Átta skilyrði Norðmanna

Það er himinn og haf á milli viðhorfa þeirra, sem telja innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn verða Íslendingum meinlausa eða jafnvel gagnlega og hinna, sem telja þessa innleiðingu vera brot gegn Stjórnarskrá lýðveldisins og/eða þjóðhagslega hættulega aðgerð.  

Fylgjendur innleiðingarinnar tína sumir það til, að Sameiginlega EES-nefndin hafi samþykkt "pakkann" og Alþingi beri að staðfesta gjörninginn, annars megi búast við refsiaðgerðum að hálfu ESB í garð Íslendinga og jafnvel Norðmanna líka, jafnvel brottrekstri úr EES.  Þessi málflutningur ber vott um þrælslund og þrælsótta, en er hvorki reistur á lögfræðilegum ályktunum né vandaðri áhættugreiningu. Það kom fram hjá prófessor Peter Örebech, sérfræðingi, í Evrópurétti, á fundi Heimssýnar o.fl. á Háskólatorgi 22.10.2018, að lögfræðilega er réttur Alþingis til að synja Þriðja orkupakkanum staðfestingar innbyggður í EES-samninginn og að þessi réttur er jafnskýr og rétturinn til staðfestingar.  Brottrekstur úr EES fyrir synjun er þess vegna útilokaður, enda óframkvæmanlegur innan stjórnkerfis ESB. 

Svo eru aðrir fylgjendur pakkans, sem aðallega hampa skaðleysi hans og telja hann litlu sem engu breyta hér innanlands fyrr en hingað verður lagður sæstrengur.  Norski lagaprófessorinn, Peter Örebech, hefur hrakið þetta viðhorf með lagalegum rökum og vísunum til dóma ESB-dómstólsins.  Niðurstöður hans ganga þvert á lagatúlkanir tveggja íslenzkra lögmanna, sem ritað hafa greinargerðir til iðnaðarráðherra um afleiðingar innleiðingar Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB.  Með fullri virðingu fyrir lagatúlkunum lögmannanna, þá ræður lagatúlkun ESB-dómstólsins öllu um framvinduna, og dómarnir hafa sitt fordæmisgildi.  Vekur óneitanlega furðu, að þrátt fyrir lagatúlkanir lögmannanna í löngu máli, þá studdust þeir ekkert við dómsuppkvaðningar ESB-dómstólsins.  

Það er til marks um miklar efasemdir í Noregi í garð Þriðja orkumarkaðslagabálksins, að Stórþingið samþykkti bálkinn í marz 2018 með 8 skilyrðum, sem voru þó ekki lögfest, heldur eins konar bókun eða þingsályktun, sem send var framkvæmdastjórn ESB með bréfi um staðfestingu Stórþingsins á pakkanum.  Það er því miður ólíklegt, að þessi aðferðarfræði Norðmanna hafi nokkur áhrif í Brüssel, sem á þessu stigi máls er ekki ginnkeypt fyrir undanþágum við Evrópugerðir og tilskipanir, sem gilda eiga með sama hætti um allt EES-svæðið, enda mundi mismunandi framkvæmd gerðanna skapa rugling, óvissu og óánægju.  Þar gildir "take it or leave it", allt eða ekkert, og er það skiljanlegt fyrirkomulag á þeim bæ. 

Þegar skilyrði Norðmanna eru skoðuð, kemur í ljós, að óttinn við "pakkann" í Noregi hefur að flestu leyti verið af sama toga og á Íslandi, en því miður valdi Stórþingið að taka gríðarlega áhættu með samþykkt "pakkans", væntanlega í krafti sterkrar stöðu Norðmanna sem olíu-, gas- og rafmagnsbirgjar fyrir orkuhungraða Evrópu.  

Skoðum skilyrði Stórþingsins.  Samþykkt þessara skilyrða réði úrslitum þar um þá niðurstöðu, sem varð:

  1. Vatnsaflsauðlindirnar skulu lúta norskum lögum og nýting þeirra taka mið af þjóðarhag.  -----   Þetta er líka baráttumál andstæðinga innleiðingar Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á Íslandi.  Norski lagaprófessorinn, Peter Örebech, hefur sýnt fram á, að með samþykkt téðs bálks ESB munu öll löggjöf og reglur Innri markaðar EES taka gildi um orkugeirann.  Það þýðir, að ekki má mismuna fyrirtækjum innan EES í viðskiptum með orkufyrirtæki og þar með nýtingarrétt eða rannsóknarrétt á orkulindunum.  Ef eigandinn er í öðru landi, er ekki lengur sjálfgefið, að nýtingin taki mið af þjóðarhag, verðmætasköpun og atvinnusköpun í landinu, heldur verði megináherzlan á beinan útflutning raforku. Þessi fyrirvari Norðmanna er í uppnámi á Innri markaði EES, því að þjóðarréttur víkur fyrir Evrópurétti við réttarframkvæmd. 
  2. Núverandi opinbert eignarhald norskra vatnsorkulinda skal vera áfram í gildi, og a.m.k. 2/3 þeirra skulu vera í opinberri eigu.  ----  Það, sem brýtur í bága við Evrópurétt í þessu sambandi, er, að einn aðili, t.d. ríkið, eigi svo mikla markaðshlutdeild, að samkeppnisstaðan skekkist samkvæmt samkeppnislögum ESB.  Í Noregi er varla hætta á slíku, því að stærsta fyrirtækið, Statkraft, þeirra Landsvirkjun, hefur "aðeins" 34 % markaðshlutdeild þar í landi.  Þó er mögulegt, að ríkiseign í öðrum virkjunarfyrirtækjum kunni að verða flokkuð sem ríkisstuðningur á samkeppnismarkaði, sem brýtur í bága við Evrópurétt.  Sveitarfélög og fylki eru hins vegar stórir eignaraðilar að virkjunum í Noregi, og varla verða gerðar athugasemdir við það.  Á Íslandi gegnir allt öðru máli.  Landsvirkjun er með 80 % markaðshlutdeild, og verður henni vafalítið skipt upp og að verulegu leyti seld á EES-markaði að kröfu ESA af samkeppnisástæðum á frjálsum orkumarkaði.  Af því hlytist gríðarlegt þjóðhagslegt tjón hérlendis.  Eina lagalega ráðið til að koma í veg fyrir það er að þjóðnýta allan orkugeirann, og það er ófær leið af eignarréttarlegum ástæðum. 
  3. Raforkuvinnsla úr endurnýjanlegum orkulindum Noregs skal leiða til aukinnar verðmætasköpunar og atvinnusköpunar í Noregi og til að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi með endurnýjanlegri orku.                    -----------------------Þetta er greinilega sett fram til að stemma stigu við auknum útflutningi raforku um sæstrengi, og umræðan er svipuð á Íslandi.  Munurinn er þó sá, að Norðmenn hafa átt umframorku til að flytja utan, en á Íslandi er hún jafnaðarlega sáralítil, og það verður hægt að nýta hana betur innanlands með því að útrýma flöskuhálsum í flutnings- og dreifingarkerfi raforku.  Viðbótar orkuþörf hérlendis til 2050 má meta 7 TWh/ár [terawattstundir á ári í virkjunum eða um 37 % af núverandi orkuvinnslugetu] og samkvæmt bjartsýnni Rammaáætlun um orkuvinnslugetu jarðgufu má búast við viðbótar orkuvinnslugetu tæplega 10 TWh/ár, en hún gæti líka orðið talsvert minni, ef mið er tekið af rýrnun jarðgufuforða við virkjun á Hellisheiði.  Flutningsgeta sæstrengs frá Íslandi er á bilinu 5-10 TWh/ár.  Þetta þýðir, að haldi núverandi stóriðja áfram starfsemi sinni hér, þá verður engin orka til skiptanna fyrir sæstreng í framtíðinni, nema aukinn þrýstingur um fleiri virkjanir í nýtingarflokk vegna orkusölu um sæstreng beri ávöxt.  Að selja raforku frá Íslandi um sæstreng áður en orkuskiptum er lokið, er þjóðhagslegt glapræði. Ef sá sæstrengur ætti að skila eigendum sínum hagnaði m.v. núverandi orkuverð í Evrópu, yrði að selja orkuna inn á hann með tapi, eða hann yrði að njóta verulegra styrkveitinga, t.d. að hálfu ESB. 
  4. Norsk yfirvöld skulu sjálfstætt hafa stjórn á öllum ákvörðunum, sem þýðingu hafa fyrir afhendingaröryggi orku í Noregi, þ.m.t. ákvarðanir tengdar iðnaðinum og rofi á afhendingu rafmagns.- Hér hafa Norðmenn greinilega áhyggjur af því, að samkvæmt ákvæðum EES-samningsins um Innri markaðinn eru magntakmarkanir á viðskiptum, t.d. inn- og útflutnings, óheimilar.  Þarna er gerð tilraun til að halda í núverandi vald norskra stjórnvalda til að draga úr útflutningi raforku í tæka tíð, er lækkar í miðlunarlónum, í stað þess að þurfa að rjúfa eða takmarka afhendingu raforku til iðnfyrirtækja áður en kemur til almennrar skömmtunar á rafmagni í landinu.  Hér á Íslandi er þessi hætta miklu meiri en í Noregi, þ.e. að grípa þurfi til stórfelldra skerðinga til stóriðju með aðeins eina utanlandstengingu, sem kann að bila, þegar miðlunarlón eru í lágmarki.  Löngu áður hefur rafmagnsverð á frjálsum markaði hérlendis þá rokið upp úr öllu valdi.  Samkvæmt samningum á skerðing forgangsorku í neyð að verða hlutfallslega jafnmikil hjá stóriðju og almenningsveitum.  Ef þessi staða kemur upp, verður gríðarlegt tjón um allt þjóðfélagið.  Af þeim sökum og fleirum má löggjöf landsins ekki verða með þeim annmörkum, að hún beinlínis bjóði þessari hættu heim. Ef hér verður innleitt stjórnfyrirkomulag á raforkumarkaði, sem sniðið er við gjörólíkar aðstæður þeim, sem hér ríkja, þá er hættunni vísvitandi boðið heim.  Hver ætlar að axla þá ábyrgð ? 
  5. Ákvarðanir um hugsanlega nýja utanlandsrafstrengi skulu áfram vera alfarið á valdi norskra yfirvalda, og reynsluna af strengjunum tveimur, sem nú eru á verkefnastigi, skal yfirfara áður en hægt verður að huga að fleiri mililandatengingum.- Þetta skilyrði Norðmanna sýnir tvennt: í fyrsta lagi hafa þeir, eins og margir hérlandsmenn, áttað sig á því, að Evrópurétturinn er búinn að svipta aðildarþjóðir ESB og þar með EFTA-þjóðirnar, sem játast Orkusambandi ESB, réttinum til að ákveða sínar millilandatengingar sjálfar.  Í öðru lagi er það nú runnið upp fyrir Norðmönnum, að eftir tengingu nýrra sæstrengja til Þýzkalands og Englands, sem á döfinni er, verður orka af skornum skammti eftir fyrir sæstrenginn Northconnect, sem áformaður er frá Hörðalandi til Peterhead á Skotlandi. Norðmenn eru að því leyti að komast í svipaða aðstöðu og Íslendingar að þurfa að virkja fyrir orkusölu um sæstreng til að komast hjá orkuskorti, og þá koma auðvitað strax á þá vöflur.  Af þess sést, að vísun hérlendra sæstrengssinna til Noregs sem góðs fordæmis fyrir Íslendinga að þessu leyti er út í hött. 
  6. Hugsanlegir nýir strengir skulu vera þjóðhagslega hagkvæmir.    -------------------------------   Þetta þýðir, að þeir skulu nýta umframorku í landinu.  Ef hún hrekkur ekki til fyrir eftirspurn um strenginn og flutningsgetu hans, þá mun sá strengur valda mikilli raforkuverðshækkun í Noregi, af því að raforkuverð á Skotlandi hefur oft verið tvöfalt raforkuverðið í Noregi.  Slíkar raforkuverðhækkanir í Noregi verða mikil þjóðhagsleg byrði, sem fellir viðbótar streng á 6. skilyrðinu. Þetta er staða, sem verkalýðshreyfing Noregs óttaðist alveg sérstaklega, þegar umræður um téðan orkubálk geisuðu í Noregi haustið 2017 og veturinn 2018, m.a., að þessar orkuverðshækkanir myndu verða orkukræfum fyrirtækjum um megn, en hluti raforkukaupa þeirra fer fram í orkukauphöllinni í Ósló.   
  7. Statnett skal eiga og reka allar framtíðar millilandatengingar.  Þetta skal fella inn í orkulöggjöfina.   --------------------------    Þarna birtist norskt viðhorf til millilandatenginga, sem ríkt hefur þar í landi frá upphafi slíkra tenginga, en er í algerri mótsögn við fjórfrelsið á Innri markaði EES.  Þessu gera Norðmenn sér grein fyrir, og þess vegna var hnykkt á með því að krefjast lagasetningar um þetta skilyrði.  Þótt það verði lögfest, eru litlar líkur á, að Norðmenn komist upp með þetta í blóra við Evrópurétt, sem líður það ekki, að yfirvöld beiti sér fyrir forréttindastöðu ríkisfyrirtækja á markaði.  Ágreiningur mun þá fara fyrir ESA og líklega lenda hjá EFTA-dómstólinum, sem dæmir að Evrópurétti.  Það mun verða pólitískur óróleiki í Noregi, þegar reyna mun á þetta atriði.  Það gæti gerzt varðandi Skotlandstenginguna, Northconnectstrenginn, en leyfisumsókn frá Northconnect-félaginu er nú til umfjöllunar hjá NVE-Orkustofnun Noregs og RME-Reguleringsmyndighet for energi, sem er Landsreglari Noregs. Ef þessir aðilar samþykkja umsókn um þennan u.þ.b. 10 TWh/ár sæstreng, þá verður ljóst, að 7. skilyrði Norðmanna, sem ættað er frá stærsta stjórnmálaflokki Noregs, Verkamannaflokkinum, sem úrslitum réði um samþykkt Stórþingsins á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum, hefur verið virt að vettugi. Þess má geta, að Statnett hefur sem umsagnaraðili sæstrengsins lagt til höfnun á þeim grundvelli, að orku muni skorta fyrir hann í Noregi.  Ef NVE hafnar umsókn, en Landsreglari samþykkir hana, þá fer ágreiningurinn til úrskurðar ACER, ef þá verður búið að innleiða Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB í EES-samninginn með samþykkt Alþingis.  Annars getur umsækjandi kært úrskurðinn til ESA.  
  8.  Hagnað af aflsæstrengjunum skal áfram verða unnt að nota til að lækka gjaldskrár flutningskerfisins ásamt til viðhalds og stækkunar norska stofnkerfisins.    ---------------------------  Þetta skilyrði er til komið vegna nýrrar tilskipunar ESB, sem þrengir mjög ráðstöfunarrétt eigenda sæstrengja til að verja hagnaði af strengjunum í annað en að bæta eða auka millilandatengingarnar.  Þetta þykir Norðmönnum ósanngjarnt, því að þeir (Statnett) hafa varið háum fjárhæðum til styrkinga stofnkerfis síns, svo að það yrði í stakk búið til orkuflutninga að og frá sæstrengjunum.  Sá kostnaður hefur allur lent á innlendum raforkunotendum á formi gjaldskrárhækkana.  Endurspeglar þessi nýja tilskipun ESB hugsunarháttinn á þeim bæ, þ.e. að fórna hagsmunum einstakra landa fyrir hagsmuni heildarinnar innan EES.  Það, sem er þjóðhagslega óhagkvæmt í Noregi, getur verið samfélagslega hagkvæmt í ESB/EES.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Það hefur komið í ljós og Norðmenn eiga að vita það, AÐ ANNAÐ HVORT ERU TILSKIPANIR ESB SAMÞYKKTAR EÐA ÞEIM HAFNAÐ.  Einhverjar bókanir eru gagnslausar með öllu og eru ekkert annað en aumkunarverðar afsakanir fyrir því að leggjast hundflatir fyrir Brusselvaldinu.......

Jóhann Elíasson, 23.10.2018 kl. 14:07

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þetta er alveg rétt, Jóhann, og þetta var ríkisstjórninni bent á af löglærðum sérfræðingum á þessu sviði.  Það blasir við leikmönnum, að þarna tók norski Verkamannaflokkurinn þátt í loddaraleik.  Þetta er eitthvert ódýrasta aflátsbréf, sem um getur, og norskri stjórnsýslu til minnkunar.  Menn eru ekki búnir að bíta úr nálinni með þetta.  Þessu máli verður ekki sópað undir teppið, hvorki hér né í Noregi, eftir að búið er að fremja mistökin.

Bjarni Jónsson, 23.10.2018 kl. 14:57

3 Smámynd: Kolbeinn Pálsson

Ég get ekki annað en þakkað þér Bjarni fyrir frábæra forvörn.
Vonandi munu ráðamenn þjóðarinnar sjá að sér og afneita þessum landráðasamningi.

- það er ekki neitt skemmtiefni að sjá íslensku þjóðina arðrænda eingöngu vegna þess að Íslenskir ráðamenn kikna í hnjánum og hafa ekki þor til að neita ECER. 

Kolbeinn Pálsson, 23.10.2018 kl. 21:47

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Kolbeinn;

Spyrjum að leikslokum.  Sjáum til, hvað gerist, þegar á hólminn verður komið.  Þeir, sem verða valdir að samþykkt óskapanna Alþingi, brenna að baki sér pólitískar brýr í kjördæmi sínu.

Bjarni Jónsson, 24.10.2018 kl. 10:56

5 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Vonandi gerir Gallup vandaða könnun á afstöðu landsmanna til þessa ACER samnings ÁÐUR en hann fer til meðferðar á Alþingi.  Það yrði kostnaðarsamt að vísa málinu til þjóðaratkvæðagreiðslu eftir á - að því gefnu auðvitað að forsetinn okkar sé maður en ekki mús.

Kolbrún Hilmars, 24.10.2018 kl. 11:28

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Staðfesting orkupakkans verður ekki aftur tekin öðru vísi en með því að ganga úr EES.  Greiða mætti atkvæði um það samhliða þingkosningum.  Þannig verður kostnaðaraukinn í lágmarki.  Staðfesti þingið orkupakkann, gæti baráttan farið að snúast um EES.

Bjarni Jónsson, 24.10.2018 kl. 13:21

7 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Þetta er gott hjá þér Bjarni Jónsson. Er allt stjórnkerfið orðið að lobbyi, vinnur fyrir hagsmuni EB, og ættingjar og vinir komnir í forsjá hjá EB?

Þetta er venjan hjá ríkisfyrirtækjum, einkafyrirtækjum, og þá trúlega að venju, eins og venja er, með "hirðmenn konungs."

Þessi öfl hafa flest alla fjölmiðla og allir lærðir, tölvumenn og aðrir, eiga erfitt með að sýna samstöðu með Íslandi, á móti stjórnkerfinu.

Talað er um að ríkið styrki fjölmiðlana, og er þá ekki nauðsyn, að verkalýðurinn og samvinnu hugsjónin reki fjölmiðla, en þeir mega ekki vera undir stjórnsýslunni.

Stjórnsýslan fær ef til vill það hlutverk að reyna að sjá um að þeir kynni lausnir til framtíðar, þótt þær falli ekki að hugmyndum ESB, eða bakstjórnarinnar.

frammhald

slóð

Talað er um að ríkið styrki fjölmiðlana, og er þá ekki nauðsyn, að verkalýðurinn og samvinnu hugsjónin reki fjölmiðla, en þeir mega ekki vera undir stjórnsýslunni, sem fengi þó það hlurverk að reyna að fá þá til að kynna lausnir til framtíðar.

https://jonasg-eg.blog.is/blog/jonasg-eg/#entry-2224849

Egilsstaðir, 24.10.2018  Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 24.10.2018 kl. 23:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband