1.11.2018 | 11:32
Öfugmæli um innleiðingu "Þriðja orkupakkans"
Í ljósi þess, sem nú er vitað um fullveldisafsal og gildistöku "fjórfrelsisins" í orkugeiranum strax eftir innleiðingu "Þriðja orkupakkans" í EES-samninginn, er skuggalegt að lesa fyrstu frétt Morgunblaðsins um greinargerð Birgis Tjörva Péturssonar, lögmanns, til iðnaðarráðherra, sem birtist í blaðinu 18. september 2018. Fréttin hófst þannig:
"Innleiðing á þriðja orkupakka Evrópusambandsins í lög hér á landi fæli ekki í sér slík frávik frá þverpólitískri stefnumörkun og réttarþróun á Íslandi, að það kalli sérstaklega á endurskoðun samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
Með innleiðingu hans væri ekki brotið blað í EES-samstarfinu. Þetta er niðurstaða greinargerðar Birgis Tjörva Péturssonar, lögmanns, um þriðja orkupakkann, en hún var unnin að beiðni iðnaðarráðherra."
Hér er einfaldlega allt rangt, og það hefði fengið að standa þannig, þingmönnum og öðrum til halds og trausts við stefnumörkun, ef ekki hefðu verið fáeinir andófsmenn í landinu, sem láta slíka stjórnvaldsspeki ekki yfir sig ganga, mótþróalaust. Nú er umræðan í landinu með allt öðrum hætti og á upplýstari nótum en áður um Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB, eins og glögglega má ráða af seinni leiðara Morgunblaðsins í dag, 01.11.2018.
Það liggur í augum uppi, og þarf ekki lögfræðing til að átta sig á því, að innleiðing "fjórfrelsis" ESB í íslenzka orkugeirann, sem er stærsta auðsuppspretta landsmanna, felur í sér kúvendingu á þeirri stefnu íslenzkra stjórnvalda fram að þessu, að Íslendingar skuli halda óskoraðri lögsögu yfir raforkufyrirtækjunum í landinu og yfir raforkumarkaðinum með sama hætti og yfir landhelginni og því, hvað við gerum við fiskinn. Að láta togarana sigla með óunninn fisk á erlenda markaði er neyðarbrauð. Verðmætasköpun innanlands úr auðlindum lands og sjávar er undirstaða velferðar- og þekkingarþjóðfélags á Íslandi.
"Fjórfrelsið" felur í sér markaðsvæðingu rafmagnsins með þeim miklu annmörkum, sem á slíku eru á Íslandi, eins og rækilega hefur verið gerð grein fyrir, og jafnstöðu allra fjárfesta og fyrirtækja innan EES, þegar kemur að fjárfestingum í íslenzka orkugeiranum. Ennfremur gilda á Innri markaði EES strangar samkeppnisreglur ESB, sem útiloka rekstur Landsvirkjunar í sinni núverandi mynd á innlendum samkeppnismarkaði vegna hlutfallslegrar stærðar.
Hluti af Landsvirkjun mun næsta örugglega fara úr höndum íslenzka ríkisins og í hendur fjársterkra erlendra aðila á EES-svæðinu skömmu eftir gildistöku Þriðja orkupakkans hérlendis. Þar með tvístrast mikil þekking og reynsla, sem nú er hjá einu fyrirtæki, sem m.a. sér um þá einu orkulindastjórnun, sem fram fer á Íslandi og er bráðnauðsynleg. Slík stjórnun, þvert á fyrirtæki, er óleyfileg á Innri markaði ESB/EES. Að gefa auðlindastjórnun upp á bátinn í orkugeiranum mun ekki síður hafa slæmar afleiðingar í för með sér fyrir hag fjölskyldnanna í landinu en að gefa stjórnun sjávarauðlindarinnar upp á bátinn. Slíkt dettur varla nokkrum heilvita manni í hug á árinu 2018.
Að halda því fram, að allt þetta brjóti ekki blað í EES-samstarfið, hvað Ísland varðar, er að bíta höfuðið af skömminni. Miðað við greiningu prófessors Peters Örebech ber þessi niðurstaða íslenzka lögfræðingsins vott um algert skilningsleysi á afleiðingum innleiðingar Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn fyrir Ísland. Það bendir margt til, að þekkingu starfsfólks iðnaðarráðuneytisins og glöggskyggni sé ekkert öðruvísi háttað, svo að ekki sé nú minnzt á utanríkisráðuneytið, en þaðan hefur hin furðulegasta loðmulla komið um málið, sem hér er til umfjöllunar.
Iðnaðarráðherra boðaði í haust framlagningu frumvarps til laga um, að mat Orkustofnunar á leyfisumsókn sæstrengsfjárfesta skyldi fara fyrir Alþingi. Þetta er ákaflega illa ígrunduð hugmynd, sem gefur ESB þau skilaboð, að við íslenzka stjórnvölinn ríki hringlandaháttur. Annars vegar boðar iðnaðarráðherra, að hún vilji samþykkja Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB, en hins vegar vill hún ekki hlíta aðalatriðinu í þessum orkubálki, sem er að framselja úrskurðarvald um bættar millilandatengingar fyrir orkuflutninga til ACER-Orkustofnunar ESB. Hér er um tvískinnung að ræða, sem er okkur til skammar í alþjóðlegu samstarfi. Ef ráðherrar standa ekki í ístaðinu á þeim vettvangi, þá detta þeir af baki.
Við verðum að koma hreint fram við samstarfsþjóðir okkar. Það gengur alls ekki í samstarfi við ESB að ætla að plokka rúsínurnar úr kökunni. Það hafa forystumenn ESB margsagt og er fullkomlega skiljanlegt. Það er aldrei hægt að éta kökuna og geyma hana. Reyndar veit höfundur þessa pistils alls ekki, hverjar þessar rúsínur ættu að vera fyrir hérlandsmenn, þegar hinn alræmdi "Þeiðji orkupakki" er annars vegar. Þar hafa hreint og beint engar girnilegar rúsínur fundizt í munn eyjarskeggja norður við Dumbshaf með gnótt endurnýjanlegrar orku, þótt þær séu vissulega fyrir hendi fyrir ESB-löndin sem heild, sem eru orkuþurfi og strita við að auka hlutdeild endurnýjanlegra orkulinda, afnema flöskuhálsa í flutningum til að jafna orkuverðið innan ESB og draga úr orkutöpum. Allt er það skiljanlegt, en hvers vegna íslenzki iðnaðarráðherrann gerir ekki hreint fyrir sínum dyrum og hafnar þriðja orkupakkanum með ágætum rökum og skeleggum hætti, eins og hún á til, er óskiljanlegt. Skilja kjósendur í NV-kjördæmi það ?
Bann Alþingis við lagningu aflsæstrengs, sem Landsreglarinn er búinn að mæla með samþykkt á og Orkustofnun jafnvel búin að samþykkja, mun koma eins og skrattinn úr sauðarleggnum yfir embættismenn og framkvæmdastjórn ESB í Berlaymont í Brüssel. Þar á bæ munu menn furða sig á hringlandahætti þjóðþings eyjarskeggjanna lengst norður við Dumbshaf, sem lætur eins og það hafi lögsögu í máli, sem það er nýbúið að afsala sér völdum yfir. Það verður litið á þetta sem hvert annað "píp" með sama hætti og varúðaraðgerðir Alþingis 2009 gegn búfjársjúkdómum voru gerðar afturreka með dómi EFTA-dómstólsins 2017.
Framkvæmdastjórn ESB mun bregðast ókvæða við banni Alþingis og að lokum kæra það fyrir EFTA-dómstólinum. Ef ríkisstjórn Íslands ætlar að stíga skref inn í þessa óheillavænlegu sviðsmynd með því að berjast fyrir því, að Alþingi samþykki innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins, þá eru henni allar bjargir bannaðar. Slíkt verður jafnframt nagli í líkkistu EES-aðildar Íslands. Höfnun "pakkans" aftur á móti er eðlilegur gjörningur samkvæmt EES-samninginum sjálfum, þótt fordæmalaus sé hérlendis. Hagsmunirnir, sem undir eru, eru líka fordæmalausir, og "einnar stoðar" framkvæmdin svæsnari en í fyrri innleiddum Evrópugerðum.
Nú hefur stærsti stjórnmálaflokkur Noregs, Verkamannaflokkurinn, sem hefur viljað hingað til, að Noregur gengi í ESB, snúizt öndverður gegn innleiðingu Fjórða járnbrautarpakkans í EES-samninginn, sem tekinn verður til umfjöllunar í Stórþinginu í vetur. Það er líka líklegt, að hann muni snúast öndverður gegn væntanlegrum "Vinnumálapakka" ESB. Það er samt engin umræða í Noregi um voveiflegar afleiðingar þess fyrir EES-samstarfið eða vandræðin, sem af myndu hljótast fyrir Liechtenstein, ef Stórþingið synjar þessum "ESB-pökkum" staðfestingar. Það sýnir, hversu heimóttarlegur málflutningur íslenzku ráðuneytanna er, sem komið hafa af stað þeirri umræðu.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Glæsilegt hjá þér, Bjarni, þín sókn og vörn öll í þessum málum okkar.
Ánægjulegt er líka að í undirbúningi er stofnun varnarsamtaka gegn þessum Þriðja orkupakka.
Fram til sigurs!
Jón Valur Jensson, 1.11.2018 kl. 16:53
Já, ég hygg, að í þessum mánuði muni slík baráttusamtök sjá dagsins ljós, Jón Valur (og jafnvel lýsa upp skammdegið). Það eru fordæmi fyrir slíku í nýlegri sögu okkar, þar sem safnað var gríðarlegum fjölda undirskrifta til forseta lýðveldisins. Auðvitað er rennt blint í sjóinn með endanlegan árangur þessara baráttusamtaka, en ég fæ ekki betur fundið en undirtektir við málstaðinn á meðal almennings séu á svipuðum nótum og gagnvart þeim málstað, að íslenzkur almenningur skyldi ekki greiða reikninga vegna "Icesave".
Bjarni Jónsson, 1.11.2018 kl. 21:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.