Með samninginum um Evrópska efnahagssvæðið, EES, er Ísland með eins konar aukaaðild að Evrópusambandinu, ESB, án þess að hafa sömu réttindi og aðildarþjóðirnar til að vinna að þeim gjörðum sambandsins, lögum, tilskipunum og reglugerðum, sem landinu er gert að innleiða í réttar- og stjórnkerfi sitt.
Aukaaðildin felst í því, að Framkvæmdastjórnin merkir hluta af gjörðum sínum sem viðeigandi fyrir EFTA-ríkin, og í sameiginlegu EES-nefndinni, þar sem 3 EFTA-ríki og ESB eiga fulltrúa, er síðan þrefað um fyrirkomulag upptöku EFTA-ríkjanna í lögbækur sínar eða reglugerðaflóru. Þar var löngum viðkvæði EFTA, að viðhafa yrði tveggja stoða regluna við innleiðinguna, þ.e. að EFTA-megin mundi sjálfstæð stofnun sjá um samskiptin á milli ESB og ríkisvaldsins í hverju EFTA-ríki. Ýmist hafa þetta verið "Pótenkímtjöld" með ESA-ásjónu, en EFTA-stofnun á bakvið, sem togar í alla spotta, eða engin tilraun er gerð til tveggja stoða lausnar. Þjóðþing EFTA-ríkjanna eiga alltaf síðasta orðið um lögfestingu gjörðarinnar eða synjun lögfestingar. Það er hinn sjálfsagði "stjórnlagalegi fyrirvari", því að á fundi úti í Brüssel er ekki hægt að skuldbinda þjóðina endanlega, hvað þá að taka endanlega ákvörðun um fullveldisframsal.
Þrýstingur myndast á þjóðþingin frá ESB og í mörgum tilvikum frá hinum EFTA-ríkjunum tveimur um að samþykkja, því að öll þrjú verða að samþykkja, svo að gjörðin öðlist gildi í hverju EFTA-landi, nema Sviss, sem er utan við þessi ósköp samkvæmt niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu þar á sínum tíma.
Fyrir fullvalda ríki er þetta fyrirkomulag ótækt, enda fer andstaðan við það vaxandi í Noregi og á Íslandi. Þetta hjálendufyrirkomulag er bæði allt of dýrt fyrir lítið samfélag og alveg óþarft fyrir frí og hindrunarlaus viðskipti, eins og Kanadamenn sömdu um við ESB haustið 2017, og Bretar munu vafalaust semja um innan tíðar.
Það hrannast upp lögfræðilegar álitsgerðir og rök fyrir því, að núverandi einhliða lagasetningarsamband við ESB undir hatti vafasams EES-samnings, sem Alþingi samþykkti 12. janúar 1993, sé búið að brjóta svo herfilega á Stjórnarskrá Íslands, að stöðva verði þessa færibandaframleiðslu nú þegar, eða að breyta Stjórnarskrá til að heimila slíkt framsal. Formenn stjórnmálaflokkanna komu saman í Þingvallabænum snemmsumars til að ræða stjórnarskrárbreytingar, en engin tillaga hefur sézt um útfærslu, sem geri EES-aðild Íslands lögmæta í framkvæmd.
Lögfræðileg gagnrýni á framkvæmd EES-samningsins kom nú síðast fram í athyglisverðri ritgerð Alexöndru Bjarkar Adebyi til lokaprófs í lögfræði við Háskólann í Reykjavík (HR). Erna Ýr Öldudóttir birti viðtal sitt við hinn nýútskrifaða lögfræðing í Morgunblaðinu þann 28. júní 2018 undir fyrirsögninni:
"Forsenda valdframsals breytt".
Fréttin hófst þannig:
"Í ljósi þess, hvernig fyrirkomulag valdframsals vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES) hefur þróazt, er það fyrirkomulag nú ekki talið standast þær forsendur, sem byggt var á, þegar valdframsal vegna samningsins var talið samrýmast íslenzku stjórnarskránni [og var þó talið vera á gráu svæði-innsk. BJo].
Þetta er á meðal þess, sem kemur fram í lokaritgerð Alexöndru Bjarkar Adebyi í lögfræði við Háskólann í Reykjavík (HR), sem ber yfirskriftina "Fyrirkomulag valdframsals vegna EES-samningsins". Margrét Einarsdóttir, dósent við lagadeild HR, leiðbeindi við skrifin." [EES-samningurinn var ekki og er ekki þjóðréttarlegs eðlis. Þess vega á ekkert valdframsal að eiga sér stað á grundvelli þessa samnings, sem aðallega er viðskiptalegs eðlis-innsk. BJo.]
Þegar EES-samningurinn var á umræðustigi hérlendis, árin 1991-1993 (hann hlaut lagagildi hér 1. janúar 1994), var uppi mikill ágreiningur um það, hvort hann bryti í bága við íslenzku Stjórnarskrána. Miklar áhyggjur voru t.d. á meðal þingmanna á takmarkalaus landakaup útlendinga á landi eftir inngöngu í EES. Lofað var trygginga gegn því, en þær tryggingar stjórnvalda fóru algerlega í handaskolum, engir varnaglar settir í EES-samninginn og lagalegum takmörkunum skolað burt af ótta við kæru frá ESA, Eftirlitsstofnun EFTA. Íslenzk stjórnvöld hafa aldrei haft neina burði til að gæta hagsmuna Íslands í þessu umfangsmikla og flókna EES-samstarfi, þar sem ESB ræður lögum og lofum.
Djúpstæður ágreiningur í þjóðfélaginu endurspeglaðist í þingsal. Þrautaráðið var að fá teymi kunnáttumanna um stjórnlögin til að fjalla um málið. Í raun var niðurstaða teymisins sú, að EES-samningurinn væri ekki alls kostar í samræmi við Stjórnarskrá. Þetta var orðað svo, að samningurinn væri á yztu brún hins leyfilega. Því miður var látið hjá líða þá að gefa þjóðinni kost á að gefa EES-samninginum lögmæti eða að synja honum samþykkis. Alþingi leyfði Stjórnarskránni ekki þá að njóta vafans, og síðan hefur stöðugt sigið á ógæfuhliðina með ótal hæpnum innleiðingum. Um þverbak hefur keyrt í kjölfar samþykktar ESB á Lissabon-sáttmálanum 2009, og undanfarin ár hefur hver stórgjörðin rekið aðra, þar sem ótvírætt valdframsal á sér stað til stofnana ESB, þar sem Íslendingar eru ekki aðilar.
Lokaritgerð Alexöndru Bjarkar er samantekt á þessu og staðfesting á því mati, að EES-aðildin brjóti gegn Stjórnarskránni.
Við þessar aðstæður er tvennt í stöðunni:
- Að ríkisstjórnin leiti hófanna um breytta EES-skilmála, annaðhvort ein á báti eða í samfloti við EFTA, eða kanni möguleikana á nýjum fríverzlunarsamningi við ESB (sá gamli tekur gildi við útgöngu), og geri síðan Alþingi og þjóðinni grein fyrir niðurstöðunni. Síðan verði þjóðaratkvæðagreiðsla um breytta aðild að EES, já eða nei.
- Að breyta Stjórnarskránni þannig, að Alþingi verði heimilt með auknum meirihluta að samþykkja valdframsal til yfirþjóðlegra stofnana, þótt Ísland sé þar ekki aðili. Í norsku stjórnarskránni er áskilið samþykki 75 % mættra Stórþingsmanna, og að að lágmarki 2/3 þingmanna sé mættur. Þetta þýðir, að a.m.k. 50 % þingmanna verður að samþykkja slíkan gjörning, svo að hann öðlist lagagildi. Sams konar ákvæði mætti viðhafa hér.
Það er skoðun höfundar þessa pistils, að enginn áhugi sé innan ESB á endurskoðun EES-samningsins, nema þá í átt til enn nánari samruna ESB og EFTA. Hins vegar er ESB ekki stætt á því að neita Íslendingum um svipaðan fríverzlunarsamning og gerður var við Kanada haustið 2017. Þess vegna er eðlilegast að segja EES-samninginum fljótlega upp með samningsbundnum árs fyrirvara um gildistöku. Ef samningar um nýjan fríverzlunarsamning dragast á langinn, tekur einfaldlega gamli viðskiptasamningurinn gildi á ný, og hann tryggir alveg þokkalegt aðgengi að Innri markaði ESB. Um svipað leyti munu Íslendingar jafnframt standa í samningaviðræðum við Breta um fríverzlunarsamning, sem ástæða er til að búast við, að ganga muni greiðlega. Ef fríverzlunarsamningur kemst á á milli Breta og ESB, er einboðið, að Íslendingum standi svipaður samningur til boða við ESB.
Það er ljóst, að utanríkisráðuneytisins bíða stórverkefni, en tilburðir til undirbúnings eru takmarkaðir, og gufumökkur svífur þar yfir, eins og yfir gyðjunni í Delphi á sínum tíma, enda skilaboðin úr ráðuneytinu í véfréttastíl. Utanríkismálanefnd Alþingis verður að setja sporann í nárann á truntunni og keyra hana áfram með svipu, ef hún ætlar ekki að hafast úr sporunum, en vill bara "business as usual".
"Hverjar eru helztu niðurstöður lokaritgerðarinnar ?"
"Helzt þær, að samningurinn ber í dag mörg einkenni þess að vera yfirþjóðlegs eðlis. Þær forsendur og þau sjónarmið, sem byggt var á, þegar valdframsal vegna EES-samningsins var talið samrýmast stjórnarskránni, verða að teljast matskennd og mörkin á túlkun stjórnarskrárinnar óljós. Þegar skoðað er, hvernig fyrirkomulag valdframsals vegna EES-samningsins hefur þróazt, verður hann ekki talinn standast þær forsendur, sem byggt var á, þegar valdframsal vegna samningsins var talið samrýmast stjórnarskránni. Fræðimenn hafa m.a. haft uppi varúðarorð um þróunina, og hefur þeim fjölgað í gegnum tíðina."
Hér er kveðið skýrt að orði um þá stöðu, sem nú er uppi, að á sínum tíma hafi lagalegur rökstuðningur verið ófullnægjandi fyrir því, að Stjórnarskráin heimilaði EES-samninginn, og að núverandi framkvæmd EES-samningsins feli í sér ótvírætt Stjórnarskrárbrot. Við svo búið má ekki standa. Stjórnvöld eru að bregðast Stjórnarskránni og landsmönnum með því að sópa vandamálinu stöðugt undir teppið. Það er alger óþarfi, því að viðunandi úrlausn er handan við hornið. Lokaspurning og -svar var á þessa leið:
"Varðstu einhvers fleira vísari, sem vert væri að greina frá ?"
"Helzt er það, hversu mikla hagsmuni Ísland hefur af því, að EES-samningnum sé fundin traust stjórnskipuleg stoð. Án þess erum við að takast á við síendurtekin stjórnskipuleg vandamál við upptöku og innleiðingu á EES-löggjöf."
Lausnirnar hafa verið tíundaðar hér að ofan. Stjórnvöld verða að fara að sýna lit í þessu máli á því, að strútur sé ekki við stjórnvölinn, og sýna getu til að marka farsæla stefnu í stórmáli, sem í senn verði í samræmi við Lýðveldisstjórnarskrána og efnahagslega hagsmuni landsins. Það er ekkert sérstakt stórvirki. Vilji er allt, sem þarf.
Athugasemdir
Vald íslenska ríkisins var framselt til Brussel með aðild ríkisins að Evrópska efnahagssvæðinu fyrir meira en tveimur áratugum.
Og enginn stjórnmálaflokkur sem á sæti á Alþingi vill segja upp aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.
Davíð Oddsson var forsætisráðherra þegar Ísland fékk aðild að Evrópska efnahagssvæðinu 1. janúar 1994 og Schengen-samstarfinu 25. mars 2001.
Þorsteinn Briem, 21.7.2018 kl. 14:28
Eiríkur Bergmann Einarsson forstöðumaður Evrópufræðaseturs Háskólans á Bifröst:
"Svíþjóð er aðeins gert að innleiða hluta af heildar reglugerðaverki Evrópusambandsins.
Og ef við beitum svipuðum aðferðum og Davíð Oddsson gerði í sínu svari getum við fundið út að okkur Íslendingum er nú þegar gert að innleiða ríflega 80% af öllum lagareglum Evrópusambandsins sem Svíum er gert að innleiða."
Þorsteinn Briem, 21.7.2018 kl. 14:29
"Fjórfrelsið gildir á öllu Evrópska efnahagssvæðinu og það felur í sér frjáls vöru- og þjónustuviðskipti, frjálsa fjármagnsflutninga og sameiginlegan vinnumarkað.
Að auki kveður samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið á um samvinnu ríkjanna á svæðinu í til dæmis félagsmálum, jafnréttis-, neytenda-, umhverfis-, mennta-, vísinda- og tæknimálum."
Þorsteinn Briem, 21.7.2018 kl. 14:30
Um 84% af öllum vöruútflutningi okkar Íslendinga voru seld til Evrópska efnahagssvæðisins árið 2009, þar af um 80% af öllum sjávarafurðum okkar og 90% af öllum iðnaðarvörum.
Og meirihlutinn af erlendum ferðamönnum sem dvelja hér á Íslandi er búsettur á Evrópska efnahagssvæðinu en á því svæði eru Evrópusambandsríkin, Ísland, Noregur og Liechtenstein.
Við Íslendingar ferðumst mest til annarra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu og þar starfa flestir Íslendingar sem vinna erlendis, auk þess sem flestir Íslendingar sem stunda nám erlendis eru við nám á Evrópska efnahagssvæðinu.
Íslensk fyrirtæki og einstaklingar hafa einnig fengið gríðarháa styrki frá Evrópusambandsríkjunum.
Lífskjör hér á Íslandi myndu einfaldlega hrynja strax ef við Íslendingar gætum ekki lengur selt sjávarafurðir til Evrópusambandsríkjanna og þar að auki greiða þau hæsta verðið fyrir íslenskar sjávarafurðir.
Í Evrópusambandsríkjunum býr um hálfur milljarður manna sem neytir árlega um tólf milljóna tonna af sjávarafurðum og árið 2006 var afli íslenskra skipa tæpar 1,7 milljónir tonna.
Þar að auki eru lágir tollar á íslenskum sjávarafurðum í Evrópusambandsríkjunum, eða 650 milljónir íslenskra króna árið 2008.
Um 65% af öllum innflutningi okkar Íslendinga var keyptur frá Evrópska efnahagssvæðinu árið 2009 og þá voru um 84% af öllum útflutningi okkar seld þangað.
Þorsteinn Briem, 21.7.2018 kl. 14:51
..Bjarni Flott grein og eins og góður vinur minn segir alltaf ...Keep on trucking... en þetta er þitt speciality enda fróður í þessum málum.
Valdimar Samúelsson, 21.7.2018 kl. 15:49
Steini þú segir:
"Fjórfrelsið gildir á öllu Evrópska efnahagssvæðinu og það felur í sér frjáls vöru- og þjónustuviðskipti, frjálsa fjármagnsflutninga og sameiginlegan vinnumarkað.
Þetta er bara við ESB lönd eða eru þeir að bjóða viðskiptasamninga við önnur lönd utan við ESB. ???
Valdimar Samúelsson, 21.7.2018 kl. 15:53
Það er alltaf nauðsynlegt að endurmeta og skoða EES-samningin (og sérstaklega nýlegar óþarfar viðbætur). Hins vegar verðum við að passa að fjarlægðin geri ekki fjöllin blá.
Gamli samingingurinn við ESB (sem var enn í gildi fyrir útflutning á óunnum landbúnaðarvörum þar til um mitt ár 2018) er klárlega mun verri samningur en núverandi EES-samningur og á bara við um Landbúnaracvörur og Sjávarafurðir
https://www.stjornarradid.is/media/utanrikisraduneyti-media/media/Friverslunarsamningar/Bokun-6-vid-friverslunarsamning-Islands-og-EBE-fra-1972.pdf
Það myndi engin vilja svona samning í dag, þannig að það þarf að hafa betra plan til vara fyrir EES-úrsögn.
Varðandi:
"Að breyta Stjórnarskránni þannig, að Alþingi verði heimilt með auknum meirihluta að samþykkja valdframsal til yfirþjóðlegra stofnana, þótt Ísland sé þar ekki aðili"
Engum heilvita aðila dettur þetta í hug. Það er lykilforsenda að valdaframsali til alþjóðlegra stofnana (sem nokkur dæmi eru um sbr. NATO) fylgi aðils Íslands að þessum stofnunum.
Til Steina:
"okkur Íslendingum er nú þegar gert að innleiða ríflega 80% af öllum lagareglum Evrópusambandsins sem Svíum er gert að innleiða."
Sem betur fer ekki, við myndum ekki ráða við það með núverandi vinnubrögðum. Hér er um að ræða 80% af tilskipunum sem rúmast innan fjórfrelsis. Úr þeim eru svo unnin íslensk lög sem eru í anda tilskipunar (eða ekki sbr. fyrsta útgáfan af Neytendalögunum frá 1995). Þannig að lagaleg samsvörun er nær 15-20%.
Til Valdimars:
"Fjórfrelsið gildir á öllu Evrópska efnahagssvæðinu og það felur í sér frjáls vöru- og þjónustuviðskipti, frjálsa fjármagnsflutninga og sameiginlegan vinnumarkað"
Þetta á líka við um ísland og Noreg (þ.e. bein samskipti), sem bæði eru í Evrópska Efnahagssvæðinu en ekki í ESB :)
Gunnar Sigfússon, 24.7.2018 kl. 14:51
Þakka fyrir Gunnar. Þá er spurningin. Höfum við ekki nóg af öðrum viðskiptatækifærum sérstaklega þegar við horfum á megnið að útflutningsvörum til ESB landanna fara áfram til annara lands og jafnvel umskipað strax í útflutnings höfnum þar.
Valdimar Samúelsson, 24.7.2018 kl. 15:05
Viðskiptasamningar Íslands og Noregs við ESB, sem í gildi voru á undan EES, voru mjög áþekkir, og samkvæmt báðum var fullt tollfrelsi inn á ESB-markaði fyrir iðnaðarvörur, t.d. ál.
Núna eru Íslendingar og Norðmenn einmitt í þeirri aðstöðu að þurfa að taka við fyrirmælum og úrskurðum frá stofnunum, þar sem þeir ekki eiga aðild, t.d. frá Persónuverndarráði ESB og frá ESB-dómstólinum um persónuverndarmálefni, allt samkvæmt EES-samstarfinu.
Þegar Norðmenn gengu í EES, afgreiddi Stórþingið málið með auknum meirihluta, yfir 75 % viðstaddra þingmanna, vegna þess að Norðmönnum var ljóst, að aðildin fæli í sér fullveldisframsal til yfirþjóðlegrar stofnunar, þar sem Noregur átti ekki aðild. Norska aðildin hefur þannig meira lögmæti en sú íslenzka.
Bjarni Jónsson, 25.7.2018 kl. 09:34
Persónuverndarlöggjöfin er akkúrat fínt dæmi um tilskipun, sem ekki var hluti af fjórfrelsi, en var samt tekin inn í EES-samninginn.
https://www.personuvernd.is/efst-a-baugi/upptaka-personuverndarreglugerdar-esb-i-ees-samninginn-og-stada-innleidingar
Það má deila um hvort löggjöfin sé góð eða slæm og hversu mikið vald sé raunverulega verið að framselja, en ljóst er að við munum í einu og öllu fylgja ESB í meðferð persónuupplýsinga. Jafnvel þótt löggjöfin hafi verið aðlöguð í gegnum samstarf EFTA og ESB liggur endanlegur úrskurður ágreiningsefna hjá ESB-dómstóli (þ.e. ESA er bara með ráðgefandi hlutverk). Þetta er öðruvísi en í kjarnatilskipunum tengdu fjórfrelsi, þ.e upphaflega EES-samningnum en þar er farið er í gegnum tvístofna - kerfi ESB-EFTA (ESA) á jafnréttisgrundvelli. Þetta passar illa við stjórnarskrá okkar.
Skv. túlkun hingað til á núverandi stjórnarskrá er ekki heimilt að framselja vald til alþjóðlegra stofnana án þess að Ísland eigi þar aðild. Þrengri túlkun gerir slíkt jafnvel vafasamt. Við getum hins vegar aðlagað löggjöf okkar að alþjóðlegum ferlum en íslenskur dómstóll á lokaorðið í þeim efnum sem ekki falla undir ESA. það verður því afar fróðlegt að sjá hvað gerist ef ágreiningur kemur upp, t.d. við framsal upplýsinga til þriðja aðila (lands utan ESB). Mun ESB-dómstóll eða íslenski (skv. stjórnarskrá) eiga síðasta orðið?
Til Bjarna:
"Viðskiptasamningar Íslands og Noregs við ESB, sem í gildi voru á undan EES, voru mjög áþekkir, og samkvæmt báðum var fullt tollfrelsi inn á ESB-markaði fyrir iðnaðarvörur, t.d. ál."
Ertu viss um þetta, mig minnir að við höfum sleppt tolli á súrál til innflutnings til að vega á móti tolli ESB (sem hefur verið 4-5% á aðila utan EES).
Allt sem ég finn um gamla samninginn fyrir Ísland (ekki Noreg) sýnir lækkaðan toll á sjávarafaurðir og landbúnaðarafurðir. Eftir EES-samninginn lækka tollar á sjávarafurðir (Landbúnaðurinn er áfram skv. gamla) og sumar iðnaðarvörur (ekki allar)
Til Valdimars
"Þá er spurningin. Höfum við ekki nóg af öðrum viðskiptatækifærum sérstaklega þegar við horfum á megnið að útflutningsvörum til ESB landanna fara áfram til annara lands og jafnvel umskipað strax í útflutnings höfnum þar. "
Við erum búnir að gera fríverslunar-og viðskiptasamninga við fjöldamörg lönd utan ESB. Flestir eru vöruviðskipti (yfirleitt sjávarafurðir) en ekki viðskipti með þjónustu. Það sem gerir EES og Hoyvíkur-samninginn (við Færeyjar) sterkari að hann nær yfir allan pakkann. Það er sú samningsniðurstaða sem Bretar vilja líka ná við ESB eftir útgöngu ("þrí-frelsi", vörur, þjónusta, fjármagn).
Gunnar Sigfússon, 26.7.2018 kl. 14:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.