EES og þjóðarhagur

Á Íslandi hefur tekizt að skapa velferðarþjóðfélag og almenn lífskjör í fremstu röð, betri en í löndum ESB.  Þá má spyrja sig; eru þessi góðu lífskjör hér þrátt fyrir veru landsins á Evrópska efnahagssvæðinu-EES eða vegna þess. Skoðum fyrst, hvað Ásta Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, skrifar á Sjónarhóli Morgunblaðsins, 19. apríl 2018, um getu fyrirtækjanna, sem undir þessum góðu lífskjörum standa:

"Það er dýrt að hækka laun á Íslandi":

"Allur alþjóðlegur samanburður ber með sér, að efnahagsástand á Íslandi er með því bezta, sem þekkist.  Á undanförnum árum hafa laun og kaupmáttur hækkað mun meira hér á landi en í þeim löndum, sem við berum okkur helzt saman við.  Það kann að koma á óvart, að laun á vinnustund eru hærri hér á Íslandi en í Danmörku, Þýzkalandi og meira að segja Noregi.  Eina landið, sem býður hærri laun en Ísland um þessar mundir, er Sviss."

Ef aðild að Evrópusambandinu er slíkt töframeðal, sem áhangendur aðildar Íslands að ESB vilja vera láta, hvernig stendur þá á því, að öll aðildarlöndin, þ.m.t. Lúxemborg, eru eftirbátar Íslands, þegar kemur að launum fyrir hverja vinnustund ? EFTA-landið, sem utan EES stendur, Sviss, státar af hærri launum á vinnustund en Ísland.  Þetta bendir alls ekki til, að við getum þakkað góð lífskjör hérlendis aðildinni að EES.  

Það er reyndar svo, að Viðskiptaráð hefur komizt að því, að aðild Íslands að EES leggi atvinnulífinu svo þunga bagga á herðar, að dragi vel merkjanlega úr getu atvinnulífsins til framleiðniaukningar.  Íslenzk fyrirtæki eru yfirleitt lítil í evrópskum samanburði, og reglugerðar- og eftirlitsbyrðin, bæði innri og ytri, leggst þyngst á minnstu fyrirtækin.  Gæti framleiðniaukning verið um 0.5 %/ár minni fyrir vikið að mati Viðskiptaráðs, sem safnast upp í 13,3 % á 25 ára gildistíma EES-samningsins hér.  Framleiðniaukning stendur undir raunlaunahækkunum til launþeganna, og það er líklegt, að kaupmáttur lægstu launa gæti verið a.m.k. 15 % hærri hér, ef landið hefði einfaldlega áfram búið við fríverzlunarsamning við ESB og ekki þurft að taka upp þær yfir 9´000 gerðir frá ESB, sem raun er á.  

Stjórnlagalega séð hefur aðild Íslands að EES reynzt vera hrein mistök, eins og krystallast í persónuverndarlöggjöfinni frá ESB.  Yfirstjórn persónuverndarmála færist til Persónuverndarráðs ESB-"European Data Protection Board"-EDPB, þar sem Ísland á engin ítök, og stjórna mun "Persónuvernd", stofnun á Íslandi, sem verður óháð íslenzkum yfirvöldum. Úrskurðarvald í íslenzkum persónuverndarmálum, sem ná yfir landamæri innan EES, færist til ESB-dómstólsins.  Tveggja stoða grunnregla samstarfs EFTA og ESB í EES er þverbrotin, og þar með fær yfirþjóðleg stofnun stjórnvald hérlendis.  Þessi meðferð á Stjórnarskrá lýðveldisins nær engri átt, og hún hlýtur að merkja, að gríðarleg lagaleg óvissa um lögmæti þessarar innleiðingar í EES-samninginn skapast.  Stjórnvöld arka að óþörfu út í fúafen réttaróvissu.

  Mörg fyrirtæki munu þurfa að bæta við sig persónuverndarstarfsmanni til að sjá um innra eftirlit þessara mála, vera tengiliður fyrirtækisins við "Persónuvernd" og til að framfylgja persónuverndarlöggjöf, sem fáir þekkja og enn færri skilja til hlítar.  Hér er verið að skjóta spörfugl með kanónu að hætti ESB, sem gefur út tilskipanir, sem verða að henta 80 milljóna þjóð. Slík föt verða allt of stór og dýr fyrir 0,35 milljón manna þjóð.  Við búum við alræði búrókrata í Brüssel, sem eyða öllum ávinningi tæknivæðingar í hagræðingarátt með því að drekkja litlu þjóðfélagi í rándýru skrifræðisflóði án sjáanlegs ávinnings. Jafnvel Bretar, sem þó telja 65 milljón manns, fengu sig fullsadda af þessu og sögðu skilið við það.  

Eftir 1. maí 2018 ræður nokkurra verkalýðsforingja mætti ætla, að fjárhirzlur fyrirtækjanna væru fullar fjár, svo að nú sé skaðlaust að heimta enn meira og jafnvel að beita skæruhernaði til að knýja þau til að láta meira af hendi.  Þetta stéttastríðstal er óráðshjal, fávíslegur pólitískur vindgangur og ekki í neinum tengslum við raunveruleikann og þá efnahagsþróun, sem nú blasir við.

Nú þarf hins vegar að "pakka í vörn" og létta byrðum af atvinnulífinu til að bæta samkeppnisstöðu fyrirtækjanna.  Að öðrum kosti hrynur atvinnustigið og þar með lífskjör almennings. Slíkt getur gerzt hratt, eins og dæmin sanna. Þá munu lýðskrumarar hlaupa út um víðan völl undan ábyrgð sinni sem halaklipptir kálfar. Um stöðu fyrirtækjanna skrifaði Ásta Fjeldsted: 

"Nú heyrast háværar raddir vinnuveitenda um erfiðleika vegna hárra launagjalda og aukinnar erlendrar samkeppni.  Þessar áhyggjur kunna að koma ýmsum á óvart í ljósi þess, hversu gott efnahagsástandið er.  En þær eru raunverulegar, og í þeim felast alvarleg viðvörunarmerki fyrir íslenzkt samfélag.  Fyrirtækin í landinu sjá einfaldlega ekki fram á að geta borið kostnaðinn af þeim launahækkunum, sem krafizt er."

Síðan sýnir hún fram á, að launþeginn fær innan við helming af launakostnaði vinnuveitans greiddan út sem laun eftir skatt með sýnidæmi:

  • útgreidd laun f. skatt: kISK 500  (100 %)
  • trygg.gj. & lífeyr.:    kISK 120  ( 24 %)
  • orlof & annað:          kISK 120  ( 24 %)
  • launakostnaður:         kISK 740  (148 %)
  • greidd laun e. skatt    kISK 350  ( 70 %)

Greidd laun eftir skatt nema aðeins 47,3 % af launakostnaði vinnuveitandans.

 

Þetta er mjög slæm staða fyrir atvinnulífið, því að launakostnaður fyrirtækisins er orðinn svimandi, þótt launamaðurinn sé ekki ofhaldinn af sínum hlut. Ráðið við þessu er að hraða framleiðniaukningu með bættri stjórnun og tæknivæðingu og að draga úr skattheimtu, bæði á vinnuveitandann og launþegann.  Til þess þarf að draga úr yfirbyggingu fyrirtækja og hins opinbera, grisja reglugerðarfrumskóginn og minnka eftirlitsiðnaðinn.  Þetta verður ekki gert á meðan landið er í EES.  EES er berlega hluti þessa vandamáls.  Þess vegna þarf að tryggja viðskiptakjörin með fríverzlunarsamningum við ESB, Bretland o.fl. og segja upp EES-samninginum, enda hefur hann nú gengið sér til húðar.  Ef þingmenn vilja glöggva sig á þjóðarviljanum áður en þessi skref eru stigin, geta þeir samþykkt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um málefnið.  

Þorsteinn Víglundsson vill fara þveröfuga leið, auka skriffinnskuna og þar með yfirbygginguna enn meir með því, að Ísland gangi í ESB og þurfi þar með að taka upp meira en 2800 gerðir á ári sem löggjöf og reglugerðir.  Það er þá eðlilegt, að hann styðji veru landsins í fordyri ESB, EES, því að þannig aðlagast íslenzka þjóðfélagið stöðugt að ríkjasambandinu, og nú er svo komið, að við sogumst með sívaxandi hraða inn í það vegna þess, að við tökum upp stjórnkerfi ESB-landanna, eins og það kemur af skepnunni, með innleiðingu nýrra ESB-gerða í EES-samninginn.  Þar fer gamli varnaglinn um tveggja stoða kerfið forgörðum, eins og t.d. við upptöku persónuverndargerðarinnar, þar sem Persónuverndarráð ESB verður hæstráðandi þessara mála á Íslandi og ESB-dómstóllinn æðsti úrskurðaraðili, en Stjórnarskrá lýðveldisins liggur hins vegar óbætt hjá garði.  Þetta nær náttúrulega engri átt. Of margir hafa verið stungnir líkþorni og fljóta nú þegjandi að feigðarósi.

Þann 10. apríl 2018 hnykkti Þorsteinn Víglundsson á óbeysnum skoðunum sínum með skrifum í Morgunblaðið:

"Hvað græðum við eiginlega á EES ?".

Þorsteinn kveður það "fagnaðarefni, að lögð hafi verið fram á Alþingi beiðni um skýrslu um kosti og galla aðildar Íslands að EES.  Mikilvægt er þó, að þar verði vandað til verka."

Það má taka undir þetta, en veldur, hver á heldur.  Til að skýrslan komi landinu að gagni, verður að velja til verka hæfa fræðimenn, sem leggja sig fram um að koma á framfæri hlutlægu mati.  Líta má til Noregs um fyrirmynd, en þar er líka víti til að varast.

Þorsteinn skrifar:

"Norðmenn létu vinna úttekt á EES-samningnum og samskiptunum við Evrópusambandið, og var niðurstaðan birt í skýrslunni Udenfor og Indenfor árið 2012.  Niðurstaða skýrsluhöfunda var, að áhrif samningsins væru mjög mikil á norskt samfélag, en þau áhrif væru heilt yfir mjög jákvæð."

Síðasta setningin er umdeilanleg og spannar ekki viðhorf almennings í Noregi né allra stjórnmálaflokkanna þar.  Sérstaklega hafa efasemdir fræðimanna, stjórnmálamanna og almennings aukizt síðustu misserin vegna þess, að áhrif samrunaþróunar ESB-ríkjanna smitast yfir í EES-samstarfið.  Það lýsir sér með því, að ESB virðir sérstöðu EFTA-ríkjanna að vettugi með því að sniðganga tveggja stoða fyrirkomulagið, sem upphaflega var lagt til grundvallar EES-samninginum.  Stjórnlagafræðingar, íslenzkir og norskir, sjá mikla meinbugi á því, að stofnanir ESB fari með yfirstjórn málaflokka í EFTA-löndunum, t.d. ACER á orkuflutningssviðinu og EDPB á persónuverndarsviðinu.  Skiptir þá litlu máli, þótt ESA í Brüssel sé sett upp til málamynda sem milliliður ACER í Ljubljana og útibús hennar í Reykjavík.  Varðandi persónuverndina virðist ESB-dómstóllinn eiga að útkljá deilumál, og er það alveg nýtt af nálinni fyrir EFTA-ríkinn um úthýsingu dómsvalds úr landinu, og gróft brot á Stjórnarskrá.

Það var sá alvarlegi ljóður á forskrift norskra yfirvalda til ritnefndar "Utenfor og innenfor"- EES-skýrslunnar, að hún fékk ekki það hlutverk að bera EES-aðild Noregs saman við aðra valkosti landsins í viðskiptalegum efnum.  Þess vegna var samin önnur skýrsla, "Alternativrapporten" eða "Valkostaskýrslan", og er aðalhöfundur hennar Sigbjörn Gjelsvik, sem nú situr á Stórþinginu fyrir Miðflokkinn.  Þetta er mjög nytsöm, fróðleg og efnisrík skýrsla, einnig fyrir Íslendinga.  Á henni má reisa vitrænar umræður um, hvernig skipulagi  utanríkisviðskipta Íslands verður bezt hagað. 

Í skipunarbréfi nefndar, sem stjórna á gerð téðrar íslenzku skýrslu, er nauðsynlegt að taka samanburð valkosta með í reikninginn. Að öðrum kosti mun skýrslan hanga í lausu lofti. 

Þorsteinn Víglundsson hrapar að niðurstöðu slíkrar valkostagreiningar, þegar hann skrifar:

"Ekki er ástæða til að ætla, að niðurstaða íslenzkrar úttektar yrði önnur [en sú norska.  Það er ekki hægt að gefa sér neitt fyrirfram um það. Norðmenn er 14,2 sinnum fleiri en Íslendingar og hagkerfi þeirra að sama skapi stærra.  Olíu- og gasiðnaður landsins gerir hagkerfi þeirra talsvert frábrugðið okkar hagkerfi. Við þurfum að fara betur með opinbert fé en þeir, því að þeir taka nú árlega ávöxtun olíusjóðsins inn í ríkissjóð, og stendur hún undir um 18 % ríkisútgjaldanna-innsk. BJo].  

Áhrif samningsins hafa verið mikil og að langstærstum hluta jákvæð. [Það eru svo margar skuggahliðar á áhrifum EES-samningsins, að þetta er ótæk fullyrðing.  T.d. hefði Hrunið 2008 ekki orðið jafnsvakalegt og varð, ef Ísland hefði ekki haft samning við ESB um frjálst flæði fjármagns-innsk. BJo.]

Raunar væri óhugsandi fyrir íslenzkt atvinnulíf að standa utan EES-svæðisins í dag, enda hefur vægi EES-svæðisins í utanríkisviðskiptum aukizt verulega frá gildistöku samningsins.  [Þessari illa rökstuddu fullyrðingu verður að vísa til föðurhúsanna.  Það er ekkert, sem bendir til, að Íslendingum mundi vegna verr með fríverzlunarsamninga við ESB og Bretland en þvingandi, valdlausa og dýrkeypta annexaðild að ESB, og nægir að benda á Sviss því til sönnunar-innsk. BJo.]

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Kína heldur lífinu í Norður-Kóreu, eins og Evrópusambandið heldur lífinu í Íslandi.

4.9.2017:

"Níutíu prósent viðskipta Norður-Kóreu eru við Kína.

Það er það ríki sem heldur lífi í landinu.

Ef Kínverjar hætta viðskiptum við Norður-Kóreu tekur kannski sex mánuði að ólíft verði í landinu."

Um 84% af öllum útflutningi okkar Íslendinga voru seld til Evrópska efnahagssvæðisins árið 2009, þar af um 80% af öllum sjávarafurðum okkar og 90% af öllum iðnaðarvörum.

Og um 70% af erlendum ferðamönnum sem dvelja hér á Íslandi eru búsettir á Evrópska efnahagssvæðinu en á því svæði eru Evrópusambandsríkin, Ísland, Noregur og Liechtenstein.

Lífskjör hér á Íslandi myndu einfaldlega hrynja strax ef við Íslendingar gætum ekki lengur selt sjávarafurðir til Evrópusambandsríkjanna og þar að auki greiða þau hæsta verðið fyrir íslenskar sjávarafurðir.

Í Evrópusambandsríkjunum býr um hálfur milljarður manna sem neytir árlega um tólf milljóna tonna af sjávarafurðum og árið 2006 var afli íslenskra skipa tæpar 1,7 milljónir tonna.

Þar að auki eru lágir tollar á íslenskum sjávarafurðum í Evrópusambandsríkjunum, eða 650 milljónir íslenskra króna árið 2008.

Um 65% af öllum innflutningi okkar Íslendinga var keyptur frá Evrópska efnahagssvæðinu árið 2009 og þá voru um 84% af öllum útflutningi okkar seld þangað.

Og þetta hlutfall hefur lítið breyst frá þeim tíma.

Þorsteinn Briem, 11.5.2018 kl. 15:59

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Segjum upp EES-samningnum og Schengen sömuleiðis. Sú er stefna Ísl. þjóðfylkingarinnar.

Og þökk fyrir beittan og afhjúpandi pistilinn, Bjarni.

Jón Valur Jensson, 12.5.2018 kl. 14:43

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

EES-samstarfið hefur nú breytzt í ofbeldissamband, þar sem Framkvæmdastjórn ESB virðir forsendur EES-samningsins að vettugi.  EFTA-ríkjum, sem ekki kæra sig um að verða fylki í Sambandsríki Evrópu eftir BREXIT, er ekki lengur vært í EES.  Það er útilokað fyrir EFTA-ríkin að breyta EES-samninginum.  Þá er eina lausnin að segja upp EES-samninginum og gera fríverzlunarsamninga.  Þjóðin er algerlega andvíg því að flytja stjórn hvers málaflokksins á fætur öðrum undir stofnanir ESB.  Dæmi um það mun koma í ljós á næstunni, þegar skoðanakönnun Heimssýnar um orkumálin verður birt.  Vantar okkur stjórnvöld með bein í nefinu ?

Bjarni Jónsson, 12.5.2018 kl. 18:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband