Valdmörk ACER

Enginn veit, hver valdmörk Orkustofnunar ESB - ACER verða á næstu árum, en hitt er flestum ljóst, að þau munu verða víðari.  Það hefur gerzt með margvíslegum Evrópugerðum og tilskipunum ESB, frá því að Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn sá fyrst dagsins ljós og var gefinn út með samþykki ESB-þingsins árið 2009.  Hugsanlega þegar á næsta ári mun Fjórði orkumarkaðslagabálkurinn líta dagsins ljós, og þá verður enn meiri miðstýring og minna vald einstakra landa yfir orkumálum sínum innsiglað. Dettur einhverjum í hug, að "Orkupakka 4" frá ESB verði hafnað af Alþingi, ef "Orkupakki 3" verður samþykktur.  Trúboðar "Orkupakka 3" halda því blákalt fram, að svo lítill munur sé á pökkum 2 og 3, að ástæðulaust sé að hafna "Orkupakka 3".  Það er hins vegar fjarstæða og annaðhvort haldið fram í fáfræði eða í hreinræktuðu blekkingarskyni.   

ESB gerir "Orkupakka 3" ekki að gamni sínu, því að dýrt er umstangið, heldur til að búa í haginn fyrir orkuskiptin ("die Energiewende") og til að reyna að draga úr hættunni, sem vofir yfir Evrópu vegna orkuskorts.  Eins og fram hefur komið hjá guðföður inngöngu Íslands í Evrópska efnahagssvæðið - EES, Jóni Baldvin Hannibalssyni, fyrrverandi formanni Alþýðuflokksins, eiga Íslendingar þó alls ekkert erindi í þetta samstarf, enda hafa þeir hingað til ekki verið á þessum sameiginlega orkumarkaði og geta engan hag haft af honum.  

Að þvæla landsmönnum inn í ACER, þó án atkvæðisréttar þar, getur aðeins orðið til tjóns og meira að segja til ófyrirsjáanlegs tjóns, því að landsmenn munu missa töggl og hagldir á orkumálunum til hins yfirþjóðlega valds, sem býr einhliða til allar samskiptareglurnar, t.d. í Þriðja orkumarkaðslagabálkinum, og hann væri ekki pappírsins virði, nema hann flytti völd frá aðildarlöndunum til ACER og Framkvæmdastjórnarinnar.

Í þriðja lið samantektar iðnaðarráðuneytisins á minnisblaði Ólafs Jóhannesar Einarssonar frá apríl 2018 kemur fram stórvarasöm glámskyggni ráðuneytisins á eðli og valdmörk ACER hér á landi.  Verður þá fyrst að nefna það, að valdamesta embætti hérlendis á orkumálasviði eftir innleiðingu "pakkans", verður embætti Landsreglara, og þetta embætti verður óháð íslenzkum yfirvöldum og framlengdur armur ACER á Íslandi, sem er undir stjórn framkvæmdastjórnar ESB.

Bæði utanríkisráðuneytið og iðnaðarráðuneytið hafa töluvert hamrað á þessum þriðja lið við fjölmiðla, og þess vegna rétt að hafa hann orðrétt eftir sem víti til varnaðar og dæmi um ESB-málstað í bómull:

"Samstarfsstofnun evrópskra orkueftirlitsaðila, ACER, myndi, þrátt fyrir aðild Íslands að stofnuninni, ekki hafa neitt að segja um atriði á borð við fyrirkomulag leyfisveitinga og stjórnsýslu hér á landi, og upptaka þriðja orkupakkans hefði í för með sér óverulegar breytingar í því sambandi."

Þessu er sérfræðingur í Evrópurétti, prófessor Peter Örebech, gjörsamlega ósammála, enda láist ráðuneytinu að gefa gaum að samspili orkupakkans við núverandi EES-samning.  Gengur sú yfirsjón eins og rauður þráður gegnum allan málflutning ráðuneytisins í þessu máli, og skal ósagt láta, hvort hún stafar af þekkingarskorti eða einhverju þaðan af verra. Prófessorinn skrifaði um þetta:

"Leyfisveitingakerfi virka hamlandi á frjálst flæði og á aðgang til stofnunar og rekstrar fyrirtækja.  EES-grein 12 [um frjálst flæði vöru-innsk. BJo] spannar líka áhrif þessara stjórnvaldsaðgerða. Þar að auki gildir, að Ísland getur ekki skipulagt leyfisveitingakerfið þannig, að það stríði gegn grein 124 [í EES-samninginum-innsk.BJo]."

Síðan vitnar prófessorinn í grein, sem bannar alla mismunun eftir þjóðernum.  Á grundvelli athugasemda Peters Örebech um þriðja atriði ráðuneytisins virðist fullyrðing ráðuneytisins í þessum lið vera tilhæfulaus með öllu.  

Fyrirkomulag leyfisveitinga á orkumálasviði gjörbreytist við innleiðingu orkubálks 3 og mun þaðan í frá lúta Evrópurétti.  Við úthlutun rannsóknarleyfa, framkvæmdaleyfa og virkjanaleyfa standa þannig Statkraft, Vattenfall, Fortun og E´ON, svo að fáeinir evrópskir orkuveraeigendur séu nefndir, jafnfætis Landsvirkjun og ON, svo að aðeins tvö stærstu íslenzku virkjanafyrirtækin séu nefnd.    

Leyfisveiting til sæstrengsfjárfesta er sérkapítuli, því að þar um gildir nú gerð 347/2013, Innviðagerðin, og Landsreglarinn kemur þar mjög við sögu.  Formlegt leyfisveitingavald verður í höndum Orkustofnunar, en mat hennar verður að vera reist á téðri gerð.  Telji Landsreglari brotið á leyfisumsækjendum, tilkynnir hann óðar um það til ACER, sem úrskurðar í slíkum deilumálum um millilandatengingar.  

Af þessu má ráða, að valdi landsmanna yfir þróun orkumálanna hérlendis yrði gloprað niður á einu bretti  með samþykki Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum. Það er útilokað, að meirihluti Alþingismanna átti sig ekki á afleiðingunum af þessu.  Þá er bara spurningin, hvort eitthvað annað togar þá til að gera annað en hið eina rétta í þessu máli.  Þau rök, sem heyrzt hafa í þá veru, standa á brauðfótum og jafnast engan veginn á við hin þyngstu rök í þessu dæmalausa máli.  

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónatan Karlsson

Sæll Bjarni.

Enn rökstyður þú skilmerkilega hættuna við að samþykkja hinn svokallaða þriðja orkupakka.

Síðasta málsgrein færslunar er rituð með blóði (rauðu) en þar segir þú í raun og veru á þinn dipplómatíska máta að þar sem rök þeirra sem vilji samþykkja samningin standi á brauðfótum, eða séu í raun enginn, þá hljóti það að vera eitthvað annað sem togi í þá.

Hvað skyldi það nú vera sem togar í útvalda áhrifamenn af slíkum ofurkröftum, að þeir eru reiðubúnir að selja fullveldi þjóðar sinnar og sálu sína að auki?

Auðvitað er það fýsilegur kostur að afla auðs, frægðar og frama í alþjóðlegum heimi yfirstéttarinnar og geta tryggt nánustu afkomendum ævilangt öryggi, en skyldi það vera þess virði?

Jónatan Karlsson, 12.11.2018 kl. 15:34

2 Smámynd: Jónatan Karlsson

Þetta afl sem togar og freistar svo mjög kallast auðvitað á óhefluðu máli mútur og ekkert annað.

Jónatan Karlsson, 13.11.2018 kl. 04:03

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jónatan, og þakka þér fyrir hugleiðingar þínar hér að ofan;

Það skín í gegn um málflutning fáeinna stjórnarþingmanna, sem tjáð hafa sig um spurninguna um, hvort aflétta eigi hinum stjórnskipulega fyrirvara eður ei af Þriðja orkupakkanum, að þeir virðast óttast viðbrögð annarra EES-ríkja og þó einkum ESB.  Þó er réttur þjóðþingsins skýlaust sá að láta afléttinguna ógerða, og mestu leyfilegu viðbrögðum ESB er lýst í EES-samninginum.  Þau mundu felast í ógildingu 2. orkumarkaðslagabálksins.  "Who cares."  Samt óttast menn viðskiptalegar refsiaðgerðir.  Það væri brot á EES-samninginum og mætti líka kæra til WTO.  Það eru hverfandi líkur á, að ESB telji sig hafa eitthvað upp úr slíku krafsi.  Þá er nefnd uppsögn EES-samningsins að hálfu ESB.  Til þess þarf einróma samþykkt allra þriggja meginarma ESB, framkvæmdastjórnar, ráðherraráðs og þingsins.  Það verður að telja útilokað út af þessu máli.  Það er nákvæmlega ekkert að óttast, enda eru Norðmenn nú þess albúnir að hafna Járnbrautarpakka 4 frá ESB, þegar hann kemur til Stórþingsins í vetur eða vor.

Bjarni Jónsson, 13.11.2018 kl. 11:38

4 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Eitt atriði í sambandi við þetta ACER hefur aldrei verið í umræðunni.  Þ.e. að íslendingum sjálfum gæti dottið í hug að semja um sæstreng við fjárfesta og framleiða orkuna og ráðstafa henni sjálfir.  Svo virðist sem markaðurinn sé fyrir hendi.  Er einhver nauðsyn að fela ESB yfirumnsjón um afurðasölu Íslands?

Kolbrún Hilmars, 13.11.2018 kl. 15:07

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæl, Kolbrún;

Á meðan orkugeirinn á Íslandi hlítir ekki Evrópurétti, heldur íslenzkum lögum, þá verða fjárfestar að semja um það við íslenzk yfirvöld að fá að leggja aflsæstreng til Íslands, og Orkustofnun veitir leyfi fyrir strengnum á íslenzkum forsendum.  Síðan hafa orkuheildsalar hér val um að semja um verð og afhendingartíma við orkukaupendur eða að selja orkuna inn á orkukauphöll.  Yfirvöld hér gætu þá stundað þá orkulindastjórnun, sem þeim þykir henta, til að draga úr líkum á orkuskorti.  Raforkuverð á Íslandi hækkar óhjákvæmilega með aflsæstreng, hvort sem við höfnum Orkupakka 3 eða ekki.  Munurinn er sá, að með samþykkt Orkupakka 3 missum við leyfisveitingavaldið úr höndum okkar, og markaðurinn verður allsráðandi.  

Bjarni Jónsson, 13.11.2018 kl. 21:08

6 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Takk Bjarni.  Það sem ég hafði í huga með sæstreng eru auðvitað nágrannalöndin utan ESB, svo sem Færeyjar og hugsanlega Bretland eftir Brexit, og þá jafnvel eftir einhverja áratugi allt eftir aðstæðum.  En afkomendur okkar myndu þó amk ráða því sjálfir.

Kolbrún Hilmars, 14.11.2018 kl. 13:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband