Líður EES senn undir lok ?

Engum blöðum er um það að fletta, að BREXIT hefur mikil áhrif á forsendur EES-Evrópska efnahagssvæðisins, þar sem eru ESB-ríkin, Ísland, Noregur og Liechtenstein. Ástæðan er sú, að Bretland er helzta viðskiptaland Íslands og Noregs.

Þann 25. nóvember 2017 birtist þörf hugvekja um EES í Morgunblaðinu eftir Norðmanninn, Morten Harper, rannsóknarstjóra Félags norskra andstæðinga ESB, "Nej til EU".  Í ljósi þess, að EES var sett á laggirnar sem fordyri að ESB, eins konar biðsalur væntanlegra aðildarlanda í aðlögun, þá er tímabært að vega og meta alvarlega útgöngu Noregs og Íslands úr EES, af því að aðild landanna er engan veginn á dagskrá um fyrirsjáanlega framtíð. Áhuginn fyrir inngöngu í ESB fer minnkandi í báðum löndunum og efasemdir um heildarnytsemi EES fara vaxandi.

Það, sem kemur þessari umræðu af stað núna, er vitaskuld útganga Bretlands úr ESB, en Bretland er mesta viðskiptaland Noregs og Íslands.  Bæði löndin undirbúa tvíhliða viðræður um framtíðar viðskiptasambönd landanna, og þá er jafnframt eðlilegt að íhuga tvíhliða viðskiptasamband við ESB, eins og t.d. Svisslendingar notast við. E.t.v. væri samflot EES-landanna utan ESB gagnlegt, ef ESB verður til viðræðu um endurskoðun á EES-samninginum, sem er undir hælinn lagt.

Morten Harper er fullveldisframsalið til ESB ofarlega í huga.  Það er fólgið í flóði reglna og tilskipana frá framkvæmdastjórn ESB; 12´000 slíkar hefur Noregur tekið upp frá árinu 1992.  Hvað skyldi Ísland hafa tekið upp margar af þessum toga frá 1994 ? 

Þá felur valdaframsal til eftirlitsstofnunarinnar ESA og EFTA-dómstólsins klárlega í sér fullveldisskerðingu landanna þriggja utan ESB í EES, og nú virðist eiga að troða hinni sameiginlegu landbúnaðarstefnu ESB ríkjanna upp á hin EES ríkin (utan ESB).  Skemmst er að minnast nýlegs dómsorðs EFTA-dómstólsins, þar sem leitazt er við að þvinga Ísland til að láta af varúðarraáðstöfunum sínum til varðveizlu á heilsufari manna og búfjár í landinu.  

Nú skal vitna í ágæta grein Mortens Harper, 

"Af hverju Norðmenn vilja atkvæðagreiðslu um uppsögn EES-samningsins":

"Lykilatriði í nýju skýrslunni, "25 ár í EES" [okkur Íslendinga vantar vandaða úttekt af þessu tagi], er, hvernig EES-samningurinn veldur einkum skaða á norska atvinnulífinu.  EES-skýrslan sýnir, hvernig norsk lög, kjarasamningar og ILO-samningar (Alþjóða vinnumálastofnunin) víkja fyrir reglum ESB/EES.  [Hér má minna á megna óánægju innan verkalýðshreyfingarinnar íslenzku með skuggahliðar frjáls flæðis vinnuafls innan EES.]  

Í umdeildum úrskurði í lok síðasta árs fylgdi Hæstiréttur [Noregs] ráðgjöf EFTA-dómstólsins og setti reglur ESB um frelsi fyrirtækja framar rétti verkamanna og 137. ákvæði Alþjóða vinnumálastofnunarinnar um hafnarverkamenn.  Nokkur verkalýðsfélög krefjast þess nú, að Noregur yfirgefi EES."

Það má furðu gegna, að slík krafa varðandi aðild Íslands að EES skuli enn ekki hafa birzt opinberlega frá neinu íslenzku verkalýðsfélagi.  Starfsmannaleigur, sem eru regnhlíf yfir þrælahald nútímans á Norðurlöndunum og réttindalausir iðnaðarmenn að íslenzkum lögum, ættu að vera nægilega ríkar ástæður til að segja sig úr lögum við þetta furðufyrirbrigði, sem ESB er.  

Svo kom rúsínan í pylsuendanum hjá Morten Harper:

"Noregur er mikill framleiðandi [raf]orku.  Framkvæmdastjórn ESB vill tengja Noreg eins náið og unnt er við ESB-orkukerfið og stefnir að fimmta frelsinu: frjálsu orkuflæði [undirstr. BJo].  Meirihluti ESB-orkulöggjafarinnar er talinn falla undir EES, [sem] gerir samninginn að verkfæri ESB til að samþætta Noreg í orkukerfið.  

Nánast ekkert hefur meiri þýðingu fyrir norskan iðnað en langtíma aðgengi að raforku á samkeppnishæfu verði.  Sífellt meiri útflutningur rafmagns til meginlandsins og Bretlands getur leitt til þess, að Noregur þurfi að greiða hærra raforkuverð fyrir sín not.  Aðeins við þjóðarorkukreppu getur Noregur komið í veg fyrir útflutning raforku.  Að öðru leyti er öllu stjórnað af samkeppnisreglum ESB/EES."

Blekbóndi þessa vefseturs hefur verið ólatur við að vara við samtengingu raforkukerfa Íslands og ESB með sæstreng til Skotlands vegna þeirrar sannfæringar, á grundvelli útreikninga, að þjóðhagslega hagkvæmast sé að nýta íslenzka raforku innanlands til verðmætasköpunar og atvinnusköpunar.  Lýsing Mortens Harper bendir til, að Norðmenn finni nú á eigin skinni gallana við útflutning á raforku úr sjálfbærum orkulindum Noregs (fallorku vatnsfalla) á svipuðum grundvelli og blekbóndi hefur varað hérlandsmenn við raforkuútflutningi frá Íslandi um sæstreng á þessu vefsetri.

Forstjóri Landsvirkjunar hefur verið helzti hvatamaður slíkrar tengingar hérlendis, en hefur samt aldrei fengizt til að sýna á spilin sín, enda sennilega ekkert til að sýna.  Blekbóndi þessa vefseturs hefur út frá tiltækum gögnum sýnt fram á með útreikningum, hversu ókræsileg þessi viðskipti yrðu, og hversu alvarlegir tæknilegir annmarkar eru á þeim. 

Nú rifjast það upp, að Hörður Arnarson var einn þeirra, sem málaði skrattann á vegginn um afleiðingar þess að hafna Icesave-samningunum við Breta/Hollendinga/ESB, þegar sú deila var hvað hatrömmust á valdaskeiði vinstri stjórnarinnar 2009-2013.  Ályktunin nú er þess vegna sú, að umræddu sæstrengsverkefni sé ætlað af ESB að verða farvegur fyrir innleiðingu 5. frelsis Innri markaðarins á Íslandi.  Þar með mundi Ísland lenda í sömu stöðu og Morten Harper lýsir fyrir Noreg um hækkun raforkuverðs af völdum mikils raforkuinnflutnings vegna innlends orkuskorts (tæmd miðlunarlón af völdum mikils raforkuútflutnings).  

Hvernig á að standa að endurskoðun á EES-samninginum ? Það verður fróðlegt að fylgjast með þróun mála í Noregi.  Ein leið er sú að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu, t.d. samhliða sveitarstjórnarkosningum í vor, um aðild eða úrsögn.  Önnur leið er, að ríkisstjórnin reyni að tryggja fullveldi Íslands gagnvart ESB undir hatti EES og hugsanlegur nýr samningur verði síðan borinn undir þjóðaratkvæði til synjunar eða samþykkis.  Allur norðurvængur Evrópusambandsins kann að verða í uppnámi á næstu misserum.  

Brezki fáninn-Union JackÞýzkt ESB

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þessi samningur var aldrei borinn undir þjóðaratkvæði hér og seldur fólki á forsendum tollabandalags eingöngu. Hann var brot á stjornarskrá þá og er það nú í hvert skipti sem bandalagið skikkar okkur til upptöku laga gegn öllum hagsmunum og vilja í landinu. Nú síðast um óheftan innflutning á rúmensku asnakjöti og fleiru dægilegu.

Þetta er samningur sem meinar okkur frjálsa verslun og heftir frelsi til samninga og er í raun einokunarbandalag við herraþjóðirnar auk þess að hafa tekið frá okkur dómsvald og framkvæmdavald í fjölda mála. Hann ryrir samkeppnisaðstöðu aðildarþjóðanna herraþjöðunum til heilla. 

Hvernig skal standa að endurskoðun eða upplausn hans? Fyrir mer er það einfalt. Það þarf að skoða forsendur samningsins og rök fyrir honum í upphafi og bera saman við raun dagsins í dag. Þar eru allar forsendur brostnar, stjórnarskrá margbrotin og rökin í besta falli blekking. 

Nú nyta þeir kreppu Grikkja, sem á sér orsök í veru í bandalaginu með að bjóða neyðarlán í skiptum fyrir einkavæðingu orkugeirans þar, sem líklega verður keyptur upp af þjöðverjum eins og öll undanfarin einkavæðing þar. Hvenær lendum við í þeirri kreppu að ráðskast verði með fullveldið með slíkum mútum? 

Þetta væri verðugt verkefni fyrir verðandi stjórnlagadóm. 

Jón Steinar Ragnarsson, 3.12.2017 kl. 11:13

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Rök landsölumanna fyrir þessari upplausn fullveldisins eru þau að þetta sé réttlætanlegt, því þessi stjórnarskrárákvæði hafi verið brotin áður. Semsagt að undantekningin afnemi regluna. Þar er bent á Natósamninginn, sem er varnarsamningur herlausrar þjóðar við nágranna sína og ráðskast ekki með lög og reglur viðskipti né domsvald í landinu. 

Auk þessa eru rökin þau að við höfum þegar tekið upp svo mikið af reglum sambandsins að okkur muni ekki um að taka þær allar upp og setja báða fætu innfyrir þröskuldinn. Aftur, undantekningin afnemur lögin. Samningurinn um tollabandalag var snaran og svo á að hala okkur rólega inn. 

Það var hlegið að Guðlaugi í bretlandi þegar hann lagði til að Bretar yrðu hluti ees. Eðlilega. Hann ætti að beita sér nú í að funda með norðmönnum og Lichtenstein um áætlun útgöngu. EES þarf að leysa upp. Kostirnir vega margfalt upp ókostina. Annaðhvort erum við fullvalda þjoð eða lén bandalagsins. 

Jón Steinar Ragnarsson, 3.12.2017 kl. 11:28

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér kærlega fyrir þessi innlegg þín hér að ofan, Jón Steinar.  Kjarni málsins er sá, að ESB hefur þróazt meir í átt frá ríkjasambandi að sambandsríki en búizt var við 1994.  Útganga Breta úr ESB gerir vist Íslands og Noregs í fordyri ESB að tímaskekkju.   Það vekur áhyggjur um skilningsskort í íslenzka utanríkisráðuneytinu á þróun Evrópumála, ef utanríkisráðherra Íslands hefur gert sig að athlægi í White Hall og Westminster með því að leggja til að Bretar létu hlekkja sig við ESB í biðsalnum, European Economic Area, EEA.  Nafnið bendir til tollabandalags, eins og þú skrifar, en skuldbindur aðildarlöndin til að lúta lagasetningu ESB, m.a. um lífshagsmunamál þeirra.  Í þessu felst óviðunandi fullveldisframsal.  Stjórnlistin mun felast í því að halda nokkurn veginn óbreyttu aðgengi að Innri markaðinum án fullveldisframsals.  Þetta verður erfitt, og ég hef ekki séð neitt til utanríkisráðuneytisins, sem gefur vonir um, að þetta takist.  Tímabundið gæti uppsögn Íslands á aðildarsamningi að EES, eftir samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu, þýtt verri viðskiptakjör, en þá verður að taka á því. 

Bjarni Jónsson, 3.12.2017 kl. 11:52

4 Smámynd: Sigfús Ómar Höskuldsson

" Bretland er mesta viðskiptaland Noregs og Íslands."

Er þetta nú ekki e-r óskhyggja til að þjóna tilgangi umræðunnar ?

Veit ekki með tölur hjá Noregi en samkvæmt tölum sem ég fann um bæði inn- og útflutning, þá eru þar aðrar þjóðir fyrir ofan fyrrverandi óvini okkar í Bretlandi í téðum viðskiptum.

Er ekki meira flutt út til Evrulandanna en Bretlands ? Verslum við ekki meira af öðrum þjóðum en Bretlandi ?

Ekki eru það Bretar sem heimsækja okkur mest, það eru Bandaríkjamenn.

Sigfús Ómar Höskuldsson, 3.12.2017 kl. 11:58

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Sigfús. Tölur um útflutning til ESB eru verulega skakkar í bokum hagstofunnar, því þar eru talin viðskipti sem fara í gegnum m.a. Hollenskar hafnir og áfram þaðan um víðan völl. Með EES erum við knúin til viðskipta við evrópubandalagslönd og heft í samningsgerð við aðrar þjóðir. Við erum líka knúin til að taka þátti í viðskiptahömlum útávið sem duttlungar ESB ráða. Þetta hefur t.d. Valdið norðmönnum ómældum skaða og hruniná gjaldmiðli þeirra, verri en falli okkar gjaldmiðils við hrunið. Taumarnir eru einfaldlega ekki í höndum þeirra lengur.

Þú gleymir því svo að tölur um viðskipti við ESB lönd fela einnig í sér viðskipti við breta. Þar eru þeir stærsta mengið.

Jón Steinar Ragnarsson, 3.12.2017 kl. 12:12

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sigfús Ómar: hvers vegna ætti að gæta óskhyggju hérlendis um viðskipti við erlendar þjóðir ? Viðskipti ráðast hvergi af tilfinningum til lengdar, heldur af hagsmunum.  Í ágætri tilvitnaðri grein Mortens Harper stendur: "Fyrir Noreg er þetta [Brexit] tími til að endurskoða samskipti okkar [Norðmanna] við ESB auk þess að þróa tvíhliða viðskipta[samband] við Bretland, helzta útflutningsmarkað Noregs".  Nákvæmlega sama tel ég, að eigi við um Ísland.  Bretland er helzti útflutningsmarkaður Íslands fyrir sjávarafurðir.  Í Bretlandi er skipað upp nokkru af áli frá Íslandi, en nánast öllu öðru áli héðan er skipað upp í Rotterdam. Þaðan fer mest af þessu áli til frekari úrvinnslu í Þýzkalandi, t.d. fyrir þýzka bílaiðnaðinn.  ESB þarf á þessu áli að halda vegna aukinnar notkunar áls og minnkandi framleiðslu á því á meginlandinu.

Loftferðasamningar á milli landa eru tvíhliða samningar.  Ef við göngum úr EES, munum við taka upp eigið landamæraeftirlit.  Það verða einu teljandi áhrifin af þeim gjörningi á ferðaþjónustuna.  

Bjarni Jónsson, 3.12.2017 kl. 13:27

7 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

EES samningurinn er ekki biðsalur inngöngu í ESB heldur annar valkostur en innganga til að eiga í sem hindrunarlausustum viðskiptum við ESB ríki. Forráðamenne ESB ríkja telja reynsluna af tvíhliða samningum við Sviss hafi verið mistök og vilja helst reyna að losna undan honum enda þarf sífellt að vera að endurskoða hann þegar ESB reglur breytast og fer því gríðerleg vinna og þar með kostnaður í að viðhalda honum. Það er því frekar ólíklegt að ESB vilji gera slíka samninga við okkur og Noreg og þá sérstaklega okkur enda viðskipti þeirra við okkur það lítil að þeir munu varla telja það kostnaðarins virði. Öðru máli gegnir um Bretland sem er þriðja fjölmennasta ríki Evrópu með hátt í 60 milljónir íbúa. Það er nokkuð almenn skoðun meðal forráðamanna ESB ríkja að EES samningurinn sé og hagstæður fyrir EFTA ríkin og því ljóst að tvíhliða samningur samhliða uppsögn EES samningsins verður okkur óhagstæðari en EES samningurinn ef slíkur samningur er þá yfir höfuð í boði sem verður að teljast ólíklegt.

Valkostir okkar Íslendinga eru því sennilega aðeins 3. Það er innganga í ESB, aðild að EES samningum eða einfaldur viðskiptasamningur við ESB sem þá gefur íslenskum ríkisborgurum ekki rétt til að setjast að í ríkjum EES samningsins og þurfa þeir því þá væntanlega að fara sömu leið og aðilar utan þessara ríkja sem sækjast eftir að setjast að í ESB eða EES ríkjum og þá jafnvel líka í þeim ríkjum Norðurlanda sem þá eru aðilar að ESB eða EES samningum.

Sigurður M Grétarsson, 3.12.2017 kl. 15:04

8 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Svar við fyrirsögninni hlýtur að vera já. 

Kolbrún Hilmars, 3.12.2017 kl. 17:37

9 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér, Sigurður, fyrir þitt ágæta innlegg hér að ofan.  Árið 1972 lauk samningaviðræðum um inngöngu Noregs í ESB.  Ég kom til Noregs í nám í ágúst 1972, og hef aldrei upplifað annan eins hita í kosningabaráttu, eins og fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um þennan samning þá um haustið, sem Norðmenn höfnuðu, eins og kunnugt er.  Aðild landsins var sett í biðstöðu og hún formgerð með EES-samningi 1992.  Árið 1994 var gerður annar aðildarsamningur og enn hafnaði þjóðin.  Þá varð Ísland aðili að þessum EES-samningi fyrir harðfylgi Jóns B. Hannibalssonar, þáv. utanríkisráðherra, sem óneitanlega hafði þá mestan hug á fullri aðild Íslands að ESB, þótt í marz 2016 væri hann búinn að skipta um skoðun.  Hann orðaði skoðanaskiptin þannig, að "við göngum ekki inn í brennandi hús".  

Sviss nýtur sérstöðu gagnvart ESB vegna legu sinnar, umlukið ESB-löndum og helztu samgönguleiðir á milli norður- og suðurhlutans liggja um Sviss.  Hvort hægt verður að gera fríverzlunarsamning á milli Íslands og ESB, verður tíminn að leiða í ljós.  Utanríkisráðuneytið þarf að kanna þetta gaumgæfilega og leggja spilin á borðið, kosti og galla, ásamt útreikningum á breyttum viðskiptakjörum, svo að landsmenn geti tekið afstöðu við þau tímamót, þegar Bretland gengur úr ESB.  Ríkisstjórn Bretlands telur aðild landsins að EES engan valkost fyrir Bretland, og það segir töluverða sögu.  

Bjarni Jónsson, 3.12.2017 kl. 17:37

10 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Við munum án efa geta gert viðskiptasamning við ESB og jafnvel fríverslunarsamning. En það er hins vegar ekki líklegt að við getum gert tvíhliða samning við ESB sem felur í sér að við verðum aðilar að fjórfrelsinu og þar með talið tryggt réttindi íslenskra ríkisborgara til að geta sest að í löndum evrópska efhanagssvæðisins. Hvað varðar framtíð EES samningsins þá lifir hann meðan Noregur kýs að vera aðili að honum. Þeir borga 95% af kostnaðinum við að halda honum gangandi þar með talið rekstur ESA en verðið á þeim aðgöngumiða fer hækkandi. Menn segja því oft að þetta lafir meðan Norðmenn eru tilbúnir að borga aðgöngumiðann. 

Ástæða þess að EES samningurinn er eins hagstæður fyrir EFTA ríkin og raun ber vitni er sú að þegar hann var gerður voru ESB ríkin aðeins 12 og EFTA ríkin 7 og ESB hafði mikinn áhuga á að stækka innri markað ESB og teygði sig því ansi langt í samningum við EFTA ríkin til þess. Sviss hafnaði EES samningum og því voru aðeins 6 af 7 EFTA ríkjunum aðilar að honum. Stuttu síðar fóru 3 af EFTA ríkjunum í ESB það er Svíþjóð, Finnland og Austurríki. Eftir stóðu þá EFTA megin smáríkið Noregur ásamt örríkjunum Íslandi og Liechtenstein. Síðar fjölgaði ESB ríkjunum enn meira með inngöngu margra austur Evrópuríkja og eru þau nú orðin 28 og er íbúafjöldi þeirra samanlagt um 500 milljónir og er því íbúatala núverandi EFTA ríkja sem eru aðilar að EES samningum aðeins um 1% af íbúatölu ESB ríkjanna og því munar ekki lengur mikið um þau í evrópska efnahagssvæðinu öfugt við stöðuna eins og hún var þegar samningurinn var gerður á sínum tíma. Því er í raun ekki mikill áhugi ESB ríkjanna til að viðhalda honum.

Sigurður M Grétarsson, 3.12.2017 kl. 18:39

11 Smámynd: Sigfús Ómar Höskuldsson

Jón Steinar Ragnarsson,  þetta er einfaldlega rangt.  Bretland er stórt á mælikvarða viðskipta en ekki stærst. 

Menn og konur mega svo dásama ákvörðun þeirra með Brexti. En auðvitað má sjá hvernig þeir sem stýra UK vita ekki í hvorn fótinn þeir stíga, verðbólga á leið upp vextir að vaxa og lífskjör að versna.  Milljónir sem búa við góðan kost í Suður Evrópu búa nú við ótta um versnandi kjör. Stórfyrirtæki huga að brottför, Fjármálamarkaður mun færa sig til Evrópu. Einangrun er ábyggilega ágæt í sjálfu sér en þegar hagsmunir þeirra sem verrra hafa það eru í húfi, þá er niðurstaðan glapræði og mun kosta téðan almenning versnandi kjör.

Vissulega eru kostir við úrgöngu úr EES. Þá gætum við hafið beinan niðurgreiðslur til almennings í húsnæðismálum, beint úr ríkissjóði. Gætum sett upp betra eftlit með fyrirtækjum og fjármálafyrirtækum. Gætum mögulega bannað afleiðuviðskipti og lokað á internetið. 

Hljómar spennandi, ekki satt ?

Sigfús Ómar Höskuldsson, 3.12.2017 kl. 20:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband