamönnum hérlendis átið á lambakjöti og útflutningur hefur braggazt. Kínamarkaður er sagður munu geta tekið við a.m.k. 1 kt/ár af ærkjöti og lambakjöti f.o.m. næsta ári. Það er bara brot af öllu því lambakjöti, sem kínverska miðstéttin er farin að sporðrenna nú þegar. Það er engin þörf á 20 % fækkun sauðfjárbænda, eins og bullustampurinn á stóli landbúnaðarráðherra hefur slengt fram, ekki einu sinni 10 % - 20 %.
Í sambandi við matarbirgðir í landinu er rétt að hafa í huga, að jarðvísindamenn eru nú teknir að minna á, að á næstu 50 árum megi búast við stórgosi á Lakagígasvæðinu með svipuðum áhrifum á loft og jörð og í Móðuharðindunum 1783-1786. Þá eru líka hafðar uppi áhyggjur um, að vegna langs meðgöngutíma Kötlu muni næsta gos hennar verða eitt af hennar stærstu, sem þýðir jafnvel enn meira af gosefnum úr iðrum jarðar en í Móðuharðindunum.
Við þessar aðstæður munu flugsamgöngur við landið að líkindum lamast og landið verða að reiða sig á flutninga með skipum. Þá verður ómetanlegt að hafa enn dugmikla og þrautseiga matvælaframleiðendur innanlands sem fjærst ósköpunum, t.d. á Norð-Vesturlandi og á Norð-Austurlandi. Verulegt matvælaöryggi færi fyrir lítið, ef landbúnaður, þ.m.t. sauðfjárrækt, legðist að mestu af á þessum svæðum, en þau eru líklega á meðal harðbýlustu svæða landsins.
Á Íslandi voru framleidd um 10,4 kt lambakjöts árið 2016. Þá nam innanlandsneyzla þess um 6,8 kt, að neyzlu erlendra ferðamanna, um 0,6 kt, meðtalinni. Mismuninn, 3,6 kt, þarf að afsetja á erlendum mörkuðum. Evrópskur markaður er yfirfullur af kjöti, eftir að Rússar svöruðu viðskiptaþvingunum BNA og ESB með innflutningsbanni á matvæli og Íslendingum var flækt í þessar viðskiptaþvinganir, sem þeir áttu ekkert erindi í. Verð fyrir lambakjöt hefur af þessum sökum lækkað erlendis , sem hefur leitt til verðlækkunar hérlendis og tilfinnanlegs tjóns fyrir bændur, sem stefnir lífsafkomu þeirra í voða.
Fráfarandi landbúnaðarráðherra eru mjög mislagðar hendur við að fást við þetta mál, sem og önnur vandamál. Hennar lausn er fólgin í að fækka bændum með því að kaupa þá burt af búum sínum. Þetta er mjög óviturleg leið, sem þjónar landinu ekki til lengdar, af því að af henni getur leitt byggðahrun, jafnvel þar, sem landsmönnum ríður á af öryggisástæðum að hafa byggð, eins og áður var drepið á.
Óli Björn Kárason, Alþingismaður í Kraganum, reit tímamótagrein um málefni sauðfjárræktarinnar í Morgunblaðið, 13. september 2017, sem hann nefndi:
"Erum við að pissa í sauðskinnsskóinn ?"
Þar gaf hann landbúnaðarráðherra falleinkunn með eftirfarandi hætti:
"Að sama skapi má færa fyrir því rök, að tillögur ráðherrans til lausnar vandanum séu gamaldags og eigi fremur skylt við að pissa í skóinn en að styrkja heilbrigðar undirstöður byggðar og landbúnaðar."
Fái þessi ráðherra um tvo kosti að velja, skal hún ævinlega velja verri kostinn. Það þykir bera órækan vott dómgreindarskorts og þekkingarleysis, sem er dauðadómur yfir ráðherra, sem þarf að taka margar mikilvægar ákvarðanir á dag, sem flestar varða þjóðarhag.
Síðan kemur heilræði frá Óla Birni, sem bændur ættu að íhuga vandlega:
"Margir í bændastétt hljóta að líta í eigin barm og spyrja, af hverju þeir hafi skilgreint sig sem launamenn, en ekki sjálfstæða atvinnurekendur, sem eru burðarstólpar sinna samfélaga. Þetta viðhorf hefur litað öll samskipti við stjórnvöld."
Það hefur margoft komið fram á stuttum ferli fráfarandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hversu úrræðalaus hún er. Haraldur Benediktsson, Alþingismaður, hefur nefnt úrræði hennar í málefnum sauðfjárbænda "eyðibýlastefnu", og það má bæta um betur og kenna afstöðu hennar við sveitaauðn, því að fyrst gætu ungir bændur flosnað upp og síðan hinir elztu. Hvað hefur Óli Björn um þetta að segja ?:
"Vera kann, að hugmyndir um 20 % fækkun sauðfjár séu reistar á traustum upplýsingum [Þær eru það ekki, því að kjötbirgðir fyrir haustslátrun 2017 voru venjulegar og eðlilegar. Rétt einu sinni gerði Þorgerður Katrín sig seka um flaustursleg vinnubrögð. Hún virðist ekki kunna að vinna. - innsk. BJo], en tillögur ráðherra um, hvernig þeirri fækkun skuli ná, fela í sér þá hættu, að það verði fremur yngri bændur en þeir eldri, sem hætti sauðfjárbúskap, hagkvæmari bú hætti, en þau, sem óhagstæðari eru, haldi áfram. Ekkert í tillögunum gefur tilefni til þess, að bændur geti gert sér vonir um, að hagur þeirra batni á komandi árum."
"Ég óttast, að verið sé að leggja upp í vegferð, sem getur endað illa. Verið sé að búa til fátæktargildrur til sveita í stað þess að styrkja stoðir undir sjálfstæðan atvinnurekstur."
Þetta gefur tilefni til að ætla, að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sé versta forsending, sem bændur þessa lands hafa fengið á stól landbúnaðarráðherra frá fullveldi. Flokkur hennar kemst vonandi ekki á blað í nokkru einasta landsbyggðarkjördæmi 28. október 2017.
Í lok greinar sinnar setur Óli Björn Kárason fram tillögu að gjörólíkri stefnu í málefnum sauðfjárbænda, sem næsta ríkisstjórn gerir vonandi að sinni:
"Sett er greiðslumark fyrir beingreiðslur, þ.e. það heildarmagn framleiðslu, sem rétt á á beingreiðslum. Gæðastýringargreiðslum er hætt. Beingreiðslur miðast við ákveðið lágmarksbú - a.m.k. 100 kindur - og bundnar því skilyrði, að öll framleiðsla sé samkvæmt viðurkenndum gæðastöðlum - m.a. er varðar velferð dýra og ábyrga meðferð á landi, heilnæmi og heilbrigði framleiðslunnar."
Nú eru sauðfjárbændur að aðalstarfi rúmlega 1100 talsins. Beingreiðslur til þeirra námu árið 2016 miaISK 3,1, þ.e. um 2,8 MISK/bú eða tæplega 300 ISK/kg af lambakjöti. Í kerfi ÓBK mun þessi heildarupphæð líklega verða svipuð:
- "Greiðslumarkinu [t] er í upphafi skipt niður á einstök bú/bændur samkvæmt sanngjarnri reglu (t.d. hlutdeild í framleiðslu undangengin 3 ár).
- Handhafar greiðslumarks eiga rétt á beingreiðslum á hverja einingu framleiðslunnar upp að greiðslumarki sínu.
- Greiðslumark hvers árs er nokkuð undir áætlaðri innanlandseftirspurn, t.d. 95 %.
- Framleiðsla umfram greiðslumark er heimil, en nýtur ekki beingreiðslna. Fyrir framleiðslu umfram greiðslumark fá bændur það verð, sem sláturleyfishafar og/eða aðrir kaupendur eru tilbúnir að greiða. Verðið verður því lægra þeim mun meira, sem framleitt er umfram greiðslumarkið. Að sama skapi verður verðið hærra eftir því, sem eftirspurn er meiri, ekki sízt, ef vel tekst til á erlendum mörkuðum.
- Greiðslumark bænda er framseljanlegt bæði varanlega og til skamms tíma. Þá getur verið rétt að setja inn ákvæði um, að enginn bóndi (sauðfjárbú) geti farið yfir ákveðna hlutdeild af heildargreiðslumarki (líklega undir 1 %).
- Kerfið er til langs tíma (15-20 ár).
Hér er komin fram heildstæð stefnumörkun í málefnum sauðfjárbænda, sem ber af eins og gull af eyri hrákasmíði fráfarandi landbúnaðarráðherra, sem ekki virðist kunna réttri hendi í rass að taka. Hvernig skyldu þingmenn á borð við Harald Benediktsson og bændaforystan taka þessum tillögum ? Þær hefðu helzt þurft nú þegar að vera komnar til framkvæmda.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Fjármál, Matur og drykkur | Facebook
Athugasemdir
Ágætis greining Bjarni.
ÓBK spyr af hverju bændur líti á sig sem launamenn en ekki sjálfstæða atvinnurekendur. Engan bónda þekki ég sem lítur sig launamann, þeir eru allir stoltir atvinnurekendur. En menn lifa ekki á stoltinu einu saman, það seðjar ekki maga bænda og þeirra fjölskyldna.
Sú breyting hefur orðið gegnum árin að hlutfall bænda í verði matvæla hefur sífellt minnkað. Vinnslan, sem sumir kenna ranglega í eigu bænda, hefur aukið sinn hlut í matvælaverðinu, þó ekkert í líkingu við smásöluverslunina. Samfara sífelldum kröfum um ódýrari matvöru hefur þetta skekkt verulega aðstöðu bænda. Nú er svo komið að verslunin, sem fær matvöruna afhenta í neytendapakkningum, höndlar með hana í nokkra daga og skilar síðan aftur því sem ekki selst, fær nánast sömu upphæð fyrir hvert kíló af kjöti og bóndinn, sem í a.m.k. 18 mánuði er að strita fyrir að framleiða það sama kíló! Þarna er eitthvað stórkostlegt að!!
Tillögur ÓBK um lausn vandans eru að nokkru réttar. Þær eru þó ekki frumlegri en svo að hann er í raun að kalla eftir að nýgerður búvörusamningur verði tekinn úr sambandi og hinn eldri tekinn upp aftur. Á það get ég fallist.
Stæðsti vandi bænda er sá aðstöðumunur sem þeir hafa gagnvart sláturleyfishöfum. Þar er annar aðilinn algerlega dómerandi. Auðvitað hefðu bændur átt að tilkynna sláturleyfishöfum, þegar boðuð afurðaverðslækkun var opinberuð, að þeir hygðust ekki ætla að slátra þetta haustið. Þannig virkar jú hin heilbrigða samkeppni, ekki satt? Sennilega hefði slík hótun bara kætt hláturstaugar sláturhússtjórans á Sauðarkrók, enda veit hann sem er að við slíka hótun geta bændur ekki staðið. Hafa ekki húsakost til að þrefalda bústofninn, ekki fóður til að fóðra þann fjölda, en þó kannski vegur sú staðreynd mest að bændur þurfa sín laun, fyrir vinnu undanfarna mánuði. Vegna þessa aðstöðumunar geta sláturleyfishafar hagað sér að vild!
Nú er komið í ljós að umframbirgðir kjöts eru einungis um 500 tonn, nálægt 70 tonnum minna en síðasta haust, tæplega eins mánaðar innanlands neysla. Enginn sláturleyfishafi hefur enn boðað að verðlækkun verði dregin til baka,hvorki að hluta né alveg, þrátt fyrir að í ljós sé komið að forsendur lækkunarinnar var ekki til staðar!! Betur hefur gengið að selja innanlands en áður og auðvelt að auka þá sölu enn meir. Erlendir markaðir hafa verið þokkalegir, en gengi krónunnar hefur rýrt afkomu útflutnings. Það mun lagast. Opnun Kínamarkaðar vísar til bjartari framtíðar, náist að brúa þann vanda sem bændur standa frammi fyrir akkúrat í dag. Verði ekki gripið inní, annað hvort með því að skikka sláturleyfishafa til að draga lækkunina til baka, eða með aðkomu ríkissjóðs, er ljóst að opnun Kínamarkaðar er til lítils. Það munfjöldi bænda hætta búskap strax í haust, sumir af sjálfsdáðum en flestir af illri nauðsyn! Kjötskortu mun verða viðvarandi á innanlandsmarkaði og heilu sveitirnar leggjast í eyði.
Ljóst er að hinn nýja búvörusamning þarf að endurskoða og sú vinna reyndar hafin. Hvort fara skal að tillögum ÓBK og leggja hann niður fyrir þann sem áður gilti, væri hreint ekki vitlaust. Hitt er ljóst að með einhverjum ráðum þarf að vera einhver trygging fyrir því að bændur fá greitt fyrir sína framleiðslu, að vinnsla og sala geti ekki skert þeirra hlut, til þess eins að þyngja sína eigin pyngju.
Þá hljóta menn að skoða ábyrgð þeirra sem hlaupa af stað með þvílíkt bull sem formaður landsamtaka sláturleyfishafa gerði, þegar hann taldi þjóðinni trú um að hér væri eitthvað skelfilegt kjötfjall til, vitandi að í raun var þá þegar komin upp kjötskortur á einstökum afurðum lambakjöts. Vitandi að t.d. frystigeymslur þess sláturhúss sem sami maður var í forsvari fyrir, stóðu galtómar!!
Sýnu verra er þó að ekki þarf að fara lengra aftur í tímann en tvö ár, til að minnast þess er þessi sami maður reið um héröð og hvatti bændur til að framleiða sem mest, allt yrði keypt og það á góðu verði. Sagði greiðslumarkið ekki skipta neinu máli, menn myndu fá vel borgað fyrir allt innlegg.
Það hlýtur að koma til greina að skoða hvort slíkum mönnum sé yfirleitt treystandi, koma til skoðunar hver þeirra ábyrgð er!!
Íslenskur landbúnaður á bjarta framtíð, beri stjórnmálamönnum gæfa til að leysa þann vanda sem bændur standa frammi fyrir. Vanda sem þeir hafa ekki skapað, vanda sem er tilbúningur sláturleyfishafa. Það er stjórnmálamanna að leysa þann vanda, á hvern veg sem þeir kjósa.
Það sér hver heilvita maður að engin atvinnugrein getur tekið á sig skerðingu upp á 35% á innkomu, ári eftir 10% skerðingu. Þarna er auðvitað verið að tala um tekjur bænda, rétt eins og tekjur hvaða einkarekins fyrirtækis. Þegar skerðingin er orðin svo mikil, tvö ár í röð, auk skerðingar vegna verðbólgu, er sennilega hvaða fyrirtæki farið að naga af launakostnaði.
Skerðingin á síðasta ári orsakaði að bóndinn sem fyrirtæki þurfti að skerða laun bóndans sem starfsmanns þess fyrirtækis. Skerðingin í ár þurrkar út það sem eftir stóð af launum bóndans sem starfsmanns og er farinn hafa veruleg áhrif á rekstur bóndans sem fyrirtækis, svo mikil að nánast fáránlegt að ætla að halda áfram rekstri. Það verður ekki gert nema með aðstoð viðskiptabanka bóndans sem fyrirtækis og að bóndinn sem launamaður hafi slíka ástríðu til starfans að hann sé tilbúinn að vinna launalaust við fyrirtæki sitt. Sé tilbúinn að leggja á sig enn meiri vinnu og afla sér tekna utan bús, til að fæða og klæða sína fjölskyldu. Það þarf mikla ástríða til!!
Kveðja
Gunnar Heiðarsson, 23.9.2017 kl. 16:34
Þakka þér fyrir stórfróðlega viðbót, Gunnar Heiðarsson. Eftir lesturinn ætti fáum að blandast hugur um, að mesti bráðavandinn nú um stundir er vandi sauðfjárbænda. Ráðherra landbúnaðar getur ekki skotið sér á bak við það, að hún situr nú í starfsstjórn. Skyldur ráðherranna til að sinna brýnum málum þjóðfélagsins eru hinar sömu í starfsstjórn og í ríkisstjórn, sem nýtur meirihluta stuðnings Alþingis. Þá þarf hún hins vegar að hafa snör handtök, og það er því miður útilokað, að hún kúvendi vitlausri stefnu sinni yfir á braut, sem ÓBK útskýrði í ágætri Morgunblaðsgrein sinni og ég gerði að umræðuefni í þessari vefgrein, af því að ég held, að hún geti hjálpað bændum og geti tryggt okkur nauðsynlegt matvælaöryggi.
Eins og þú bendir á, ættu sláturleyfishafar að geta hækkað verð til bænda, ef útflutningsþörf á lágt borgandi markaði er nú að mestu horfin. Mér segir svo hugur um, að rúmlega 10 kt/ár af lambakjöti verði senn ekki talin vera offramleiðsla.
Bjarni Jónsson, 23.9.2017 kl. 18:30
10.000 tonn af kjöti segir lítið inn á 1,5 milljarða manna markað.
Gunnar Heiðarsson, 23.9.2017 kl. 20:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.