OP#3 skekur Sjálfstæðisflokkinn

Fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og mesti hrellir andstæðinga flokksins í seinni tíð, Davíð Oddsson, er ómyrkur í máli um óhönduglega málafylgju forystu flokksins í orkupakkamálinu á Alþingi og utan þings m.v. leiðsögn Landsfundar í marz 2018 til forystunnar.

Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins, 14.06.2019, heitir:

"Ættarvitar fara illa í sólgosum og í nálægð segulmagnaðra manna".

Í bréfinu kemur fram það mat höfundar, að velji ættmenni að sigla fremur eftir ættarvitum en áttavitum í pólitík, þá muni þeir óhjákvæmilega hafna sem strandaglópar uppi á skeri.  Ættmenni þau, sem hér um ræðir, sigla nú augljóslega úr alfaraleið sjálfstæðismanna og í harðastrand.  Það er óútskýrt, hvers vegna þessi ættmenni verja nú OP#3 og innleiðingu hans í landsrétt með kjafti og klóm, en án málefnalegs rökstuðnings.  Lægst allra leggst Björn Bjarnason, fyrrverandi borgarstjóraefni og fallisti Sjálfstæðisflokksins, sem ofan á ósvífnar getsakir um óviðeigandi afskipti norska Miðflokksins og félagasamtakanna "Nei til EU" í Noregi af baráttunni gegn OP#3 á Íslandi, er nú tekinn til við að gera því skóna, að Rússar standi á bak við baráttuna gegn OP#3 í Noregi og á Íslandi.  Slíkar samsæriskenningar geta aðeins orðið til í sjúklegu andrúmslofti sérhagsmunaklíku, sem hefur gert samsæri gegn hagsmunum almennings. Hið mótsagnakennda er, að nefnd utanríkisráðherra um mat á reynslunni af EES undir formennsku Björns leitaði í smiðju til "Nei til EU" í Ósló 19. júní 2019.  Þar var staðreyndum afneitað, eins og við höfum séð í umræðunni hér, svo að fóðra varð nefndina með upplýsingum af vefsetrum Evrópusambandsins.  Hugarheimur formannsins er myrkur og ekki gæfulegur til stefnumörkunar á viðskiptasviðinu við Evrópu.

Viðskiptatækifæri myndast óneitanlega við miklar raforkuverðhækkanir í landinu, en andstæðingar OP#3 vilja einmitt ekki sjá spákaupmennsku með rafmagn sem vöru að hætti ESB.  Rafmagn á að vera þáttur í innviðaþjónustu hins opinbera við fólk og fyrirtæki, en ekki bitbein í höndum spákaupmanna í orkukauphöll undir stjórn Landsreglara Evrópusambandsins á orkusviði.

Verður nú vitnað í téð Reykjavíkurbréf og síðar vonandi meir:

"Það var lengi óskráð meginregla í Sjálfstæðisflokknum, sem reyndist vel, að hversu öflugur sem formaður flokksins væri, sem þeir voru sannarlega langflestir, skyldi landsfundur eða flokksráðsfundur tryggja, að sá, sem næstur stæði formanninum, hefði ríkulega stjórnmálalega reynslu, ef örlög eða atvik höguðu því svo, að fylla þyrfti skarðið, yrðu góð tök á því."

Það væri ofsögum sagt, að núverandi varaformaður eða ritari flokksins væru hoknar af stjórnmálalegri reynslu.  Hin gamla og góða regla Sjálfstæðisflokksins um sjálfsagðan eftirmann formanns í æðstu stjórn flokksins hefur þess vegna verið brotin, og það hefur gefizt hreint afleitlega.  Ef formaður flokksins ákveður, einhverra hluta vegna, að stíga senn til hliðar, þá ætti hann að gera slíkt á Landsfundi, þannig að eðlilegt forystuval fyrir flokkinn geti átt sér stað.

Varaformaður flokksins og iðnaðarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, birti pistil í sínu "reglulega plássi" Morgunblaðsins 16.06.2019 undir heitinu:

"Orkan okkar".

Höfundur þessa vefseturs hér er félagi í "Orkunni okkar" og getur ekki orða bundizt út af téðum pistli iðnaðarráðherra:

"Lesendur blaðsins kannast líklega við mína afstöðu, þegar kemur að innleiðingu þriðju raforkutilskipunarinnar [svo ?].  Það er hins vegar mál, sem hefur engin sérstök áhrif á íslenzkan orkumarkað og að mínu mati óþarft að eyða mörgum mánuðum í umræðu um það.  Ýmsir eru því augljóslega ósammála.  Á mínum tíma sem ráðherra orkumála hef ég hins vegar lagt áherzlu á önnur mikilvægari mál.  Ég nefni hér nokkur."

Hér undirstrikar varaformaður Sjálfstæðisflokksins og iðnaðarráðherra fullkomið skilningsleysi sitt á OP#3 og afleiðingum innleiðingar hans á Íslandi.  Þar af leiðandi hefur forgangsröðun verkefna í ráðuneyti hennar verið kolröng.  Hún hefði átt að nota tímann til að kynna sér þetta stórmál rækilega og á kerfisbundinn hátt með aðstoðarmönnum sínum.  Ef eithvað er spunnið í hana sem stjórnmálamann, hefði hún fundið rök og sannfært þingflokkinn um, að innleiðing OP#3 væri ekki fær leið fyrir Ísland.  Hvers vegna ?  Hér verður fátt eitt tínt til:

Með OP#3 verður stofnað embætti Landsreglara raforkumála á Íslandi.  Núverandi völd ráðherra og Orkumálastjóra yfir íslenzkum raforkumarkaði, yfir Landsneti og dreifiveitunum, færast til Landsreglara, sem verður stjórnað af ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, í náinni samvinnu við ACER-Orkustofnun ESB, sem hefur húsbóndavaldið.  Skylda verður að markaðsvæða raforkugeirann, og verður sennilega farin sama leið og annars staðar í EES með því að stofna orkukauphöll.  Þar sem samræmd auðlindastýring er óleyfileg í þessu markaðskerfi ESB, er stórvarasamt fyrir Íslendinga að innleiða þetta kerfi, enda verður þar með vikið af leið sjálfbærrar þróunar á orkumálasviði á Íslandi.  

Með innleiðingu OP#3 verður Evrópuréttur lögleiddur á Íslandi á sviði milliríkjaviðskipta með rafmagn.  Það þýðir jafnframt, að reglur Evrópusambandsins um málsmeðferð umsókna um lagningu millilandasæstrengs verður að halda í heiðri.  Innlend löggjöf til að setja þessu skorður stenzt ekki, því að innlend löggjöf víkur fyrir Evrópulöggjöf samkvæmt EES-samninginum.  Þess vegna hefur nýlega einn dómari og fimm hæstaréttarlögmenn varað alvarlega við því, að áformuð innleiðing á OP#3 með fyrirvara kunni að skapa ríkissjóði stórfellda skaðabótaábyrgð, ef t.d. sæstrengsfjárfestir kærir höfnun umsóknar, sem annars fullnægir öllum skilyrðum reglugerðar #347/2013, sem vafalaust verður innleidd hér í kjölfar OP#3, því að hún er eðlilegur hluti hans.

Átta hæstaréttarlögmenn hafa andmælt fimmmenningunum opinberlega, og verða þeirri yfirlýsingu gerð verðug skil hér síðar.

Nokkru síðar í pistli iðnaðarráðherra gefur að líta ótrúlega barnalegan texta, sem sýnir, að hún er afar auðtrúa, þegar áróður ESB er annars vegar.  Ekki er það góðs viti fyrir sjálfstæðismenn, sem standa að veru hennar á Alþingi og í æðstu stjórn Sjálfstæðisflokksins:

"Með orkustefnu gefst okkur einnig færi á að varða veginn, þegar kemur að forræði Íslands yfir nýtingu og stjórnun orkuauðlinda landsins, sjálfsákvörðunarrétti varðandi mögulegar tengingarvirkri samkeppni í raforkusölu, eflingu neytendaverndar, auknu orkuöryggi, samspili orkumála og loftslagsmála, útflutningi á hugviti, orkurannsóknum og nýsköpun."

Þessi texti ráðherrans er eins og öfugmælavísa, órímuð og án stuðla og höfuðstafa:

  Með orkulöggjöf ESB hér í öndvegi, hefur ríkisstjórn og Alþingi afsalað sér stefnumótunarvaldinu í raforkumálum í hendur Evrópusambandsins, ESA/ACER og Landsreglara raforkumála á Íslandi.  Nýting orkulindanna verður í höndum markaðarins, innri raforkumarkaðar ESB eftir tengingu landsins við hann, og samfélagslegri stjórnun orkuauðlinda verður ekki við komið, því að miðlæg auðlindastjórnun er bönnuð í markaðskerfi Evrópusambandsins. 

Eignarhaldið verður einnig í uppnámi, eins og bréf ESA til norska olíu og orkuráðherrans og harðort svar hans gefa til kynna.  Þetta er sama þróun og í ESB, þar sem vatnsréttindi og rekstrarleyfi vatnsaflvirkjana á að bjóða út á EES-markaði í krafti þjónustutilskipunar ESB og samkeppnislöggjafar.  Íslenzka iðnaðarráðherranum væri nær að hrista nú af sér slenið, sýna norska starfsbróðurnum samstöðu og senda kjarnyrt svarbréf til ESA við bréfi þaðan til Íslands árið 2016.  Íslenzki iðnaðarráðherrann kýs  hins vegar fremur að stinga hausnum í sandinn.  Hvar eru leiðtogahæfileikarnir ?  

Sjálfsákvörðunarréttur varðandi mögulegar afltengingar við innri markað ESB verður alls ekki fyrir hendi eftir samþykkt OP#3.  Um það snýst hann.  Kerfisþróunaráætlun Evrópusambandsins og PCI-forgangsverkefnaskrá ESB verður leiðisnúran við ákvörðunartökuna.  Ósamkomulag verður útkljáð af ACER, ESA og EFTA-dómstólinum.  Brimbrjóturinn verður "fjórfrelsið" og vöruskilgreining rafmagns.  

Hvernig á "efling neytendaverndar" í íslenzkri orkustefnu að virka eftir innleiðingu OP#3 ?  Ofstækisfyllsti talsmaður OP#3, sem jafnframt veit minnst um hann og veitir EES-matsnefnd utanríkisráðherra formennsku, telur OP#3 snúast um aukið sjálfstæði Orkustofnunar til bættrar neytendaverndar.  Þetta er "bolaskítur" (kjaftæði).  Neytendur verða fórnarlömb fákeppni eigenda þriggja miðlunarlóna og 6 virkjaðra jarðgufuforðabúra og einnig fórnarlömb Landsreglarans, sem er líklegur til að auka arðsemikröfu raforkuflutnings- og dreififyrirtækjanna verulega, til að efla fjárfestingar í þessum kerfum, sem gera kleift að raungera áform ESB um stóraukna raforkuflutninga.

Nú er hafið stríð út af 50 % hækkun á 5 árum á gjaldskrám þessara flutnings- og dreififyrirtækja á milli Landsreglara Svíþjóðar og Miguel Arias Canete, orkukommissars ESB, annars vegar og sænsku ríkisstjórnarinnar með Anders Ygeman, orkuráðherra, í broddi fylkingar.  Ráðherrann beitir orkumarkaðseftirlitinu til að skikka fyrirtækin til lækkunar, en kommissarinn telur slíkt óleyfilegt.  Verður spennandi að sjá, hvernig þessu lyktar, en dæmið sýnir, hvers konar öfugmæli eru fólgin í að kenna raforkumarkaðskerfi ESB við neytendavernd.  

Markaðskerfi ESB færir Íslendingum ekki aukið afhendingaröryggi raforku, því að eftir sem áður er enginn raunverulegur ábyrgðaraðili fyrir því, að næg forgangsraforka verði ætíð tiltæk, og hættan á raforkuskorti eykst, ef Landsvirkjun verður af samkeppnisástæðum skipt upp, því að þá fellur niður virk auðlindastýring í landinu, sem á að tryggja kjörnýtingu og samkeyrslu ólíkra fyrirtækja til skilvirkrar nýtingar virkjaðra orkulinda.  Markaðskerfi ESB ræður ekki við það, enda ekki hannað til þess.

"Undanfarin misseri hefur mér orðið tíðrætt um dreifikostnað raforku.  Á síðasta Iðnþingi kom ég inn á það, að einn stærsti gallinn við raforkumarkað okkar í dag er hinn mikli og sívaxandi munur á dreifikostnaði raforku milli þéttbýlis og dreifbýlis. Þetta er þýðngarmikið, því að dreifikostnaðurinn er stærsti liðurinn á raforkureikningi hins almenna notanda.  Hinn mikli munur á milli dreifbýlis og þéttbýlis er ekki ásættanlegur og gengur gegn viðurkenndum meginreglum okkar um þokkalega jafnt aðgengi að innviðum á borð við samgöngur, fjarskipti og fleira."

Þetta ójafnræði á meðal landsmanna eftir búsetu magnaðist með raforkulögum 2003 á grundvelli OP#1.  Iðnaðarráðherra hefur hins vegar ekkert brugðizt við þessu vandamáli öðruvísi en í ræðu og riti og með nefndarskipun.  Væri hún snöfurmannlegur stjórnandi, væri hún búin að beita sér fyrir lagasetningu um jöfnun gjaldskráa þéttbýlis og dreifbýlis innan sömu dreifiveitu.  Getur verið, að hún óttist viðbrögð ESA ?  Ekki batnar það, þegar Landsreglarinn fer "að stýra og stella" með gjaldskrár einokunarfyrirtækjanna.  Eins og minnzt er á hér að ofan, stendur nú yfir stríð á milli Landsreglara Svíþjóðar, sem þiggur völd sín frá ACER/Framkvæmdastjórn ESB, og orkuráðherra Svíþjóðar, sem vill beita eftirlitsstofnun í Svíþjóð til að lækka gjaldskrár fyrir flutning og dreifingu raforku, en Landsreglarinn/ACER vill hækka þær.

Fylgist iðnaðarráðherra Íslands ekkert með framkvæmd orkustefnu Evrópusambandsins annars staðar, en vill samt innleiða hana blint á Íslandi ?  Þessir stjórnarhættir eru gjörsamlega óboðlegir.  Ráðherrarnir þekkja sáralítið til OP#3 og enn minna til OP#4.  Samt neita þeir að bæta þekkingu sína á þessu sviði með greiningu fjölþættra sérfræðinga á sviðum, sem OP#3 snertir.  Í fílabeinsturni sínum hafa þau talið sér trú um, að lögfræðilegar ritgerðir dugi í þessu sambandi.  Slík afstaða ber vott um þröngsýni og dómgreindarleysi, sem fyrr en seinna mun dæma þau úr leik.

Skjaldarmerki Íslands

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Kristinsson

Blessaður Bjarni!

Það er málið þeim er alveg sama hvað skeður þegar þau hafa fengið silfursjóðinn.

En skyldu þau þurfa að skila sjóðnum eftir stríð?

Eða haldið þið landrá......að þið komist upp með að DRULLA yfir okkur án átaka?

Kannski einhver verði líka KROSSFESTUR.

KV af Suðurlandi

Óskar Kristinsson, 21.6.2019 kl. 13:19

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Bjarni tekur þetta á Ippon Svo trúr og hrífandi! 

Helga Kristjánsdóttir, 21.6.2019 kl. 22:41

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Já, bæði tvö.  Í þessu stríði verður barizt götu úr götu og hús úr húsi í yfirfærðri merkingu.  Þegar Sunnlendingar, Vestlendingar, Norðlendingar og Austfirðingar fá tíma í sumar, ættu þeir að bíta í skjaldarrendur og tjá þingmönnum sínum hug sinn til þessa máls.  Aðeins ótti um missi þingsætis getur breytt afstöðu þingmanna.  Þjóðhollusta gengur framar flokkshollustu, og í þessu máli þurfum og verðum við að grípa til þeirrar reglu.  

Bjarni Jónsson, 21.6.2019 kl. 22:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband