5.12.2017 | 17:43
Hnignun Evrópusambandsins
Stjórnarkreppa ríkir í Sambandslýðveldinu Þýzkalandi. Landið er forysturýki Evrópusambandsins (ESB), og þegar í Berlín ríkir einvörðungu starfsstjórn, án umboðs frá Bundestag, á engin stefnumörkun sér stað í Brüssel heldur, sem heitið getur. Þetta hefur vafalítið tafið fyrir Brexit viðræðunum, enda er fyrri hluti þeirra á eftir áætlun, og þess vegna hafa samningaviðræður um viðskiptaskilmála ekki hafizt; karpað hefur verið um upphæð útgöngugjalds Bretlands, gagnkvæm réttindi fólks í Bretlandi og ESB og landamæraeftirlit á mörkum írska lýðveldisins og Norður-Írlands, en ekkert er farið að ræða um fyrirkomulag viðskiptasambands Bretlands við ESB. Gagnkvæmir hagsmunir eru svo miklir, að telja verður líklegt, að hagfelldur samningur náist fyrir athafnalíf og almenning beggja vegna Ermarsunds. Veik staða ríkisstjórnar Bretlands og Þýzkalands gagnvart þjóðþingum sínum flækir stöðuna.
Angela Merkel, kanzlari Þýzkalands, kom löskuð út úr þingkosningunum 24. september 2017, eins og Theresa May fyrr á árinu, og eftir að slitnaði upp úr stjórnarmyndunarviðræðum CDU/CSU (flokkasamsteypa Merkel og Bæjarans Seehofers, sem nú hefur reyndar látið af völdum eftir afhroð í téðum kosningum), FDP (Frjálslynda lýðræðisflokksins) og græningja, þá er Angela Merkel sem lamaður leiðtogi. Þar hafa á fáeinum vikum í haust orðið alger umskipti. Hennar tími er augsýnilega liðinn, en hún hefur hvorki erfðaprins né erfðaprinsessu, enda er staðan óvænt.
Skýringin á viðræðuslitunum er óánægja FDP með afstöðu Merkel til flóttamanna í Þýzkalandi. FDP ætlar að herja á flokkinn AfD, Alternative für Deutschland, sem er á móti aðild Þýzkalands að myntsamstarfi ESB-evrunni og er mjög gagnrýninn á viðtöku einnar milljónar flóttamanna frá aðallega múhameðskum löndum árið 2016, sem enginn veit, hvað á að gera við. Fólk þetta á mjög erfitt með að aðlagast vestrænum samfélögum, það lifir margt hvert í andlegu miðaldamyrkri og er þungur baggi á velferðarkerfinu. FDP ætlar að hræra í þessu grugguga vatni og ná enn meiri fylgisaukningu í næstu kosningum á kostnað AfD, sem fékk 92 þingmenn í september 2017, svo að flokkurinn geti jafnvel gert kröfu um stjórnarmyndunarumboð í Berlín eftir næstu kosningar, sem gætu orðið innan tíðar, ef jafnaðarmenn, SPD, semja sig ekki inn í ríkisstjórn.
Í Austur-Evrópu er að magnast óánægja með ESB, af því að ESB vill þvinga aðildarlönd sín þar til að taka við flóttamönnum. Austur-Evrópulöndin og Eystrasaltslöndin vilja harðari stefnumörkun gagnvart Rússlandi, sem þau óttast, að geti reynt "úkraínuseringu" gagnvart sér. Angela Merkel hefur í raun borið kápuna á báðum öxlum gagnvart Vladimir Putín, sem alltaf sætir færis að koma höggi á Vesturlönd og rjúfa samstöðu þeirra. Merkel hefur leyft viðskipti við Rússa með iðnvarning á borð við þýzka bíla, og hún hefur leyft Nord-Stream 2 að halda áfram, en það er stórverkefni Þjóðverja og Rússa um gaslögn beint frá Rússlandi um botn Eystrasaltsins og til Þýzkalands. Austur-Evrópumenn eru æfir út af þessu. Fyrrverandi kanzlari Þýzkalands, jafnaðarmaðurinn Gerhard Schröder, situr í stjórn gasrisans rússneska, sem hér á í hlut.
Suðurvængur ESB er í lamasessi. Katalónar vilja losna undan völdum Kastilíumanna, og sama á líklega við um Baska. Það getur hæglega kvarnazt út úr ríki Spánarkonungs á næstu misserum, en ESB óttast það, því að þá verður fjandinn laus víða í Evrópu. Meira að segja Bæjarar gætu í alvöru farið að velgja Prússunum í Brandenburg/Berlín undir uggum.
Enginn hagvöxtur hefur verið á Ítalíu frá hinni alþjóðlegu fjármálakreppu 2007-2009, og margir banka Ítalíu eru taldir standa veikt. Ríkissjóður landsins er mjög skuldsettur. Ítalir glíma við vantraust á fjármálakerfi sínu, lánshæfismatið á þeim er lágt, og lausafjárkreppa getur fyrirvaralaust leitt til bankagjaldþrots. Þýzkir kjósendur eru andsnúnir því, að þýzka ríkið og þýzkir bankar hlaupi undir bagga, enda er um háar fjárhæðir að ræða á Ítalíu. Ef allt fer á versta veg fyrir Ítölum, mun gengi evrunnar lækka enn meira en undanfarin misseri m.v. bandaríkjadal og jafnvel verða ódýrari en bandaríkjadalur. Þá mun vegur sterlingspunds vænkast og hrollur fara um margan (tevtónann) norðan Alpafjalla.
Á Grikklandi er viðvarandi eymdarástand með 20 % atvinnuleysi (50 % á meðal fólks undir þrítugu), ríkisstofnanir eru sveltar og gamlingjar og sjúklingar lepja dauðann úr skel. Þessi eymd er í boði ESB, sem neitar að klippa á skuldahala gríska ríkisins, þótt AGS mæli með því. Sósíalistar Syriza þrauka í ríkisstjórninni í Aþenu, á meðan eignir Grikkja á borð við höfnina í Pireus eru seldar útlendingum, í mörgum tilvikum Kínverjum, sem eru að tryggja sér aðstöðu á siglingaleiðum (beltiskenning aðalritarans, Xi).
Ekki tekur betra við, þegar horft er til norðurs úr höfuðstöðvum ESB í Brüssel, Berlaymont. Öflugasta ríki ESB á sumum sviðum, og næstöflugasta efnahagsveldi þess, er á leiðinni út úr sambandinu, eftir þjóðaratkvæðagreiðslu þar í júní 2016. Þetta er sársaukafullur skilnaður, bæði fyrir ESB og Bretland, og skilnaðarsamningaviðræður hafa gengið illa fram að þessu. Gæti svo farið, að í marz 2019 hrökklist Bretland úr þessari yfir fertugu meginlandsvist sinni án viðskiptasamnings, og þá gilda ákvæði WTO-Alþjóða viðskiptastofnunarinnar. Bezt væri fyrir báða aðila, svo og Íslendinga, að fríverzlunarsamningur kæmist á. Íslendingar gætu notið góðs af honum, enda fer nú þegar talsvert af íslenzkum sjávarafurðum frá Bretlandi til meginlandsins.
Bretum er í mun að halda frjálsu viðskiptaaðgengi sínu að Innri markaðinum, og framleiðendum í ESB er í mun að halda óbreyttu aðgengi að 60 milljóna manna öflugum markaði norðan Ermarsundsins, en Berlaymont og leiðtogaráðið eru hins vegar skíthrædd við, að flótti bresti í liðið, ef Bretar standa uppi með pálmann í höndunum árið 2019, eins og reyndin varð eftir hrikaleg vopnaviðskipti 1918 við Habsborgara og Þýzkaland og 1945 við Öxulveldin. Þótt Bretar tapi orrustum, virðast þeir alltaf vinna stríðið.
Við þessar aðstæður hefur umræða í Noregi um aðild landsins að EES blossað upp, eins og grein í Morgunblaðinu 25. nóvember 2017 bar með sér. Hún bar fyrirsögnina:
Af hverju Norðmenn vilja atkvæðagreiðslu um uppsögn EES-samningsins.
Í Noregi ríkir nú minnihlutastjórn Hægri flokksins og Framfaraflokksins. Erna Solberg, forsætisráðherra, er fylgjandi aðild Noregs að ESB, en Framfaraflokkurinn er á móti. Nýlegi kúventi stærsti flokkur Noregs, Verkamannaflokkurinn, í þessu máli og hefur nú þá afstöðu að berjast ekki fyrir aðild Noregs að ESB. Það kann að vera orðið mjótt á mununum um stuðning á Stórþinginu við aðild Noregs að EES. Án Noregs þar hrynur EES eins og spilaborg, því að Norðmenn halda bákninu uppi fjárhagslega að mestu leyti.
Á Íslandi hefur úrsögn landsins úr EES þó enn ekki hlotið mikla umfjöllun. Gæfulegast væri að hafa samflot með Norðmönnum um endurskoðun samninga um EES, þar sem stefnt yrði á endurheimt óskoraðs fullveldis landanna, einnig yfir landamærum sínum, og viðskiptafrelsi með vörur og þjónustu, sem aðilar eru sammála um, að eru óskaðlegar fólki, dýrum og náttúru. Í sáttmála Fullveldisstjórnarinnar stendur í landbúnaðarkaflanum: "Meginmarkmiðið er, að landbúnaður á Íslandi sé sjálfbær og vernd búfjárstofna sé tryggð". Þar sem þetta samræmist ekki matvælalöggjöf ESB, sem einnig gildir fyrir EES samkvæmt EFTA-dómi nýlega, er Íslandi ekki lengur vært innan EES. Hefur þá ekki verið minnzt á hættu, sem lýðheilsu stafar af innflutningi á hráu kjöti, eggjum og ógerilsneyddri mjólk.
Norska Stórþingið og Alþingi verða að fela ríkisstjórnum landanna að semja um undanþágur við ESB, til að hægt sé að óska eftir sameiginlegum viðræðum landanna og hugsanlega Liechtenstein við ESB. Það er líklegra en hitt, að þessi þjóðþing myndu, eftir umræður, samþykkja að óska eftir slíkum samningaviðræðum við ESB, en það er hins vegar líklegt, að ESB fari undan í flæmingi vegna þess, hvernig allt er í pottinn búið á þeim bæ. Það er líka skynsamlegt fyrir Norðurlöndin að doka við og sjá, hver útkoman verður úr Brexit-viðræðunum, og nota tímann til að undirbúa jarðveginn innanlands, og að stilla saman strengi um leið og gerður er fríverzlunarsamningur við Bretland. Íslendingar munu reyna að ná enn hagstæðari samningum við Breta fyrir vörur sínar, t.d. sjávarvörur, en nú eru í gildi.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Viðskipti og fjármál, Evrópumál, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:37 | Facebook
Athugasemdir
Ég er sammála þér í flestu, þó ekki að Bretum sé bezt að vera með í innri markaðnum. Bezt er að segja alveg skilið við ESB fyrst, ekki borga eitt pund og síðan semja um tvíhliða viðskiptasamninga þegar Brüssel-gengið kemur krjúpandi til London með húfuna í lúkunum. Því miður hafa Bretar verið svo ógæfusamir að hafa Theresu May sem forsætisráðherra og hún hefur endanlega sýnt að hún er svikari, landráðakvendi, sem gekk hiklaust að öllum ólögvörðum kröfum Merciers og Junckers ("Drunkers"). Jafnvel þeir voru hneykslaðir á því hvað hún var mikill aumingi. Sagan mun dæma hana harðlega og flestir Bretar vilja læsa hana inni í The Tower, ef ekki tekst að hengja hana.
Þó gæti verið að sumir flokksfélagar hennar (+DUP) muni sparka henni út í kuldann fyrir jólin. En það verður að fara rétt að og koma í veg fyrir að hún kalli eftir kosningum eins og hún gerði sl. sumar, þar sem allir háskólanemar fengu að kjósa Labour tvisvar og Tories misstu meirihlutann á þinginu. Heimska þessarar gálu ("Sharia-Theresu) er ótrúleg.
Aztec, 5.12.2017 kl. 20:41
Brexit-sinnar hafa engan áhuga á aðild Bretlands að Innri markaðinum gegnum EES, því að EES fylgja meiri ESB kvaðir en þeir sætta sig við. Ég átti heldur ekki við, að ég teldi þessa aðild ákjósanlega, heldur átti ég við fríverzlunarsamning, sem gæfi svipaðan aðgang fyrir vörur, fjármagn og þjónustu og Bretar hafa nú, en án kvaðar um frjálsan flutning fólks. Brexit-sinnar vilja losna undan lögsögu Evrópudómstólsins. Nú sjáum við, hvað það getur þýtt, að vera undir lögsögu EFTA-dómstólsins. Íslenzk innleiðing matvælalöggjafar ESB er vegin og léttvæg fundin, af því að hrátt kjöt, egg og ógerilsneydd mjólk voru undanskilin í íslenzku löggjöfinni. Hér er lýðheilsa og búfjárheilsa í húfi, svo að augljóslega felur EES-aðild í sér svo verulega fullveldisskerðingu, að óviðunandi er.
Bjarni Jónsson, 5.12.2017 kl. 21:33
Mjög góð greining hjá þér Bjarni, að vanda.
Mikið rétt, hrátt kjöt, egg og ógerilsneydd mjólk er undanþegin í innleiðingu matvælalöggjafar ESB. Það vekur vissulega upp spurningu um hvernig íslensk stjórnvöld stóðu að málsvörninni fyrir EFTA dómstólnum. Hvort verið geti að vegna pólitískrar hugsjónar þáverandi landbúnaðarráðherra, hafi málsvörnin verið í skötulíki.
Gunnar Heiðarsson, 6.12.2017 kl. 08:48
Fyrrverandi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra stóð sig að mínu mati ekki vel í starfi, og hafi hún haft hönd í bagga um málsvörn íslenzka ríkisins, er ekki að sökum að spyrja. Nú eru lögfræðingar að fara yfir það, hvort möguleiki er á að verjast á grundvelli lýðheilsu og smithættu fyrir búfé, en mér þykir það ákaflega ólíklegt, því að EFTA-dómstóllinn dæmdi undanþágur Alþingis einfaldlega ólöglegar að Evrópurétti, og undanþágur Alþingis voru á grundvelli sjúkdómahættu. Þá er sá einn eftir að reyna að semja sig frá þessu, en það hefur Berlaymont sennilega ekki heimild til að gera.
Í þeirri stöðu er eðlilegast að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildina að EES.
Bjarni Jónsson, 6.12.2017 kl. 14:14
Vandamál Evrópusambandsins er ekki sambandið sjálft ... heldur ríkin sem mynda sambandið. Þannig að þessi kreppa, sem hristir stoðir ESB eru vandamál einstakra ríkja þess.
Þetta vandamál, á sér einnig stað á Íslandi ... en Ísland er það lítið, að þó landið gangi sjálft vegna spillingar innanlands ... þá er smæð þess, spillingunni í hag ... hún getur grasserað lengi, innan landamæra einstakra ríkja. Innan sambands, jafn stórt og ESB ... þá er aldrei hægt að komast hjá því að slík spilling aðilanna skapi ekki af sér vandamál milli ríkjanna sem mynda sambandið.
CORRUPTISSIMA RE PLUBLICA PLURIMAE LEGES
Kreppuannáll (IP-tala skráð) 6.12.2017 kl. 15:54
Ekki skal draga úr því, að ólíkur menningarlegur bakgrunnur og ólík hagkerfi skapi stjórnendum ESB vanda, sem krystallast í veikleikum evrunnar, en innri gerð ESB er annað vandamál, og snýst það um lýðræðishalla, þ.e. ESB hefur á að skipa þúsundum búrókrata, og stjórnendur þeirra, framkvæmdastjórnin, býr ekki við lýðræðislegt aðhald, eins og ríkisstjórnir á Vesturlöndum. Þar þrífst spilling, sem lýsir sér í, að milljónir evra "gufa upp", svo að bókhaldi ESB hefur verið erfitt að loka árum saman.
Alþjóðlegur samanburður bendir til tiltölulega lítillar spillingar á Íslandi. Það breytir ekki því, að staðbundið getur hún verið grassereandi, siðspillt og þungbær.
Bjarni Jónsson, 7.12.2017 kl. 10:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.