Bindandi áhrif Þriðja orkupakkans

 Seinni hluti fyrirlestrar prófessors Peters Örebech í HÍ 22.10.2018 fjallaði um stöðuga þróun orkulöggjafar Evrópusambandsins, ESB, til meiri miðstýringar og valdframsals aðildarlandanna til framkvæmdastjórnar ESB, og sér engan veginn fyrir endann á þeirri þróun, því að Fjórði orkupakki ESB mun vera í burðarliðnum.  

Þann 1. desember 2018 fékk Heimssýn góðan gest frá Stafangri á Rogalandi.  Sá leiðir starf SV-Sosialistisk Venstreparti í Stafangri.  Hann hélt ræðu að kveldi fullveldisdagsins hjá Heimssýn, og er hún birt í íslenzkri þýðingu í viðhengi þessa pistils.  Þar gat hann um, að SV hefði gert það að tillögu sinni á Stórþinginu, að ríkisstjórnin drægi frumvarp sitt um innleiðingu Þriðja orkupakkans í EES-samninginn til baka, þar til Fjórði orkupakki ESB sæi dagsins ljós.

Það var skynsamleg tillaga, sem ríkisstjórnin hundsaði m.a. af því, að mikil pólitísk gerjun á sér stað um þessar mundir í afstöðunni til orkupakka ESB í Noregi.  Hún á sér aðallega stað innan verkalýðshreyfingarinnar, og hefur Alþýðusamband Noregs, LO, þegar tekið opinbera afstöðu gegn Orkupakka #3. Ekki nóg með þetta, heldur virðist verkalýðshreyfingin vera að fá sig fullsadda af stöðugum straumi gerða og tilskipana frá ESB, sem grafa undan stöðu verkalýðshreyfingarinnar og atvinnuöryggis verkafólks.

Nú er rætt um það í Noregi, að á þingi Alþýðusambandsins árið 2022, muni verða samþykkt tillaga um uppsögn EES-samningsins.  Þetta mun tvímælalaust breyta afstöðu stærsta stjórnmálaflokks Noregs, Verkamannaflokksins, til Evrópu-samstarfsins, en forysta hans hefur hingað til verið höll undir inngöngu Noregs í ESB. Þar með munu valdahlutföllin í Stórþinginu m.t.t. afstöðunnar til ESB snúast við, sem óhjákvæmilega breytir líka afstöðunni til EES og innleiðingar afdrifaríkra Evrópugerða að einhverju leyti.

Peter Örebech, lagaprófessor og sérfræðingur í Evrópurétti, rakti það í 6 liðum í fyrirlestri sínum, hvernig framkvæmdastjórn ESB herðir stöðugt tök sín á orkumálunum.  Fyrir löndin á meginlandi Evrópu kann vel að vera vit í því, en fyrir eyjarskeggja í um 1500 km fjarlægð frá landsvæði þessa ríkjasambands (eftir útgöngu Breta), er alveg út í hött að innleiða reglur ESB, sem stórlega skerða sjálfsákvörðunarrétt þeirra um málefni helztu auðlindar þeirra, endurnýjanlegrar orku, og bjóða jafnframt hættunni heim um tengingu við erlend raforkukerfi og spákaupmennsku, sem leiða mun til mikilla raforkuverðshækkana, algerlega að þarflausu. Þessi voru atriðin 6 hjá PÖ:

  1. Fyrirkomulag orkumarkaðar ESB um sameiginlegar reglur fyrir Innri markað rafmagns, sem samkvæmt tilskipun 2003/54 ESB frá 26.06.2003 var valkvætt, breyttist með stofnun ACER-Orkustofnunar ESB yfir í bindandi fyrirkomulag með gerð 713/2009 o.fl.
  2.  Takmarkið með stjórnun ESB á þessu sviði er að "ná markmiðum evrópsku orkustefnunnar". Til að ná þeim er bent á, að ESB verði að "fjarlægja hindranir á  viðskiptum yfir landamæri með rafmagn og jarðgas".  ACER á ennfremur að "sjá til þess að fylla upp í eyður löggjafarinnar sem hluti af ESB" (ESB-gerð 713/2009, formáli, atriði 5).  ESB hefur ákveðið, að "stofnunin skuli tryggja, að stjórnvaldsaðgerðir í hverju landi ... séu rækilega samhæfðar og, ef nauðsyn krefur, kláraðar á vettvangi ESB" (formálinn, atriði 6). 
  3. Með "á vettvangi ESB" er ekki átt við náið samráð ESB-landanna í þjóðréttarlegum skilningi, heldur er átt við frumkvæði ESB-stofnana, þ.e.a.s. ACER, en einnig aðrar ESB-stofnanir, þ.á.m. ENTSO-E: "Framkvæmdastjórnin og stofnunin vinna náið saman í sambandi við framkvæmd þessarar Evrópugerðar, og slíkt getur einnig átt við um samtök evrópskra kerfisstjóra fyrir rafmagn og gas" (formálinn, atriði 20).  
  4. Uppbyggingu stofnunarinnar [ACER] skal aðlaga sértækum þörfum stýringar á orkusviði. Þar skal taka sérstakt tillit til sérstaks hlutverks landsreglaranna og tryggja sjálfstæði þeirra (formálinn, atriði 20).
  5. Stofnuninni ber að tryggja, að stýringarverkefni  landsreglaranna samkvæmt tilskipun 2009/72/ESB frá 13.07.2009 um sameiginlegar reglur Innri markaðarins fyrir rafmagn og tilskipun 2009/73/ESB frá 23.07.2009 fyrir jarðgas, séu samhæfð með skilvirkum hætti og, ef nauðsyn krefur, sé framfylgt á vettvangi ESB.  Í þessu sambandi er nauðsynlegt að tryggja sjálfstæði stofnunarinnar gagnvart rafmagns- og gasframleiðendum, flutnings- og dreifingarfyrirtækjum, hvort sem þau eru í opinberri eða einkaeigu, og gagnvart notendum, og tryggja, að starfsemi stofnunarinnar sé samkvæmt ESB-réttinum, tryggja tæknilega og stjórnunarlega getu stofnunarinnar og aðgengi að henni, móttækileika fyrir lýðræðislega stjórnun og skilvirkni (formálinn, atriði 6).
  6. ESB-gerð #347/2013 frá 17.04.2013 [utan Orkupakka #3, en verður nánast örugglega innleidd á Íslandi í kjölfar hans, af því að hún og gerðir "pakkans" skarast] um leiðbeiningar fyrir orkumannvirki á milli Evrópulanda, sem leysir af hólmi #1364/2006/ESB og felur í sér breytingar á gerðum #713/2009, #714/2009 og #715/2009 [sem allar eru í Orkupakka #3].  Ákvarðanatakan innan stofnananna er takmörkuð við aðildarlönd ESB og Framkvæmdastjórnina.
Norsku lagaprófessorarnir Eirik Holmöyvik og Hallvard Haukeland Fredriksen draga af þessu eftirfarandi ályktun:
"Með þessu yfirtekur ESA stjórnunarvald ríkisstjórnarinnar á þeim hluta norskrar orkustjórnsýslu, sem fellur í hlut Landsreglarans ... Og, ef Landsreglarinn dregur lappirnar, geta trúlega einkaaðilar framkallað framkvæmdina með því að leggja fram gögn fyrir norskum dómstólum um, að norsk lög skyldi Landsreglarann til að framkvæma ákvarðanir ESA."
http://rett24.no/articles/grunnlovsstridig-tilknytning-til-eus-energibyra .
 
"Staðan er þá sú, að allt ákvörðunarvald um orkuflutninga á milli landa er hjá ACER og orkuskrifstofum ESB (með Framkvæmdastjórnina á toppinum."
Þar með hefur prófessor Örebech sannað lögfræðilega, að Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn felur í sér fráhvarf frá "tveggja stoða lausn" til "einnar stoðar lausnar".  Þetta felur í sér stjórnarskrárbrot bæði í Noregi og á Íslandi.  Formlegt sjálfstæði með ESA sem millilið og raunverulegt ósjálfstæði stríðir gegn Stjórnarskrá, segir prófessor Örebech, og í sama streng hefur prófessor emeritus, Stefán Már Stefánsson, tekið. Sjá þó skoðun annars lögfræðings í lok þessa pistils. 
"Prófessor Johs. Andenæs skrifar (Statsforfatningen i Norge (Tano, 1997), s. 265): fullveldisframsal er löglegt með því skilyrði, að það fari fram í "samvinnu jafnsettra ríkja í þágu sameiginlegra hagsmuna" og samningsaðilar verða í sameiningu að mynda alþjóðlegt félag (stofnun) af fullri gagnkvæmni.  Samkvæmt Andenæs jafngildir ACER aðildin stjórnarskrárbrotlegu valdframsali, "þótt formlegt fullveldi væri virt".  Við aðild að ACER verða ESA og Landsreglarinn tæki fyrir ESB og ekki fyrir Noreg, og ESB fylgir að venju  1-stoðar-lausn í andstöðu við stjórnarskrárgrein #1.  Ríkisstjórnin hefur þannig sett Noreg í aðstöðu, sem  prófessor Andenæs ræðir um sem "lýðríkisstöðu" (bls. 266), andstætt stjórnarskrá."
 
Engum vafa er undirorpið, að sé ACER-aðild Noregs brot á stjórnarskrá þar, þá er ACER-aðild Íslands brotleg við stjórnarskrá Íslands með sömu rökum og að ofan eru tíunduð. 
 
"Inngangan í Orkusamband ESB (þ.m.t. ACER) er reist á því kerfi, að norsk stjórnmálaleg yfirvöld geti ekki gripið í taumana gegn óæskilegegri afritsákvörðun Landsreglarans/ESA, af því að norsk löggjöf setur þá kvöð á Landsreglarann að raungera ákvörðun ESB. Landsreglarinn er fjármagnaður af Stórþinginu og með stjórnendur, sem Oíu- og orkuráðuneytið velur án þess að vera tæki fyrir norska ríkið, heldur tæki fyrir ESB.  Þetta sjálfstæði frá hagsmunaöflum norska ríkisins eða einkaaðilum er fyrirskrifað í tilskipun 2009/207: "Landsreglarinn skal vera algerlega óháður öllum opinberum hagsmunum og einkahagsmunum".  Þetta kerfi afritaðra ákvarðana er-í samræmi við viðhorf prófessors Andenæs-andstætt stjórnarskrá, gr. 1."
 
Hér er hin lögfræðilega niðurstaða skýr, að öll völd varðandi orkuflutninga á milli aðildarlanda ACER, einnig EFTA-landanna, ef þau gerast þar aðilar (án atkvæðisréttar), er hjá ACER.  Vitlausasta viðbáran gegn þessu hérlendis er sú, að þetta gildi ekki um Ísland, af því að landið er ótengt við raforkukerfi annarra landa.  Auðvitað gilda völd ACER um allar sæstrengsmumsóknir, einnig þá fyrstu.
 
Það vekur ekki síður furðu að heyra holtaþokuvæl um valdsvið ACER berast frá innsendri grein til Bændablaðsins 29. nóvember 2018, en höfundur hennar er Hilmar Gunnlaugsson, hrl. og LLM í orkurétti.  Hann er á öndverðum meiði við ofangreinda norska lögspekinga án þess þó að bera sannfærandi rök á borð fyrir lesendur.  Minnir þessi Bændablaðsgrein mest á skæklatog og sparðatíning.  Höfundurinn reynir að telja lesendum blaðsins trú um, að ACER sé áhrifavaldur sem ráðgefandi aðili, en ekki ákvörðunaraðili.  Hilmar skrifar m.a.:
"Hlutverk hennar [ACER] er fyrst og fremst að samræma gerðir raforkueftirlits innan sambandsins, eins og nafnið ber sér.  Að vera ráðgefandi.  ACER hefur takmarkað ákvörðunarvald, en er framkvæmdastjórninni, sem getur innan ESB tekið ákvarðanir, til ráðgjafar um þau málefni, sem tengjast verkefnasviði hennar."
 
 ACER hefur verið falið aðalhlutverkið við að hrinda orkustefnu ESB í framkvæmd, og til þess hafa stofnuninni verið falin völd og sjálfstæði, s.s. til að ryðja úr vegi hindrunum í einstökum löndum á leið orkustefnunnar.  Verkfærið er Landsreglarinn í hverju landi, sem verður óstöðvanlegur í aðgerðum sínum, svo lengi sem hann heldur sig að fyrirmælum ACER og Evrópuréttarins.    
 
 
 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband