23.2.2018 | 11:28
Hvað er Orkusamband ESB ?
Myndun Innri markaðar ESB snýst að miklu leyti um að semja sameiginlegar, yfirþjóðlegar reglur fyrir mismunandi svið á markaðinum. Nýjasta sviðið þar er orka, fyrst um sinn raforka og eldsneytisgas. Ætlun ESB er að skapa fimmta frelsið, frjálst flæði orku þvert á landamæri. Grunnforsenda framkvæmdastjórnarinnar er, að sameiginlegar reglur séu í allra hag, en það er ofeinföldun á veruleikanum. EFTA-ríkin tvö, Noregur og Ísland, geta farið flatt á því að ganga í Orkusamband ESB vegna gjörólíkra aðstæðna og hagsmuna á þessum Norðurlöndum m.v. ESB-löndin.
Forgangsmál stjórnvalda í einstökum ríkjum um ráðstöfun orkunnar og stjórnvaldsákvarðanir í einstökum löndum um orkumál lítur framkvæmdastjórn ESB á sem hindranir fyrir frjálst flæði, sem séu samkeppnishamlandi og beri þess vegna að afnema. Með Orkustofnun ESB, ACER (Agency for the Coordination og Energy Regulators), eru "búrókrötum" fengin tól í hendurnar til að koma böndum á sjálfstæða stefnumörkun hvers aðildarlands í orkumálum. Að sjálfsögðu þýðir það jafnframt valdaafsal stjórnvalda hvers lands á sviði orkumála, í fyrstu umferð varðandi ráðstöfun raforku og eldsneytisgass.
Þetta fyrirkomulag stingur illilega í stúf við hefðbundin sjónarmið á Íslandi og í Noregi, þar sem jafnan hefur verið litið á afurðir vatnsfallanna og jarðgufunnar sem tæki til að bæta og jafna lífsskilyrði landsmanna í dreifðum byggðum landanna. Þetta sjónarmið verður algerlega undir, ef Alþingismenn samþykkja í vor innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á Íslandi.
Höfundar Orkustefnu ESB horfa reyndar framhjá því, að á orkumörkuðum EES ríkja miklir hagsmunaárekstrar. Stór og lítil lönd hafa ólíkra hagsmuna að gæta og sömuleiðis litlir og stórir þátttakendur á markaðinum; það eru andstæður á milli innflutnings- og útflutningslanda á orku, og hagur einstakra þátttakenda (fyrirtækja) er ekki endilega í samræmi við hag samfélagsins o.s.frv.
Í ESB-kerfinu er reynt að breiða yfir og jafna þessar andstæður með tilskipunum og lögum, sem öll aðildarlöndin eru skuldbundin að fylgja. Hér á landi, í Noregi og Liechtenstein, ríkja varnaglar frá upphaflegri gerð EES-samningsins, því að annars væru þessi ríki væntanlega gengin í ESB. Það er hlutverk Alþingis og stjórnmálaflokkanna að meta, hvort gjörningar ESB, sem sameiginlega EES-nefndin hefur úrskurðað, að spanna skuli EFTA-löndin í EES, þjóni hagsmunum íslenzku þjóðarinnar. Ef gjörningarnir þjóna ekki hagsmunum Íslendinga að mati þingmanna, hefur Alþingi rétt á að hafna gjörningunum samkvæmt upphaflega EES-samninginum. Hér má geta þess, að þrefað hefur verið um Orkustefnu ESB í sameiginlegu EES-nefndinni a.m.k. síðan 2011, en nú hefur ESB aftekið með öllu að veita EFTA-ríkjunum undanþágu eða sérmeðferð og einnig hafnað aðild þeirra með atkvæðisrétti að ACER-Orkustofnun ESB. Er þetta til vitnis um einstrengingslegra viðhorf til EFTA-ríkjanna, eftir að Bretar urðu valdalitlir í ESB, og eftir því sem samrunaferli ESB vindur fram á grundvelli "stjórnarskráarinnar", Lissabon-sáttmálans.
Framkvæmdastjórn ESB er mjög umhugað, að reglurnar fyrir sameiginlegan orkumarkað séu kallaðar Orkusamband ESB. Ætlunin er, að orkusambandið sjái "borgurum og fyrirtækjum Evrópu fyrir öruggri, samkeppnishæfri og sjálfbærri orku". Í Berlaymont (höfuðstöðvum ESB) er líka rætt um Orkusambandið sem brautryðjanda að markmiðum um hreina orku, um aukna hlutdeild endurnýjanlegrar orku, minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda og um bætta orkunýtni. Undir þessum merkjum er farið fram með Þriðja orkumarkaðslagabálkinn, og sem slíkan sakleysingja hafa íslenzkir og norskir embættismenn og stjórnmálamenn í Noregi reynt að kynna hann. Þar er þó flagð undir fögru skinni, sem ásælist "græna orku" Norðurlandanna tveggja, án þess að notkun norræns rafmagns á meginlandi Evrópu breyti nokkru um heildarlosun gróðurhúsalofttegunda. Miklu frekar felst orkusóun í að senda rafmagn langar leiðir með miklum orkutöpum í stað þess að nýta það sem næst orkulindinni.
Markmið ESB á orkusviðinu eru, að fyrir 2020 á endurnýjanleg orka að nema 20 % af heildarorkunotkun ESB, losun gróðurhúsalofttegunda á að minnka um 20 % m.v. 1990, og orkunýtnina á að bæta um 20 % m.v. 1990. Árið 2030 er markmiðið, að losunin verði 40 % minni en á viðmiðunarárinu, og hlutdeild endurnýjanlegrar orku verði 27 % og nýtnin hafa batnað um 27 %. Árið 2050 á losun gróðurhúsalofttegunda að verða 80 % - 95 % minni en 1990. Forkólfar ESB eru að fyllast örvæntingu yfir, hversu erfiðlega ætlar að ganga að ná þessum markmiðum og munu ekkert gefa eftir í samningum við EFTA um haldreipi sitt, ACER. Íslendingar og Norðmenn verða þess vegna einfaldlega að láta steyta á þessu máli í samskiptum EFTA og ESB.
Á þessari stundu er erfitt að gera sér grein fyrir, hvað verður úr Orkusambandinu, og þess vegna ber að gjalda enn meiri varhug við því. Það er sem sagt ekki fyrir hendi neitt afmarkað og skilgreint Orkusamband, sem hægt er að taka afstöðu til. Um jafnræðisaðild fyrir EFTA-land er ekki að ræða, heldur er ætlazt til að hálfu ESB, að EFTA-ríkin í EES færi ESB á silfurdiski völd yfir flutningskerfum sínum fyrir jarðgas og rafmagn og ráðstöfunarrétt á orkunni inn á sameiginlegan EES-markað. Þetta er sambærileg kröfuharka og í aðildarviðræðum Íslands við ESB, þar sem krafizt var opnunar landhelginnar, og þó verri, því að hér vill ESB eftirlitið líka, þ.e. Landhelgisgæzluna. Þegar svona er komið, er vart annað fyrir lítið land að gera en að slíta sambandinu. "Far vel, Franz."
Tilskipanir og lög um Orkusambandið munu streyma frá ESB, eftir að þjóðþing EFTA-ríkjanna hafa samþykkt innleiðinguna, eða hafnað henni, og þetta fyrirkomulag er auðvitað óboðlegt fullvalda þjóð. Ef þingmenn á Alþingi og á norska Stórþinginu ætla að halda stjórnarskrár landa sinna í heiðri, og þeim ber skylda til þess, þá hafna þeir lögleiðingu á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum. Til þess hafa þeir líka rétt samkvæmt ákvæðum um neitunarvald í upphaflega EES-samninginum.
Téður orkubálkur var samþykktur af ráðherraráði og þingi ESB árið 2009, og hann hefur gilt í öllum ESB-ríkjunum frá 2011, þegar Orkustofnun ESB, ACER, tók til starfa. Hún vinnur að styrkingu flutningskerfa landanna fyrir raforku og jarðgas. Aðallega er þar um að ræða að hvetja til, að reistar verði loftlínur, lagðir jarðstrengir, sæstrengir eða gasrör með fylgibúnaði til að efla orkuflutninga á milli landa og útrýma flöskuhálsum í þeim efnum. Ætlunin er, að EES-ríkin verði nægilega vel samtengd til að orkuverðið geti orðið mjög svipað í öllum löndunum. Þetta stefnumið er mjög óhagfellt Íslendingum og Norðmönnum.
ACER heldur skrá um fjöldamörg verkefni, sem eru í gangi, í undirbúningi eða í athugun (under consideration). Í síðasta hópinum er sæstrengur, sem hefur hlotið verkheitið Ice Link og á að liggja á milli Íslands og Bretlands. Samkvæmt skránni er kostnaðar- og arðsemisathugun lokið, gangsetning fyrirhuguð 2027, og aðstandendur verkefnisins eru þar nefndir Landsnet, Landsvirkjun og National Grid Interconnector Holdings Ltd. Af þessum gögnum ACER má ráða, að stofnunin muni ekki hika við að beita sér fyrir því, að þessu verkefni verði hrint af stokkunum, komist hún í aðstöðu til þess. Hér skal fullyrða, að það er enginn meirihluti fyrir því í landinu, að ACER komist í þessa aðstöðu. Það er hollt fyrir Alþingismenn að hugleiða þessa stöðu.
Þá munu þeir gera sér grein fyrir því, að með því að leiða ACER til valda yfir orkumálum á Íslandi, eru þeir um leið að greiða leið fyrir tengingu raforkukerfis Íslands við raforkukerfi ESB um Bretland.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Evrópumál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Gerir ríksisstjórnin sér ekki grein fyrir þessu?
Emil Þór Emilsson, 23.2.2018 kl. 12:25
Góð spurning, Emil Þór. Ég get ekki svarað fyrir ríkisstjórnina, en ég tel, að sumir ráðherranna hafi nú þegar meðtekið, hvað Orkusamband ESB snýst um, og hvað innganga Íslands í það mundi hafa í för með sér. Þannig er mál með vexti, að norska Stórþingið fjallar þessar vikurnar um þetta mál og á að afgreiða það, samþykkja eða hafna, 16. marz 2018. Það er hugsanlegt, að ríkisstjórnin bíði átekta eftir lyktum málsins í Stórþinginu. Í Stórþinginu eru flestir stjórnarandstöðuflokkarnir á móti, og vaxandi hluti Verkamannaflokksins er á móti, svo að málið kann að falla í Stórþinginu. Þá finnst mér ólíklegt, að ríkisstjórnin leggi málið fyrir Alþingi að svo stöddu. Samþykki Stórþingið, verður samt að berjast áfram gegn þessu máli hérlendis.
Bjarni Jónsson, 23.2.2018 kl. 14:07
Bjarni, er Noregur ekki þegar með orku-sæstreng til ESB?
Kolbrún Hilmars, 23.2.2018 kl. 16:57
Jú, hárrétt, Kolbrún. Statnett (norska Landsnet) á og rekur 4 sæstrengi til Danmerkur og einn til Hollands. Auk þess er Statnett með í undirbúningi einn sæstreng til Bretlands og annan til Þýzkalands. Norðmenn eru aðilar að hinum sameiginlega raforkumarkaði Norðurlandanna og Eystrasaltslandanna, Nord Pool. Hér taka Norðmenn hins vegar þátt á jafningjagrunni og ráða sjálfir fjárfestingum í sæstrengjunum, hvernig þeir eru reknir, og hvernig orkuviðskiptunum er háttað.
Ef ACER yfirtekur orkuflutningsmál Norðmanna, fara öll þessi mál úr þeirra höndum, ACER mun ráða fjárfestingum og rekstri, og Noregur fer á sameiginlegan raforkumarkað ESB, þar sem hæstbjóðandi fær einfaldlega þá raforku, sem á boðstólum er í Noregi. Þetta þýðir, að raforkuverð í Noregi mun nálgast sama raforkuverð og tíðkast í ESB, sem þýðir mikla hækkun til norsks almennings.
Bjarni Jónsson, 23.2.2018 kl. 18:36
Þá verða heimatökin hæg hjá ACER hvað varðar Noreg. Við hér uppi erum þó enn með einangrað og lokað kerfi.
Kolbrún Hilmars, 24.2.2018 kl. 16:38
Það er rétt, Kolbrún, en er skammgóður vermir. ACER er búin að setja Ice Link, eins og stofnunin kallar sæstreng á milli Íslands og Bretlands, á skrá sína um forgangsverkefni samtenginga landa á milli. Ef Alþingi samþykkir að fella Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB inn í EES-samninginn, þá hefur ACER það í hendi sér að skipa Landsneti og National Grid á Bretlandi að hefja undirbúning þessa strengs. ACER úrskurðar um kostnaðarskiptinguna, ef téð raforkuflutningsfyrirtæki koma sér ekki saman um hana. ACER hefur gert gangsetningu þessa sæstrengs árið 2027 að markmiði sínu. Raforkukerfi Íslands verður þá ekki lengur einangrað. Kostnaður við flutningskerfið innanlands að strengnum mun valda hækkun flutningsgjalds hjá notendum innanlands, og orkuverð frá virkjun mun vafalaust hækka líka.
Við sjáum í hnotskurn, að auknir raforkuflutningar á milli landa eru þeim í óhag, sem búa við tiltölulega lágt rafmagnsverð.
Bjarni Jónsson, 24.2.2018 kl. 20:48
Það er augljóst að það verður flutningskerfi raforkunnar sem verður þungur baggi á heimilunum. ON/Veitur sundurliðar reikninga sína og amk á mínum reikningi er flutningskostnaður (innanlands) nú rúmlega 34% af heildarrafmagnsreikningnum. Hjálpi mér ef í greiðslunni á að felast flutningskostnaður fyrst yfir hafið og svo til baka. Og hvernig fer fyrir þeim sem þurfa raforku til húshitunar?
Kolbrún Hilmars, 25.2.2018 kl. 15:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.