29.12.2017 | 10:17
Stjórnarsáttmálinn og samgöngumálin
Eina verkefnið, sem nefnt er á nafn í þessum kafla sáttmála ríkisstjórnarinnar og kannski í sáttmálanum öllum, er Borgarlínan, sem tengja á saman miðlæga hluta sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Þetta illa ígrundaða verkefni, sem borgarstjórn og skipulagsyfirvöld borgarinnar hafa haft forgöngu um, er einfaldlega allt of dýrt m.v. notagildið fyrir íbúana. Það er dæmigert um mistök stjórnmálamanna, sem láta hugmyndafræðina hlaupa með sig í gönur.
Það er þó eðlilegt að taka nú þegar frá land fyrir slíka samgönguæð í aðalskipulagi höfuðborgarsvæðisins, en það væri fljótfærnislegt af ríkinu að leggja fram fé á þessu kjörtímabili, 2017-2021, í framkvæmd, sem engin fyrirsjánleg þörf verður fyrir fram undir 2040, ef nú verður farið í aðrar nærtækari og hagkvæmari framkvæmdir. Það er miklu nær, að Reykjavíkurborg láti af þvergirðingshætti sínum gegn mislægum gatnamótum og leyfi Vegagerðinni að höggva með skilvirkasta mögulega hætti á hættulega og dýra umferðarhnúta með því að hanna og reisa mislæg gatnamót á "stofnbrautum í þéttbýli", sem hún er ábyrg fyrir innan borgarmarkanna. Er þar fyrst til að taka gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegar, og núverandi tengingar Miklubrautarinnar eru öryggislega og afkastalega stórlega ámælisverðar. Þrengingar gatna og stöðvunarljós umferðar við gangbrautir á fjölförnum brautum á borð við Kringlumýrarbraut og Suðurlandsbraut eru aðferðir til að minnka afköst samgönguæða, sem þegar eru of lítil. Undirgöng ættu fyrir löngu að vera komin á þessa staði.
Nýr samgönguráðherra hefur gefið þá þröngsýnislegu yfirlýsingu, að gjaldtaka á nýjum leiðum út frá höfuðborgarsvæðinu sé ekki á stefnuskrá hans. Verði þetta ofnan á, er það til þess eins fallið að seinka fyrir öðrum samgönguframkvæmdum á vegum ríkissjóðs. Yfirlýsingin gengur þvert á stefnumörkun í samgönguáætlunum til 4 ára og til 12 ára, þar sem segir um Sundabraut:
"Leitað verði leiða til að fjármagna Sundabraut í samstarfi við einkaaðila".
Þá er yfirlýsing ráðherrans undarleg í ljósi þess, að á kjörtímabilinu þarf að taka ákvörðun um ný Hvalfjarðargöng. Á ekki að leyfa erlendum ferðamönnum að taka þátt í fjármögnun þessa þarfa verkefnis, eins og þeir hafa lagt sitt að mörkun til að flýta uppgreiðslu lána vegna fyrri Hvalfjarðarganga ? Hvað segja Framsóknarmenn á landsbyggðinni við því, ef taka á framkvæmdakraft úr ríkissjóði frá bráðnauðsynlegum umbótum á landbyggðinni með fordild um, að ríkissjóður verði að standa að fjármögnun allra samgönguumbóta á höfuðborgarsvæðinu, jafnvel þótt vegfarendur hafi þar í sumum tilvikum valmöguleika um gamla eða nýja leið ?
Fréttaskýring Sigtryggs Sigtryggssonar í Morgunblaðinu 7. nóvember 2017,
"Sundabrautin "föst í forminu"", hófst svona:
"Nú eru liðnir rúmlega 7 mánuðir [frá 21. marz 2017] síðan Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti að að taka upp viðræður við ríkið um Sundabraut.
Til upprifjunar er um að ræða braut, sem liggja mun frá Sundahöfn, yfir eyjar og sund og upp á Kjalarnes. Þetta yrði mesta og dýrasta samgöngumannvirki landsins. Að verkinu koma Vegagerðin sem framkvæmdaaðili, ríkissjóður sem greiðandi og Reykjavíkurborg sem landeigandi og skipulagsaðili.
Morgunblaðið kannaði stöðu málsins, og er skemmst frá því að segja, að ekkert hefur gerzt, frá því að borgarstjórn gerði sína samþykkt í marz. Ekki er hægt að skilja annað á svörum við fyrirspurnum Morgunblaðsins en þeir embættismenn, sem um málið fjalla, séu "fastir í forminu"."
Þessi samþykkt borgarstjórnar frá marz 2017 er hreint yfirvarp að hálfu meirihluta hennar fyrir algeru aðgerðarleysi í málefnum Sundabrautar, sem stafar af áhugaleysi eða beinni andstöðu við verkefnið. Málsmeðferð meirihluta borgarstjórnar á þessu framfaramáli er hneyksli, sem sýnir, hversu forstokkað afturhald hefur hreiðrað um sig í borgarkerfinu. Borgarstjórinn fer undan í flæmingi í stað þess að eiga ærlega fundi með Vegagerðinni um þessa mikilvægu samgöngubót.
Borgarstjórinn hefur klúðrað nægu framboði húsnæðis í Reykjavík með ofuráherzlu á þéttingu byggðar, og nú klúðrar hann samgöngumálum borgarinnar með ofuráherzlu á Borgarlínu í stað mislægra gatnamóta og Sundabrautar. Lóðaklúðrið hefur sprengt upp húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu algerlega að óþörfu, og samgönguklúðrið veldur óþarflega mörgum umferðarslysum og lengir ferðatíma vegfarenda óþægilega og óþarflega mikið til kostnaðarauka fyrir samfélagið, svo að ekki sé nú minnzt á óþarfa mengun, sem umferðartafir valda.
Umferðin gegnum Hafnarfjörð er gríðarlega þung, og nemur fjöldinn um torgið á mótum Reykjanesbrautar og Lækjargötu nærri 50´000 bílum á sólarhring, sem þýðir, að tvöfalda verður hið fyrsta Reykjanesbraut frá mislægum gatnamótum við Kaldárselsveg að mislægum gatnamótum við Krýsuvíkurveg. Að gera öll gatnamót Reykjanesbrautar í Hafnarfirði mislæg á næstu 8 árum er mun meira aðkallandi viðfangsefni en að hefjast handa við ótímabæra Borgarlínu, sem virðist vera hugsuð í tengslum við járnbrautarlest á milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og umferðarmiðstöðvar í Reykjavík (Vatnsmýri).
"Fluglestin" er einnig algerlega ótímabært verkefni, enda hugarórar einir, að nokkrum fjárfesti detti í hug í alvöru að setja miaISK 100-200 í verkefni, sem mun eiga fjárhagslega erfitt uppdráttar á næstu áratugum. Frumkvöðlar "fluglestarinnar" fóru verulega fram úr sér, enda heyrist ekki frá þeim, nema um háfleyg áform, en einkafjármagn í þetta verkefni lætur á sér standa (í svipaðan tíma eða lengur en nemur þörfinni fyrir Borgarlínu).
Þórarinn Hjaltason, umferðarverkfræðingur, MBA, reit merka grein um umferðarmál á höfuðborgarsvæðinu í Morgunblaðið, 26. október 2017,
"Samgöngubætur á Reykjanesbraut",
þar sem sagði m.a.:
"Um síðustu aldamót gerði verkfræðistofan VST (nú Verkís) frumdrög að vegstokki við Lækjargötu og Kaplakrika. Kostnaður var áætlaður miaISK 2,4-2,7. Uppfærð kostnaðaráætlun til verðlags í dag er í kringum miaISK 8. Þetta er dýr framkvæmd og ekki fjárveiting í hana í gildandi samgönguáætlun. Kostnaður við vegstokk við Lækjargötu og Kaplakrika er þó aðeins 12 % - 14 % af áætluðum kostnaði við borgarlínuna. Sveitarstjórnir á höfuðborgarsvæðinu hljóta því að geta sammælzt um, að þessi framkvæmd verði sett framarlega í forgangsröðina.
Þá væri raunhæft að reikna með því, að Reykjanesbraut gæti orðið tvöföld með mislægum gatnamótum milli Keflavíkur og Miklubrautar innan 10 ára."
Það verður að mótmæla því harðlega, að ofangreindar umbætur á Reykjanesbraut verði látnar sitja á hakanum vegna óðagots við að hefjast handa við Borgarlínu. Borgarlína kemst ekki í nokkurn samjöfnuð við Reykjanesbrautarumbætur, hvað fækkun slysa og tímasparnað vegfarenda varðar, og er þar að auki miklu dýrari. Alþingismenn verða að kynna sér þessa hlið málsins gaumgæfilega hjá Vegagerðinni við næstu endurskoðun 4-ára og 12-ára vegaáætlunar. Það er kominn tími til að heimskuleg hugmyndafræði víki fyrir faglegu mati á staðreyndum og forgangsröðun reistri á slíku mati.
Í lok tilvitnaðrar greinar sinnar horfði Þórarinn Hjaltason fram í tímann til 2040:
"Ef horft er til lengri framtíðar, t.d. til ársins 2040, þá tel ég raunhæft að gera ráð fyrir samfelldum tvöföldum vegi frá Keflavíkurflugvelli að Borgarnesi um Vesturlandsveg og austur fyrir Selfoss um Suðurlandsveg.
Sundabraut er eðlilegur hluti af leiðinni um Vesturlandsveg. Fyrir höfuðborgarsvæðið myndu Reykjanesbraut og Sundabraut hafa mikla þýðingu sem meginstofnvegur frá norðri til suðurs í gegnum svæðið."
Þetta þykir blekbónda vera eðlileg og raunhæf framtíðarsýn fyrir samgönguæðar um það stóra, samfellda atvinnusvæði, sem hér um ræðir. Verði hún að veruleika ásamt því að greiða fyrir umferð með mislægum gatnamótum eða veggöngum á öllum helztu gatnamótum á Miklubraut og fjölgun akreina samkvæmt viðmiðunum Vegagerðarinnar um ökutækjafjölda á sólarhring, þá verður leyst úr umferðarhnútum höfuðborgarsvæðisins með viðunandi hætti fram til 2040. Þetta er góður valkostur við Borgarlínuna, sem reist er á fölskum forsendum, mun engan vanda leysa, en skapa alvarlegan fjárhagsvanda og umferðarvanda með þrengingu gatna. Þar er dæmi um verkefni, sem ótímabært er að setja á 12 ára Vegaáætlun Alþingis.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Samgöngur, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:39 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.