Utanríkisstefna nýrrar ríkisstjórnar

Lokakafli "sáttmála" Fullveldisríkisstjórnarinnar ber fyrirsögnina "Alþjóðamál".  Sá veldur nokkrum vonbrigðum.  Undirkaflinn, "Evrópa og viðskiptakjör" svarar varla kalli tímans.  Fáeinum vikum áður en ritunin fór fram, féll dómur EFTA-dómstólsins á þá lund, að með aðgerðum íslenzkra stjórnvalda til að verja lýðheilsu og búfjárheilsu gegn ógn frá hráu kjöti, eggjum og ógerilsneyddri mjólk, að mati innlendra fræðimanna, hafi þau gerzt brotleg við skuldbindingar EES-samningsins um matvælalöggjöf ESB.  Með þessum úrskurði er ljóst, að aðild Íslands að EES felur í sér stórfellt fullveldisframsal og ekki bara lítilsháttar, eins og haldið hefur verið fram.  Þar með hefur sannazt mat margra hérlendis, að samþykkt Íslands árið 1994 á EES-samninginum fól í sér Stjórnarskrárbrot, og við svo búið má ekki standa. 

Að sjá eftirfarandi texta frá skrifurum "sáttmálans" vekur furðu í þessu ljósi:

"Ríkisstjórnin telur það vera eitt mikilvægasta hagsmunamál Íslands að sinna framkvæmd EES-samningsins vel, og Alþingi þarf að vera virkara á því sviði."

Það er hægt að túlka þennan texta sem hreina uppgjöf gagnvart ESB/EES á sviði sjúkdómavarna, en því verður ekki trúað að óreyndu, og þar með stæði þessi ríkisstjórn alls ekki undir nafni.  Framvinda mála hefur þvert á móti varpað ljósi á það, hversu varasamt það er fyrir Íslendinga að innleiða færibanda gjörðir ESB gagnrýnislítið.  Sama sjónarmið er uppi í Noregi.

Þetta mál og útganga Breta úr ESB kallar á endurskoðun EES-samningsins, og í Noregi, einu af þremur EFTA-löndum í EES, gætir einnig vaxandi efasemda um EES-aðild Noregs.  Téður dómur tekur af öll tvímæli um það, að fullveldisframsalið til EES/ESB er algerlega óviðunandi og virðist vera Stjórnarskrárbrot.  Það er ólíklegt, að ESB verði til viðtals um nokkrar undanþágur frá lagasetningu sinni og sáttmálum Íslandi og Noregi til handa.  Þar með er komið að stærsta utanríkispólitíska viðfangsefni kjörtímabilsins, sem er uppsögn EES-samningsins og tvíhliða viðskiptasamningi við ESB, hugsanlega í samfloti með Noregi og/eða Bretlandi.  Það er ekkert ýjað að þessum möguleika í "sáttmálanum". Það þýðir samt ekki að reyna að skjóta sér undan þessu erfiða viðfangsefni.

Talsmenn landbúnaðarins halda enn í vonina um, að semja megi við ESB um undanþágur frá matvælastefnu þess.  Það er í ætt við óraunhæfa bjartsýni Össurar Skarphéðinssonar framan af tímabilinu 2009-2013, þegar hann sem utanríkisráðherra landsins gerði ítrekaðar tilraunir til að semja Ísland inn í ESB, en það strandaði á landbúnaðar- og sjávarútvegsstefnu ESB, og Össur gafst að lokum upp á þvergirðingshætti ESB, enda kaus hann að hylja vandamálið í þokuskýi í kosningabaráttunni 2013.  Litlar líkur eru á, að einhverju verði um þokað nú, en þó er sjálfsagt af núverandi utanríkisráðherra að reyna það.  Hann verður hins vegar einnig að hafa Plan B, og það hlýtur að felast í þjóðaratkvæðagreiðslu um uppsögn EES-samningsins, þegar hann hefur kynnt Alþingi, hvað í boði er að hálfu ESB. Það væri keimlík nálgun viðfangsefnisins og hjá Bretum.   

Haraldur Benediktsson, Alþingismaður og fyrrverandi formaður Bændasamtaka Íslands, hefur eftirfarandi að segja við Helga Bjarnason, blaðamann, eins og birtist í baksviðsgrein hans í Morgunblaðinu, 28. nóvember 2017:

"Hvað er til bragðs að taka vegna dómsins ?":

"Við eigum að taka samtalið við Brüssel.  Við sömdum um Evrópska efnahagssvæðið á ákveðnum forsendum, og það var af ákveðinni ástæðu, sem við tókum landbúnaðarkafla ESB ekki inn í samninginn.  Mér finnst, að við eigum að fá sérstöðu okkar viðurkennda."

Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, hafði eftirfarandi fram að færa, "baksviðs":

"Þessi ákvæði eru í samningum, sem hafa verið gerðir.  Við hljótum að velta því fyrir okkur, hvort við ætlum að sætta okkur við niðurstöðuna eða fara til Evrópusambandsins til að skýra stöðuna hér fyrir því og óska eftir breytingum."

"Segja má, að þetta [matvælalöggjöf ESB] hafi verið tekið upp til að tryggja frjálst flæði á sjávarafurðum til Evrópu.  Það breytir því ekki, að við erum með raunverulega og verðmæta sérstöðu og hljótum að þurfa að hugsa um, hvernig bezt er að vernda hana." 

Enn er í gildi afmarkað viðskiptabann ESB og BNA á Rússland og refsiaðgerð Rússa, sem fólst aðallega í banni á innflutningi matvæla til Rússlands frá viðskiptabannsþjóðunum.  Það hefur frá fyrstu stundu orkað tvímælis, að Ísland tæki þátt í þessu banni, því að landið flytur ekkert út af þeim vörum og þjónustu, sem eru á bannlistanum.  Refsiaðgerðir Rússa hafa mest skaðað Íslendinga og Norðmenn, en Norðmenn voru mögulegir útflytjendur á hluta bannvaranna, t.d. frá Kongsberg våpenfabrikk.  

Íslendingar eiga alls ekki að berjast nú samtímis á tveimur vígstöðvum.  Þess vegna á að gera framkvæmdastjórn ESB grein fyrir því, að fallist hún ekki á umbeðnar lágmarkstilslakanir gagnvart Íslandi, þá verði Ísland dregið út úr viðskiptabanninu.  Verði sú raunin má reikna með, að Rússar aflétti refsiaðgerðum gegn Íslandi, en ESB hefur varla nægan innri styrk til að refsa Íslendingum með viðskiptaþvingunum.  Við þær aðstæður þurfum við að reiða okkur á gott viðskiptasamband við Rússland, Bretland og önnur lönd utan ESB um tíma.  Stefnumiðið á kjörtímabilinu ætti hins vegar að vera úrsögn úr EES og gerð viðskiptasamnings við ESB á svipuðum nótum og Kanada hefur gert eða Bretar munu gera, ef hann verður okkur hagstæðari.  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband