Að falla í gildru

Þingmenn eru greinilega hugsi, margir hverjir, yfir Þriðja orkupakkanum, enda kemur fyrr eða síðar til þeirra kasta að afgreiða hann. Sumir hafa þegar tekið afstöðu, ýmist með eða mót, en aðrir eru í vafa.  Vísa þeir gjarna til væntanlegrar niðurstöðu einhvers konar áhættugreiningar, sem mun vera í gangi á vegum ráðuneyta, enda hverju barni ljóst, að um stórfellt hagsmunamál íslenzku þjóðarinnar er að ræða að hafna Orkubálki ESB #3.

Það er helzt þrennt, sem virðist vefjast fyrir þingmönnum við að gera upp hug sinn:  

Í fyrsta lagi, hvort skuldbindingar um valdframsal á öllum þremur sviðum ríkisvaldsins til yfirþjóðlegrar stofnunar, þar sem landið á ekki aðild, samræmast Stjórnarskrá.  Í þessu sambandi má taka dæmi:

Setjum svo, að færeysk og íslenzk stjórnvöld geri með sér samning um raforkuviðskipti og ríkisstjórnin feli Landsneti að sjá um verkefnið, bjóða það út og hafa eftirlit með framkvæmd, og síðan að reka sæstrenginn, eins og Statnett er falið í Noregi varðandi allar millilandatengingar Noregs. 

Eftir innleiðingu Orkupakka #3 fer þetta verkefni vafalaust inn á borð Landsreglara, enda fjallar málið um útflutning á a.m.k. 100 MW afli að jafnaði.  Hann mun benda á, að þessi sæstrengur sé ekki inni á Kerfisþróunaráætlun ACER/ESBFæreyjar séu ekki á innri orkumarkaði EES og orkusala þangað dragi úr getu Íslands til að afhenda orku inn á þennan innri markað, en Alþingi hafi með innleiðingu Orkupakka #3 og innleiðingu gerðar #347/2013 í kjölfarið skuldbundið Ísland til að styðja við Kerfisþróunaráætlunina í hvívetna.  Við mat á samfélagslegri arðsemi þessa sæstrengs samkvæmt gerð #347/2013 mun hann sennilega ekki ná lágmarkseinkunn, af því að samfélagið í þessum skilningi er EES, sem Færeyjar standa utan við.

  Þessi ágreiningur á milli íslenzkra yfirvalda og ACER/ESB getur hæglega lent hjá ESA (Eftirlitsstofnunar EFTA), sem mun benda á þær skuldbindingar, sem Ísland hefur undirgengizt gagnvart Innri markaðinum.  Ef samkomulag næst ekki, fer þessi ágreiningur til EFTA-dómstólsins, sem dæmir eftir Evrópurétti, því að millilandaorkutengingar heyra undir hann eftir innleiðingu Orkupakka #3.  

Fari þetta svona, óháð úrskurði, dylst engum, að Ísland hefur glatað fullveldi sínu í hendur Evrópusambandsins. Ráðin eru tekin af rétt kjörnum stjórnvöldum, og Evrópurétturinn gengur framar íslenzkum lögum.

Fer þetta svona ?  Það er skoðun Peters Örebech, prófessors í lögum við háskólann í Tromsö og sérfræðings í Evrópurétti.  Þegar hann hélt  fyrirlestur í Háskóla Íslands, þann 22. október 2018, var Stefán Már Stefánsson, prófessor emerítus í lögum, einn fundargesta.  Hann stóð upp eftir fyrirlesturinn, ávarpaði Peter, þakkaði honum fyrir og sagðist sammála lögfræðilegri röksemdafærslu hans um kaupin á eyrinni eftir téða innleiðingu.  Þarf frekari vitnana við varðandi Stjórnarskrána ?

Þingmönnum verður alltíðrætt um, að þeir vilji alls ekki, að orkulindir landsins rati í erlendar hendur.  Þetta er í raun aðeins spurning um tíma, því að eftir innleiðingu Orkupakka #2 á sínum tíma njóta öll orkufyrirtæki og fjárfestar innan EES sama réttar og innlendir menn og fyrirtæki til að eignast vatnsréttindi eða jarðgufuréttindi á Íslandi, svo og til að fá rannsóknarleyfi fyrir beizlun orkulinda og virkjunarleyfi að uppfylltum öllum skilyrðum.  

Það, sem breytist hins vegar með samþykkt Þriðja orkupakkans, er markaðurinn fyrir raforkuna, sem unnin er úr íslenzkum orkulindum.  Hér verður afdráttarlaust (var valfrjálst) stofnað til frjáls markaðar í orkukauphöll undir umsjón Landsreglara Evrópusambandsins í Reykjavík.  Þetta mun gera nýjum, erlendum aðilum auðveldara um vik að athafna sig á markaðinum, og sömuleiðis glæðast líkur verulega á stækkun markaðarins með tengingu við sameiginlegan raforkumarkað ESB um sæstreng, en efling orkusamtenginga á milli landa, og tvöföldun slíkra orkuflutninga upp í 20 % árið 2030 m.v. 2010 og upp í 25 % árið 2035, eru markmið ESB. Þessi mikla fyrirhöfn og fébinding er liður í að auðvelda orkuskipti ESB og að gera ESB-löndin betur í stakk búin að mæta væntanlegum eldsneytishækkunum, sem ESB býr sig nú undir, af völdum minnkandi, þekktra eldsneytisbirgða.  Allt mun þetta auka áhuga erlendra fjárfesta á íslenzkum orkulindum.

Ef einhver efast um þetta, ætti sá hinn sami að líta til Noregs, en þar er þessi þróun orðin áberandi.  Erlendir fjárfestar hafa þar í miklum mæli fjárfest í vindorkuverum, norskum náttúruunnendum til gremju, og í smávirkjunum vatnsafls. Þessar virkjanir fjárfesta af meginlandinu eru ekki arðbærar á því orkuverði, sem verið hefur í Noregi undanfarin ár.  Nú gegnir öðru máli, og þessi erlendu orkufélög geta auðvitað selt  orkuna til útlanda, þegar það er hagstæðara.  Eftir sitja Norðmenn með lága vatnsstöðu í mörgum af sínum öflugustu miðlunarlónum og hátt orkuverð (yfir 100 % hækkun á vinnsluþættinum í janúar-febrúarbyrjun 2019 m.v. sama tíma í fyrra).

Rauður þráður í málflutningi þingmanna, sem enn gera sér ekki grein fyrir hinni þjóðhagslegu og stjórnlagalegu hættu, sem af Orkupakka #3 stafar, er, að Ísland sé ekki í beinum tengslum við innri orkumarkað ESB núna, og að íslenzk stjórnvöld hafi það í hendi sér að leyfa slíka tengingu.  Hér er teflt á tæpasta vað og skákað í því skjólinu, að endanleg ákvörðun um slíka tengingu (sæstreng) muni lúta íslenzkum lögum (ekki Evrópurétti) og vilja íslenzkra yfirvalda.  Þannig verður það alls ekki eftir innleiðingu Orkupakka #3, enda eru refirnir til þess skornir að ryðja hindrunum úr vegi fyrir millilandatengingar.  Í þessu er fólginn hinn mikli  og hættulegi misskilningur um, að þessi innleiðing muni hafa hér lítil áhrif. 

Eins og prófessor Peter Örebech hefur sýnt fram á, þá víkur Evrópurétturinn landslögum úr vegi á sviði millilandatenginga við téða innleiðingu.  Það felur m.a. í sér, að greinar 11, 12 og 13 í EES-samninginum, um millilandaviðskipti, virkjast fyrir rafmagnsviðskipti.  Þar eru hvers konar tálmanir á sviði milliríkjaviðskipta innan EES bannaðar, nema einhvers konar neyðarástand myndist. Hvað er bann Alþingis við sæstrengstengingu við útlönd annað en hindrun á millilandaviðskiptum með rafmagn, sem er vara í skilningi ESB ?

Sömu þingmenn segja, að þetta sé ekki nóg, því að skipulagsvaldið sé í höndum landsmanna.  Í þessu felst mikið vanmat á búrókrötunum í Brüssel.  Þar eru vanir menn, sem kunna til verka.  Árið 2013 gáfu þeir út breytingar og viðbætur við Orkupakka #3, sem þeir kalla Evrópugerð #347/2013.  Hún fjallar um innviðauppbyggingu innan ESB og eftir atvikum EFTA.  Þar er aðildarríkjunum gert skylt styðja við og fullnusta eftir mætti Kerfisþróunaráætlun ESB.

  Landsreglara í hverju landi er falið að fylgja þessu eftir.  Þetta þýðir, að Landsneti verður gert skylt að aðlaga Kerfisáætlun sína að Kerfisþróunaráætlun ESB.  Ef t.d. ESB hefur sett sæstrenginn "Icelink" í Kerfisþróunaráætlun sína, sem er staðan núna, þá verður Landsnet að setja nauðsynlegar aðveitustöðvar og flutningslínur frá stofnraforkukerfi landsins og niður að lendingarstað "Icelink" inn á Kerfisáætlun sína. Alla misbresti á þessu og á framfylgd áætlunarinnar tilkynnir Landsreglari umsvifalaust til ACER (gegnum milliliðinn ESA).  Óeðlileg tregða við veitingu framkvæmdaleyfa verður væntanlega kærð til ESA og úrskurður kveðinn upp af EFTA-dómstólinum.

Efasemdarmenn kunna nú að segja, að millilandatengingar fari ekki inn á forgangsverkefnaskrá (PCI) ESB án samþykkis yfirvalda viðkomandi lands.  Þessu er óvarlegt að treysta.  "NorthConnect"-sæstrengurinn á milli Noregs og Skotlands er á þessari skrá í óþökk orkuyfirvalda í Noregi.  Orkustofnun Noregs, NVE, leggur nú mat á umsókn um leyfi til að leggja þennan streng.  Þetta er fyrsta millilandatengingin við Noreg, sem norska ríkið, um fyrirtæki sitt, Statnett, á ekki aðild að, og fulltrúar Statnetts hafa mælt með höfnun á þessu verkefni við NVE í umsagnarferli um verkefnið, eða a.m.k. frestun, þar til í ljós kemur, hvernig orkukerfi Noregs bregst við þeim tveimur stóru sæstrengjum, sem nú eru á framkvæmdastigi; annar til Þýzkalands og hinn til Englands.  Í ljósi síaukinnar miðstýringar ESB á sviði orkumála er engan veginn á vísan að róa í þessum efnum.   

Ætla þingmenn, t.d. Vilhjálmur Árnason í þingflokki sjálfstæðismanna, að verða valdir að því, að landsmenn kunni að eiga það undir ACER/ESB og Evrópuréttinum, hvort risamannvirki verði reist hérlendis á sviði vinnslu og flutnings raforku til að eiga viðskipti með hana á Innri markaði ESB ?

  Skynsamlegra er að hafa vaðið fyrir neðan sig í viðskiptum með orku við ESB, því að þar á bæ er staða orkumála álfunnar réttilega talin alvarleg ógnun við efnahag hennar og öryggi.  Óttaslegið (rán)dýr sést ekki fyrir við að gæta hagsmuna sinna.  Þá er vissara fyrir hin smærri dýrin að gefa ekki á sér fangstað, sérstaklega, ef þau hafa nóg að bíta og brenna.  

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Niður með útsendara og taglhnýtinga Evrópusambandsins! --- burt með þá úr ríkisstjórn og af Alþingi Íslendinga!

Þriðja orkupakkanum, þeim þjóðhættulega skaðræðis-samsetningi, hefur flokkur minn Þjóðfylkingin alla tíð verið harðlega andsnúinn og fordæmir þá sem greiða honum atkvæði.

Jón Valur Jensson, 13.2.2019 kl. 09:36

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Línur munu skýrast í pólitíkinni við afgreiðslu þessa máls á Alþingi, Jón Valur.  Það getum við verið nokkuð vissir um, þótt við vitum ekki, hver úrslit málsins verða.

Bjarni Jónsson, 13.2.2019 kl. 10:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband