6.5.2018 | 11:35
Óðs manns æði
Talsverð umræða hefur nú skapazt í landinu um Orkusamband ESB og Orkustofnunina ACER, sem skilgreind eru í Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB frá 2009 og Sameiginlega EES-nefndin í Brüssel samþykkti 5. maí 2017 að beina til þjóðþinganna þriggja á Íslandi, í Noregi og í Liechtenstein, að "aflétta stjórnlagalegum fyrirvara á" um innleiðingu í EES-samninginn, þ.e.a.s. gjörningurinn er þegar kominn inn í orkukafla samningsins, 4. viðauka, en skortir lagagildi í hverju þessara þriggja landa, þar til síðasta þjóðþingið hefur veitt gjörninginum blessun sína.
Í þessu tilviki er Alþingi síðasti löggjafinn til að fjalla um málið; hinir hafa báðir samþykkt, sá norski með braki, brestum og eftirmálum. Pólitísku drunurnar í Noregi af gjámyndun á milli þings og þjóðar í þessu máli eru síður en svo þagnaðar og munu líklega vara allt þetta kjörtímabil, sem hófst haustið 2017, og taka undir í fjöllunum í sveitarstjórnarkosningum á næsta ári, nema Stórþingið snúi af villu síns vegar við boðaða endurupptöku málsins í Stórþinginu, ef Alþingi vinnur það þarfaverk að synja þessu samkomulagi Sameiginlegu EES-nefndarinnar samþykkis.
Umræðan hérlendis er misjöfn að gæðum, eins og gengur. Fram fyrir skjöldu hefur stigið iðnaðarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, með þann boðskap helztan, að umrædd staðfesting Alþingis mundi varla nokkru breyta á Íslandi. Til að finna þessum áróðri stað hefur hún látið iðnaðarráðuneytið kaupa minnisblað af innlendum lögmanni, sem áður var framkvæmdastjóri hjá ESA-Eftirlitsstofnun EFTA í Brüssel.
Ráðherrann hefur dregið niðustöður þessa minnisblaðs saman í 7 liði, sem allir eiga að sýna, að hún eigi alls ekki við ályktanir þeirra tveggja stjórnarflokka, sem ályktað hafa um málið, og að hún mundi engu breyta, sem máli skiptir um íslenzka stjórnsýslu. Hvort tveggja er kolrangt hjá ráðherranum og má furðu gegna, að hún skuli fara á flot með aðra eins vitleysu gagnvart fólki, sem kann að lesa. Fyrst verða flokksályktanirnar skoðaðar, og síðan verður sérfræðingur um orkumál leiddur fram á sviðið til að aðgæta, hvort um lítils háttar breytingar er að ræða:
a) ályktun Framsóknarflokksins frá 11. marz 2018 hljóðaði svona (aldrei er góð vísa of oft kveðin): "Framsókn stendur vörð um fullveldi Íslands í orkumálum og hafnar því, að orkulöggjöf Evrópusambandsins verði tekin inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið."
Það er óyggjandi, að hluti fullveldis Íslands í orkumálum mundi glatast og færast til yfirþjóðlegrar stofnunar, ACER, þar sem Ísland ekki er fullgildur aðili, ef Þriðji orkubálkurinn verður innleiddur í EES-samninginn. Það er jafnframt ljóst, að Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB er hluti af orkulöggjöf sambandsins. Þar af leiðandi fer ekki á milli mála, að ofangreind samþykkt Framsóknarflokksins á við um væntanlega þingsályktun utanríkisráðherra og frumvarp iðnaðarráðherra um innleiðingu téðs lagabálks í EES-samninginn. Þingmenn Framsóknarflokksins hafa skýra viðmiðun frá síðasta Flokksþingi sínu.
b) Ályktun Landsfundar Sjálfstæðisflokksins 18. marz 2018 um þetta mál hljóðaði þannig:
"Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenzkum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins."
Það, sem hér er átt við, er, að samkvæmt Öðrum orkumarkaðslagabálki ESB hefur ESB, og í EFTA-löndunum þremur ESA, eftirlit með, að settum viðskiptareglum sé fylgt, þ.e. fjórskiptingu raforkumarkaðarins sé við haldið (frjáls samkeppni orkuvinnslu og sölu, einokunarfyrirtæki raforkuflutninga sé óvilhallt einstökum aðilum á markaði og sérleyfi dreifingarfyrirtækja, t.d. um verðlagningu, sé undir opinberu eftirliti. Þá hefur ESB/ESA eftirlit með, að langtímasamningar um raforkusölu séu í samræmi við markaðsaðstæður og feli ekki í sér undirboð, sem skekki samkeppnisstöðu). Ekkert nýtt, sem er umfram þetta, mega fulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykkja.
Það ætti hverju mannsbarni að vera ljóst, sem kynnir sér málin, að Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn felur einmitt í sér viðbótar framsal valds yfir íslenzka orkumarkaðinum til ESB/ESA, sbr útibú ACER á Íslandi og skuldbindingu landsins með innleiðingunni um að vinna að því að raungera Kerfisþróunaráætlun ESB.
Það er hulin ráðgáta, hvernig iðnaðarráðherra dettur í hug að reyna að fara á flot með kenningu um hið gagnstæða í veikri von um, að þingmenn Sjálfstæðisflokksins telji sig óbundna af ofangreindri skýru ályktun gegn Þriðja bálkinum. Allar efasemdir um, að áhrifin af téðum lagabálki verði mikil, ættu þó að gufa upp sem dögg fyrir sólu við lestur Morgunblaðsgreinar Elíasar B. Elíassonar 28. apríl 2018:
"Á að stofna nýja Orkustofnun til að gera ekkert ?":
"Hin nýja Orkustofnun skal skipuð samkvæmt tilskipun nr 72 frá 2009, en þar segir í grein 35, að sérhvert ríki skuli skipa eina stofnun með reglugerðarvald sem landsstofnun. Nú fjalla þessi lög um fleiri lönd en Ísland, og íslenzki textinn liggur ekki fyrir, svo að hér verður enska orðið "regulator" þýtt sem reglari. [Norðmenn kalla þessa stofnun hjá sér "Reguleringsmyndighet for energi-RME", og virðist hún verða sjálfstæð deild í NVE, þeirra Orkustofnun, OS-innsk. BJo.] Á Íslandi mun hin nýja Orkustofnun verða landsreglari. [Landsreglarinn tekur við núverandi reglusetningarhlutverki ráðuneyta og OS um orkuflutninga og mun þess vegna hafa yfirstjórn Landsnets með höndum. Hvernig er hægt að kalla það léttvæga breytingu ?-innsk. BJo.]
Það vekur fyrst athygli, hvað reglarinn skal vera óháður öllum stjórnvöldum og stofnunum, jafnt opinberum sem einka. Starfsfólk reglarans má hvorki leita eftir né þiggja fyrirmæli frá öðrum um neitt það, er við kemur valdi hans eða beitingu þess. Þá er langur kafli um stefnumörkun, sem einkum gengur út á, að reglarinn fylgi stefnu ESB í einu og öllu í nánu samstarfi við ACER, Orkustofnun Evrópu. [Stefna ESB í orkuflutningsmálum krystallast í Kerfisþróunaráætlun ESB, þar sem Ice Link sæstrengurinn er á forgangslista yfir 170 verkefna - innsk. BJo.] Hann á t.d. að sjá til þess að efla tengingar á milli landa, þróa virka svæðisbundna samkeppnismarkaði, að kerfisstjórar [hér Landsnet-innsk. BJo] hafi hæfilega hvata til að bæta virkni kerfisins og fleira.
Þó svo, að landsreglarinn stjórni með því að setja öðrum reglurum reglur, þá munu gerðir hans vissulega snerta einkaaðila. Þar fór sú afsökunin. [Þetta er mjög mikilvægt atriði í stjórnlagalegum skilningi málsins, því að erlent vald yfir einkaaðilum á Íslandi er grundvallarbrot gegn Stjórnarskrá lýðveldisins - innsk. BJo.] Grein 37 telur síðan upp skyldur reglaranna, sem eru auðvitað fyrst þær að hafa samráð við og hlýða stofnunum ESB; með öðrum orðum að fara að lögum ESB.
Eitt dæmið er að viðhafa baunatalningu á hestaflafjölda nýrra aflstöðva í því skyni að að tryggja afhendingaröryggi. Þetta dæmi, sem og dæmið um, að hér skuli koma á virkum samkeppnismarkaði með rafmagn, lýsir algerri vanþekkingu á aðstæðum hér hjá hverjum þeim, sem lætur sér detta í hug að fara eftir þessu." [Að fulltrúi Íslands í Sameiginlegu EES-nefndinni, sem væntanlega var undir stjórn utanríkisráðherra, skyldi samþykkja þessi ósköp inn í EES-samninginn 5. maí 2017, vitnar um óafsakanlega yfirsjón og vanmat á því, sem hér er undir, þ.e. ráðstöfun rafmagnsafurða orkulinda Íslands, inn á orkumarkað ESB. Ef í þessu máli er ekki ástæða fyrir þjóðkjörna fulltrúa að grípa í neyðarhemilinn, leiðrétta stórfelld mistök utanríkisþjónustunnar og synja þessum afarkosti staðfestingar, þá verður væntanlega aldrei ástæða til þess og leiðin greið fyrir Ísland inn í ESB. Þetta er kjarni langvinnra átaka um Ísland - innsk. BJo.]
Elías fjallar síðan um sérstöðu Íslands sem vatnsorkulands og færir fyrir því sterk rök, að tæknilega eigi reglur ESB um raforkumarkaði mjög illa við Ísland og geti valdið hér stórtjóni, sé reynt að beita þeim. Hann heldur því fram, að það verði að vera hægt að setja reglur um það, hvernig vatn er tekið úr lónum, og að þær reglur verði að standa framar reglum "landsreglarans" (útibús ACER á Íslandi):
"Miðlunarlónum þarf að stýra þannig, að þau fylgist að, þegar lækkar í þeim, í samræmi við þá áhættu, sem við blasir, ef lón tæmist. Það verður með öðrum orðum af þjóðhagslegum ástæðum að stýra þeim eftir samræmdu áhættumati. Slíkt mundi jafngilda markaðsmisnotkun á sérhverjum samkeppnismarkaði.
Vegna aðstæðna getur þurft að takmarka vatnsborðssveiflur miðlunarlóna við þröng mörk. Dæmi um slíkt hér á landi er Þingvallavatn.
Vegna aðstæðna getur þurft að takmarka mjög sveiflur í vatnsrennsli frá miðlunarlónum. Bæði getur það ógnað lífi veiðimanna og skaðað lífríkið í ánni. Hraðar breytingar á markaðsverði mundu auka mjög tilhneiginguna til að fara út í slíkar sveiflur.
Allar þessar ástæður eiga við um vatnsorkuver og eru í andstöðu við frjálsan samkeppnismarkað að vilja ESB. Augljóst er, að hvorki [nýja] Orkustofnun, vegna sambands síns við ACER og ESB, né aðrir reglarar, sem starfa eftir hennar reglugerðum [t.d. Landsnet] mega hafa vald til að véla um þessa hluti. Þeir gætu [þá] jafnvel í vissum málum þurft að ganga gegn hagsmunum þjóðar sinnar."
Hér eru færð skýr rök fyrir því, að Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB henti engan veginn íslenzka raforkukerfinu og yrði reyndar stórskaðlegur, ef reynt yrði að beita honum hér, þ.e. ef reynt yrði að koma hér á markaðsfyrirkomulagi með raforkuna að hætti ESB.
Þessu hefur iðnaðarráðherra heldur engan gaum gefið, þegar hún hefur reynt að greiða götu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB hérlendis með því að reyna með útúrsnúningum, rangtúlkunum og hálfkveðnum vísum um efni lagabálksins, með aðstoð lögmanns, sem áður gegndi framkvæmdastjórastöðu hjá ESA, að telja mönnum trú um, að áhrif innleiðingarinnar yrðu lítil, sbr eftirfarandi: Ólafur Jóhannes Einarsson:
"ACER hefði engin áhrif á leyfisveitingar hér og stjórnsýslu hér á landi, né heldur valdheimildir gagnvart einkaaðilum. Valdheimildirnar gagnvart EFTA-löndunum verða hjá Eftirlitsstofnun EFTA-ESA, en ekki hjá ACER."
Síðan koma sterk aðvörunarorð frá Elíasi B. Elíassyni til Alþingismanna í lokin:
"Ef þessum og fleiri atriðum tengdum auðlindum okkar er ekki gefinn hæfilegur forgangur, getur reynzt skaðlegt að reyna að koma hér á samkeppnismarkaði, eins og landsreglarinn á að hafa sem eitt meginmarkmiðið. Það væri því í anda við málflutning stjórnvalda að fresta lögfestingu þriðja áfangans, þar til semja þarf um sæstreng og semja þá um þriðja áfangann í leiðinni. Í sannleika sagt þá er ekkert vit í öðru.
Ef sæstrengur kemur, er samkeppnisstöðu alls okkar iðnaðar hætt, nema helzt stóriðju, sem getur varið sig í einhvern tíma. Samningar um sæstreng eru hreint út sagt óðs manns æði, hafandi lögfestingu þriðja áfangans á bakinu." [Undirstrikun BJo.]
Hér verður vart bætt um betur í röksemdafærslu fyrir íslenzkum hagsmunum gagnvart Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB, sem mundi valda íslenzka hagkerfinu og nýtingarstjórnun orkulinda landsins stórtjóni, ef hann verður innleiddur í EES-samninginn, á meðan Ísland er enn í EES.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 11:39 | Facebook
Athugasemdir
Þakka góða grein. Það er alveg grátlegt hve hægt er að kaupa þessa ráðherra og líklega ráðuneytisstjóranna. Dæmi í morgun útvarpinu var viðtal við sálfræðing samgöngumála þegar hann talaði fyrir sjálfkeyrandi bílum og það væri sko framtíðin fyrir okkur íslendinga. Þetta er grátlegt ....
Valdimar Samúelsson, 6.5.2018 kl. 19:37
Það þarf að rekja garnirnar úr þeim, sem fyrir Íslands hönd stóðu að samþykkt Sameiginlegu EES-nefndarinnar á téðum orkubálki ESB inn í EES-samninginn, um, hvernig stefnumörkun var háttað. Við skulum þó þakka fyrir, að hulunni var svipt af viðkomandi pólitíkusum og embættismönnum, þannig að forsendur eru nú til reiðu fyrir Alþingismenn að taka um málið upplýsta ákvörðun.
Það er langt í, að eitthvað fari að muna um sjálfakandi bíla hér í umferðinni. Virtur svissneskur banki spáði því fyrir nokkru, að árið 2050 mundu "sjálfrennireiðar" hafa leyst af hólmi 70 % innanbæjarbíla, þ.e. bíla, sem ekki eru notaðir í langferðir. Einkabíllinn mun halda velli, en hann verður rafknúinn, ýmist með eldsneytishlöðu (fuel cells) eða rafgeymi.
Bjarni Jónsson, 6.5.2018 kl. 21:56
Ég styð ykkur Elías. Þetta er óráð sem má sleppa eins og fleiru úr EES.
Halldór Jónsson, 6.5.2018 kl. 21:58
Kollega Halldór: Sámur, fóstri, mun vonandi taka upp þennan þráð í næstu útgáfu sinni. Það yrði mikill akkur að slíku, því að Sámur fer víða, einkum um dreifbýl héruð landsins. Þingmenn dreifbýlisins, sem styðja munu þessa áfangaaðlögun Íslands að ESB, mega biðja fyrir sér, þegar þeir næst fara fram á endurkjör, býst ég við.
Ætli það muni ekki vekja athygli sagnfræðinga framtíðarinnar, þegar þeir taka að rýna í umræðuna á aldarafmælisári fullveldis Íslands, hversu áberandi verkfræðingar voru í þeirri umræðu, a.m.k. í upphafi hennar ? Auk okkar Elíasar ber að nefna Friðrik Daníelsson á www.frjalstland.is .
Bjarni Jónsson, 7.5.2018 kl. 09:29
Það þarf ekki verkfræðinga til til að fylgja ykkur að málum. Aðeins heilbrigða skynsemi og trú á fullvalda Ísland.
Ragnhildur Kolka, 8.5.2018 kl. 00:40
Hárrétt, Ragnhildur Kolka. Hagsmunagreining í huganum leiðir strax í ljós, að Orkusamband ESB þjónar ekki hagsmunum Íslendinga. Það er stofnað til að flýta fyrir orkuskiptum ríkja ESB með því að flytja endurvinnanlega raforku og jarðgas þaðan, sem ofgnótt er og þangað, sem skortur er. Þetta á jafnframt að lækka vinnslukostnað endurnýjanlegrar raforku með meiri sölu og jafna orkuverðið innan ESB. Allt mundi þetta vera með öfugum formerkjum á Islandi, tefja orkuskiptin og hækka raforkuverðið. Þeir hérlendis, sem styðja inngöngu Íslands í Orkusamband ESB, eru annaðhvort svefngenglar eða stækir og óforbetranlegir aðdáendur reglugerðaskrímslisins í Brüssel.
Bjarni Jónsson, 8.5.2018 kl. 09:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.