Orkusamband EES-landa ?

Frá ríkisstjórn Íslands berast þau tíðindi, að hún hyggist hlíta dómi EFTA-dómstólsins frá í nóvember 2017, sem var á þá lund, að Alþingi hafi við innleiðingu matvælalöggjafar ESB verið óheimilt að banna innflutning á hráu kjöti, eggjum og ógerilsneyddri mjólk.

Alþingismenn töldu sig vafalaust vera að verja lífshagsmuni þjóðarinnar með þessari gjörð árið 2009, enda hafa viðurkenndir vísindamenn á sviði sýkla- og veirufræði varað við því, að með slíku hrámeti að utan geti hæglega borizt fjölónæmir sýklar, sem ráðast á mannfólkið, og dýrasjúkdómar, sem mótefni vantar fyrir í íslenzka dýrastofna.

Sýkingar af völdum fjölónæmra sýkla eru alvarleg lýðheilsuógn.  Framandi dýrasjúkdómar hafa orðið landsmönnum mjög þungir í skauti og t.d. næstum útrýmt íslenzka sauðfjárstofninum.  

Ríkisstjórnin ætlar sér vafalaust í ýmsar mótvægisaðgerðir, t.d. aukið kerfisbundið eftirlit, og skilmerkilegar upprunamerkingar, sem blasa verða við neytendum.  Það er þó ómótmælanlegt, að téður innflutningur mun auka líkur á hættulegum sjúkdómum hérlendis.  Hver áhættuaukningin er, hefur enn ekki komizt á hreint. Hin hlið þessa máls, er að Alþingi er gert afturreka með ákvörðun sína.  Þar með blasir við fullveldisframsal með EES-samninginum.  

Það verður að lýsa nokkurri furðu á því, að ríkisstjórnin leggi að óreyndu niður skottið gagnvart Brüssel-valdinu og geri ekki tilraun til samningaumleitana við framkvæmdastjórn ESB um innflutning á þessum vörum, sem sumir vísindamenn telja íslenzkri fánu stórhættulega.  Ferst ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur þar öðru vísi en ríkisstjórn Davids Cameron, sem samdi um ýmsar tilslakanir við ESB fyrir Bretlands hönd og lagði þann samning síðan fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar með því fororði, að synjun mundi þýða úrsögn Bretlands úr ESB. Úr því varð BREXIT.   

Eðlilegt hefði verið af íslenzku ríkisstjórninni að fara sömu leið og leggja samningsniðurstöðuna fyrir þjóðina undir því fororði, að höfnun þýddi úrsögn Íslands úr EES.  Er ekki kominn tími til, að þjóðin taki sjálf afstöðu til veru landsins á Evrópska efnahagssvæðinu, EES, með öllum þess kostum og göllum ?    

Sú staðreynd, að ESA-Eftirlitsstofnun EFTA getur gert Alþingi afturreka með samþykktir sínar í máli, sem getur varðað lífshagsmuni, sýnir, að Alþingi framseldi fullveldi sitt til ESA og ESB með því að samþykkja  samning um aðild Íslands að EES, sem gekk í gildi 1994.  M.v. það, sem í húfi er, var þetta ótvírætt stjórnarskrárbrot, og öndvert mat lögspekinga á sínum tíma hefur nú fallið um sjálft sig.   

Nú er í deiglunni enn eitt málið á ferli ESB til æ meiri sameiningar ("an ever closer union").  ESB hefur jafnframt ákveðið, að þetta mál heyri í öllum aðalatriðum undir EES-samning Íslands, Noregs og Liechtenstein.  Hér ræðir um orkusamband EES ("EEA Energy Union").  Það er skemmst frá því að segja, að orkusamband þetta mun svipta aðildarþjóðirnar forræði á orkumálum sínum.  Það verður ekki gert með eignaupptöku, heldur með því að setja á laggirnar Orkustofnun Evrópu-"European Agency for the Cooperation of Energy Regulators", skammstafað ACER, sem staðsett er í Slóveníu.  

Framkvæmdastjórn, leiðtogaráð og þing ESB hafa framselt valdheimildir til ACER til að taka stefnumótandi ákvarðanir um orkukerfi aðildarlandanna á sviðum, sem varða "sameiginlega hagsmuni" aðildarlandanna.  Það er ESA, sem úrskurðar í hverju tilviki, hvort ákvörðun varðar "sameiginlega hagsmuni" eða ekki.  Í hverju landi verður undirorkustofnun, UOS, sem Norðmenn kalla "Reguleringsmyndighet for Energi", skammstafað RME, sem sér um framkvæmd stefnu ACER í hverju landi.  M.a. mun UOS (RME) koma á fót kauphallarviðskiptum með raforku, þar sem hver sem er innan EES, getur boðið í raforku, sem á boðstólum er, og ESB vill, að öll framleiðanleg raforka sé á boðstólum.  Þetta þýðir, að dagar langtíma raforkusamninga eru taldir.  

Þetta hefur í för með sér gjörbreytingu til hins verra fyrir land eins og Noreg, þar sem langtímasamningar eru undirstaða rekstrar iðnfyrirtækja vítt og breytt um landið, og tengingar norska rafkerfisins við Svíþjóð, Finnland, Danmörku, Holland og senn við Bretland veita mikla flutningsmöguleika á afli til útlanda.  Félagar í samtökunum "Nei til EU" í Noregi óttast, að aðild Noregs að "Orkustofnun Evrópu" (ACER) geti rústað norskum iðnaði og valdið a.m.k. 30 % hækkun á raforkuverði í Noregi.  

Hvaða áhrif gæti ACER haft á Íslandi ? 

ACER á t.d. að fá vald til að ákveða uppbyggingu innviða, sem þvera landamæri, og varðandi "verkefni um sameiginlega hagsmuni".  Ef þátttakendur í slíkum samstarfsverkefnum eru ósammála um kostnaðarskiptinguna, þá sker ACER úr um það.  

Fyrir Ísland er t.d. hægt að hugsa sér, að ACER komist að þeirri niðurstöðu, að ófært sé, að land með mestu raforkunotkun á mann í heiminum sé eitt og ótengt úti í Ballarhafi.  Í landinu sé enn talsvert af ónýttum endurnýjanlegum orkulindum, og að nú sé kominn tími til að landið verði tengt við raforkukerfi meginlandsins, svo að fleiri geti notið góðs af ódýrri og endurnýjanlegri orku.  Þannig mundi sæstrengur frá Íslandi til meginlandsins með viðkomu á Bretlandi þjóna markmiðum ESB um aukningu á orkuflutningum á milli landa frá núverandi 10 % í 15 % árið 2025 og 20 % árið 2030.   ACER mundi vafalaust niðurgreiða stofnkostnað af slíkum streng, sem yrði þá í einkaframkvæmd, og Landsnet yrði skikkað til að tengja sæstrenginn við stofnkerfi sitt og búast má við, að Landsnet  þyrfti að taka þátt í að greiða kostnaðinn við flutning raforkunnar frá virkjunum á Íslandi og til kaupandans.  Síðan hæfist samkeppni um íslenzka raforku á milli orkukaupenda hérlendis og erlendis. Afleiðingin fyrir alla raforkunotendur á Íslandi yrði jafnvel hærra raforkuverð en á raforkumarkaði á meginlandinu vegna hás flutningskostnaðar. Aðeins raforkukaupendur með langtímasamninga í gildi fengju að halda gildandi orkuverði samkvæmt samningi, en ACER leggst alfarið gegn endurnýjun slíkra samninga og m.v. völd sín er ekki að efa, að ACER mundi fá því framgengt, að áður en lyki yrði öll raforka á íslenzka stofnkerfinu á evrópskum markaði.  

Undirorkustofnun ACER á Íslandi, UOS,  verður verkfæri ACER og óháð íslenzkum yfirvöldum.  Ákvörðunarvald um það, hversu miklum vatnsforða úr lónunum má miðla í því augnamiði að selja orku frá Íslandi, verður hjá UOS.  Þannig er nær öruggt, að staðan í íslenzkum miðlunarlónum yrði iðulega orðin svo lág í upphafi árs, að kaupa yrði raforku að utan á því verði, sem hún fengist fyrir.  

Fyrir Ísland og Noreg, sem bæði eru rík af hagkvæmri, endurnýjanlegri orku, sem nú knýr hagkerfi beggja landa, er ofangreind sviðsmynd alger hrollvekja.  Um það er einfaldlega að ræða að afhenda yfirþjóðlegu valdi, ACER, ráðstöfunarrétt á erfðasilfri hvorrar þjóðar um sig.  Fyrir meirihluta Norðmanna er það algerlega óaðgengilegt fyrirkomulag samkvæmt skoðanakönnunum þar í landi, og sama verður örugglega uppi á teninginum hérlendis, ef ríkisstjórnin, Fullveldisstjórnin, ætlar að leggja fram frumvarp þess efnis á aldarafmælisári íslenzka fullveldisins, eins og norska ríkisstjórnin hyggst gera á fyrsta fjórðungi 2018, að Alþingi samþykki þriðju orkutilskipun ESB til innleiðingar í íslenzkan rétt.  Í báðum ríkjunum mun rísa upp hatrömm mótmælabylgja gegn slíku glapræði.  Samþykki Stórþingið og Alþingi ekki þessa innleiðingu, mun ESA úrskurða um brot á EES-skuldbindingum landanna, og EFTA-dómstóllinn mun líklega dæma ESA í hag.  Þá verður Noregi og Íslandi ekki lengur vært innan EES.  

lv-kapall-kynning-april-2011

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 "En langhala Jón,

 lét eins og flón

 og þvældist um Evrópu fullur."

Einhvernveginn svona endaði ein ágæt vísa, hér um árið, þegar Ísland gerðist aðili að EES. Dellan sem síðan hefur verið hraunað yfir okkur, er enn ekki búin að sýna skaða sinn. Stutt er hinsvegar í það og hætt við að með óheftum innflutningi á hormóna og sýklalyfjafullu kjeti fari múrar að bresta og vonandi einhverjir að sjá, hvurslags andskotans della þetta er.

 Góðar stundir, með jólakveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 24.12.2017 kl. 02:44

2 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Ég held það sé ráð að byrja sem fyrst þá vinnu að endurskoða veruna í EES og hvað þá þarf að gera í staðinn varðandi milliríkjasamninga. 

Jósef Smári Ásmundsson, 24.12.2017 kl. 10:17

3 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Já , og gleðileg jól.

Jósef Smári Ásmundsson, 24.12.2017 kl. 10:18

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sælir báðir, hér að ofan;

Það er orðið deginum ljósara, að það að vera taglhnýtingur stórríkinu ESB hentar engan veginn litlu eyríki, og Bretar hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að aðild að þessu stórríki hentar ekki stóru eyríki.  Sú ákvörðun Breta gjörbreytir hagsmunamatinu.  Það er engin hagkvæmniástæða til þess lengur að vera taglhnýtingur stórríkisins.  Bretar munu væntanlega ná einhvers konar fríverzlunarsamningi við ESB, og Ísland og Noregur fá væntanlega kost á sömu kjörum.  Alla vega verða viðskiptakjörin við ESB ekki verri en þau, sem Kanadamenn náðu nýlega.  Það blasir við, að gerður verður fríverzlunarsamningur Íslendinga og Norðmanna við Breta.

Utan EES getum við svo tekið upp þær tilskipanir ESB, sem við teljum henta okkar heildarhagsmunum.  Er þetta "útópia".  Nei, þetta er utanríkisstefna fullvalda ríkis og einskis taglhnýtings.

Nú er sól tekin hækka á lofti, þótt við verðum enn ekki vör við það, en við fögnum því samt. / Gleðileg jól.  

 

Bjarni Jónsson, 24.12.2017 kl. 11:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband