Norðurslóðir, öryggis- og þróunarmál

Það er mikið blaður í undirköflum stjórnarsáttmálans í kaflanum "Alþjóðamál", sem bera heitið "Norðurslóðir og loftslagsmál" og "Öryggis- og þróunarmál".

Í fyrri undirkaflanum er t.d. þessi málsgrein: "Viðkvæmt vistkerfi norðurslóða á að fá að njóta vafans".

Hvað skyldi þetta nú merkja ?  Er stefna ríkisstjórnarinnar sú, að öll vinnsla náttúruauðæfa verði bönnuð þar, þ.m.t. olíu- og gasvinnsla ?  Ætlar ríkisstjórnin þá að draga til baka rannsóknar- og vinnsluleyfi á Drekasvæðinu, sem íslenzk stjórnvöld hafa þegar gefið út ?  Það mun reyndar vera búið að skila til baka mestum hluta leyfanna, og jafnvel Kínverjar meta framtíðina á þessu sviði þannig, að ekki muni borga sig að bora þarna eftir olíu, þótt hún fyndist. Markaðsöflin hafa tekið ómakið af ríkisstjórninni, og þetta síðasta grobbefni "olíumálaráðherrans" fyrrverandi, Össurar Skarphéðinssonar, er nú fyrir borð borið.  

Ríkisstjórnin verður þó að taka efnislega afstöðu.  Umhverfisráðherrann er á móti olíuvinnslu þarna m.a. á þeim hæpnu forsendum, að bann við að dæla upp olíu undan hafsbotni Drekasvæðis minnki framboð á olíu.  Það eru engin rök.  Olíueftirspurnin í heiminum hefur nú þegar náð toppi.  Bandaríkjamenn toppuðu 2005, og orkuskiptin eru nú þegar farin að hafa áhrif á eftirspurnina, svo að verðinu er spáð viðvarandi undir núverandi skammtímatoppi 70 USD/tunnu. Það eru e.t.v. um 10 milljarðar tonna undir botni Drekasvæðis, og slíkt magn má finna annars staðar og dæla því upp með minni tilkostnaði en þarna norður frá.  Í Arabalöndunum er kostnaðurinn aðeins 10 USD/tunnu, en efnahagur þeirra er háður olíuvinnslunni, svo að þau verða að fá á bilinu 40-70 USD fyrir olíutunnuna til að forðast hrun efnahagslífsins.  Þeirra bíður flestra ömurlegt hlutskipti eftir orkuskiptin í heiminum.  

Það eru miklu veigameiri rök gegn olíuvinnslu þarna, að áhætta er tekin með lífríki hafsins.  Mengunarslys gæti jafnvel haft áhrif á lífríkið í íslenzku lögsögunni og hugsanlega skaðað orðspor Íslendinga sem matvælaframleiðenda.  Það eru engin efni hér til að meta þessa áhættu.  Til þess þarf vandaða, tæknilega áhættugreiningu til að komast að líkindunum á mengunarslysi m.v. umfang og reikna þannig hámarkstjón út.  Að slíku loknu er hægt að taka upplýsta ákvörðun, en stjórnvöldum leyfist hvorki að láta skeika að sköpuðu né að koma með sverar yfirlýsingar á valdi tilfinninganna.  Gleymum ekki, að frændur okkar, Norðmenn, hafa lagt fyrir í digran olíusjóð, og við gætum þurft á digrum sjóði að halda vegna loftslagsbreytinga eða náttúruhamfara í framtíðinni.

Það er ekki um neinar smáfjárhæðir til handa íslenzka ríkinu að ræða, ef bjartsýnar spár fyrir hönd fyrrverandi leyfishafa hefðu rætzt, heldur gæti fjárstraumurinn úr olíulindum Drekasvæðis í ríkissjóð numið 40 faldri landsframleiðslu Íslands.  Þess vegna getur enginn ýtt olíuvinnslu út af borðinu í einu vetfangi, heldur verður að bera saman ávinning og áhættu.

Í Noregi er nú talsverð umræða um "Orkusamband Evrópu", sem Evrópusambandið-ESB er að koma á laggirnar og hefur lagt fyrir EFTA-ríkin í EES að innleiða hjá sér.  Í þessu augnamiði hefur verið stofnað til "Orkusamstarfsstofnunar ESB"-"ACER-Agency for the Cooperation of Energy Regulators".  Verið er að stofna útibú frá ACER í hverju landi, sem er óháð stjórndeild innan Orkustofnunar hvers lands, og framkvæmir ákvarðanir, teknar innan ACER, sem hefur endanlegt vald yfir orkuflutningsgeiranum í hverju landi og yfir orkuflutningum á milli ESB-landanna.  Þetta á við rafmagn og gas nú þegar, og mun vafalaust spanna olíu líka. ESB mun ekkert muna um að styrkja sæstrengslögn frá Íslandi til Bretlands/ESB til þess að auka hlutdeild endurnýjanlegrar orku í raforkunotkun sinni.  Hvaða áhrif halda menn, að slíkt muni hafa á raforkuverðið hérlendis og þar með afkomu heimila og fyrirtækja ?

ESB nær með þessu ekki eignarhaldi á orkulindum Noregs og Íslands, hvorki fossum, jarðgufugeymum né gas- og olíulindum, en aftur á móti fær ESB með þessu fullt ráðstöfunarvald yfir allri orku, sem tilbúin er til að fara á markað.  Samkvæmt EES-samninginum verður Ísland að innleiða "Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB" í sitt lagasafn, af því að Sameiginlega EES-nefndin hefur samþykkt, að þessi innleiðing skuli eiga sér stað á Íslandi, í Noregi og Liechtenstein.  Í því felst þó  skýlaust fullveldisafsal íslenzka ríkisins yfir ráðstöfunarrétti "erfðasilfursins", sem nú er rafmagn úr endurnýjanlegum orkulindum að mestu leyti, en gæti í framtíðinni hugsanlega einnig spannað jarðgas og/eða olíu af norðurslóðum.  

Nú ættu Alþingismenn að rísa upp á afturfæturnar og segja: "hingað og ekki lengra". Við munum hvorki samþykkja þingsályktunartillögu eða lagafrumvarp þessa efnis. Komi þá það, sem koma skal.  Þetta mun kalla á kvörtunarbréf frá ESA og kæru á landið til EFTA-dómstólsins.  "So what ?"  Það eru nýir tímar í Evrópu núna með útgöngu Breta úr ESB.  Þeir munu gera fríverzlunarsamning við ESB, og við ættum að geta fengið svipaðan samning bæði við ESB og Breta.  Þá munum við ekki lengur þurfa að taka hér upp um 460 gjörðir á ári frá ESB, sem við höfum engin áhrif haft á á undirbúnings- og ákvarðanastigum máls, og íslenzka ríkið mun þá ekki lengur þurfa að greiða fúlgur fjár til ESB/EES, svo að ekki sé nú minnzt á frjálst flæði fólks. Uppsögn EES-samningsins mun reynast þjóðhagslega hagstæðari kostur en að viðhalda honum.  Hvaða þingmenn munu þekkja sinn vitjunartíma ?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband