12.4.2018 | 18:50
Yfirlýsing frá Noregi
Málflutningur íslenzka utanríkisráðuneytisins í s.k. ACER-máli, sem fjallar um afstöðuna til inngöngu Íslands í Orkusamband ESB, hefur vakið hneykslun hér heima og í Noregi. Hér er átt við það, sem haft er eftir fulltrúum utanríkisráðuneytisins í fréttaskýringu Viðskiptablaðsins 28. marz 2018 í fréttaskýringunni:
"Mikilsverðir orkuhagsmunir ekki í húfi". Að rakalausum málflutningi um tjón, sem Íslendingar gætu bakað Norðmönnum með höfnun Alþingis á innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn, er vikið í yfirlýsingu Trúnaðarráðs norsku samtakanna "Nei til EU", dags. 08.04.2018. Hér er þýðing höfundar á tveimur af 9 greinum yfirlýsingarinnar, en hún er í heild sinni á norsku í viðhengi með þessari vefgrein:
"Norsk yfirvöld, höll undir ESB, hafa vanizt því að fá vilja sínum framgengt sem "stóri bróðir" í EES-samstarfinu. Erna Solberg, forsætisráðherra, fullyrðir, að orkustofnunin ACER "sé ekki mikilvæg" fyrir Ísland, því að landið hefur enn ekki verið tengt evrópska orkumarkaðinum, eins og Noregur. Á milli línanna gefur hún til kynna, að hún ætlast til, að Ísland muni láta undan norskri kröfugerð í samningum um að innleiða orkubálkinn.
Íslenzk synjun mun ekki hafa í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir Ísland eða Noreg. ESB getur í mesta lagi ógilt hluta af viðhengi 4 í EES-samninginum, sem fjallar um orku, og slíkt þjónar ekki hagsmunum ESB. Þvert á móti mun íslenzk synjun beinlínis verða til stuðnings þjóðarhagsmunum Noregs. Baráttan gegn ACER hefur verið einkar öflug á meðal starfsmanna norsks orkusækins iðnaðar, sem bera ugg í brjósti um störf sín og stöðvun á starfsemi, ef rafmagnsverð nálgast það, sem tíðkast í ESB.
Miklu máli skiptir, að allir átti sig á alvarlegum afleiðingum þess að samþykkja innleiðingu á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum, þótt raforkukerfi landsins sé ótengt við raforkukerfi ESB. Í yfirlýsingu norsku samtakanna "Nei til EU" um tilraun norskra stjórnvalda til að hafa áhrif á stjórnmál Íslands í ACER-málinu, sem Alþingi á eftir að fjalla um, kemur skýrt fram, að Ísland mun alls ekki bera hagsmuni norsku þjóðarinnar fyrir borð með synjun á ACER-löggjöfinni, sem þá um leið jafngildir höfnun EFTA á þessari ESB-samruna löggjöf. Þvert á móti mun mikill meirihluti norsku þjóðarinnar fagna synjun Alþingis. Það er hið eina, sem máli skiptir fyrir hina norsku hlið á þessu máli Íslendinga.
Misskilnings gætir um það, hvenær valdframsals íslenzka ríkisins tæki að gæta hér á landi til ACER. Þá er ruglað saman völdum til ákvarðanatöku um málefni innlendra raforkuflutningsmála og áhrifum hins sameiginlega raforkumarkaðar ESB á íslenzka raforkumarkaðinn. Síðar nefndu áhrifin koma vitaskuld ekki fram fyrr en við gangsetningu aflsæstrengs til útlanda. Kryfjum hins vegar eina hlið á áhrifum valdframsalsins:
ESB hefur samið kerfisþróunaráætlun fyrir raforkukerfi EES. Þar er Ice Link örlítill hluti. Með því að samþykkja innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB inn í EES-samninginn, mundi Alþingi skuldbinda sig til að styðja við framkvæmd þessarar kerfisþróunaráætlunar að sínu leyti. Eftir téða samþykkt, verður fyrsta verk ACER hér á landi að stofnsetja útibú sitt, sem samkvæmt þriðja orkubálki ESB fær í hendur bæði reglugerðar- og eftirlitshlutverk með Landsneti. Í fyllingu tímans koma fyrirmæli frá ACER um stimpilstofnunina ESA þess efnis að semja tæknilega og viðskiptalega skilmála fyrir lagningu, tengingu og rekstur Ice Link. Þegar þeir eru tilbúnir, verður stofnað félag um Ice Link, sem semur og sendir umsókn um lagningarleyfi, tengileyfi og rekstrarleyfi fyrir Ice Link til Orkustofnunar, OS, þess hluta hennar, sem verður undir íslenzkum yfirvöldum.
Verður OS stætt á að hafna umsókn eiganda sæstrengsverkefnis, ef hann uppfyllir alla skilmála ? Það skortir allar lagalegar forsendur fyrir slíkri höfnun. ESB mun strax saka íslenzk stjórnvöld um samningsrof (EES-samningurinn) og ágreiningsmálið væntanlega fara sína leið um ESA til EFTA-dómstólsins í Lúxemborg. Dómstóllinn mun vafalaust dæma í samræmi við skuldbindingar í EES-samninginum. Þar með verður eiganda sæstrengsins veitt leyfi til að leggja hann, tengja og reka, jafnvel í blóra við vilja íslenzkra stjórnvalda.
Í kjölfarið munu áhrifin af strengnum á raforkukerfið og á hagkerfið koma í ljós. Raforkureikningurinn mun hækka um á að gizka 75 %, sem leiða mun til meiri ásóknar í virkjanaleyfi, verri samkeppnisstöðu fyrirtækja, minni spurnar eftir vinnuafli og rýrnandi lífskjara. Miklar sveiflur verða á rennsli virkjaðra vatnsfalla, enda verða virkjanir þandar á fullu álagi á daginn og reknar á sáralitlu álagi á nóttunni, þegar raforka verður flutt inn.
Það er ekki spáð svo háu raforkuverði í Evrópu, að gróði verði mikill af þessum raforkuviðskiptum, en ESB fær með þessu aukna hlutdeild endurnýjanlegra orkulinda í sinn hlut. Botninn getur svo skyndilega dottið úr þessum viðskiptum, ef/þegar tækninýjungar gera ESB-ríkjunum kleift að leysa kolakynt orkuver sín af hólmi með áhættulitlum, kolefnisfríum orkuverum, t.d. þóríum-verum. Þá sitja landsmenn uppi með ónýtanlegar, miklar fjárfestingar, sem geta ógnað fjármálastöðugleika hérlendis, .
ACER-málið er sýnidæmi um stórvægilega galla EES-samningsins:
- hann líður fyrir vaxandi ójafnræði á milli EFTA og ESB. Samkomulags er ekki lengur freistað í Sameiginlegu EES-nefndinni, þ.e. ekkert svigrúm er lengur veitt að hálfu ESB fyrir sáttaferli á milli EFTA/ESB.
- hann er ógagnsær og þróun hans er ófyrirsjáanleg. EFTA-ríkin vita ekki, hvað þau samþykkja, því að breytingar og viðbætur eru tíðar. T.d. er í bígerð 1000 blaðsíðna viðbót við Þriðja orkumarkaðslagabálkinn, sem væntanlega verður kallaður Fjórði orkumarkaðslagabálkurinn. Þetta verður sagan endalausa.
- dómsvaldið er framselt úr landi varðandi öll ágreiningsatriði, þar sem ACER eða útibú þess lenda í ágreiningi hérlendis.
- framkvæmdavaldið er framselt úr landi, því að útibú ACER á Íslandi verður í gjörðum sínum óháð íslenzka framkvæmdavaldinu (sem og dómsvaldinu). Útibúið tekur aðeins við fyrirmælum frá ACER. Það er hvorki stjórnlagalegt né siðferðislegt haldreipi fólgið í því að láta ESA afrita þessi fyrirmæli og senda áfram, enda hafa ESA ekki verið veitt nein völd til að breyta ákvörðunum ACER.
- ákvarðanir ESB verða bindandi fyrir einstaklinga, fyrirtæki og ríkið, því að útibú ACER á Íslandi mun hafa síðasta orðið um flutningsgjald Landsnets, og ákvarðanir í þágu sæstrengsins munu óhjákvæmilega varpast yfir í gjaldskrá Landsnets.
Til að tveggja stoða kerfið verði virt, þarf að stofna sams konar stofnun EFTA-megin. Fyrir því er pólitískur vilji hvorki í ESB né í EFTA. Án tveggja stoða kerfisins verður bráðlega gengið af EES-samstarfinu dauðu.
Hver og einn þessara 5 ásteytingarsteina EES-samningsins við Stjórnarskrá lýðveldisins er alvarlegur, en þegar þeir koma allir saman, mynda þeir frágangssök fyrir þetta fyrirkomulag. Það er affarasælast fyrir utanríkisráðuneytið að viðurkenna staðreyndir og að hefja þegar í stað undirbúning að því að finna eðlilega valkosti fyrir landið við EES-samninginn. Hann ber dauðann í sér. Í þessu skyni er t.d. hægt að fara í smiðju til norska Stórþingsmannsins Sigbjörn Gjelsvik, sem hefur ritað yfirgripsmikla skýrslu um þetta efni. Gjelsvik er væntanlegur til landsins 16.04.2018.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Mikið rýkur nú moldin í logninu, hefði hún amma mín á Baldursgötunni sagt.
"Nei til EU" er að sjálfsögðu ekki norska þingið og andstæðingar aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu eru heldur ekki Alþingi, sem ræður að sjálfsögðu hvort Ísland tengist Bretlandi eða meginlandi Evrópu með sæstreng.
Evrópusambandsríkin geta ekki skipað einhverjum að virkja eitt og annað hér á Íslandi eða að leggja sæstreng á milli Íslands og Bretlands eða meginlands Evrópu.
Þorsteinn Briem, 12.4.2018 kl. 19:30
Á Alþingi 22.3.2018 (eftir landsfund Sjálfstæðisflokksins):
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins sagði að "boðvald fyrirhugaðrar eftirlitsstofnunar virkjaðist ekki fyrr en Ísland tengdist evrópska orkumarkaðinum, líkt og yrði með sæstreng, eins og Noregur gerði.
Spurður hvort Sjálfstæðisflokkurinn styddi aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið sagði Bjarni svo vitanlega vera."
Þorsteinn Briem, 12.4.2018 kl. 19:32
Nefndarálit meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis um aðild Íslands að Evrópusambandinu:
"Nefndin skoðaði ítarlega þau álitaefni er lúta að vatns- og orkuauðlindum, enda er þar um að ræða grundvallarþætti í auðlindanýtingu á Íslandi.
Meirihlutinn leggur áherslu á að við þessa ítarlegu skoðun kom ekkert fram sem gefur ástæðu til að ætla að aðild að Evrópusambandinu hefði áhrif á íslenska hagsmuni á þessum sviðum og bendir í því sambandi einnig á að fyrirkomulag eignarhalds náttúruauðlinda er ekki viðfangsefni Evrópusambandsins, heldur alfarið á hendi aðildarríkjanna, þar sem innri markaðslöggjöfin tekur ekki á eignarhaldi.
Því er ekki um að ræða yfirþjóðlega eign á auðlindum aðildarríkjanna."
Þorsteinn Briem, 12.4.2018 kl. 19:39
Loðna gengur á milli lögsagna Íslands og Noregs við Jan Mayen. Norsk skip hafa því fengið að veiða loðnu í íslenskri lögsögu og íslensk skip loðnu í norskri lögsögu.
Skip frá ríkjum Evrópusambandsins hafa hins vegar lítið veitt á Íslandsmiðum síðastliðna áratugi og fá því engan aflakvóta á Íslandsmiðum, nema þá að íslensk fiskiskip fengju jafn verðmætan aflakvóta í staðinn.
Í aðildarsamningi Noregs og Evrópusambandsins fengu skip frá Evrópusambandsríkjunum að veiða í norskri lögsögu, enda er um sameiginlega fiskveiðiauðlind margra ríkja að ræða í Norðursjó, svo og Eystrasalti og Miðjarðarhafinu, þar sem margar fisktegundir ganga úr einni lögsögu í aðra.
Þorsteinn Briem, 12.4.2018 kl. 19:44
Heill sé þér, Bjarni Jónsson, fyrir kynningu þína alla á þessum hættulegu ACER-málum, hér eins og fyrri daginn. Fulltrúum utanríkisráðuneytisins, margir hverjir skipaðir án auglýsingar í ráðherratíð Össurar ESB-þjóns Skarphéðinssonar, er lítt treystandi fyrir þessum málum, enda með annan fótinn í Brussel og með glýju í augum af upphefð sinni í veizlusölum þar og rækilega heilaþvegnir. Hreinsa þarf slíka úr ráðuneytinu, en engar líkur á að það verði í ráðherratíð Guðlaugs Þórs.
En það er ógæfa Íslands að slíkir menn hafi ráðandi áhrif í þessum málum og vinni hér gegn þjóðarhagsmunum, ýmist fyrir andvaraleysis sakir eða beina, virka þátttöku þeirra í svívirðunni í kappsemi eftir því að koma okkur í evrópska stórveldið.
Vanhugsuð eða illa hugsuð innlegg hins vafasama penna "Steina Briem" um þetta mál hér á undan eru öll í takti við Evrópusambands-þjónustu hans hingað til, hvort heldur í sambandi við Icesave-málið, Evrópusambands-umsóknarmál þeirra Össurar Skarphéðinssonar og viðhlæjenda hans eða EES-málið. Ævinlega reynist "Steini" í öllum skrifum sínum standa með erlendum hagsmunum gegn íslenzkum: með brezkum og hollenzkum í Icesave-málinu og með ólögmætum afskiptum ESB af því máli frá upphafi,* sem og í öllum ágreiningsmálum Íslands og ESB.
Predikað hefur "Steini" endalaust í þágu hagsmuna Evrópusambandsins og er því mjög líklega, að mínu áliti, útsendari eða leigupenni á vegum Brussel-manna, og þurfa menn ekki að undrast það, að stórveldi hafi slíka á snærum sínum; það er öllum ráðum beitt, þegar slíkar valdstofnanir hafa ekki bein valdbeitingarúrræði á færi sínu.
Bjarni hefur hér á undan rökstutt sínar ábendingar nógsamlega skýrt, en "Steina" þessi mætir þá með sínar "copy/paste"-innlegg, sem gjarnann verða endalaus, eins og menn sjá af framkomu hans t.d. á vefsíðu verkfræðingsins, Halldórs Jónssonar.
* Í Icesave-málinu beitti ESB sér af miklum þunga 1) með þrýstingi bak við tjöldin á ríkisstjórn Steingríms J. og Jóhönnu að leggja fram frumvarp um að ríkissjóður Íslands skyldi greiða Icesave-kröfur Bretlands og Hollands, 2) með því að greiða atkvæði í "gerðardómi" haustið 2008 (þ.e. með atkvæðum fulltrúa framkvæmdastjórnar ESB, fulltrúa Seðlabanka Evrópu, sem er ESB-stofnun, og með atkvæði ESB-dómstólsins í Lúxemborg) um að Ísland sem slíkt (ríkið) bæri sök í Icesave-reikninga-máli Lansbankans (einkabanka!) og væri því greiðsluskylt til Breta og Hollendinga; allt reyndist það byggt á falsrökum og í beinu trássi við jafnvel ESB-löggjöf, eins og sannaðist fyrir EFTA-dómstólnum snemma árs 2013, þar sem Ísland var hreinsað af öllum ásökunum UK, Hollands og ESB í þessu máli, þurfti ekki að borga eitt penný né evrucent og engan málskostnað heldur!** Og 3) Evrópusambandið gerðist jafnvel, á síðasta stigi málsins, meðaðili að Icesave-málsókn Breta og Hollendinga gegn Íslendingum í EFTA-dómstóls-réttarhöldunum! ---Svo eindregið beitti Evrópusambandið sér gegn Íslandi í Icesave-málinu og gerði það svo einnig í makríl-málinu, gegn veiðirétti Íslendinga og Færeyinga, með makalaust mikilli valdfrekju. Hér sést því, hve stórlega varasamt það er fyrir Íslendinga að treysta þessu Brussel-valdi gamalla evrópskra stórvelda út í bláinn, eins og ESB-sinnar hafa þó margir gert, þ.m.t. málpípur ESB á borð við "Steina Briem".
** Eini stjórnmálaflokkurinn á Alþingi, sem vann sem slíkur gegn öllum Icesave-frumvörpum vikadrengja og þjónustumeyja ESB á Alþingi, var Framsóknarflokkurinn, og er sennilegt, að þáverandi formaður þess flokks, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hafi þar með orðið persona non grata í hugum og útfærðri stefnu ESB-manna og þjóna þeirra upp frá því.
Jón Valur Jensson, 13.4.2018 kl. 11:26
Heill sé þér, ævinlega, Jón Valur Jensson;
Ekki gengur hnífurinn á milli okkar í þeim efnum, er þú gerir hér að umræðuefni. Ég vil þó taka fram, að um téðan EFTA-dóm tel ég það hafi orðið gæfu Íslands haldreipi, að engin dómafordæmi fundust hjá ESB-dómstólinum. Það mun vera mála sannast, að finnist slík fordæmi, sé EFTA-dómstóllinn bundinn af þeim, en ekki öfugt. Enn komum við að því, að EES-samningurinn er viðrini í stjórnlagalegum skilningi og samband ESB og EFTA innan EES er húsbóndans og þrælsins.
Bjarni Jónsson, 13.4.2018 kl. 13:11
Þakka Góða grein. Bjarni nú er bara að kíla á að segja sig úr sambandi við EES/ESB og ef marka má orð Steina í málsgrein 2 neðar þar sem hann segir að Bjarni nafni þinn sé hlynntur ESB þá þarf nú að hafa hraðan á nema þetta sé fake news hjá Steina,
Valdimar Samúelsson, 13.4.2018 kl. 13:32
Ég verð að bæta við eftir að lesa svar hans JV sem koma á meðan ég var að skrifa en ég var einmitt að hugsa á sömu nótum um skrif Steina og las fyrstu greinina og sagði hefir hann einhvað breyst. Nei alls ekki hann er sá neikvæðasti íslendingur sem ég hef séð á þessum bloggsíðum.
Ég tel að Steini sé launaður andstæðingur Íslands og fái borgað úr áróðurssjóðum ESB. Ég veit að George Soros styrkir marga pistlahöfunda vegna NWO og NoBorder svo því ekki Steini með sínar stöðluðu smá greinar sem eru númeraðar og hversvegna. Er það ekki augljóst.
Valdimar Samúelsson, 13.4.2018 kl. 13:49
Það er kominn tími til að Alþingi sýni og sanni hver fer með löggjafavaldið í þessu landi og hafni þriðju tilskipun ESB um orkulagamálabálk sambandsins. Að Alþingi láti þannig norska stórþingið sjá að það hefur enga lögsögu hér á landi og að Alþingi geri möppudýrum ráðuneytanna ljóst að þeirra er að framkvæma en ekki ákveða!!
Um EES samninginn þarf þjóðin vissulega að ræða og ber að fagna því að komin er í gang skoðun og mat á þeim samning. Svolítinn skugga ber þó á þá skoðun, þar sem embættismenn ráðuneyta verða nokkuð fyrirferðamiklir í þeirri skoðun. En vonandi kemur eitthvað vitrænt út úr þeirri vinnu.
Þegar sú niðurstaða liggur á borðinu getur þjóðin rætt framhaldið og eðlilegast væri að ljúka upphafsskrefinu varðandi EES samninginn, skrefinu sem sleppt var er samningurinn var samþykktur af Alþingi, því stóra og mikilvæga skrefi að láta þjóðina um ákvörðunina. Þannig mætti kjósa um veru okkar í EES við næstu þing- eða forsetakosningar, hvort heldur verður fyrr
kveðja
Gunnar Heiðarsson, 13.4.2018 kl. 16:52
Ég fæ ekki betur séð en ESB gefi nú frat í EES-samninginn. Með því að gera það að reglu að brjóta grunnreglu EES-samstarfsins um s.k. tveggja stoða samstarf, sem átti að vera samstarf tveggja jafnrétthárra aðila, sé ESB að framkalla uppsögn á þessum samningi. Ef framkvæmdin er að verða þannig, að ekki er búandi við hann, verður ekkert val: það verður að segja honum upp.
Bjarni Jónsson, 14.4.2018 kl. 14:56
Sammála, EES samningurinn er orðinn óviðunandi, dugir greinilega ekki fyrir nokkurn aðila. En hver mun taka af skarið fyrir okkar hönd og segja honum upp?
Kolbrún Hilmars, 14.4.2018 kl. 15:20
Alþingi verður að framkvæma verknaðinn. Ef þingmenn þurfa stuðning við það, geta þeir spurt þjóðina beint. EES-samningurinn var talinn stjórnlagalega á mörkunum 1992, en síðan þá hefur heldur betur snarazt á merinni, og hann er nú raunverulega kolólöglegur, því að Stjórnarskráin er margbrotin með honum. Það er lufsuháttur að láta þetta viðgangast af gömlum vana og af ótta við breytingar.
Bjarni Jónsson, 14.4.2018 kl. 21:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.