Neytendavernd OP#3 eru öfugmæli

Það er óskiljanlegt mörgum, að ríkisstjórn Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, skuli hafa sammælzt um tvær  þingsályktunartillögur og tvö lagafrumvörp um Orkupakka #3, OP#3, sem m.a. skylda ríkisstjórnina til að reka endahnútinn á markaðsvæðingu raforkugeirans með frjálsri samkeppni um raforku á uppboðsmarkaði að hætti Evrópusambandsins, ESB. 

Þar með verður enn ríkari ástæða fyrir ESA að hafa afskipti hér af ríkjandi markaðshlutdeild ríkisfyrirtækis og krefjast markaðsvæðingar virkjanaleyfa og einkavæðingar á eignarhaldi og rekstri hluta af virkjunum Landsvirkjunar með sama hætti og framkvæmdastjórn ESB hefur krafizt einkavæðingar af frönsku ríkisstjórninni og haft sitt fram.  Það er flestum hulin ráðgata, hvernig ríkisstjórnarflokkarnir geta sammælzt um gjörning, sem færir ESB enn ríkari ástæðu til afskipta af tilhögun eignarhalds og ráðstöfunar orku en þó er við lýði samkvæmt OP#2.

Í grein sinni í Kjarnanum 1. maí 2019, 

"Orkan er okkar",

heldur Ari Trausti Guðmundsson, ATG, þingmaður VG, því m.a. fram, að OP#3 feli í sér aukna "neytendavernd og gegnsæi á raforkumarkaði".

Þetta er ekki rökstutt nánar, og þetta étur hver stuðningsmaður OP#3 upp eftir öðrum.  Sannleikurinn er sá, að þetta er kostur, sem hægt er að tilfæra við OP#3 á meginlandi Evrópu og á Bretlandi, þar sem raunveruleg samkeppni um hylli neytenda tryggir þeim lágmarksverð á hverjum tíma, þótt það sé hátt á okkar mælikvarða.  Þar ræður eldsneytisverð mestu og koltvíildisskatturinn.  "Frjáls samkeppni" um raforku á Íslandi getur hins vegar aldrei orðið frjáls vegna fákeppni, og þess vegna mun uppboðsmarkaður með raforku verða mikil afturför fyrir raforkunotendur hérlendis. 

Afleiðingin verður sveiflukennt verð og hærra meðalverð, af því að samræmd stjórnun á nýtingu orkulindanna verður bönnuð í "frjálsri samkeppni".  Ef aukið gegnsæi hér merkir, að öll viðskipti verði uppi á borðum, þá þarf slíkt ekki endilega að vera kostur fyrir kaupendur, þar sem seljendur hafa undirtökin á markaðinum.

Þá heldur ATG því fram, að "ríki" ákveði sjálf á hverjum tíma, hvaða viðbótar orkuflutningar fari fram "yfir landamæri" eftir innleiðingu OP#3.  Ef þetta væri rétt, þá væri ekkert gagn að hinum umfangsmikla lagabálki OP#3, sem innleiðir Evrópurétt á sviði orkuflutninga og orkuviðskipta á milli landa ESB/EES og hefur það hlutverk að ryðja burt hindrunum, sem einstök ríki hafa sett upp og munu setja upp gegn slíkum orkuflutningum. 

Það er t.d. alveg skýrt, að markaðurinn á að taka völdin af stjórnvöldum um stjórnun orkuflæðisins.  Þannig hafa norsk stjórnvöld hingað til getað stjórnað orkuflæðinu til og frá Noregi og hafa t.d. getað takmarkað útflutninginn, þegar lækkað hefur í miðlunarlónum.  Eftir innleiðingu OP#3 mun ACER stjórna þessu orkuflæði og ákvarða hlutdeild hvers orkuseljanda í hámarksorkuflutningsgetu sæstrengsins í þeim tilvikum, að flutningsgetan sé takmörkuð.  Reyni yfirvöld þjóðríkis að grípa þarna inn, varðar það við bann við því, að ríkisvaldið hygli innlendum raforkunotendum á kostnað erlendra, og það varðar líka við bann gegn útflutningshindrunum í EES-samninginum, gr. 12.

Í kaflanum, "Ísland og 3. orkupakkinn" 

minnist ATG á 5 lögfræðiálit:

"Flest eru álitin í örstuttu máli jákvæð og langt í frá talið, að Ísland missi völd yfir orkulindum sínum."

Engin tvímæli eru tekin af um þetta í álitsgerð Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst (FÁFH) og Stefáns Más Stefánssonar (SMS) í þeirra álitsgerð frá 19. marz 2019, heldur bent á vissar hættur fyrir Íslendinga í þessu sambandi.  Öruggast er hér að vitna til aðgerða framkvæmdastjórnar ESB gegn frönsku ríkisstjórninni, sem nú hafa leitt til þess, að hún hyggst selja vatnsorkuver EdF, frönsku Landsvirkjunar, til einkafyrirtækja.  Þegar sama lagaumgjörð verður um þessi mál á Íslandi og í Frakklandi með innleiðingu OP#3 hér, mun nákvæmlega hið sama verða uppi á teninginum hér gagnvart Landsvirkjun.  Þar með er komin upp stórhætta á því, að orkulindir (og virkjanir) Íslands muni ganga kaupum og sölum á EES-svæðinu.  Þessari hættu býður Alþingi heim með innleiðingu OP#3.

"Ríkisstjórnin vinnur m.a. eftir álitinu [FÁFH & SMS] með því að lögfesta samþykki Alþingis fyrir tengingu með rafstreng við umheiminn.  Hvorki ESA né ESB getur þvingað fram gerð og lagningu sæstrengs eða lagningu raflína frá nýjum virkjunum eða eldri virkjunum, sem allt í einu myndu framleiða orku á lausu, af því [að] t.d. álver lokar.  Hvergi í reglugerð um ACER stendur neitt í þessa veru og þarf vel pælda útúrsnúninga til þess að láta líta svo út, að ESB hafi vald til að skikka Ísland til að selja 1000 MW til meginlandsins. Samningar um sæstreng yrðu ávallt unnir á almennum forsendum EES-samningsins, ekki 3. orkupakkans."

Það kom fram í Kastljósviðtali við SMS að kvöldi 6. maí 2019, að aðferðin við innleiðingu OP#3 í íslenzkan landsrétt með húð og ári og síðar þingsályktun og lagasetning, sem bannar hérlendan undirbúning að lagningu sæstrengs til Íslands án samþykkis Alþingis, er upprunnin í utanríkisráðuneytinu, enda kemur hún eins og skrattinn úr sauðarleggnum í álitsgerð FÁFH & SMS og stingur þar í stúf við allt annað.

Fyrirvarinn um samþykki Alþingis er hins vegar handónýtur um leið og umsókn berst Orkustofnun frá sæstrengsfjárfestum um leyfi til lagningar og tengingar við Ísland.  Þá virkjast nefnilega reglugerð 713/2009, og fyrirvarinn um samþykki Alþingis við undirbúning á móttöku sæstrengs að hálfu Landsnets rekst á við hana.  Þar með verður fyrirvarinn brotlegur við EES-samninginn, gr. 7, og ESA mun krefjast ógildingar laganna um bann við sæstreng.  Þar með lendir Stjórnarskráin í uppnámi.  Málatilbúnaður ríkisstjórnarinnar er þannig algert klúður.

Það er röng fullyrðing, að hvorki ESA né ESB geti þvingað fram gerð og lagningu sæstrengs.  ESB hefur til þess næg tæki og tól, eftir að búið verður að fella bann Alþingis úr gildi.  Þar vegur fjórfrelsið þungt, og EES-samningurinn, gr. 11 og 12, sem banna hindranir á inn- og útflutningi vöru.  Um þetta skrifa FÁFH og SMS í neðanmálsgrein nr 62 í álitsgerð sinni:

"Ekki má þó gleyma, að hafni Orkustofnun umsókn fyrirtækis þar að lútandi [um sæstreng], gæti fyrirtækið snúið sér til ESA með kæru, sem gæti endað með samningsbrotamáli gegn Íslandi.  Slík staða gæti reynzt Íslandi erfið."

Eftir að fjárfestir væri búinn að vinna slíkt mál, er engin leið til að standa gegn lagningu flutningslína frá stofnrafkerfinu og niður að lendingarstað sæstrengs.  Landsreglarinn mun krefjast þess, að Landsnet aðlagi Kerfisáætlun sína að Kerfisþróunaráætlun ESB, þar sem sæstrengurinn er.  Allar hindranir á þessari leið verða kærðar á grundvelli óleyfilegra útflutningshindrana og jafnvel ríkisstuðnings við innlenda atvinnustarfsemi.  

Það eru útúrsnúningar hjá ATG, að hvergi í reglugerð um ACER standi,

"að ESB hafi vald til að skikka Ísland til að selja 1000 MW til meginlandsins".  

Þess þarf einfaldlega ekki.  Markaðnum er ætlað að sjá um framkvæmdina, þegar regluverkið verður búið að opna gáttirnar.  Í þessu liggur hið mikla vanmat stjórnmálamanna á áhrifum OP#3.  Þeir gleyma markaðskröftunum.  Hagnaðarvonin knýr þá áfram.  Hverjir munu sitja eftir með sárt ennið ?  Íslendingar mundu þurfa að glíma við þríhöfða þurs: OP#3, EES-samninginn og markaðsöflin.  Til varnar þessu stendur Stjórnarskráin ein.  Á grundvelli hennar væri hægt að dæma þetta allt ólögmætt.  EES-samningurinn mun þó varla lifa slíkt af.

"Sæstrengur er á forræði þjóðarinnar sjálfrar og orka til hans sömuleiðis.  Hún er ekki til núna og verður ekki framleidd, nema fyrir liggi áætlanir og samþykki stjórnvaldsstofnana.  Dreifikerfi orku í viðkomandi sæstreng er líka á forræði þjóðarinnar eða með öðrum orðum á valdi Alþingis, í öllum tilvikum.  Úrskurði ESA á næstu árum, sem er afar ólíklegt, að fyrirvarinn gangi ekki upp, verðum við að mæta því með rökum og vörnum."

Eins og sjá má, hengir ATG hatt sinn alfarið á handónýtan fyrirvara Alþingis, sem sízt hefur meira gildi að Evrópurétti en fyrirvari Alþingis um innflutning á ferskum landbúnaðarvörum frá EES. Það er sorglegt að horfa upp á pólitískar skessur leika sér með fjöregg íslenzku þjóðarinnar.

"Orkuverðið hreyfist auðvitað ekki, því að tenginguna við meginlandið vantar."

Þessi málsgrein ATG ber með sér, að hann hefur ekki gert sér grein fyrir, hvernig uppboðskerfi með raforku mundi virka við íslenzkar aðstæður.  Alls staðar, þar sem þetta kerfi er notað, verður verðið kvikt með stórri dægursveiflu og árstíðarsveiflu.  Hér munu þrjú miðlunarlón keppa við 5 jarðgufusvæði, eins og staðan er núna.  Miðlunarvirkjanir eru tæknilega sveigjanlegri og með mun lægri breytilegan kostnað en jarðgufuvirkjanir og munu hafa undirtök á markaðinum á meðan nóg er í miðlunarlónunum, en síðan hækkar kostnaður miðlunarvirkjana upp fyrir jarðgufuvirkjanir.  Nýtingin verður ójöfn og þjóðhagslega óhagstæð, af því að auðlindastýringu vantar, og hún verður óleyfileg.  Þetta mun leiða til hækkunar á meðalraforkuverði til almennings. Fullyrðing ATG er út í loftið.

"Nú hefur fýsileikakönnun sæstrengs (ICE-Link) verið hætt og könnunarverkefnið afturkallað að skipun íslenzku ríkisstjórnarinnar."

Þetta skrifar ATG að óathuguðu máli.  Hvert fór "skipun íslenzku ríkisstjórnarinnar" ?  Til aðstandendanna, Landsnets, Landsvirkjunar og National Grid Holding Co. ?  Kaupin gerast ekki svona á eyrinni hjá ESB.  Á bak við veru "Ice-Link" í Kerfisþróunaráætlun ESB og alla leið upp á forgangsverkefnaskrána PCI er ítarleg undirbúningsvinna og undirskrift margháttaðra skjala innan ESB ásamt samþykki Framkvæmdastjórnar, Ráðs og þings.  Aðeins einfeldningar trúa því, að bréf frá Íslandi geti orðið sú litla þúfa, sem velti strax þessu þunga hlassi. 

PCI er til endurskoðunar á tveggja ára fresti, næst 2020.  Ef Alþingi afléttir í millitíðinni stjórnskipulegum fyrirvara af OP#3, er komin upp alveg ný staða, sem jafngildir viljayfirlýsingu Íslands um að tengjast sameiginlegum raforkumarkaði ESB.  Það er alveg undir hælinn lagt, að ESB verði við ósk ríkisstjórnarinnar, ef aðrir hagsmunaaðilar verða á móti því.  

"Munum líka, að svo kann að fara, að Bretar standi utan ESB.  Samningar um sæstreng væru þá tvíhliða gjörningur fullvalda ríkja án virks, margþjóðlegs eftirlitsaðila, en undir gerðardómi, ef deilur yrðu uppi."

Hér er ATG enn of fullyrðingasamur m.v. staðreyndir málsins.  Það veit enginn, hvort Bretar munu standa utan Orkusambands ESB og ACER, þótt þeir fari úr ESB, því að þeir eiga nú í miklum orkuviðskiptum innan EES.  Þá er allsendis óvíst, að ESB (ACER) mundi láta það afskiptalaust, ef Íslendingar, eftir samþykkt OP#3, myndu gera sig líklega til að eiga í raforkuviðskiptum við land utan ESB.  Það er þvert á móti líklegt, að ESB myndi túlka samþykkt OP#3 sem skuldbindingu að Íslands hálfu til að tengjast innri markaði ESB, og það væri tæknilega hægt með sæstrengslögn til Írlands.  Heimurinn er ekki jafneinfaldur og ATG vill vera láta.

Við höfum fyrir sjónum nýlegt dæmi frá samstarfsverkefni Þjóðverja og Rússa um nýja gasflutningslögn á botni Eystrasalts frá Rússlandi til Þýzkalands, sem er hitamál innan ESB.  Þjóðverjar og Rússar ætluðu að halda þessu máli sem tvíhliða samstarfsverkefni sínu, og Þjóðverjar lögðu sig í líma við að fá Frakka til að samþykkja slíkt fyrirkomulag.  Nú hefur Ráðherraráð ESB hins vegar tekið þá ákvörðun, að það gangi ekki upp á grundvelli OP#3, heldur skuli ACER, Orkustofnun ESB, taka að sér að stjórna þessum gasflutningum, þótt Rússar auðvitað eigi þar enga aðkomu.  Þjóðverjar eru í sárum, telja Frakka hafa svikið sig og ekki í fyrsta skipti. 

 

Að lokum kemur hin pólitíska niðurstaða ATG á formi yfirlýsingar:

"Ég tel mikilvægt, að sem flestir sjái í gegnum málatilbúnað og rangfærslur helztu talsmanna gegn 3. orkupakkanum.  Orkuauðlindir okkar eru ekki í hættu."

Gallinn við þessa niðurstöðu þingmanns VG er, að honum hefur í þessari grein ekki tekizt að hrekja með haldbærri röksemdafærslu neitt það, sem máli skiptir í málflutningi "Orkunnar okkar" eða þeirra, sem þar mega kallast talsmenn.  Það er hægt að sanna hvað sem er út frá röngum eða ófullnægjandi forsendum. Það hefur ATG tekizt að sanna í Kjarnagrein sinni og skipar sér þar á bekk með gríska heimspekinginum, sem sannaði, að héri kæmist aldrei framúr skjaldböku, ef bara skjaldbakan fengi forskot.    

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Enn og aftur takk Bjarni.

Það er sorglegt að sjá gamla byltingarmanninn enda í gini markaðsvæðingarinnar.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 8.5.2019 kl. 12:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband