"Alþingi gekk of langt"

 Persónuverndarlöggjöf ESB, "General Data Protection Regulation-GDPR", er sniðin við miklu stærri samfélög en hið íslenzka, og verður þess vegna ofboðslega dýr í innleiðingu hér sem hlutfall af tekjum fyrirtækja og stofnana.  Sá kostnaður er svo hár, að koma mun niður á almennum lífskjörum almennings á Íslandi. Yfirvöld hérlendis hafa kastað höndunum til kostnaðaráætlana fyrir þessa innleiðingu og rekstur kerfisins, eins og berlega kom fram í Morgunblaðsgrein Gunnhildar Erlu Kristjánsdóttur, 12. júní 2018, lögfræðingi og sérfræðingi í persónurétti hjá Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu, SFV,

"Áhrif nýrra persónuverndarlaga á ríkissjóð".

Að margir Alþingismenn líti á það sem skyldu sína að samþykkja hvaðeina inn í íslenzka lagasafnið, sem Evrópusambandinu (ESB) þóknast að merkja sem viðeigandi fyrir EFTA-löndin, er þyngra en tárum taki, því að þeim er tryggður synjunarréttur í EES-samninginum, og hann felst líka í fullveldi landsins, sem þingmenn saxa ískyggilega á með þessu háttarlagi.  Þá er samfélagslegur kostnaður af innleiðingu og rekstri viðamikilla orkubálka og aragrúa tilskipana og reglugerða svo mikill, að hann nær þjóðhagslegum stærðum, sem hamla hér lífskjarabata. Það er litlum vafa undirorpið, að EES-aðildin er byrði á hagkerfi landsins en ekki léttir, eins og mönnum var talin trú um í upphafi.  Hvergi á byggðu bóli, nema á Íslandi, í Noregi og Liechtenstein, tíðkast að verða að taka upp löggjöf nágrannans í eigin löggjöf til að mega eiga við hann viðskipti, enda eru annars konar tengsl við hann á formi fríverzlunarsamnings, e.t.v. á milli EFTA og ESB, fyllilega raunhæf.  

Viðskiptaráð Íslands hefur áætlað, að beinn og óbeinn árlegur kostnaður landsins af opinberu regluverki nemi miaISK 175, uppfærður til verðlags 2018.  Mikið af þessu stafar af gagnrýnislítilli innleiðingu gjörða ESB, en hluti af  þessu opinbera regluverki er auðvitað nauðsynlegur.  Ef áætlað er, að 60 % falli illa að þörfum íslenzks samfélags og mætti losna við að ósekju, nemur óþörf kostnaðarbyrði fyrirtækja og hins opinbera af regluverki um 105 miaISK/ár. Regluverkið má vafalaust grisja verulega og aðlaga smæð þjóðfélagsins.  Það er sjálfsagt að ráðast í það, eftir "Iceexit", ári eftir uppsögn EES-samningsins. 

Með nýju persónuverndarlögunum er verið að auka mikið við þetta bákn með stofnkostnaði, sem gæti numið um miaISK 20 m.v. kostnaðaráætlun ESB (miaISK 17,6) og danska áætlun um kostnað fyrirtækja, en enn hærri upphæð m.v. sænska áætlun.  Að viðbættum kostnaði sveitarfélaga og stjórnarráðs fást alls um miaISK 20.  Sveitarfélögin áætla stofnkostnaðinn 0,2 % af tekjum og árlegan rekstrarkostnað 56 % af stofnkostnaði, sem þá þýðir 11 miaISK/ár, ef þessi áætlun er yfirfærð á landið allt.  Við þennan kostnað þarf að bæta óbeinum kostnaði, sem aðallega stafar af þunglamalegri stjórnsýslu, minni afköstum og minni framleiðniaukningu.  Þessi rekstrarkostnaður mun þess vegna árlega vaxa mun meir en almennum verðlagshækkunum nemur. 

Þessi kostnaðarauki er grafalvarlegt mál í ljósi þess, að hann leiðir aðeins til minni verðmætasköpunar á tímaeiningu og aukið öryggi gagna er vafasamt, að náist í raun með gríðarlegu auknu skrifræði. Samþykkt Alþingis á innleiðingu GDPR var misráðin, enda mun hún óhjákvæmilega rýra lífskjörin á Íslandi og líklegast lífsgæðin líka.  Þetta hefst upp úr því að afrita löggjöf hálfs milljarðs manna ríkjasambands gagnrýnislaust fyrir 0,35 milljóna manna smáríki.  Það er ekki öll vitleysan eins í henni versu.  

Upplýsingar um þetta má lesa í úttekt Viðskiptablaðsins, 21. júní 2018,

"GDPR gæti kostað milljarða".

Í úttektinni segir á einum stað:

"Alþingi leiddi efni reglugerðarinnar í íslenzk lög fyrir rúmlega viku, en þar sem vernd persónuupplýsinga er talin [vera] hluti af EES-samninginum, bar Alþingi skylda til að taka GDPR upp í íslenzkan rétt, nánast eins og hún kemur fyrir af skepnunni."

Þetta er útbreiddur misskilningur.  Sameiginlega EES-nefnd EFTA og ESB ræðir upptöku mála í réttarkerfi EFTA-ríkjanna þriggja, sem ESB ætlast til, að spanni allt EES-svæðið.  Þessi nefnd úti í Brüssel getur þó ekki skuldbundið þjóðþingin til eins né neins, en í reynd hefur verið mjög lítið um, að þau synji gjörðum ESB samþykkis.  Af þeim sökum er eina ráðið til að losna undan lagasetningarvaldi ESB að segja upp EES-samninginum, og það er orðið brýnt af fullveldisástæðum og af kostnaðarástæðum.  Í staðinn koma fríverzlunarsamningar EFTA við ESB og Bretland, eða tvíhliða samningar.  Styrkur yrði að Bretlandi innan EFTA, en Neðri-málstofa brezka þingsins aftók, að Bretland gengi í EES, enda færu Bretar þá úr öskunni í eldinn.  

Það virðist hafa verið fljótaskrift á afgreiðslu Alþingis, sem er ámælisvert.  Undir millifyrirsögninni,

"Alþingi gekk of langt", 

stóð þetta í téðri úttekt:

"GDPR hefur að geyma ýmis ákvæði, sem heimila þjóðþingum aðildarríkja ESB og EES að setja sérreglur ásamt því að takmarka eða útfæra nánar tiltekin ákvæði reglugerðarinnar.  Íslenzka ríkið hafði þannig svigrúm til að ákveða með hversu íþyngjandi hætti GDPR var innleitt.  Davíð  [Þorláksson, forstöðumaður hjá Samtökum atvinnulífsins] segir Alþingi þó hafa gengið lengra í innleiðingu reglugerðarinnar en nauðsyn bar til.  

"Íslenzka ríkið ákvað að innleiða reglugerðina með mjög íþyngjandi hætti fyrir atvinnulífið með setningu sérreglna og takmarkaðri nýtingu á undanþáguheimildum", segir Davíð.  Dæmi um slíkar sérreglur eru vinnsla persónuupplýsinga látinna einstaklinga, leyfisskylda til vinnslu, dagsektir, og að fyrirtæki í landinu standi undir kostnaði við  Eftirlit Persónuverndar.

" Þannig er reglugerðin dýrari fyrir íslenzk fyrirtæki en í flestum öðrum ríkjum.  Þar með hefur Alþingi ákveðið að grafa undan samkeppnishæfni íslenzkra fyrirtækja á alþjóðavettvangi, sem hefur farið versnandi.""

Hér eru firn mikil á ferð.  Embættismannakerfið íslenzka með ráðherra í forystu leggur svimandi byrðar á atvinnulíf og stofnanir án þess að huga nokkurn skapaðan hlut að því að reyna að búa svo um hnútana, að byrðar þessar verði sem léttbærastar.  Ósóminn rennur síðan á leifturhraða gegnum Alþingi.  Hér bregðast þeir, er sízt skyldi.  Þetta eru forkastanleg vinnubrögð, sem sýna svart á hvítu, að íslenzka stjórnkerfið ræður ekki við EES-aðildina.  Eina lausnin á þessu stjórnkerfisvandamáli er að losa Ísland úr hrammi ESB með uppsögn EES-samningsins áður en stjórnkerfið íslenzka í glópsku sinni og vanmætti glutrar niður leifunum af fullveldinu.  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband