Villuljós Þriðja orkupakkans

Guðjón Sigurbjartsson, fyrrverandi fjármálastjóri Rafmagnsveitu Reykjavíkur, skrifaði grein í Morgunblaðið 1. desember 2018 undir fyrirsögninni:

"Orkupakkinn í stóra samhenginu".

Hann gerir þar að umfjöllunarefni, hverju þarf að breyta á Íslandi til að frjáls samkeppni um rafmagnsviðskipti virki vel.  Hann vitnar í danska hagfræðinginn Lars Christensen, en skilyrðin, sem hann telur upp, eru allsendis ófullnægjandi til að hindra, að viðskiptavinir orkubirgjanna beri skarðan hlut frá borði. 

Skilyrðin, sem þarf að uppfylla til að markaðskerfi með raforku í anda ESB virki notendum til hagsbóta, eru vel þekkt, en þau munu einfaldlega aldrei verða uppfyllt á Íslandi vegna eðlis orkulindanna, því að ESB bannar miðlæga orkulindastýringu, sem er nauðsynleg við íslenzkar aðstæður, ef hlutur notenda á ekki að verða algerlega fyrir borð borinn.  Þessu verða stjórnmálamenn og yfirvöld orkumála í landinu að fara að gera sér grein fyrir.  Rafmagn er ekki eins og hver önnur vara á Íslandi, heldur afurð dyntóttra náttúruauðlinda, sem þarf að stjórna nýtingunni á, ef ekki á illa að fara. Að láta frjálsan markað um stýringu auðlindanna krefst aðhalds. Eldsneytiskerfi ESB-landanna er allt öðru vísi farið en orkulindum náttúru Íslands. 

Guðjón hefur téða grein sína þannig:

"Danski hagfræðingurinn, Lars Christensen, skoðaði ásamt teymi sérfræðinga skilvirkni orkumarkaðarins á Íslandi og gaf út skýrsluna, "Our Energy 2030" í maí 2016 fyrir Samtök iðnaðarins.  Samkvæmt henni þarf þrjár breytingar á okkar raforkumarkaði til að frjáls samkeppni virki vel:

1. Skipta þarf Landsvirkjun upp.  Hún framleiðir um 70 % raforkunnar og er því of markaðsráðandi til að markaðurinn virki fullkomlega.  

Almenningur þarf ekki að eiga orkukerfið til að fá arð af auðlindinni og njóta lágs orkuverðs.  Þjóðin getur fengið sínar tekjur af orkuauðlindunum í formi auðlindarentu og skatta sbr sjávarútveginn."

Við þetta er margt að athuga.  Það er þó engum blöðum um það að fletta, að Landsreglarinn á Íslandi, sem verður eftirlitsaðili með því, að frjáls samkeppni ríki á íslenzka raforkumarkaðinum í skilningi samkeppnislaga Evrópuréttarins, eftir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn, mun ekki linna látunum fyrr en ESA gerir athugasemd við ríkisstjórnina um markaðshlutdeild Landsvirkjunar.  Ríkisstjórn og Alþingi munu standa vanmáttug gagnvart kröfu ESA og að lokum EFTA-dómstólsins um að jafna samkeppnisstöðuna á raforkumarkaðinum; ekkert síður en lög Alþingis frá 2009 um varnir gegn innflutningi skaðræðissýkla í matvælum frá hinum EES-löndunum voru dæmd brot á EES-samninginum af EFTA-dómstólinum 2017.  Þannig verður unnið óhæfuverk á öflugasta orkufyrirtæki landsins, sem stundað hefur hér nauðsynlega auðlindastjórnun til að gæta hagsmuna almennings og verið í stakk búið að byggja upp raforkukerfi landsins í krafti langtímasamninga við erlend framleiðslufyrirtæki.  Með því að höggva Landsvirkjun í spað fer orkulindastjórnun landsins í vaskinn, því að undir ACER er hún óleyfileg, nema innan hvers fyrirtækis. Þetta stóreykur hættu á tæmingu lóna og ofnýtingu virkjaðs jarðgufuforða, enda er markaðskerfi ESB alls ekki sniðið fyrir lokað raforkukerfi með þessum náttúruauðlindum sem ríkjandi orkulindum.  Allar munu þessar hagfræðilegu æfingar auðvitað valda stórhækkun raforkuverðs í landinu, enda eru refirnir til þess skornir að auka arðsemi raforkugeirans, sem sumir hagfræðingar telja of lága.

Það er röng ályktun hjá Guðjóni Sigurbjartssyni, að sala á hluta eða hlutum úr Landsvirkjun til fjárfesta hérlendis eða erlendis og markaðsvæðing raforkuviðskipta með orkukauphöll að forskrift ESB muni leiða til auðlindarentu og lágs orkuverðs til almennings ásamt skatttekjum til hins opinbera.  Þetta þrennt fer ekki saman.  Einkafjármagnið kallar á hærri arðsemi fjárfestinganna en opinber fyrirtæki hafa sætt sig við, eins og hagfræðingar, t.d. á Hagfræðistofnun HÍ hafa bent á.  Þar að auki mun frjáls samkeppni án miðlægrar auðlindastýringar hæglega leiða til tæmingar lóna að vetri og ofnýtingar virkjaðs jarðgufuforða og þar með rýrnunar hans.  Auðlindarenta af nýjum virkjunum fæst auðvitað ekki, nema orkuverðið frá þeim verði hækkað upp fyrir það, sem nægir til að standa undir kostnaði virkjunarinnar.  Að afskriftum loknum fæst auðvitað bullandi auðlindarenta, og það er féð, sem ætlunin er að ráðstafa í varasjóð, Þjóðarsjóðinn.

"2. Fjölga þarf hluthöfum að Landsneti, sem flytur orkuna til kaupenda, til að jafna aðgang orkuframleiðenda að markaðinum.  

Landsvirkjun, sem á núna langstærsta hlutann, getur ráðið mestu um, hvað er framkvæmt við flutningsnetið.  Mikilvægt er, að slíkar ákvarðanir séu teknar út frá heildarhagkvæmni."

Eignaraðilar Landsnets eru 4 orkuvinnslufyrirtæki, og 3 þeirra hafa einnig sérleyfi til raforkudreifingar á sínum athafnasvæðum.  Þau eignuðust Landsnet með því að leggja því til eignir við stofnun fyrirtækisins, Landsvirkjun 65 %, RARIK 22 %, OR 7 % og OV 6 %, en Landsnet fjármagnar sig þó sjálft, m.a. á erlendum mörkuðum.  Landsnet má ekki draga taum neins, heldur eiga allir viðskiptavinir hennar að njóta jafnstöðu á markaði og lúta sama regluverki.  Af sjálfu leiðir, að fulltrúar viðskiptavina mega ekki vera í stjórn kerfisstjórans, og þar sem Landsnet nýtur lögbundinnar einokunaraðstöðu, væri glapræði að hleypa fleiri einkaaðilum í eigendahópinn. 

Af þessu leiðir, að eðlilegast er, að ríkissjóður leysi fyrirtækið strax til sín með útgáfu skuldabréfa.  Ríkisendurskoðun hefur fundið að núverandi fyrirkomulagi, og það er óskiljanlegt, að ríkisstjórn Íslands skuli hafa leitað eftir og fengið undanþágu frá ESB til að varðveita óeðlilegt fyrirkomulag, sem var hugsað til bráðabirgða og er örverpi. Í nágrannalöndunum er reglan sú, að systurfyrirtæki Landsnets eru í ríkiseigu.  

"3. Koma þarf upp spottmarkaði (svo ?) fyrir raforku til þess að laða fram sveigjanlega verðmyndun og nýtingu afgangsorku.  

Þetta varðar t.d. hleðslu á rafmagnsbílum í framtíðinni.  Hleðsla rafbíls getur t.d. verið stillt þannig, að hún fer í gang, þegar verð lækkar í tiltekið verð eða undir morgun, ef það næst ekki."

Það er ekki nauðsynlegt að koma upp uppboðsmarkaði eða orkukauphöll til að nýta afgangsorku í landinu.  Þar nægir, að hver orkubirgir bjóði skilmála sína, t.d. á vefsetri sínu.  Orkubirgjarnir hljóta að sjá sér hag í að selja sem mest af orku og verðleggja hana í samræmi við það, breytilega eftir árstíma, til að auka við notkunina að sumarlagi. 

Ef hins vegar á að beina notendum á mismunandi tíma sólarhringsins, t.d. rafbílaeigendum á tímabil eftir kvöldtoppinn og fram að venjulegum vinnutíma, þá þarf snjallmæli hjá notandanum. Í þeim og uppsetningu þeirra felst mikil fjárfesting, ef skipta á um mæla alls staðar, en í nýjum töflum, og þar sem notkun er mikil (rafhitun, sum fyrirtæki), eru þeir eðlilegir.  Þá er ekki endilega um að ræða að nýta afgangsorku, heldur að bezta nýtingu á innviðum raforkukerfisins, virkjunum, flutningskerfi og dreifikerfi, til að fresta fjárfestingum vegna viðbótar notkunar.  Þá getur verið ódýrara að tengja hleðslutækið við rjúfanlega og fjarstýranlega grein í rafmagnstöflu gegn lækkun taxta í gjaldskrá.  Þá er um samið, að dreififyrirtækið megi hindra eða stöðva notkun á viðkomandi grein, ef hætta verður á yfirálagi einhvers staðar uppstreymis í kerfinu.  

"Styrkja þarf orkuflutningskerfið víða um land með tilkomu sæstrengs.  Fá mætti þann kostnað greiddan hjá sæstrengsfyrirtækinu með eins konar aðgöngugjaldi að flutningskerfinu, ef af yrði."

Það er brýnt verkefni að styrkja flutningskerfi raforku innanlands, hvort sem sæstrengur kemur eður ei.  Brýnast er að tengja Eyjafjörð við Kröflu og Fljótsdal með 220 kV línu og að útrýma flöskuhálsum, sem valda aflskorti hjá fiskvinnslum (mjölverksmiðjum) Norð-Austurlands.  Öllum flöskuhálsum, sem hamla orkuskiptum, þarf að útrýma fyrir 2025, ef markmið  ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum eiga að verða meira en orðin tóm.

Fyrir tengingu um 1200 MW sæstrengs til útlanda við stofnkerfi landsins þarf miklu meiri framkvæmdir. Slík tenging útheimtir tvær 400 kV línur, aðra frá Austurlandi (Fljótsdal) og hina frá Suðurlandi (Sigöldu) og að landtökustað sæstrengsins á Suð-Austurlandi, og gera þarf margháttaðar styrktar- og stöðugleikaráðstafanir með dýrum búnaði.  Sterk tenging á milli Norður- og Suðurlands, t.d. jafnstraumsjarðstrengur yfir Sprengisand, um 500 MW, verður þá óhjákvæmileg fyrir stöðugleika kerfisins.

  Ef Alþingi innleiðir Orkupakka #3 í EES-samninginn og íslenzka löggjöf, þá verður óheimilt að nota tekjur af sæstrengnum til að fjármagna flutningskerfið innanlands, heldur verður að fjármagna þessar miklu framkvæmdir, sem munu nema mrðISK 100-200, með hækkun gjaldskrár Landsnets á notendum innanlands. Þetta gæti þýtt 35 % hækkun gjaldskrár Landsnets umfram það, sem ella væri nauðsynlegt.

 

"Sæstrengur verður ekki lagður, nema í einkaframkvæmd á ábyrgð fjárfesta.  Fjárfestar munu ekki leggja í framkvæmdina, nema stjórnvöld styðji framkvæmdina, því að verkefnið kallar á framkvæmdir við raforkuflutningskerfið og útvegun raforku til að nýta strenginn."

Þetta sjónarmið á aðeins við, á meðan Ísland er utan við Orkusamband ESB (ACER).  Eftir samþykkt Orkupakka #3, sem vonandi aldrei verður, stendur lán frá ESB fjárfestum, íslenzkum eða erlendum, til boða, þar sem sæstrengurinn er nú þegar á forgangsverkefnalista ACER.  Skilyrðið er þó, að Landsreglarinn á Íslandi og í hinu hýsingarlandi strengsins verði sammála um alla tæknilega og viðskiptalega skilmála strengsins.

Er hér verður komið sögu, verður komin orkukauphöll hérlendis, sem verður tengd við orkukauphöll í móttökulandi strengsins, þannig að íslenzkir raforkunotendur lenda í beinni samkeppni við raforkunotendur erlendis við tengingu sæstrengsins.  Versnar þá samkeppnisstaða íslenzkra fyrirtækja og kaupmáttur heimila að sama skapi sem orkuverðið hækkar.  Þetta fyrirkomulag gengur þvert á hagsmuni íslenzks almennings, enda er kerfið hannað fyrir aðra en hann. Hljóta atvinnurekendur og verkalýðshreyfing að geta sameinazt í andstöðu við slíkan óþurftargerning.

  "Þó að verðmæti raforkunnar aukist umtalsvert við opnun nýrra markaða um sæstreng, hækkar verð til 90 % heimila ekki.  Fáir hér munu finna fyrir hækkun raforku aðrir en stórnotendur.  Almenningur mun hins vegar hagnast af auðlindagjöldum og fleiru, ef strengur verður að veruleika."

 Það er undir hælinn lagt, hversu mikið verðmæti íslenzkrar raforku hækkar við þetta.  Verðið fyrir raforkuna inn á endabúnað sæstrengsins ræðst af raforkuverðinu, sem kaupandinn erlendis er fús til að greiða, og frá því verði til kaupanda dregst flutningskostnaður um sæstrenginn og endabúnað hans, sem rennur til sæstrengseigendanna.  Þegar sæstrengurinn hefur verið bókhaldslega afskrifaður, getur raforkuverðið til birgja hér aftur á móti hækkað stórlega. 

Það er alveg út í hött að fullyrða, að raforkuverð til 90 % heimila hækki ekki.  Verðið til allra heimila mun hækka, þótt ekki væri nema bara til að fjármagna nýjar framkvæmdir í virkjunum og stofnlínum og aðveitustöðvum.  Stórnotendur með langtímasamninga munu hins vegar ekki finna fyrir þessu fyrst um sinn, nema þeir þurfi að kaupa viðbótar orku á markaði.  Auðlindagjöldin til ríkisins (Þjóðarsjóðs) munu auðvitað koma úr vösum almennings hérlendis, eins og annarra raforkukaupenda, er fram líða stundir, svo að það er hæpið að færa þau á tekjuhlið almennings. Guðjón Sigurbjartsson bregður þannig upp einskærum villuljósum í sambandi við Orkupakka #3.

"Það fylgja sæstreng ýmsir fleiri kostir. Hann eykur afhendingaröryggi, þannig að ef hér verða náttúruhamfarir, sem gera virkjanir óstarfhæfar, mætti e.t.v. flytja inn orku, þar til úr rætist. Þá bætir strengurinn nýtingu vatnsaflsvirkjana, því að hægt er að flytja inn ódýra næturorku, sem stundum stendur til boða."

Líklega er afhendingaröryggi raforku um sæstreng, eins og "Icelink", minna en nú gerist almennt á Íslandi.  Þess vegna er ólíklegt, að slíkt áhættumannvirki auki almennt afhendingaröryggi raforku á Íslandi.  Þá eru meiri líkur á afhendingartruflun raforku í náttúruhamförum vegna línu- og aðveitustöðvarbilana en virkjanabilana.  Boðaður lendingarstaður aflsæstrengs er á Suð-Austurlandi á áhrifasvæði Vatnajökuls, þar sem a.m.k. er að finna 3 eldstöðvar, sem hafa látið á sér kræla. Katla gæti líka slegið út flutningslínum á Suð-Austurlandi. Þetta gerir að verkum, að það er vart hægt að reikna með nokkurri orkuafhendingu að gagni til Íslands í slíkum náttúruhamförum. Sæstrengur getur jafnvel gert illt verra í þessum efnum, ef menn hafa af óforsjálni lækkað mjög í miðlunarlónum og sett traust sitt á strenginn, en hann eða línurnar að honum bila svo, þegar hæst á að hóa. Slíkt mannvirki veitir falskt öryggi.

Það er slæm viðskiptahugmynd út frá hagsmunum íslenzks almennings að flytja inn rafmagn um sæstreng til Íslands að næturþeli til að selja að deginum hér innanlands.  Sjaldan er nokkurt næturrafmagn fáanlegt í Evrópu á lægra verði en hér ríkir nú allan sólarhringinn, og þegar búið verður að bæta flutningskostnaðinum við um strenginn og hér innanlands, verður það margfalt dýrara en núverandi rafmagnsverð á Íslandi.  Allar hugmyndir í þessa veru eru reistar á stórhækkun raforkuverðs á Íslandi.  Sú hækkun hækkar rekstrarkostnað heimila og fyrirtækja, grefur undan samkeppnisstöðu fyrirtækjanna og getur jafnvel tekið lifibrauðið frá fjölda manns.

"Til að nýta sæstreng þarf að auka orkuframleiðslu um sem nemur tveimur virkjunum á borð við Búrfellsvirkjun eða rúmlega það.  Tilkoma strengsins bætir reyndar nýtingu kerfisins um sem nemur einni slíkri virkjun vegna ódýru næturorkunnar.  Umhverfisvæn orka héðan getur dregið úr notkun meira mengandi orku í Bretlandi"

Búrfellsvirkjun er 270 MW að uppsettu afli og 2300 GWh/ár að vinnslugetu.  Guðjón virðist þannig gera ráð fyrir orkuútflutningi um 5 TWh/ár.  Það er bara helmingsnýting á flutningsgetu 1200 MW sæstrengs.  Ekki er ljóst, hvernig kaup á næturorku frá útlöndum um strenginn geta bætt nýtingu íslenzkra virkjana. Sú nýting getur aðeins aukizt með því að selja meira afl, þegar miðlunarlón fyllast, en til þess þarf að auka aflgetu virkjana, líklega aðallega Fljótsdalsvirkjunar.  Að sæstrengur geti aukið nýtingu núverandi virkjana um 2300 GWh/ár umfram það, sem innlendi markaðurinn getur, að teknu tilliti til orkuskipta og jafnvel vetnisframleiðslu, er útilokað.

Guðjón Sigurbjartsson klykkir út með eftirfarandi, þar sem boðskapurinn er ófélegur:

"Þriðji orkupakkinn varðar reglur um sameiginlegan orkumarkað Evrópu með hagsmuni neytenda í forgrunni. Við höfum tekið skref í átt að markaðsvæðingu orkugeirans og þurfum að ljúka því verki fyrir neytendur í landinu. 

Evrópski orkumarkaðurinn er mikilvægur fyrir frændur okkar Norðmenn og vont að bregða fæti fyrir þá. 

Ef reglur markaðarins liggja fyrir, eru meiri líkur á, að einkaaðilar sýni sæstreng áhuga.  Ef af sæstreng verður, verður það mjög hagfellt fyrir almenning í þessu landi.

Það er því ekkert að óttast við að staðfesta þriðja orkupakkann, heldur mögulegt, að það verði okkur mjög hagfellt."

Þótt Þriðji orkupakkinn kunni að henta íbúum meginlands Evrópu, er ekki hægt að hrapa að þeirri ályktun, að hann henti Íslendingum.  Hér eru aðstæður raforkuvinnslunnar og raforkumarkaðarins svo gjörólíkar, að þvert á móti má fullyrða, að almenningur á Íslandi myndi stórtapa á innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins.

Almenningur í Noregi hefur miklar áhyggjur af því, að Orkupakki #3 muni leiða til enn frekari hækkana raforkuverðs í Noregi og þar af leiðandi verri samkeppnisstöðu norskra fyrirtækja, einkum orkukræfra framleiðslufyrirtækja, sem að nokkru eru á frjálsum raforkumarkaði, þótt megnið af raforkukaupum þeirra sé samkvæmt langtímasamningum.  Margir óttast, að Landsreglari Noregs, sem er aðeins háður ESA/ACER, muni fetta fingur út í endurnýjun langtímasamninga, af því að meginregla ACER er sú, að öll raforkuviðskipti fari fram í Orkukauphöll.  Þar keppa norsk fyrirtæki um norska orku við fyrirtæki innan ESB vegna millilandatenginganna, sem eru margar og fer fjölgandi. Þessi evrópsku fyrirtæki eru mörg hver betur í sveit sett en norsk fyrirtæki m.t.t. aðdrátta, markaða, launakostnaðar og opinberra gjalda.    

Það er rétt hjá Guðjóni, að innleiðing Orkupakka #3 eykur líkur á, að hingað verði lagður sæstrengur.  ESB/ACER virðist hafa á því áhuga til að krækja í raforku úr endurnýjanlegum orkulindum, sem mikill hörgull er á um þessar mundir í ESB, svo að nálgast örvæntingu þar á bæ vegna óraunhæfrar markmiðssetningar.  Það er hins vegar algerlega úr lausu lofti gripið hjá Guðjóni, að sala rafmagns úr landi verði "mjög hagfellt fyrir almenning í þessu landi".  Það jafngildir því að flytja vinnu og verðmætasköpun úr landi, og ímyndaður arður af þessum viðskiptum til baka til almennings verður aldrei annað en dropi í hafið hjá þeim gríðarlegu verðhækkunum rafmagns, sem sá sami almenningur mun þurfa að bera.

Trúarjátningunum í garð EES og Orkupakka #3 linnir ekki, en þær eru, eins og önnur trúarbrögð, hvorki reistar á tiltækum staðreyndum annars staðar frá né á rökhyggju.  Þær eru reistar á trú, von og kærleika í garð spákaupmanna, sem hyggjast maka krókinn, eins og t.d. hefur gerzt í Noregi við innleiðingu uppboðsmarkaðar á raforku þar og stækkun markaðarins með millilandatengingunum.  Eins dauði er annars brauð (Eines Tod einem anderen Brot).

 

 

 

 

 

 

 

    

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Guðjón þessi var náttúrlega fyrir fram búinn að eyrnamerkja sig ESB og hefur í mörg ár verið einn af áróðursmönnum þess ofurríkjabandalags, m.a. í starfi Sjálfstæðisflokksins á fundum í Valhöll um margra ára skeið og með greinaskrifum í Mbl. og Fréttabl. Hann er jafn-fyrirsjáanlegur í þessum efnum og Ole Bieldvedt, Þröstur Ólafsson og aðrir af því sauðahúsinu.

þakka þér sem jafnan, Bjarni, fyrir að standa hér trúa vaktina.

Jón Valur Jensson, 14.1.2019 kl. 17:45

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Gleðilegt nýár, Jón Valur, og þakka þér öll þín fræðandi skrif og uppörvandi innlegg hér á þessu vefsetri.  

Það virðist meginreglan, að ESB-sinnar taka ósjálfrátt afstöðu með innleiðingu allra laga og tilskipana, sem frá ESB koma.  Það er óttalega ómálefnaleg hegðun og yfirleitt skín í gegn, að þeir hafa lítið sem ekkert kynnt sér, hvað þessar innleiðingar snúast um.  Það er mjög ótraustvekjandi, en gefur okkur, Jón Valur, sóknarfæri á nýju ári.  

Bjarni Jónsson, 14.1.2019 kl. 19:00

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Takk, Bjarni, en þú gerir mér óþarflega hátt undir höfði hér undir ægishjálmi sérfræðiþekkingar þinnar á þessum sviðum öllum.

En gleðilegt ár, vonum að það færi Íslandi sigra og enga ósigra! smile

Jón Valur Jensson, 14.1.2019 kl. 19:28

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ég átti líka við fræðandi skrif þín, Jón Valur, á öðrum vettvöngum og sannan baráttuanda.  Þú ert sannkallaður hugsjónamaður, og þeir eru ekki á hverju strái nú á dögum.  Það er af, sem var fyrir 100 árum og 200 árum.  

Bjarni Jónsson, 14.1.2019 kl. 20:49

5 Smámynd: Halldór Jónsson

Sæll herra Kollege Bjarni og takk fyrir þína baráttu gegn fullveldisafsalinu.

Af hverju athuga menn ekki að framleiða vetni hér á landi með 1200 Mw og blása því í gegn um rör til meginlandsins? Langtum effektívara og ódýrara  en sæstrengur með öllu þeim töpum.

Halldór Jónsson, 15.1.2019 kl. 09:50

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Gleðilegt nýár, Herr Kollega Halldór;

Ég hef nýlega kynnt þennan vetniskost til sögunnar hér á vefsetrinu sem mun vænlegri en útflutning á rafmagni um sæstreng.  Ástæðan fyrir því, að fjárfestar hafa ekki kveikt almennilega á þessu enn, er sennilega, að framleiðsla á vetni með rafgreiningu hefur ekki verið samkeppnishæf við hina hefðbundnu aðferð með jarðgasi og gufu.  Nú er tvennt að breytast.  Notkun jarðgass er að verða dýrari en áður vegna CO2 losunarkostnaðar og spurn eftir vetni er að aukast.  Englendingar í Jórvíkurskíri og í Norðimbralandi geta tekið við öllu vetni frá okkur, því að þeir ætla að leysa jarðgas af hólmi með vetni til að hita upp húsnæði sitt.

Bjarni Jónsson, 15.1.2019 kl. 18:21

7 Smámynd: Halldór Jónsson

Gleðilegt ár Kollege Bjarni. Hvar finn ég umfjöllum þína um vetnið? Vinsamlega sednu mér tölvupóst um það. 'eg held að þetta svið sé að fá meiri vigt í um ræðunni um sæstrenginn og orkupakkann

Halldór Jónsson, 19.1.2019 kl. 09:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband