31 % jarða á Íslandi eru í eigu félaga

Fjölmörg bú á Íslandi eru fjölskyldufyrirtæki í eigu félaga, og við það er ekkert að athuga.  Það má hins vegar furðu gegna, að hérlend yfirvöld rumski ekki við, þegar jarðir hér eru keyptar af félögum, þar sem eignarhaldið er allsendis óljóst.  

Þegar þannig er í pottinn búið, er sú hætta fyrir hendi, að með fjárfestingunni sé stundað peningaþvætti.  Hvernig í ósköpunum má það vera, að Fjármálaeftirlitið, FME, láti hjá líða að rannsaka þess konar eignarhald til að ganga úr skugga um, að allt sé með felldu ?

Það er heldur ekki vanzalaust, að framkvæmdavaldið og löggjafarvaldið hafi enn ekki haft í sér döngun til að stemma stigu við keðjueignarhaldi félaga á jörðum, sem gæti verið til þess eins ætlað að fela eignarhaldið.  Hér hafa yfirvöldin rétt einu sinni flotið sofandi að feigðarósi um borð í EES-skekktunni.  Alls konar ósómi þrífst í skjóli EES-samningsins, af því að yfirvöld ráða ekki við það stórverkefni að standa á rétti landsmanna, þegar búið er að hleypa risaríkjasambandi hér inn á gafl.  Eina rökrétta leiðin út úr þessum ógöngum er að segja EES-samninginum upp, fara að setja lög, eins og fullvalda þjóð getur gert, og hreinsa moðverkið út úr laga- og reglugerðafargani EES-aðildarinnar, atvinnulífi og stjórnkerfi til ómælds léttis.  

Samkvæmt fasteignaskrá eru 7670 jarðir á landinu, og þar af eru 6600 lögbýli.  Hefðbundinn búskapur með sauðfé og/eða nautgripi virðist aðeins vera stundaður á 2218 jörðum eða 34 % lögbýla.  Eðlilegt er að gera meiri kröfur til eignarhalds á jörðum, þar sem hefðbundin matvælaframleiðsla er stunduð en hinna m.t.t. fæðuöryggis og byggðastefnu í landinu.  

Í landinu eru 2378 jarðir í eigu félaga eða fyrirtækja eða 31 %.  Öll jarðeignarfélög með óljósu eignarhaldi þurfa að gera grein fyrir eigendum sínum, og óljóst eignarhald á að verða óleyfilegt.  Fastrar ábúðar meirihlutaeigenda eða kosti á útleigu til ábúanda þarf að krefjast, ef um hefðbundna landbúnaðarjörð er að ræða.

Í landinu eru 384 jarðir eða 5 % að hluta eða að öllu leyti í eigu einstaklinga með lögheimili erlendis, þar af 62 jarðir alfarið í eigu slíkra.  Í sambandi við þetta skiptir tilgangurinn öllu máli.  Að kaupa jörð í söfnunarskyni eða til að afleggja búskap án þess að hefja eigi nokkurn annan atvinnurekstur á jörðinni er  hæpið að samþykkja, og viðkomandi sveitarfélag ætti að fá slíkt til umsagnar.  Hins vegar ber almennt að fagna beinum erlendum fjárfestingum til verðmætasköpunar og atvinnusköpunar. Það hefur verið allt of lítið um slíkt, og þess vegna ber að gjalda varhug við erlendum kaupum á landi og meta í hverju tilviki, hvort kaupin séu líklega til að styrkja sveitarfélagið og byggðina.      

Það verður líklega vaxandi hörgull á matvælum í heiminum í framtíðinni vegna loftslagsbreytinga, fjölgunar fólks og vaxandi vatnsskorts.  Það er þekkt annars staðar frá, að útlendingar hafa fjárfest í landbúnaði til að framleiða matvæli fyrir sitt heimaland, sem annars gæti ekki brauðfætt sig.  Íslenzk löggjöf um matvælaframleiðslu verður að tryggja íbúum landsins forgangsrétt til vatns og lands til matvælaframleiðslu.  

Stjórnvöld verða að toga sig upp á hárinu og setja þá löggjöf, sem dugir í þessum efnum án tillits til gjamms frá ESA, enda fer nú vonandi að styttast í þessari dæmalausu EES-aðild, hverrar alvarlegu ókostir koma nú sífellt betur í ljós á einu sviðinu á fætur öðru.   

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Tek undir þetta mál en bendi á að vinstri menn hafa aldrei haft áhuga á þjóðar öryggismálum og svo má líka benda á þá staðreynd að í pólitík á Íslandi eru nú um mundir bara vinstrimenn.

Hrólfur Þ Hraundal, 3.8.2018 kl. 13:23

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ætli það sé ekki mikið til í því, að til valda fáum við þá stjórnmálamenn, sem við eigum skilið.

Bjarni Jónsson, 3.8.2018 kl. 15:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband