Orkupakki #3 er ekki í tómarúmi

Þegar það er metið, hvað Alþingi á að gera við Orkupakka #3 (OP#3), er ekki nóg að rýna í tilskipun og reglugerðir OP#3, þótt nauðsynlegt sé, heldur verður að virða fyrir sér umhverfi hans, stefnumörkun ESB á sviði orkumála, þar sem hann er aðeins einn hluti af mörgum þáttum, og markaðsaðstæðurnar, fjórfrelsið í EES-samninginum, sem virkar sterkt á OP#3. 

OP#3 felur í sér yfirþjóðlega þætti um lagalega bindandi ákvörðunarvald ACER, Orkustofnunar ESB, sem fyrri orkupakkar innihéldu ekki. Þess vegna hafa ráðherrar utanríkis- og iðnaðarmála, sem með þetta mál hafa farið fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, lagt lykkju á leið sína og lagt til þingsályktanir og lagasetningu, sem eiga að krækja fyrir þessa keldu.  Er þetta sýndarmennskan ein eða lagalega bindandi á einhvern hátt fyrir ESB ? Til að leita svara við þessari mikilvægu spurningu, er nóg að fara í smiðju til Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst og Stefáns Más Stefánssonar.  Þingmenn, sem átta sig ekki á gloppunum í málatilbúnaði iðnaðarráðherra og utanríkisráðherra, hafa ekki lesið heima, eins og þar stendur.  Það er grafalvarlegt, því að áformað er, að þeir taki senn vorpróf í OP#3. Þannig stendur á, að þau, sem kosta þá í skólann, eru hins vegar langflest með öll svörin rétt við spurningum úr þessum efniviði, er Ísland varðar.  Það verður ekkert endurtekningarpróf í OP#3, og þeir sem kosta þessa óburðugu nemendur, munu ekki allir hafa hug á að senda tossana aftur í skólann.

Það er skemmst frá því að segja, að frá bæjardyrum ESB hlýtur lagasetning um að áskilja samþykki Alþingis fyrir "Ice-Link"  eða öðrum aflsæstreng inn á Kerfisáætlun Landsnets í kjölfar innleiðingar í landsrétt á allri samþykkt Sameiginlegu EES-nefndarinnar á OP#3 að virka sem skrípaleikur, ef ekki beinlínis móðgun við samstarfsaðila í EES. 

Þetta er að líkindum skýringin á því, að 14 mánuðum eftir loforð sitt um lögfestingu skilyrðanna 8 til hluta norsku stjórnarandstöðunnar gegn stuðningi við OP#3 á Stórþinginu, bólar enn ekkert á þessu lagafrumvarpi norsku ríkisstjórnarinnar.  

Sannleikurinn er sá, að lagasetning af þessu tagi á atriðum, sem ekki eru umsamin við ESB fyrirfram, t.d. í Sameiginlegu EES-nefndinni, hafa ekkert lagagildi að Evrópurétti og eru þess vegna ekki pappírsins virði í samskiptum við ESB, þegar á reynir. Hér eru prúðuleikararnir af fullkominni ósvífni og ábyrgðarleysi að setja upp leikrit fyrir landsmenn, sem þó flestir sjá gegnum svikavefinn.

Ef ESA ekki gerir athugasemd við þetta "sæstrengsbann" fljótlega eftir innleiðinguna á Alþingi til að girða fyrir frekari misskilning og gerir síðan ríkisstjórnina afturreka með þessa lagasetningu með lögsókn fyrir EFTA-dómstólinum, þá má hugsa sér eftirfarandi ferli:

  • Fjárfestir fær stuðning ACER til að hvetja Landsreglarann til að fá  Kerfisstjórann í einu nágrannalanda Íslands á EES-svæðinu til að taka aflsæstreng til Íslands inn á Kerfisáætlun sína með vísun í Kerfisþróunaráætlun ESB. Í Kerfisþróunaráætlun ESB er enn sæstrengurinn "Ice-Link", og hann er enn inni á forgangsverkefnalista ESB, PCI, um millilandatengingar og verður þar áfram svo lengi sem ESB er þess fýsandi, og öll þróun orkumála og stefnumörkun ESB bendir til stöðugt vaxandi áhuga á "grænum rafgeymi norðursins" fyrir meginland í orkuhallæri. Bréf frá Íslandi um að taka "Ice-Link" út af PCI verður sennilega hlegið út af borðinu, ef/þegar Ísland tilkynnir um innleiðingu OP#3 í landsrétt.  Innleiðingin jafngildir viljayfirlýsingu um að tengjast hinum sameiginlega raforkumarkaði ESB.  Tvískinnungur af þessu tagi er forkastanlegur og ávísun á vandræði.
  • Landsreglarinn á Íslandi mun strax tilkynna ACER, að Kerfisstjórinn á Íslandi, Landsnet, megi ekki að landslögum setja sæstrenginn á framkvæmdahluta Kerfisáætlunar sinnar, en hann má aftur á móti setja hann á langtímaáætlun sína.  Við þetta er kominn upp ágreiningur, sem landsreglarar landanna tveggja, sem sæstrengurinn á að tengja, geta ekki leyst sín á milli, og þá fer skýrsla frá ACER til framkvæmdastjórnar ESB.  ESB tilkynnir ESA um brot Íslands á EES-samninginum, gr.7, og þá verður ríkisstjórnin í klóm ESA/EFTA-dómstólsins með þessa lagasetningu, sem virðist hafa blekkt þingflokk Sjálfstæðisflokksins til fylgilags við trúðslegar tiltektir utanríkisráðuneytisins.  

Í þessari stöðu verður Ísland eins og fluga í köngulóarneti Evrópusambandsins, sem spinnur vef sinn til þess að tryggja sér sem mesta "græna" orku.  Sæstrengur verður lagður, og þá mun raforkan einfaldlega fara til hæstbjóðanda, því að ACER stjórnar reglusetningu um nýtingu strengsins, og útflutningshömlur til að draga úr verðhækkunum innanlands eða jafnvel draga úr hættunni á orkuskorti hérlendis verða kærðar sem ríkisstuðningur og/eða brot á EES-samninginum, gr. 12, um bann við útflutningshömlum á vörum.

Hvernig horfir framtíðin svo við í orkupakkamálum ESB ?:

  • Lögfræðilegi ramminn um orkusamband ESB er nú tilbúinn.  Með OP#4, sem inniheldur 4 nýjar tilskipanir og 4 reglugerðir, lauk gerð þessa lagaramma í desember 2018. Eins og með OP#3, stendur samþykktarferlið í aðildarlöndunum.  Í apríl 2019 er formlegt samþykktarferli ESB-þingsins og ESB-ráðsins eftir fyrir eina tilskipun og tvær reglugerðir OP#4.  Eftir samþykkt hverrar tilskipunar og gerðar hefur sú verið send til kynningar hjá EFTA-ríkisstjórnunum, en það hefur ekkert heyrzt af þessu hérlendis. Það er ills viti, því að 5. maí 2017 féllu embættismenn þáverandi á prófi í OP#3.  Eins og dæmin sýna, er afar varasamt að láta embættismenn utanríkisráðuneytisins eina um að véla um jafntæknileg mál og orkupakkarnir eru.  Norska ríkisstjórnin, þótt höll sé undir ESB, sendi jafnharðan þessar orkupakkagerðir til umsagnar sérfræðinga.  Hógvær neikvæð umsögn barst frá Statnett, norska Landsnetinu.  Hún var um lífshagsmuni Norðmanna, afhendingaröryggi raforku.  Hún var á þá leið, að ekki mætti útvista ábyrgðinni á afhendingaröryggi rafmagns út fyrir valdsvið ríkisins.  Öll stjórnun raforkumála í aðildarlöndum ESB er á leiðinni til Framkvæmdastjórnarinnar. 
  • Sams konar þróun verður að sjálfsögðu í EFTA-löndum EES-samstarfsins, nema þau spyrni við fótum.  Fyrir íbúa á eyju langt norður í Atlantshafi er þessi þróun mála leiðin til glötunar. Þess vegna yrði samþykkt OP#3 glapræði. Meira um þetta í seinni pistlum.
  • Í viðhengi er umsögn höfundar vegna þingsályktunartillögu iðnaðarráðherra í tengslum við OP#3.  

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Bjarni og enn og aftur takk fyrir alla þína miklu og góðu vinnu í þessu máli.

En þekkingunni þykir oft sú kvöð að þurfa að gera meira, til dæmis að svara spurningum, eða vera svona brimbrjótur gegn blekkingum og áróðri, sem og að taka málefnalega umræðu þegar það á við.

Þorsteinn vinur okkar vakti athygli á ágætri grein Ara Trausta í Kjarnanum í gær, sem er hugsuð sem dúsa gegn óánægjuröddum í VG.  Fyrir utan að reyna að svæfa, og að skauta fram hjá kjarna málsins, sem er óhjákvæmileg markaðsvæðing orkuauðlindarinnar, þá finnst mér að Ari Trausti skilji ekki hvernig þessi landsreglari virki, það er að það þurfi ekki sæstreng til að hann verði skaðræði, sem öll ríki í ríkinu eru.

Það væri fróðlegt að fá að vita hvort þú hafir lesið þessa grein Ara Trausta, persónulega finnst mér hún ólík greinum ráðherra Sjálfstæðisflokksins, hún er miklu málefnalegri, og hafir hugsað þér að gera athugasemdir við hana á einhvern hátt?

Til dæmis þá röksemd hans að það reyni þá á varnir landsins seinna ef allt fer á verri veginn.

Allavega, allt sem frá þér kemur er fróðlegt að lesa.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 2.5.2019 kl. 12:01

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Ómar Geirsson;

Þakka þér kærlega fyrir ofangreinda athugasemd þína.  Ég las þessa grein í kvöld, og hún olli mér vonbrigðum.  Þar gætir ónákvæmni,  missagna og rangtúlkana, sem gefa mjög villandi mynd af afleiðingum innleiðingar OP#3.  Það er þess vegna full ástæða til að leiðrétta ákveðin atriði hjá hinum mæta þingmanni, þótt ég geri mér ekki vonir um að leiðrétta "kúrsinn", sem hann því miður er á.  Það verður að hafa sinn lýðræðislega gang.

Bjarni Jónsson, 2.5.2019 kl. 22:21

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Nei Bjarni kúrs hans verður ekki réttur, tel mig þekkja það helsta þar sem hann fór villur vega, og auðvita er þetta áróður, en í fljótheitum varð ég ekki var við beinar rangfærslur, of klókur til þess gamli komminn, þeir lærðu þessa þrætubókarlist hjá Fylkingunni í gamla dag þegar þeir rifust í Neistanum við hina smáhópana í kommúnistakreðsunni. 

En það breytir ekki því, að mikil hjálp er í skrifum þínum. 

Gagnsemi þeirra og mikilvægi verður seint þakkað og aldrei ofmetið.

Það er svo mikið undir.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 2.5.2019 kl. 23:18

4 Smámynd: Jóhann Elíasson

Ég hlustaði á Utanríkisráðherra á útvarpi Sögu í gær og aftur endurtekninguna í morgun.  Ég reiknaði með að fá að heyra einhverjar staðreyndir um orkupakka þrjú, en mikil urðu nú vonbrigðin.  Maðurinn (Utanríkisráðherra) talaði alveg hreint heilan helling en sagði mjög lítið.  Hann svaraði ekki einföldum spurningum þess í stað talaði hann í kringum hlutina og fór þá leið að saka andstæðinga orkupakkans um ósannsögli.  Þessi frammistaða Utanríkisráðherra verður lengi í minnum höfð og það hvernig hann festi í sessi hvernig stjórnmálamenn taka á óþægilegri umræðu............

Jóhann Elíasson, 3.5.2019 kl. 12:21

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Aldrei hefur nokkur utanríkisráðherra Íslands sýnt af sér viðlíka lágkúru eins og í þessum Sögu-útvarpsþætti.  Árásirnar á Norðmenn, Miðflokkinn og Nei til EU, voru fyrir neðan hellur.  Bullaði um Miðflokkinn sem jaðarflokk.  Senterpartiet slagar upp í fylgi Sjálfstæðisflokksins hérlendis, hefur iðulega setið í ríkisstjórn og er spáð ríkisstjórnaraðild eftir næstu þingkostnongar.  Maðurinn er til háborinnar skammar.

Bjarni Jónsson, 4.5.2019 kl. 17:10

6 Smámynd: Hörður Þormar

Burt séð frá allri umræðu um orkupakka, þá er eitt víst, Evrópu hungrar og þyrstir eftir vistvænni orku.

Þýskaland mun að vísu geta fullnægt núverandi rafmagnsþörf sinni, án jarðefnaeldsneytis, með því að klæða öll húsþök og veggi með sólarsellum, auk þess að nýta skóga landsins á vistvænan hátt, en þar er ekki meðtalin orkuþörf til kyndingar, sem er mun meiri.

Nýjasta tillagan er að "teppaleggja" Sahara eyðimörkina með sólarsellum. Til þess að fullnægja orkuþörf Evrópu þarf þetta "teppi" að vera 500km á kant.

En hvað með Ísland?                  Ohne Kohle und Atom - geht uns der Strom aus? | Harald Lesch               

Hörður Þormar, 5.5.2019 kl. 14:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband