Peter Örebech gerir það ekki endasleppt

Þann 10. apríl 2018 fór iðnaðarráðherra fram á að fá minnisblað um nokkur álitaefni varðandi Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB frá Ólafi Jóhannesi Einarssyni, lögmanni. Ráðherra fékk minnisblaðið tveimur dögum síðar, og nokkrum dögum síðar var minnisblaðið birt ásamt útdrætti ráðuneytisins í 7 liðum.  Prófessor Peter Örebech, sérfræðingur í Evrópurétti, hefur gert alvarlegar athugasemdir við lagatúlkunina, sem fram kemur í samantekt ráðuneytisins í 7 liðum á þessu minnisblaði.  Er nú verið að rýna þýðingu athugasemdanna á íslenzku, en athugasemdir lagaprófessorsins á norsku eru birtar sem viðhengi með pistli þessum, og verður skjalið birt á íslenzku innan tíðar.

Ráðuneytið hefur í raun reist málarekstur sinn fyrir Þriðja orkupakkann á téðu minnisblaði lögmannsins, og hefur þessi málarekstur verið á þeim lögfræðilegu nótum, sem lagt var upp með á minnisblaðinu, en engir tilburðir hafa t.d. verið hafðir uppi  að hálfu ráðuneytisins til áhættugreiningar á þróun raforkumarkaðarins eftir innleiðingu "pakkans", þótt gríðarlegir hagsmunir alls atvinnulífs og heimilanna í landinu séu í húfi.  Er undarlegt, að hagsmunaaðilar á borð við Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins skuli ekki kvarta undan flausturslegum vinnubrögðum iðnaðarráðuneytisins í þessu máli.

Þessi vinnubrögð ráðuneytisins eru forkastanleg og í raun hreinræktað fúsk.  Nú bætist það við, að samkvæmt gagnrýni prófessors Peters Örebech í viðhengi þessa pistils er lögfræði ráðuneytisins í þessu máli reist á sandi.  Verða nú tveir fyrstu liðirnir gerðir að sérstöku umræðuefni og síðar haldið áfram.  

1) PÖ er sammála ráðuneytinu um, að Ísland muni eftir innleiðinguna geta viðhaldið ríkiseignarhaldi á orkulindum, en þó með því skilyrði, að það verði altækt - með óskoraðri ríkiseign, þ.e.a.s. þingið verður að samþykkja, að orkulindir í eigu ríkisins verði ekki einkavæddar.  Slíkt bann er ekki fyrir hendi og ekki víst, að meirihluti sé fyrir slíku á Alþingi.  PÖ vísar í dóm EFTA-dómstólsins frá 2007 í máli, þar sem þjóðnýtingarlöggjöf Norðmanna á virkjunum eftir 60 ár í rekstri og án nokkurra fjárhagsbóta til fyrri eigenda var kærð.  Dómstóllinn úrskurðaði, að þessi harkalega meðferð á frumkvöðlunum eða þáverandi eigendum væri leyfileg að Evrópurétti. 

2) Í öðrum lið útdráttar minnisblaðsins tilfærir ráðuneytið fullyrðingu, sem lagaprófessorinn er ósammála.  Þessi margtuggna fullyrðing ráðuneytanna beggja, utanríkis- og iðnaðar, er á þá leið, að "Þriðji orkupakkinn [haggi] í engu rétti Íslands til að ákveða með hvaða skilyrðum orkuauðlindir landsins eru nýttar, og hvaða orkugjafar eru nýttir hér á landi".  Þetta kveður Peter Örebech rangt, og samkvæmt því verður sjálfræði Íslendinga yfir orkulindunum ekki lengur fyrir hendi eftir innleiðingu Þriðja orkupakkans.  Ætla þingmenn að taka þessa risaáhættu og fljóta sofandi að feigðarósi, eða ætla þeir einfaldlega að segja: "hingað og ekki lengra" ?

Sérfræðingurinn í Evrópurétti, PÖ, skrifar í athugasemd við þennan lið ráðuneytisins, að verði Þriðji orkupakkinn samþykktur, þá verði orkuvinnsla og samkeyrsla, þ.e. orkuflutningar á milli landa, hluti af EES-samninginum, sem þýðir, að þessi starfsemi mun lúta reglum Evrópuréttar.  Það þýðir einfaldlega, að lögmál hins óhefta markaðar EES munu ráða ríkjum um orkuvinnsluna á Íslandi og ráðstöfun orkunnar.  Ríkisstjórn landsins og þjóðþingið verða sem getulausir áhorfendur að nýtingu íslenzkra orkulinda. Við svo búið má ekki standa.  Alþingi verður að rísa upp gegn þessum ósóma.  

Noregur: Baráttunni gegn þessu valdaafsali er ekki lokið í Noregi.  Færð hafa verið lagaleg rök fyrir því þar í landi, að málsmeðferðin á Stórþinginu hafi verið andstæð stjórnarskrá.  Þar háttar svo til, að krefjast ber 3/4 stuðnings mættra þingmanna (og minnst 2/3 skulu mæta), til að framsal fullveldis sé talið gilt.  Ríkisstjórnin beitti sér fyrir því, að þetta ákvæði var hundsað.  Viðbáran var, að framsalið væri lítið og afmarkað og að málið væri þjóðréttarlegs eðlis, þ.e. varðaði ekki starfsemi og réttindi norskra borgara beint.  Allt er þetta rangt, ef hlutlægt er skoðað, en viðhorfið helgast af blindri trú ríkisstjórnarflokkanna, sérstaklega Höyre, á Evrópusambandinu og sannfæringunni um, að hag Noregs verði bezt borgið innan ESB.  Fyrir þessar sakir hafa samtökin "Nei til EU" nú safnað MNOK 1,0 í sjóð og saksótt forsætisráðherra Noregs, Ernu Solberg. 

 Stuðningur við inngöngu Noregs í Evrópusambandið nýtur lítils og síminnkandi stuðnings á meðal norsku þjóðarinnar, eins og skiljanlegt er, þegar litið er til ástandsins innan ESB.  

DettifossÞýzkt ESB

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Bjarni

Er það virkilega rétt að Ólafur Jóhannes hafi einungis tekið sér tvo daga til að fara yfir þetta stóra mál?

Ef svo er, er ljóst að málið er mun alvarlegra en ella, sér í lagi þar sem ráðherra velur að taka það álit sem einhvern heilagann sannleik, þrátt fyrir að fjöldi marktækra manna, auk erlends lögfræðings með Evrópurétt sem sérsvið, segi annað.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 9.11.2018 kl. 22:05

2 Smámynd: Tómas Bjarni Tómasson

Hvernig væri að safna undirskriftum og biðja Guðna að skrifa ekki undir. Fara frekar í þjóðaratkvæðagreiðslu með svona mikið mál

Tómas Bjarni Tómasson, 9.11.2018 kl. 22:58

3 Smámynd: Haukur Árnason

Hefur eitthvað heyrst frá náttúruvernarsamtökum um þetta mál ?

Er ekki hætt við að ástandið gæti versnað, ef þetta verður samþykkt ?

Haukur Árnason, 10.11.2018 kl. 09:49

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Gunnar.  

Ég er með fyrir framan mig fylgiblað frá iðnaðarráðuneytinu með téðu minnisblaði Ólafs Jóhannesar, lögmanns, þar sem kemur, að ráðherrann og hann hafi átt fund 10. apríl 2018, þar sem óskað var eftir þessari samantekt og að ráðuneytinu hafi borizt minnisblaðið 12. apríl 2018.  

Eftir gagnrýni prófessors Peters Örebech á þessu minnisblaði er mér næst að halda, að það sé hvorki fugl né fiskur, en ráðuneytið gleypti samt við því.  

Bjarni Jónsson, 10.11.2018 kl. 14:55

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Tómas Bjarni;

Ef ekki fer að rofa til í þessu máli, reikna ég með, að innan væntanlegra baráttusamtaka gegn innleiðingu Þriðja orkupakkans verði íhugað að efna til undirskriftasöfnunar.  Hafa verður í huga, að á þingi verður þingsályktunartillaga utanríkisráðherra stefnumarkandi, og hún fer ekki til forseta lýðveldisins.  Hins vegar þarf líka að gera breytingar á orkulögum í kjölfarið, og ný orkulög fara til forsetans.  

Bjarni Jónsson, 10.11.2018 kl. 15:01

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Haukur;

Ég hef ekki heyrt neitt eða séð frá náttúruverndarsamtökunum um þetta mál.  Þau ættu að hafa í huga, að samkvæmt Evrópurétti eru náttúruverndarrök ekki nógu gild rök til að stöðva útflutning á rafmagni um sæstreng frá Íslandi.  

Bjarni Jónsson, 10.11.2018 kl. 15:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband