Borgarlína er fráleit lausn á umferðarvandanum

Blekbóndi missti neðri kjálkann niður á bringu um daginn, er hann sá eftir borgarstjóranum haft, að losun einnar umferðarteppu með hjálp mislægra  gatnamóta flytji aðeins umferðarvandann að næstu gatnamótum.  Það þætti ekki gott, að læknir segði þetta um kransæðastíflu sjúklings síns, heldur mundi almennilegur læknir snúa sér að því að fjarlægja allar kransæðastíflurnar eða tengja framhjá þeim. Hugmyndafræði borgarstjóra er ógeðfelld blanda af neikvæðni í garð fjölskyldubílsins, hunzun almannahagsmuna (umferðaröryggis og ferðatíma) og ábyrgðarleysis gagnvart ráðstöfun opinbers fjár.

Borgarstjóri Reykjavíkur situr sem steinrunninn með hendur í skauti og þykist hafa fundið snjallari lausn á reglubundnu umferðaröngþveiti á höfuðborgarsvæðinu með Borgarlínu en að greiða leið fjölskyldubílsins.  Þar tekur hann algerlega rangan pól í hæðina og staðfestir þar með, að hann er draumóramaður, en enginn raunsæismaður.  Draumóramaðurinn leitar þó  fulltingis reykvískra kjósenda í vor til að fá að halda áfram með steingeld gæluverkefni sín, en stjórnarhættir draumóramannsins hafa hingað til haft hræðileg áhrif á fjárhagsstöðu borgarinnar, og áframhaldandi hnignun hennar mun leiða til niðurlægingar höfuðborgarinnar á næsta kjörtímabili. Það mun tröllríða fjárhagnum á slig, ef fíflagangur á borð við Borgarlínu verður að raunveruleika á höfuðborgarsvæðinu.  Það verður að gjörbreyta um stefnu í skipulagsmálum borgarinnar og breyta stjórnskipulagi hennar, og þá fyrst mun hagur hennar vænkast.

Skipulagsyfirvöld höfuðborgarsvæðisins eru í klónum á danskri ráðgjafarstofu, Cowi, hverrar umferðarspár og ráðgjöf eru mjög ótrúverðugar.  Væri nær að leita til innlendra umferðarsérfræðinga, sem menntaðir eru erlendis og kunna þess vegna skil á umferðarmænum á borð við Borgarlínu.  Cowi-menn hafa látið frá sér fara endemi á borð við að þvinga fólk úr bílum og í strætó á sérakreinum með vegtollum, hækkun bílastæðagjalda og fækkun bílastæða og mögnun almenns umferðaröngþveitis.  Með slíku og umferðarspám, sem eru algerlega á skjön við staðreyndir frá löndum, þar sem borgarlína hefur verið innleidd, dæmir þessi ráðgjafarstofa sig úr leik, nema í sandkassa draumóranna.

Þórarinn Hjaltason, umferðarverkfræðingur, MBA, sýndi með dæmum erlendis frá, að Borgarlína mun næstum ekkert draga úr bílaumferð á höfuðborgarsvæðinu hérlendis.  Allt fé, sem fjárfest verður í Borgarlínu, verður þess vegna á glæ kastað og mun valda stórtjóni í þokkabót, því að það fé hefði annars verið nýtt í brýnar samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu og vítt og breitt um landið.  Allir raunsæir menn sjá í hendi sér, sbr hér að neðan, að hugmyndir um Borgarlínu eru skýjaborgir draumóramanna, sem rándýrir ráðgjafar styðja við og viðhalda, á meðan þeir geta makað krókinn með fé úr opinberum sjóðum, þar sem í vissum tilvikum er fé án hirðis.

Grein Þórarins Hjaltasonar,

"Áhrif borgarlínu á umferð einkabíla ofmetin",

í Morgunblaðinu 1. febrúar 2018, hófst þannig:

"Samkvæmt skýrslu verkfræðistofunnar Cowi um borgarlínuna (janúar 2017) er skipting á ferðamáta í dag þannig, að hlutur ferða með strætó er 4 %, gangandi og hjólandi 20 % og ferðir með einkabíl 76 %.  Í sömu skýrslu er áætlað, að árið 2040 verði hlutur ferða með strætó 12 %, gangandi og hjólandi 30 % og ferðir með einkabíl 58 %.  Ferðir með einkabíl eiga samkvæmt þessu að minnka um 18 % eða nákvæmlega jafnmikið og áætluð aukning á ferðum gangandi, hjólandi og með strætó."

Þessi áætlanagerð um minnkandi bílaumferð og vaxandi hjólreiðar og gönguferðir samfara vaxandi strætóferðum er alveg út í hött, enda órökstudd og stangast á við reynslu annarra.  Það er stórfurðulegt, að nokkur skuli taka mark á þvílíkri framsetningu.  Aðeins draumóramenn geta talið það koma til greina að hætta einni krónu af opinberu fé í fjárfestingu, sem reist er á kviksyndi á borð við þessa skýrslu.  Áfram með Þórarin:

"Það stenzt engan veginn, að fjölgun ferða með strætó um 8 % leiði til þess, að ferðum með einkabíl fækki um 8 %.  Reynslan sýnir, að þegar farþegum fjölgar með strætó vegna bættrar þjónustu, þá hefur hluti nýrra farþega hjólað eða gengið áður eða þá, að nýir farþegar hefðu hreinlega ekki ferðazt neitt, ef ekki hefði komið til bætt þjónusta strætó.  Með öðrum orðum: nýir farþegar eru ekki eingöngu fyrrverandi bílstjórar eða farþegar í einkabíl."

Cowi-ráðgjafarþjónustunni virðist sem sagt ekki vera treystandi.  Þórarinn Hjaltason bendir síðan á, að þótt farþegi í einkabíl fari að nota strætó, minnkar bílaumferðin ekkert fyrr en bílstjórinn leggur bílnum.  Hann vitnar til reynslu borganna Adelaide, Sydney og Brisbane í Ástralíu af innleiðingu borgarlínu:

"Farþegum með strætó fjölgaði að meðaltali um u.þ.b. 45 % með tilkomu "borgarlínanna".  Fyrrverandi bílstjórar í einkabíl reyndust vera að meðaltali aðeins 25 % af nýjum farþegum með strætó."

Sé áætlun um fjölgun í strætó við tilkomu Borgarlínu samhliða minnkun bílaumferðar, reist á þessum reynslutölum frá Ástralíu, í stað ágizkana frá Cowi til að þóknast draumóramönnum, sem stjórna skipulagsmálum höfuðborgarsvæðisins á Íslandi, þá mun ferðum með strætó fjölga úr 4,0 % í 5,8 %, og bílum í umferðinni mun fækka um tæplega 0,5 %, úr 76,0 % í 75,5 %, en ekki niður í 58 %, eins og ráðgjafar Cowi slá fram út í loftið. Gangandi og hjólandi fækkar úr 20,0 % í 18,7 %.   

Þessi minnkun bílaumferðar verður ekki merkjanleg á götunum, sem sannar fullyrðinguna hér að framan, að Borgarlínan mun nánast ekkert draga úr bílaumferð á höfuðborgarsvæðinu, og ferðahlutdeild strætó mun ekki þrefaldast með tilkomu hennar, heldur vaxa um 45 %, og hún verður rekin með dúndrandi tapi, margföldu núverandi tapi, því að nýting vagnanna mun enn versna.  Borgarlína eru drómórar einir og mun reynast verða fjárhagslegt kviksyndi.  Það var frumhlaup hjá núverandi ríkisstjórnarflokkum að lýsa yfir stuðningi við þetta verkefni.  Alþingi ber að styðja betur fjárhagslega við bakið á Vegagerðinni og láta óvandaðan undirbúning skipulagsyfirvalda höfuðborgarsvæðisins lönd og leið.    

 

 

   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Meirihluti sveitarstjórnarmanna á höfuðborgarsvæðinu er fylgjandi Borgarlínunni, þar á meðal fjölmargir sjálfstæðismenn.

En öfgahægrikarlar keppast við að lýsa andúð sinni á henni, sem kemur engum á óvart.

Og það gildir einnig til að mynda um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.

Þorsteinn Briem, 18.2.2018 kl. 00:14

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Bjarni

Það urðu fleiri hissa á ummælum borgarstjóra. En hvað gera menn ekki þegar þeir komast í rökþrot? Jú, þeir leggja fram svo fávitaleg rök að fólk verður kjaft stopp. Það er ekki með neinu móti hægt að rökræða við menn sem halda uppi slíkum ummælum sem borgarstjóri gerir. Ekki hægt að rökræða við hálfvita!

Um kostnaðarhlið þessa gæluverkefnis má segja hið sama. Ef borgarstjóri hefur eitthvað milli eyrnanna, sem verður að gera ráð fyrir, veit hann að sjóðir borgarinnar eru svo illa staddir að þangað verður ekki sótt fé til þessa gæluverkefnis. Það mun koma úr sameiginlegum sjóðum þjóðarinnar. Því hefur borgarstjóri litlar áhyggjur af fjármögnun þess!

Staðhæfingar í Cowi skýrslunni um hvernig fólk muni ferðast um borgarlandið, eftir rúm 20 ár, eru vægast sagt undarlegar og ljóst að þar er um pantaða niðurstöðu að ræða. Forsendur verkefnisins byggja auðvitað á því að hægt sé að sýna fram á fjölgun þeirra sem nýta almenningsferðir og fækkun þeirra sem ferðast á eigin bíl. Allir vita að borgarlínan mun tæplega fjölga þeim er ferðast með almenningssamgöngum upp í 12%. Þarna teygja skýrsluhöfundar sig lengra en góðu hófi gegnir og með því ásamt því að vera nokkuð ríflegir í áætlunum um fjölgum íbúa, ná þeir að gera borgarlínu að viðunandi kosti til skoðunar. En þetta dugir ekki til og því þarf að áætla verulega minni notkunar einkabílsins. Til þess er búin til sú undarlega áætlun að 30% borgarbúa muni ferðast fótgangandi eða á reiðhjóli! Þvílík firra! Allt er þetta gert til að fá "rétta" niðurstöðu.

Við sem tölum gegn borgarlínu höfum verið nefndir "andstæðingar almenningssamgangna". Engan hef ég þó heyrt tala um að leggja þær niður eða skerða á nokkurn hátt, þvert á móti nefna flestir að þær þurfi að afla, í takt við fjölgun íbúa. Talsmenn borgarlínunnar fara hins vegar ekkert dult með andúð sína á einkabílnum. Auðvitað fer saman efling almenningssamgangna og greiðari umferð einkabíla, með því einu að efla gatnakerfið. Mislæg gatnamót á erfiðustu gatnamótin mun gera alla umferð léttari og greiðari, líka umferð strætisvagna. Aukreitis gefur það þá aukaafurð að mengun minnkar verulega.

Að ætla að sækja í sjóði ríkisins fjármagn sem nemur a.m.k. fjögurra ára vegafé, sem ætlað er til alls vegakerfis landsins, til verkefnis fyrir örfá prósent þjóðarinnar, er galið, bókstaflega galið! Engum dettur í hug að fara að leggja 70 milljarða til uppbyggingar vegakerfis Vestfjarða, jafnvel þó ekki væri vanþörf á. Íbúafjöldi þar er nærri því að vera sá sami og áætlanir eru um fjölgun þeirra sem með borgarlínu muni ferðast! Víst er að 70 milljörðunum yrði þó betur varið til Vestfirðinga og landsmenn alla. Að ekki sé talað um eina af undurstöðu atvinnugreinum þjóðarinnar, ferðamennsku!!

Það er sama hvar litið er á borgarlínu drauminn, hann er gjörsamlega út í hött. Það gleður þó að fáir tala lengur um lestar í þessu sambandi, eru búnir að þrepa sig niður í vagna á gúmmíhjólum, þ.e. strætisvagna sömu gerðar og nú aka um borgina. Kannski er andstaðan eitthvað farin að skila sér.

Það vantar þó að fá upp afstöðu landsstjórnarinnar varðandi verkefnið. Er fjármálaráðherra tilbúinn að taka +70 milljarða úr ríkissjóði til þess?

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 18.2.2018 kl. 09:18

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það er ljóta "hundalógíkin" sem jafnan vellur út úr því heimatrúboði ESB, sem kallar sig Steina Briem.  Nú á að vera ástæða til að láta gagnrýni á Borgarlínuna eiga sig, því að "meirihluti sveitarstjórnarmanna á höfuðborgarsvæðinu er fylgjandi Borgarlínunni, þar á meðal fjölmargir sjálfstæðismenn".  Eins og ég lít á málið, er því meiri ástæða til harðrar gagnrýni, þeim mun fleiri sem aðhyllast heimskulega hugmynd á röngum forsendum.

Bjarni Jónsson, 18.2.2018 kl. 10:23

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Gunnar Heiðarsson;

Hugmyndin um Borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu á Íslandi er gott dæmi um innflutning "amatöra" á erlendri hugmynd, sem þeir reyna að planta niður við aðstæður, sem henta ekki hugmyndinni.  Þegar "amatörarnir" þar að auki eru dómgreindarlitlir, hafa þeir enga burði til framhaldsvinnunnar, þ.e. að greina stöðuna, og eru þess vegna hættulegir umhverfinu, því að þeir stöðvast ekki fyrr en þeir eru komnir út í kviksyndið.  

Bjarni Jónsson, 18.2.2018 kl. 10:31

5 Smámynd: Guðmundur Böðvarsson

Sem fyrrverandi strætóbílstjóri þekki ég vel draumórana um að hinir noti strætó, en það hentar mér ekki þar sem ég þarf að koma við á nokkrum stöðum, á jeppanum, og það allt. Ég kalla þá góða að fjölga farþegum um 1-2%. Minna má það ekki vera fyrir 100 milljarða...

Guðmundur Böðvarsson, 18.2.2018 kl. 13:24

6 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Ég er kannski ekki maðurinn til að gagnrýna orðfæri manna en mér finnst þessi fyrirsögn alls ekki eiga við um efni greinarinnar. 

Fráleit lausn á umferðavanda er samt lausn ekki satt, en þessi borgarílna leysir ekki neitt. Hún þvert á móti eykur á umferðarvandann, vegna þessa með því að loka vegum fyrir umferð 75%(einkabílum)sem fyrirsjáanlega mun aukast eða í það minnsta ekki minka og opna betur fyrir umferð 5% (strætó) sem fyrirsjáanlega mun aldrei aukast nema í 10-15% er útilokað annað en að "lausnin" borgalína sé í reynd vandamál sem mun auka á umferðarvandann í höfuðborginni jafnvel þó heildarumferðin minki. Þessir cowi menn eru ekki ráðgjafar fyrir fimmaura, frekar sölumenn eða bar hefðbundnir vitleysingar.

Guðmundur Jónsson, 18.2.2018 kl. 15:47

7 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ég er sammála þér, Guðmundur, um, að Borgarlína mundi magna umferðarteppurnar, auka mengun og slysahættu og sem sagt stórauka ferðakostnaðinn fyrir þorra fólks.  Hún er neikvæð lausn, sbr mínustölurnar, þ.e. verri aðgerð en engin aðgerð.

Þetta hlýtur að renna upp fyrir þorra sveitarstjórnarmanna, þegar viðfangsefnið verður krufið til mergjar.  Hún er engan veginn lausn á vandanum, sem nú blasir við, hvað sem síðar kann að verða.  Að taka land frá fyrir hana getur verið meinlítið, því að þar má þá væntanlega leggja greiðfærar akbrautir, þar til langir liðvagnar leysa málið betur en fjölskyldubíllinn, sjálfakandi apparat eða eitthvað allt annað að beztu manna yfirsýn.

Bjarni Jónsson, 18.2.2018 kl. 20:49

8 Smámynd: Elías B Elíasson

Sæll Bjarni. Því miður, þá hefu þróun höfuðborgarsvæðisins verið með þeim hætti, að fljótlega þarf að setja upp öflugra samgönguukerfi en við höfum og setja undir það forgangsakreinar á vissum svæðum. Fyrst og fremmst þarf betri tengingar milli Reykjavíkur og grannbæjanna. Þetta er dýrt og þarf að huga að lausnum bæði á sviði almenningssamgangna og skipulags til að seinka þessu og draga úr kostnaði. Það sorglega er, að borgarstjórn Reykjavíkur undir vinstri forystu hefur ákveðið stefna að þessu eins fljótt og hægt er með því í fyrsta lagi, að draga umferðabætandi ráðstafanir úr hömlu og auka með því vandann jafnframt því sem skipulaginu er breytt svo Borgarlína er eina mögulega lausnin. Jafnframt virðist borgarstjórin vilja nota sér þetta ástand til að fá opinbera fjármögnun á samskonar kerfi innanbæjar.  Þessi viðbrögð þeirra hafa þegar kostað almenning ótrúlegar upphæðir. Grannbæirnir vilja auðvitað koma sínu fólki til vinnu á morgnanna og heim aftur á kvöldin, en ég held að þeir geri ekki kröfu um þann flottræfilshátt sem Dagur vill og séu líka opnir fyrir öðrum lausnum.

Elías B Elíasson, 18.2.2018 kl. 22:00

9 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll Elías;

Viðfangsefnið er mikilvægt.  Á þessari öld gæti ferðatíminn eingöngu vegna umferðartafa hafa lengzt um 20 mínútur hvern vinnudag á höfuðborgarsvæðinu.  Lauslega áætlað kostar það samfélagið 20 miaISK/ár, og er sú tala í samræmi við bandaríska áætlun, sem niðurreiknuð eftir íbúafjölda gaf 50 miaISK/ár.  Athyglisvert er, að með nokkrum vel völdum aðgerðum má ná þessum viðbótartöfum til baka fyrir 20-30 miaISK á 10 árum.  Sú ráðstöfun glóir sem gull af eiri í samanburði við það að setja a.m.k. miaISK 70 á 20 árum í aðgerð, sem bætir stöðu örfárra.   

Bjarni Jónsson, 19.2.2018 kl. 10:20

10 Smámynd: Elías B Elíasson

Ég efa að við náum öllu til baka. Þegar svo er komið sem hér, að umferðatafir eru orðnar verulegar er yfirleitt lítið annað að gera en halda í horfinu. En það má reyna að koma einhverri skynsemi í málið.

Elías B Elíasson, 20.2.2018 kl. 14:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband