Verður orkan okkar ?

Þingmaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, Ari Trausti Guðmundsson, ATG, jarðeðlisfræðingur, tjáði sig um orkumál Íslands í ljósi umræðunnar um Orkupakka 3, OP#3, eins og hún snýr við honum um þessar mundir, í Kjarnanum á baráttudegi verkalýðsins 1. maí 2019. Grein sína nefndi ATG "Orkan er okkar". Það má til sanns vegar færa núna, en heldur hann, að bezta leiðin til að varðveita þá stöðu mála sé að halda áfram á þeirri vegferð lagainnleiðinga frá ESB, sem hófst hérlendis árið 2003 með OP#1 ?  Í þessari grein þingmannsins eru engin bitastæð rök færð fyrir slíku viðhorfi, og þar er margt, sem orkar tvímælis.

Í ljósi lokaorða hins "gamla byltingarseggs" er sárt að horfa upp á hann láta algerlega hjá líða í téðri grein að tengja saman mátt og verkun auðmagnsins og lagasmíð Evrópusambandsins, ESB.  Með því færir hann vanheilögu bandalagi búrókrata og auðmagns Evrópu vopn í hendurnar til að vinna óhæfuverk á íslenzkri löggjöf, sem rutt getur þessu vanheilaga bandalagi brautina að nýtingarrétti yfir íslenzkum orkulindum.

Neista af byltingaranda Fylkingarinnar má greina í eftirfarandi orðum ATG.  Hann verður hins vegar að átta sig á, að baráttan er núna.  Ekki dugar að varpa vandanum margföldum yfir á komandi kynslóðir:

"Við getum lagfært innviði, bætt lífskjör fjöldans, aukið félagslegt réttlæti og jafnrétti innan ríkjandi hagkerfis, með víðtækri samstöðu ólíkra afla.  Kerfið tryggir allt slíkt ekki til langframa né leysum við loftslagsvandann og umhverfismál, nema með nýju sjálfbæru hagkerfi, sem byggir [á] samstöðu, jafnrétti og mannúð.  En baráttan fyrir því öllu saman er annað og flóknara mál."

Mótsögnin í þessu er sú, að með stuðningi sínum við OP#3 á Alþingi fjarlægist ATG hið fagra stefnumið sitt frá fornu fari.  Með markaðsvæðingu raforku á Íslandi, sem OP#3 áskilur, og aðlögun íslenzka raforkumarkaðarins að sameiginlegum raforkumarkaði ESB, fjarlægist ATG það, að nýta megi orkulindirnar hérlendis með samfélagsleg sjónarmið að leiðarljósi. 

ATG minnist í upphafi greinar sinnar á raforkuna sem vöru og telur, að þar sem 80 % raforkunnar hérlendis fari til orkukræfs iðnaðar, þá sé "varla óeðlilegt, að hún teljist vara í viðskiptum".  Þetta eru engin rök.  Það var á sínum tíma stjórnmálaleg ákvörðun, tekin á Alþingi árið 1965, að stofna Landsvirkjun til að virkja stórt, nýta þannig hagkvæmni stærðarinnar og traustar umsamdar framtíðartekjur  frá stórnotendum til að fá hagstæð lán til að byggja upp öflugt raforkukerfi, vinnslu- og flutningskerfi, sem almenningur nyti góðs af með öruggri orkuafhendingu og lágu orkuverði, er fram liðu stundir.  Allt hefur þetta gengið eftir, og nú er ögurstund að renna upp varðandi það, hvort samfélagsleg stjórn verður áfram við lýði í raforkugeiranum, eða hvort hættunni verði boðið heim með því að innleiða ESB-löggjöf fyrir millilandatengingar og gefa þannig til kynna öðrum þræði, að Alþingi óski eftir, að Ísland verði hluti af sameiginlegum raforkumarkaði ESB.

"Háspennudreifing er í höndum Landsnets."  Þetta er röng fullyrðing hjá ATG.  Rétt er, að flutningskerfi raforku á 66 kV og hærri spennu er í höndum Landsnets, skipulagning þess (Kerfisáætlun), hönnun, nývirki og rekstur.  Um er að ræða lögbundna einokunarstarfsemi.  Til að tryggja óvilhalla afstöðu flutningsfyrirtækisins gagnvart frameiðendum og kaupendum raforkunnar, stefnir ríkisstjórnin á að kaupa núverandi eigendur, LV, OR, RARIK og OV, út úr fyrirtækinu, og er það í samræmi við forskrift allra orkupakkanna.  Dreifiveiturnar sjá um raforkudreifingu samkvæmt sérleyfi hver á sínu svæði á 33 kV og lægri spennu.  Þær eru flestar í opinberri eigu á Íslandi.  Iðnaðarráðuneyti og Orkustofnun (OS) hafa nú eftirlit með starfsemi orkugeirans, einkum einokunar- og sérleyfisfyrirtækjanna, en eftirlitshlutverkið mun færast í hendur Landsreglarans. 

"Markaðsvæðing í hagkerfi er ekki sjálfkrafa vinsamleg alþýðu manna, en hún merkir heldur ekki, að vald ESB, EFTA eða annarra fjölþjóðabandalaga sé þar með orðið, eða verði, óhjákvæmilega yfirþjóðlegt, og ráði innri orkumálum ríkja.  Stjórnmálaákvarðanir innan og á milli ríkja þarf til þess, og eflaust fleira."

Þetta er ótrúlega léttvæg umfjöllun á lykilatriði í sambandi við OP#3.  Með OP#3 verður ekki lengur undan því vikizt að taka hér upp frjálsa samkeppni um raforku á heildsölumarkaði að fyrirmynd ESB.  Þar er um að ræða uppboðsmarkað í orkukauphöll.  Viðskiptakerfið er sniðið við orkukerfi og orkumarkað í þungamiðju iðnaðarframleiðslu ESB.  Þessar aðstæður eru gjörólíkar íslenzkum aðstæðum, og þessi mismunur getur leitt til þess, að þetta markaðskerfi muni aðallega virka orkuseljendum til hagsbóta á kostnað orkunotenda.  Í þessum efnum þurfa Íslendingar að fá frið til að þróa sitt eigið orkumarkaðsfyrirkomulag, sem útheimtir auðlindastýringu.  Hún er óleyfilegt ríkisinngrip í frjálst markaðskerfi ESB.

ATG er augljóslega meðvitaður um hætturnar, sem hag "alþýðu manna" stafar af markaðsvæðingu raforkugeirans á Íslandi.  Hins vegar skjöplast honum illilega um á hvaða stig hið yfirþjóðlega vald um "innri orkumál  ríkja" kemst með OP#3.  Reglugerð nr 713/2009 um ACER og millilandatengingar er skýrt dæmi um, að fjölþjóðleg stofnun, Orkustofnun ESB, fær vald til að taka lagalega bindandi ákvarðanir fyrir Ísland varðandi millilandatengingar, ef/þegar Alþingi afléttir hinum stjórnskipulega fyrirvara af OP#3.

ACER hefur þegar úrskurðað í deilumálum aðildarríkja ESB um millilandatengingar.  Skömmu eftir að OP#3 öðlaðist lagagildi í ESB í kjölfar staðfestingar Ráðherraráðsins og ESB-þingsins árið 2014, kvað ACER upp úrskurð í deilumáli Póllands annars vegar og Eystrasaltslandanna hins vegar út af kostnaðarskiptingu við gaslögn yfir landamæri.  Úrskurðurinn hljóðaði upp á greiðslur til Gaz System S.A., Póllandi, frá þremur félögum í Eystrasaltslöndunum, að upphæð MEUR 85,8 (mrdISK 12), á grundvelli 713/2009 og 347/2013.

Það er ekki lengur hægt að draga neina dul á völd ESB yfir innri orkumálum ríkja, þ.á.m. varðandi afnotarétt náttúrulegra orkulinda.  Þann 8. marz 2019 sendi Framkvæmdastjórn ESB bréf til frönsku ríkisstjórnarinnar og 7 annarra ríkisstjórna ESB-landa og bað þær að sýna fram á, að raforkusamningar opinberra fyrirtækja, sem selja raforku frá vatnsorkuverum, séu í samræmi við ESB-löggjöf.  Þetta þýðir að lágmarki, að þessi opinberu fyrirtæki verða að sýna fram á, að raforkusamningar þeirra endurspegli markaðsverð.  Það getur líka þýtt, að segja verði núverandi samningum upp, ef þeir renna ekki bráðlega út, og að bjóða verði orkuna upp á markað til skamms tíma, e.t.v. eins árs í senn.  

Í Frakklandi er ríkisraforkufyrirtækið EdF með yfirburðastöðu á markaði í svipuðum mæli og Landsvirkjun hérlendis.  Framkvæmdastjórnin hefur í nokkur ár haft uppi kröfur á hendur franska ríkinu, að það einkavæði virkjanaleyfi sín fyrir vatnsaflsvirkjanir, sem að mestu eru reknar af EdF.  Að einkavæða virkjaneyfi þýðir jafnframt einkavæðingu viðkomandi virkjana.  Í fyrra gafst franska ríkisstjórnin upp gagnvart þessari einkavæðingarkröfu framkvæmdastjórnar ESB, og í ár á þessi einkavæðing að fara fram.

Þessi einkavæðingarkrafa Framkvæmdastjórnarinnar er reist á því, að nú hefur frjálst markaðskerfi fyrir raforku verið innleitt í Frakklandi, enda skylda samkvæmt OP#3, og innan þessa kerfis er stór markaðshlutdeild ríkisfyrirtækis "tabú".  Vatnsorkuver framleiddu 12,5 % raforkuvinnslu Frakklands 2018, og í þeim er um 19 % af uppsettu afli í orkuverum Frakklands.  

Af þessari reynslu Frakkanna og annarra ESB-landa getum við Íslendingar dregið alveg óyggjandi lærdóm.  ESA mun gera þá kröfu, eftir að markaðsvæðingin hefur farið fram hér í anda ESB, að virkjanaleyfi ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar verði að mestum hluta einkavædd.  Þetta er stórfellt inngrip yfirþjóðlegs valds í "innri orkumál" Íslands, sem veldur gjörbyltingu á þeirri orkustefnu, sem íslenzk stjórnvöld hafa mótað og þokkaleg sátt hefur verið um í landinu.  Franskir starfsmenn EdF hótuðu verkfalli, ef einkavæðing vatnsorkuvera EdF færi fram.  Hérlendis mun verða gríðarleg óánægja með það, hvað innleiðing orkupakka ESB í EES-samninginn hefur leitt yfir þjóðina.  Til að forða landinu frá þessari alvarlegu stöðu er tvennt til: fresta afgreiðslu OP#3 á Alþingi og leita hófanna um samningaviðræður innan EES eða að fella OP#3, og þá fer hann í sáttaferli í Sameiginlegu EES-nefndinni.

"Hvernig sem fer, er ljóst, að raforka til útflutnings um sæstreng (500 - 1000 MW) er fjarri lagi."

Þessi fullyrðing er hæpin í ljósi þess, að stærsta raforkufyrirtæki landsins, Landsvirkjun, hefur rekið harðan áróður fyrir því síðan 2010, að einmitt slíkur útflutningur verði að raunveruleika.  Á vefsetri LV er fjálgleg kynning á þessum útflutningshugmyndum.  Landsvirkjun vill stækka sinn markað og fá sterkari samningsstöðu við raforkukaupendur á innanlandsmarkaði.  Gallinn á gjöf Njarðar er sá, fæst orkukræf fyrirtæki á Íslandi, þ.m.t. í landbúnaði, geta keppt við hið erlenda raforkuverð, sem verður flutt inn með aflsæstreng frá öðru Evrópulandi til Íslands. Hætt er við, að atvinnurekendasamtökin eigi eftir að iðrast þess að hafa ekki lagzt á árarnar með verkalýðssamtökunum gegn OP#3.  

"Land tengist inn á netið að eigin ákvörðun, metur orku aflögu til sölu og ákveður, ef svo ber til, að auka framleiðsluna, landinu í hag.  ...... Hún [ACER] er ekki yfirþjóðleg valdastofnun, sem getur skipað fyrir um orkusölu (magn, nýjar línur eða fleiri orkuver)."

Hér er gert ótrúlega lítið úr áhrifum lögleiðingar OP#3 og áhrifum og völdum ACER. Það er horft framhjá samverkandi áhrifum OP#3, samkeppnislöggjafar Evrópuréttarins og markaðskraftanna. Innleiðing OP#3 felur í raun í sér þá stefnumörkun að hálfu Alþingis að aðlaga íslenzka raforkumarkaðinn að sameiginlegum raforkumarkaði ESB í því skyni að tengja þessa tvo raforkumarkaði snurðulaust saman.  Strax og reynir á bann Alþingis við að setja sæstreng inn á framkvæmdahluta Kerfisáætlunar Landsnets, munu þau lög verða felld úr gildi að kröfu ESA sem brot á EES-samninginum, gr. 7, um skilyrðislausa innleiðingu reglugerða og tilskipana, eins og þær koma frá Sameiginlegu EES-nefndinni. 

Núna er sæstrengurinn "Ice-Link" inni á Kerfisþróunaráætlun ESB, og það er alveg óvíst, að ESB samþykki að taka hann út af PCI-forgangsverkefnalista sínum um millilandatengingar, þótt Landsnet eða Landsvirkjun óski þess, ef Alþingi samþykkir að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara af OP#3.  

Það má hugsa sér, að fjárfestir sæki um leyfi til að leggja sæstreng á milli ESB-lands og Íslands. Hann fær umsóknina samþykkta hjá orkustofnun í hinum enda strengsins, en henni er hafnað hér vegna banns Alþingis.  Þá er komið upp vandamál, sem landsreglarar í sitt hvorum enda sæstrengsins ekki geta leyst, og þeir vísa þá málinu umsvifalaust til ACER.  ACER gefur skýrslu um málið til framkvæmdastjórnar ESB, sem kvartar við ESA yfir broti við innleiðingu OP#3, þar sem pakkinn var ekki skilmálalaust innleiddur.  Þetta leiðir til þess, að EFTA-dómstóllinn dæmir lög um bann Alþingis við sæstreng ólögmætt.  Þá verður Landsnet að taka sæstrenginn inn á Kerfisáætlun sína, enda er Landsreglarinn eftirlitsaðili með Landsneti og ber að fylgja því eftir, að Landsnet aðlagi Kerfisáætlun sína að Kerfisþróunaráætlun ESB, þar sem "Ice-Link" er.  Orkustofnun hefur þá ekki lengur nein rök fyrir því að hafna leyfisveitingu, enda vofir þá yfir stjórnvöldum brot á reglum EES-samningsins, sem banna útflutnings- og innflutningshindranir.  

Regluverk OP#3 skyldar ekki aðildarlöndin beinum orðum til að standa undir kostnaði við eflingu flutningskerfis raforku að og frá aflsæstreng, en hver annar á að standa undir þeim kostnaði hérlendis en Landsnet ?  Málið er, að þetta verður óhjákvæmileg afleiðing af tæknilegri nauðsyn hérlendis, ef ákveðið verður að leggja einn eða fleiri sæstrengi til landsins. Til að anna flutningsþörfinni og tryggja stöðugleika raforkukerfisins eftir megni verður Landsnet að setja upp ný tengivirki, leggja jarðstrengi og loftlínur, sem tengja saman stofnrafkerfi Norðurlands og Suðurlands og stofnrafkerfið við sæstrengina.  Kostnaðurinn af þessu mun leggjast alfarið á innanlandsnotendur og gæti tvöfaldað flutningsgjald raforku um tíma.  Ef ekki verður ráðizt í þessar framkvæmdir, mun verða litið á slíkt sem hindrun á vegi notkunar sæstrengsins, sem er útflutningshindrun samkvæmt EES-samninginum, gr. 12.

Það er ljóst, að með leyfi fyrir aflsæstreng á milli Íslands og sameiginlegs raforkumarkaðar ESB mun ásókn í rannsóknarleyfi og virkjanleyfi aukast hérlendis.  Þar sem íslenzk stjórnvöld munu engu ráða um orkuflæðið um sæstrenginn, þá mun hann hafa mjög mikil áhrif til hækkunar raforkuverðs, sem skapar enn meiri hvata til aukinnar orkusölu inn á strenginn.  Kerfisþróunaráætlun ESB jafngildir ákvörðun Evrópusambandsins um snurðulausa orkuflutninga innan EES.  Markaðurinn lætur orkuna fljóta frá stöðum með lágan vinnslukostnað til staða með hátt raforkuverð.

  ACER þarf ekki að skipa fyrir hér um nýjar virkjanir.  Markaðurinn mun sjá um verkið.  Ef yfirvöld ætla að draga lappirnar með leyfisveitingar fyrir framkvæmdir í tengslum við virkjanir og flutningskerfi, þá má ætla, að látið verða reyna á það, hvort þyngra vegi fyrir ESA skipulagsreglur og umhverfisvernd eða bann EES-samningsins við útflutningshindrunum á vöru.  

Ef þetta er allt saman misskilningur, þá eru búrókratar og stjórnendur ESB bjánar, sem ekkert vita, hvað þeir eru að gera með því að unga út með harmkvælum reglugerðum og tilskipunum um tilhögun orkumála.  Hvergi á byggðu bóli annars staðar en hér er gerð tilraun til að halda því fram, að orkupakkar ESB hafi engin áhrif umfram það, sem aðildarríkin kæra sig um.  Hið sanna er, að orkupakkarnir eru brimbrjótur Framkvæmdastjórnarinnar til að ná fram stefnumiði ESB um einn samfelldan, hnökralausan orkumarkað með sjálfbæra raforkuvinnslu.

Af ofangreindum ástæðum fer ATG í geitarhús að leita ullar í eftirfarandi leit sinni:

"Hvergi hefur mér tekizt að finna dæmi um, að ríki sé birtur úrskurður um, að það skuli bæta við raforku til útflutnings, leggja nýjar háspennulínur að landamærum eða leggja rafstreng í sjó."

Varðandi síðast nefnda atriðið, horfir málið alveg þveröfugt við.  Einkaaðilar um sæstrengslögn njóta forgangs umfram ríkisfyrirtæki.  Eitt af 8 skilyrðum Norðmanna fyrir því að lyfta hinum stjórnskipulega fyrirvara af OP#3 þar í landi 22. marz 2018 var, að allar millilandatengingar yrðu áfram í eigu Statnetts, norska Landsnets.  Þá þegar var umsókn einkafyrirtækis um eyfi fyrir NorthConnect á milli Noregs og Skotlands til afgreiðslu hjá NVE, norsku orkustofnuninni.  Hún stöðvaði ekki matsferlið, þótt Statnett og stjórnarandstöðuflokkarnir á Stórþinginu óskuðu eftir því, svo að Statnett gæfist kostur á að kaupa eigendur NorthConnect út.  ESA mun tæplega samþykkja slíka ríkiseinokun á öllum millilandatengingum, ef OP#3 verður staðfestur í öllum EFTA-ríkjum EES.

"Auðvelt er að halda fram fölskum orðum um yfirþjóðlegt vald ACER, en sýna aldrei fram á dæmi þess, að það hafi leitt til valdboða, sem ríki neyðist til að hlíta."

Þetta er ótrúlegur texti hjá ATG.  Það er engu líkara en hann beri brigður á yfirþjóðlegt vald ACER, sem þó var sýnt fram á í lögfræðilegri álitsgerð Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst og Stefáns Más Stefánssonar til utanríkisráðuneytisins.  Úrskurður ACER í milliríkjadeilu um kostnaðarskiptingu á milli 4 ríkja ESB frá 11. ágúst 2014, þar sem einu ríkjanna voru úrskurðaðar MEUR 85,8 í bætur, sannar, að ACER getur beitt "valdboði, sem ríki neyðast til að hlíta", þótt íþyngjandi sé.

ATG viðurkennir, að "[í] sumum tilvikum er unnt að fara fram á viðamiklar tilslakanir eða undanþágur frá tilskipunum, en þá þarf samþykki allra 28 ESB-ríkjanna", og síðan bætir hann við:

"Beiðni um slíkt "eftir á" verður ólíklega samþykkt".

Það er hagur ESB, að Noregur og Liechtenstein verði í Orkusambandi ESB.  Það verða þau ekki, ef Ísland hafnar OP#3 og ekkert samkomulag næst í sameiginlegu EES-nefndinni (um undanþágur fyrir Ísland).  

Noregur getur hins vegar hæglega að mati Henrik Björnebye, lagaprófessors í Ósló, gert tvíhliða samkomulag við ESB um orkuviðskipti.  Það verður þá utan EES-samningsins, sem ESB mun þykja verra.  

Af þessum sökum stenzt ekki fullyrðing ATG. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Þetta eru frábærar greinar hjá þér. Flestir lesa aðeins smá bút af bloggunum. Fyrir þá er gott að hafa fáar setningar, sem virka eins og auglýsing, með upplýsingum um málefnið.

Það er gott fyrir okkur , sem erum ekki duglegir að lesa langar umfjallanir. Það tekur tíma, og þá minnkar yfirsýnin til annarra átta.

Egilsstaðir, 05.05.2019  Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 5.5.2019 kl. 22:30

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jónas;

Þessi umfjöllun um grein Ara Trausta Guðmundssonar er löng, af því að grein hans er efnismikil.  Ég skipti þó umfjölluninni í tvennt og mun birta viðbótar vefgrein um málefnið, enda vel rituð og að mörgu leyti vönduð grein hjá ATG, þótt ég felli mig ekki við efnistök hans.

Bjarni Jónsson, 6.5.2019 kl. 10:53

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Bjarni.

Það er bara svo að bak við styttri texta fullyrðinganna eru rök, eða rökleysur, og síðan rífast menn með fullyrðingum, og umræðan skilar engu.

Þess vegna er svo mikilvægt að einhver hafi nennu og þekkingu að pistla lengri textum með solid rökum eins og þú gerir. 

En það var ekki erindið, ég er aðeins búinn að lesa upphafið, og ég varð að koma inn með athugasemd, eða réttara sagt tilvitnun í texta þinn.

"Neista af byltingaranda Fylkingarinnar má greina í eftirfarandi orðum ATG.  Hann verður hins vegar að átta sig á, að baráttan er núna.  Ekki dugar að varpa vandanum margföldum yfir á komandi kynslóðir:

"Við getum lagfært innviði, bætt lífskjör fjöldans, aukið félagslegt réttlæti og jafnrétti innan ríkjandi hagkerfis, með víðtækri samstöðu ólíkra afla.  Kerfið tryggir allt slíkt ekki til langframa né leysum við loftslagsvandann og umhverfismál, nema með nýju sjálfbæru hagkerfi, sem byggir [á] samstöðu, jafnrétti og mannúð.  En baráttan fyrir því öllu saman er annað og flóknara mál."

Mótsögnin í þessu er sú, að með stuðningi sínum við OP#3 á Alþingi fjarlægist ATG hið fagra stefnumið sitt frá fornu fari.  Með markaðsvæðingu raforku á Íslandi, sem OP#3 áskilur, og aðlögun íslenzka raforkumarkaðarins að sameiginlegum raforkumarkaði ESB, fjarlægist ATG það, að nýta megi orkulindirnar hérlendis með samfélagsleg sjónarmið að leiðarljósi.".

Þetta er svo algjörlega kjarni málsins um hvernig fyrrum vinstri menn eins og Ari Trausti eru að svíkja sína eigin stefnu, og afbaka sínar eigin hugsjónir í þessu orkapakkamáli.  Ef þeir væru lærisveinar Hannesar Hólmsteins, þá gæti ég skilið þessa afstöðu, en þeir lömdu á Hannesi þegar hann kom fyrst fram með frjálshyggjuboðskap sinn, og hafa lamið á honum síðan. 

Ennþá er orðið frjálshyggja hið æðsta skammaryrði í þeirra kreðsum, en samt ganga þeir erinda stórauðvalds sem hefur mótað reglur hins innri markaðs eftir kennisetningum frjálshyggjunnar.  Þetta er svona svipað og segjast vera kommúnisti, og styðja því kínverska villimannakapítalismann með þeim rökum að hann er undir forræði kínverska kommúnistaflokksins.  Og svo var Maó kommúnisti.

Það er eitthvað mikið óeðli þarna að baki og þarft verk að vekja athygli í mótsögnunum Bjarni.

En áfram með lesturinn.

Á meðan er það kveðjan að austan.

Ómar Geirsson, 6.5.2019 kl. 18:47

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Bjarni.

Var að klára lesa, og verð að segja að þessi texti þinn ætti að vera skyldulesning allra kosningabæra manna, því hann meitlar kjarna málsins, þökk sé villumálflutningi Ara Trausta Guðmundssonar.

Hafðu mikla þökk fyrir.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 6.5.2019 kl. 19:05

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér fyrir þessar umsagnir, Ómar Geirsson.  Ég var ekki búinn að gagnrýna alla greinina, en meginatriðin eru komin fram.  Ég mun klára gagnrýnina í næsta pistli.  

Er fullkomlega sammála þér um, að hugmyndafræðin að baki OP#3 er sú hugsjón, að markaðurinn eigi að ráða ráðstöfun orkunnar og að reglugerðir og tilskipanir ESB eru til að ryðja hindrunum einstakra landa úr vegi fyrir frjálsu flæði orkunnar.  Þetta er órafjarri hugmyndum þorra manna um hugmyndafræði vinstri grænna og jafnaðarmanna.  Með þessu áframhaldi missa þessir flokkar tengsl sín við alþýðu manna.  Þeir eru þegar komnir á hugmyndafræðilegan vergang.  

Bjarni Jónsson, 6.5.2019 kl. 21:22

6 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Þakka góða grein Bjarni. þetta er orðið grátbölvað þegar þessir menn stefna svo augljóslega á ESB svæðið. 

Eru bara svikarar í þessum flokkum og hversvegna þegar Bretar eru að ganga úr ESB. Menn græða á Orkuskiptasamningunum það eitt er víst.

Kv V 

Valdimar Samúelsson, 6.5.2019 kl. 22:40

7 Smámynd: Bjarni Jónsson

Hér eru undirmál, en samþykki þingið OP#3, skal það verða Phyrrosarsigur ríkisstjórnarinnar.

Bjarni Jónsson, 7.5.2019 kl. 10:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband