Skattar og stjórnarsáttmálinn

Ísland er háskattaland.  Við því er að búast vegna norrænnar (samstöðu) menningar þjóðarinnar, sem þar býr, stærðar landsins og fámennis.  Það er viðtekin hugmyndafræði í landinu um, að æskilegt sé að nýta landið allt og hafið í kring og að til þess þurfi megnið af láglendinu að vera í byggð.  Þessu fylgja dýrir innviðir af öllu tagi, og þeir verða ekki til né þeim við haldið án atbeina hins opinbera.  Þar með er komin uppskrift að mikilli "samneyzlu", en um leið möguleikar á að nýta gæði landsins alls og sjávarins.  Byggð í landinu öllu veitir jafnframt tilkalli þjóðarinnar til landsins alls siðferðilegt réttmæti, sem getur orðið þýðingarmikið nú og á næstu árum, þegar við sjáum holskeflu hælisleitenda skella á ströndum Evrópu, sumpart vegna ófriðar, sumpart vegna stjórnleysis/rotinna þjóðfélaga og sumpart vegna afleiðinga loftslagsbreytinga.  Marga þeirra má sem sagt kalla "umhverfisflóttamenn", því að ein ástæðan fyrir því, að þeir hafa flosnað upp úr heimkynnum sínum, eru skaðlegar breytingar á lífríkinu í kjölfar loftslagsbreytinga. Það verður enginn friður um það í Evrópu að taka við ógrynni framandi fólks úr frumstæðum heimkynnum, jafnvel í miðaldalegum trúarfjötrum.   

Íslenzku þjóðinni, sem verður æ blandaðri (meiri genafjölbreytni ?), hefur fjölgað vel frá aldamótum.  Nemur fjöldi ríkisborgara hérlendis nú um 350 k (=þúsund) og enn fleiri búa hér, vinna hörðum höndum (þótt einstaka séu afætur) og greiða skatta og skyldur til samfélagsins.  Það eru því fleiri til að standa undir samneyzlunni en áður, en á móti kemur, að ríkisreksturinn og annar opinber rekstur hefur þanizt út til góðs og ills.  Ráðstöfunartekjur almennings hefðu því aðeins aukizt jafnmikið og raun ber vitni um, að hagvöxtur hefur verið mikill, um 7,2 % 2016 og 4,5 % 2017.  

Samhliða útþenslu ríkisbáknsins hefur skattbyrðin aukizt gríðarlega.  Heildarskatttekjur ríkisins sem hlutfall af VLF (vergri landsframleiðslu), að teknu tilliti til greiðslna til almannatrygginga, nema nú 33 %.  Aðeins Danmörk og Svíþjóð búa við hærra hlutfall innan OECD eða 46 % og 34 %.  Meðaltal OECD er aðeins 25 %.  Athygli vekur, að Noregur og Bretland, þar sem samneyzla hefur verið talin töluverð, eru aðeins með 27 %.  

Það, sem er uggvekjandi í þessu sambandi, er, að íslenzka þjóðin er enn tiltölulega ung með um 13 % fólksfjöldans yfir 66 ára aldri, en t.d. Þjóðverjar með um tvöfalt fleiri eldri borgara að tiltölu en Íslendingar, ná að halda téðu skatthlutfalli niðri í 23 %.  Það er alveg ljóst, að það verður meiri háttar verkefni á næstu árum og áratugum að viðhalda hér kaupmætti ráðstöfunartekna, en heildarlaunatekjur landsmanna að meðaltali eru nú hvergi hærri í Evrópu en á Íslandi, nema í Alparíkinu Sviss. Jöfnuður tekna og eigna er jafnframt hvergi meiri í Evrópu.

Til að varðveita eftirsóknarverðan efnahagsstöðugleika og félagslegan stöðugleika (með lóðréttum hreyfanleika á milli stétta) er nauðsynlegt að leggja nú höfuðáherzlu á viðhald kaupmáttar í stað hárra prósentuhækkana á laun, sem aðeins grafa undan velferðinni við núverandi aðstæður, að lækka árleg vaxtagjöld ríkisins um a.m.k. miaISK 40 á kjörtímabilinu, og að auka útflutningstekjur landsmanna um u.þ.b. 50 miaISK/ár.  

Tekjur ríkisins af innheimtu tryggingagjalds árið 2017 námu um miaISK 87.  Þessar ríkistekjur eru meiri en af tekjuskattsinnheimtu af fyrirtækjum og meira en helmingur af tekjuskatti einstaklinga.  Þær eru miklu meiri en þörf er á til að standa straum af þeim útgjöldum ríkisins, sem samsettu tryggingargjaldi er ætlað að fjármagna.  Vegna bágborinnar samkeppnisstöðu margra fyrirtækja, einkum hinna minni með tiltölulega há launaútgjöld af heildarútgjöldum sínum, hefði verið eðlilegt útspil við frágang fjárlaganna í desember 2017 að lækka almenna tryggingargjaldið um 0,5 % og bíða síðan með 0,5 % - 1,0 % frekari lækkun uppi í erminni til að geta greitt fyrir gerð kjarasamninga.

Í merkri baksviðsgrein Morgunblaðsins 26. október 2017, "Skattabylgjan bitnar á fyrirtækjum",

birti Baldur Arnarson viðtal við Ásdísi Kristjánsdóttur, forstöðumann Efnahagssdviðs Samtaka atvinnulífsins-SA, þar sem hún kvað mikið verk óunnið við að vinda ofan af skattahækkunum, sem dembt var yfir þjóð í sárum á árunum eftir Hrun.  Skattkerfið hafi þá "verið gert flóknara og óhagkvæmara fyrir fyrirtækin".  Ásdís kveður "einkenna gott skattkerfi, að það sé einfalt, fyrirsjáanlegt, skilvirkt og gagnsætt".  Þrepskipt skattkerfi og flókið samspil skattheimtu og bótakerfis fullnægir ekki þessum skilyrðum Ásdísar.  Greiðslur almannatrygginga ættu að njóta skattfrelsis, enda eru þær lágmarksgreiðslur. 

"Því [að] háar skattaálögur á fyrirtæki og heimili hafa um leið áhrif á samkeppnishæfni þjóðarbúsins.  Þótt stigin hafi verið mikilvæg skref í rétta átt hér á landi, er þörf á frekari umbótum í skattkerfinu.  Um 240 skattabreytingar frá árinu 2007 endurspegla ekki mikinn fyrirsjáanleika í skattkerfinu.  

Stöðugleiki skiptir miklu máli fyrir íslenzk fyrirtæki sem og heimilin í landinu. Þar er lykilatriði, að hægt sé að ganga að því vísu, að ekki sé ráðizt í miklar breytingar milli kjörtímabila."

"Stjórnvöld geta ekki lengur treyst því, að áfram verði verulegur vöxtur á tekjuhliðinni samfara miklum hagvexti.  Með skattstofna í botni og umsvif ríkisins með því mesta, sem þekkist, er eðlilegt að spyrja, hvaða leiðir á að fara, þegar til bakslags kemur í hagkerfinu."

Með skattheimtu í botni, illu heilli líka á sparnað, sbr illa ígrundaða hækkun fjármagnstekjuskatts, og útgjöld hins opinbera jafnframt í methæðum, munu stjórnvöld standa frammi fyrir tveimur valkostum, þegar slær í baksegl hagkerfisins: annaðhvort að gera sársaukafullan uppskurð á opinberum rekstri, sem þýðir að minnka umsvif hans, eða að hækka álögur enn meir á fyrirtæki og einstaklinga, sem þá þegar eru að draga saman seglin.  Slíkt mun auka atvinnuleysið, dýpka efnahagslægðina og getur skapað langvinna kreppu.  Þetta er hættan við núverandi stefnu í ríkisfjármálum, þegar ríkisútgjöld eru aukin mikið á toppi efnahagssveiflunnar án þess að verja auknum skatttekjum til að lækka ríkisskuldirnar enn hraðar.  Þess vegna er ráðdeild í ríkisrekstri lífsnauðsynleg fyrir lífskjör almennings, og þess vegna voru tillögur stjórnarandstöðunnar um enn meiri aukningu ríkisútgjalda án sparnaðar annars staðar við afgreiðslu fjárlagafrumvarps 2018 í senn óskynsamlegar og óábyrgar og hefðu komið sem bjúgverpill í andlit þeirra, sem sízt skyldi, ef þær hefðu hlotið brautargengi.  Ríkissjóður er ekki góðgerðarstofnun.   

 

   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband