17.1.2019 | 11:33
Að skilja ekki - kjarnann frá hisminu
Íslenzka verkalýðshreyfingin hefur að sönnu öðrum hnöppum að hneppa núna en að veita EES-samninginum athygli eða þeirri lagasmíð ESB, sem nú bíður staðfestingar Alþingis, svo að hún rati inn í viðauka samningsins nr IV, sem fjallar um orkumálin. Íslenzka verkalýðshreyfingin mætti þó að skaðlausu taka sér þá norsku til fyrirmyndar að mörgu leyti, hvað vinnubrögð varðar, ekki sízt í kjarasamningum. Að gaumgæfa fyrst, hvað er til skiptanna hjá útflutningsatvinnuvegunum, og að láta kröfugerð mótast af því, er ekkert annað en heilbrigð skynsemi. Að koma með fótalausan óskalista í samningaviðræður hefur á sér yfirbragð fúsks og lýðskrums.
Norska Alþýðusambandið, LO, og Verkamannaflokkurinn, sem er nátengdur LO (Landsorganisasjonen), hefur frá upphafi EES-samningsins (1993) stutt aðild Noregs að honum.
Frá samþykkt Lissabonssáttmálans 2009, sem er stjórnarskrárígildi Evrópusambandsins, ESB, hefur virðingarleysi ESB-búrókrata og forkólfa í garð EFTA og tveggja stoða forsendu EES-samningsins orðið meira áberandi. Þetta hefur leitt af sér kröfur ESB á hendur EFTA ríkjunum þremur í EES (Sviss er fyrir utan) um innleiðingu stórtækra gerða sambandsins í átt að samruna ríkjanna í sambandsríki og einsleita innleiðingu á öllu EES-svæðinu. Það er að renna upp fyrir norsku verkalýðshreyfingunni, að þetta þýðir iðulega skert réttindi norsks verkafólks, verri lífsafkomu og minna atvinnuöryggi.
Þetta kom berlega í ljós í vetur, þegar áköf barátta með blysförum í norsku vetrarríki fór fram á vegum almennings gegn samþykkt Stórþingsins á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum. Norska Alþýðusambandið tók þá sögulega afstöðu gegn honum ásamt stærstu verkalýðsfélögunum. Í kjölfarið lá við klofningi í Verkamannaflokkinum út af afstöðu þingflokksins, en landsstjórn flokksins samþykkti að lokum með naumum meirihluta fyrirmæli til þingflokksins um að greiða atkvæði með "pakkanum". Sú afstaða réði úrslitum á þinginu, en nú er komið annað hljóð í strokkinn. Gerjunin hélt áfram á vinstri vængnum, og nú er talið, að á Alþýðusambandsþinginu næsta, 2022, muni verða samþykkt ályktun um að segja upp EES-samninginum.
Ef þetta leiðir til stefnubreytingar Verkamannaflokksins í sömu átt, getur innan fáeinna ára myndast nýr meirihluti á Stórþinginu fyrir uppsögn EES-samningsins. Það eru tíðindi til næsta bæjar, enda mun EES þar með lognast út af. Þá blasir við verkefni fyrir EFTA að fara í samningaviðræður um víðtækan fríverzlunarsamning við ESB. Ágætis undanfari og æfing verður þá gerð fríverzlunarsamnings EFTA og Bretlands.
Engin teikn eru á lofti innan íslenzka Alþýðusambandsins um stöðutöku gegn Orkupakka #3 eða EES. Samt berjast starfsmenn þess við ýmsa óáran, sem rekja má til fjórfrelsis EES-samningsins um frjálst flæði fólks á milli landa og Schengen samkomulagsins, sem leiddi til opinna landamæra innan EES, sem er veruleg öryggisógn, þegar vitað er, að ytri landamæri EES-eru víða illa vöktuð. Það er vitað og hefur verið sýnt fram á opinberlega, að á vinnumarkaðinum viðgengst svindl og svínarí í talsverðum mæli, sem væntanlega væri ASÍ, lögreglu og skattaeftirliti auðveldara viðfangs, ef Ísland stæði utan EES og Schengen.
Þröstur Ólafsson, hagfræðingur og fyrrverandi starfsmaður Verkamannafélagsins Dagsbrúnar, er ósnortinn af göllum hins vanheilaga bandalags embættismanna og fjármálavafstrara, ESB, sem verkalýður Evrópu ber ekki lengur traust til. Hvað skyldi þurfa að ganga á, til að Þröstur Ólafsson missi trú sína á ESB ? Hann reit lofrullu í Fréttablaðið 11. janúar 2019:
"Vera með eða ekki".
Skrif þessi vitna ekki um sjálfstæðar rannsóknir höfundarins á efniviðnum og eru líklega óttalegt þunnildi fyrir flesta lesendur, eins og nú skal greina:
"Orkupakkinn er afleiðing EES-samningsins og orðinn hluti hans samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar; sem sagt með okkar samþykki. Í EES-samningnum er enga undanþágu að finna við því, að orka sé markaðsvara, sem fella má undir regluverk innri markaðsins, hvort heldur hún sé hrein (vatn, vindur, sól) eða unnin úr jarðefnum (kol, olía, gas).
Þröstur gerir enga tilraun til að lýsa því, hvernig á að gera raforku að markaðsvöru í anda ESB á Íslandi, og kannski hefur hann ekki hugmynd um, að þar eru mörg ljón í veginum, sem orðið geta raforkukaupendum á Íslandi dýrkeypt vegna þess, hversu ólíkt íslenzka raforkukerfið er raforkukerfinu, sem markaðskerfi ESB er hannað fyrir. Bæði lögfræðingar og hagfræðingar úr röðum þeirra, sem tjáð sig hafa um málið og gína við orkupakkanum, virðast skella skollaeyrum við þessu vandamáli. Það má vera almenningi hérlendis áhyggjuefni, því að þetta vandamál mun ekki leysast af sjálfu sér. Íslendingar þurfa frið fyrir ESB og tíma til að þróa markaðskerfi fyrir raforku, sem viðurkennir nauðsyn auðlindastýringar. Við þurfum svigrúm til að hanna markaðskerfi, sem tryggir hagsmuni orkunotenda, eins og framast er kostur. Andstæðan við slíka ábyrga nálgun viðfangsefnisins er að demba ónothæfu markaðskerfi ESB yfir landsmenn í algeru hugsunarleysi. Afleiðingin verður skelfileg fyrir kaupmátt landsmanna og samkeppnishæfni fyrirtækjanna.
Um þetta mál fjallaði Elías Elíasson, verkfræðingur og sérfræðingur í orkumálum, í Morgunblaðsgrein sinni, 13. desember 2018:
"Raforkumarkaður Landsvirkjunar":
"Form þess markaðar, sem Landsvirkjun er þarna að lýsa [LV undirbýr nýtt markaðskerfi fyrir Ísland-innsk. BJo], er byggt upp á grundvelli þeirrar auðlindastýringar, sem fyrirtækið ástundar í orkukerfi sínu og getur því hentað betur hér en form orkumarkaða í ESB. Það verður hins vegar að segja þá sögu, eins og [hún] er, að þessi markaður [Landsvirkjunar] er hvorki vel virkur í skilningi tilskipunar ESB nr 72/2009 né þjónar hann langtímamarkmiðum ESB, svo [að] Landsreglarinn, sem fylgir með í Þriðja orkupakkanum, getur illa samþykkt þetta markaðsform. Því svipar meira til markaða Evrópu, eins og þeir voru 2003, þegar Fyrsti orkupakkinn var samþykktur [á Íslandi]."
Af þessu sést, að það er raunverulegt viðfangsefni að þróa markaðskerfi raforku fyrir Ísland, og slík þróun er í gangi. Það er nauðsynlegt að gefa henni tíma, og það yrði afdrifaríkt slys, ef Alþingi í flumbruhætti myndi klippa á þessa þróun og setja raforkumarkaðinn hér undir erlenda stjórn, þar sem aðeins ein hugsun kemst að: einsleitni. Slík einsleitni verður á kostnað skynsamlegrar nýtingar íslenzkra orkulinda og mun koma illa við buddu raforkukaupenda hérlendis.
Rödd skynseminnar í þessum efnum kemur fram í skrifum Elíasar Elíassonar, og hann heldur áfram:
"Það hefur ætíð verið og verður að vera áfram hlutverk raforkufyrirtækjanna hér að tryggja orkuna [til notenda], og það gerir Landsvirkjun fyrir sitt leyti með auðlindastýringu. Hlutverk Landsreglara er skilgreint af hálfu ESB þannig, að hann getur lítið annað en þvælzt fyrir eða skaðað, þegar reynt er að feta sig áfram að nothæfu markaðsformi, sem tekur mið af auðlindastýringu, eins og Landsvirkjun er að gera. Landsreglarinn er því óþarfur til allra annarra verka en þeirra, sem kerfisstjórinn Landsnet getur ágætlega unnið án hans."
Þetta er tæknilega grundvallarástæðan fyrir því, að hérlendis ber mönnum að berjast með oddi og egg gegn þessu aðskotadýri, sem ESB reynir að troða upp á okkur gegnum EES-samstarfið. Þetta er stórmál, því að það varðar nýtingu himnasendingarinnar, endurnýjanlegra orkulinda, og þar með varðar þetta mál grundvallarhagsmuni okkar. Þeir, sem ekki átta sig á því, hlaupa illilega á sig með skrifum á borð við skrif Þrastar Ólafssonar:
"Tilgangurinn með þriðja orkupakkanum er að styrkja samkeppni með raforku og gas innan EES og gera markaðinn gagnsærri. Eitt ákvæði lýtur að því að stofna orkustofnun Evrópu. Í tilskipuninni er ekki að finna neina vísbendingu þess efnis, að ACER hafi nokkurt boðvald yfir íslenzkum íslenzkum orkumarkaði."
Hér er helbert froðusnakk höfundar á ferðinni, sem ekki hefur neina haldbæra þekkingu á þeim efniviði, sem hann hefur glapizt til að fjalla um.
Nú vill svo til, að Norðmenn hafa þegar sett á laggirnar embætti Landsreglara. Embættið er botnlangi á Orkustofnun Noregs, sem ekki heyrir undir Orkumálastjórann, heldur undir ESA, sem fær fyrirmæli frá ACER til Landsreglarans. Landsreglarinn fær fyrirmæli ACER á bréfsefni ESA, til að svo líti út sem forsenda EES-samningsins, tveggja stoða kerfið, sé haldin í heiðri.
Nú hefur orkuráðuneyti Noregs kynnt drög að reglugerð um Landsreglarann. Þótt Stórþingið hafi sett það skilyrði fyrir samþykki Þriðja orkupakkans, að völd Landsreglarans skyldu verða eins takmörkuð og EES-samningurinn framast leyfir, er ljóst af drögunum, að norski Landsreglarinn mun fá völd yfir kjarnasviðum norska orkumarkaðarins, og skrif Þrastar um þetta eru þannig túður eitt. Landsreglarinn verður nýtt stjórnvald, í raun með eins konar ráðherravald, sem framkvæma á tilmæli og kvaðir orkustofnunarinnar ACER.
Samkvæmt reglugerðardrögunum skal norski Landsreglarinn:
- samþykkja nýjar orkukauphallir
- meta fjárfestingaráætlanir Statnetts og veita umsögn í ljósi kerfisþróunaráætlunar ESB
- gefa skýrslu til ESB, ef Noregur ekki samsamar sig kerfisþróunaráætlun ESB
- ákvarða gjaldskrár eða aðferðina við að ákvarða þær, ákvarða starfsemi jöfnunarorkumarkaðarins og aðgang að orkuinnviðum á milli landa, og ákvarða aðferðir við að útdeila flutningsgetu þessara mannvirkja til orkuseljenda ásamt því að fastsetja ráðstöfun hagnaðar af þessum mannvirkjum. ESB vill t.d. ekki, að Statnett ráðstafi hagnaði af sæstrengjum til lækkunar flutningsgjalds í stofnkerfi Noregs. Hagnaðinn á að nota til að auka flutningsgetuna enn meir samkvæmt forskrift ESB.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Fjölmiðlar, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ef það er stjórnarskrábrot mun það falla um sjálft sig...ekki rétt ?
Birgir Örn Guðjónsson, 17.1.2019 kl. 16:20
Ekki víst, því að okkur vantar úrskurðaraðila. Það þyrfti að vera hægt að vísa stjórnarskrárágreiningi frá þingi til Hæstaréttar, eins og í Noregi. Þingið innleiddi persónuverndarlöggjöf ESB í íslenzk lög, þótt margir teldu hana brjóta í bága við Stjórnarskrána, og ýmsir lögfræðingar eru haldnir efasemdum um lögmæti þessarar löggjafar, eins og komið hefur fram opinberlega. Búið er að kæra meðferð Stórþingsins á lögleiðingu Orkupakka #3 í Noregi, og það mál mun líklega enda fyrir Hæstarétti. Ef fer að reyna á gerðir Landsreglara hér, kann hann að verða kærður, og þá kemur í ljós, hvort löglega er til embættis hans stofnað samkvæmt Stjórnarskrá.
Bjarni Jónsson, 17.1.2019 kl. 21:29
Líttu, samherji, í stjórnborð þitt.
Jón Valur Jensson, 19.1.2019 kl. 00:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.