Sjálfstæði landsins er fallvalt

Haraldur Benediktsson, 1. þingmaður NV-kjördæmis, ritar grein um sjálfstæðismál landsins í Morgunblaðið 8. júlí 2019. Grein þessa þingmanns sjálfstæðismanna nefnist:

"Það sem gerir okkur að þjóð".

Að rekja það allt saman, "sem gerir okkur að þjóð",  tæki nokkrar vefgreinar, en vegna þess, að í sömu grein er minnzt á bautasteina orkustefnu Evrópusambandsins, ESB, orkupakka 1,2,3, skal fullyrða, að innleiðing þeirra í íslenzka lögbók gerir okkur ekki að ríkari þjóð, en aftur á móti myndi höfnun OP#3 stuðla að því, að sjálfstæð þjóð með mikla hagvaxtarmöguleika verði í þessu landi áfram. 

Ástæðan fyrir þessu er sú, að með samþykkt OP#3 verður yfirþjóðlegt vald yfir orkugeiranum leitt hér til öndvegis, þar sem Orkustofnun ESB, ACER, sem var stofnuð samkvæmt OP#3 2011, hlýtur hér lögsögu og mun framkvæma vald sitt fyrir tilstyrk Landsreglarans og Evrópuréttarins eftir innleiðingu OP#3 hér.

Stefnu ESB í raforkumálum, sem orkupakkarnir eru samdir til að hægt sé að hrinda í framkvæmd, má í fáum dráttum lýsa þannig:

a) Markaðurinn á að stjórna raforkuvinnslunni.

      Af samkeppnisástæðum og til að koma í veg fyrir  hugsanlega ríkisstyrki þarf ríkið að draga sig (að mestu) út úr þessum geira.  Þetta mætir andstöðu almennings í löndum, þar sem ríkisrekstur á orkuvinnslusviði er umsvifamikill, t.d. í Frakklandi,  Portúgal, í Noregi og á Íslandi. Í Þýzkalandi hefur almenningur í sumum fylkjum landsins mótmælt harðlega einkavæðingu vatnsorkuvera. 

Til að ryðja þessari stefnu braut beita Framkvæmdastjórnin og ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) fyrir sig löggjöf ESB, þ.e.a.s. þjónustutilskipun #2006/123/EB, tilskipun um opinber innkaup #2014/23/EB og athafnafrelsisákvæðum Lissabonsáttmálans, TFEU -  gr. 49 og 56.              

Það má telja líklegt, að dómafordæmi í þessari deilu muni koma frá ESB 2020 og að deilunni um vatnsréttindi í eigu norska ríkisins verði vísað til EFTA-dómstólsins sama ár. EFTA-dómstóllinn fer jafnan að fordæmi ESB-dómstólsins.  Málið er víða pólitískt viðkvæmt og hefur verið lengi í gerjun, sbr Frakkland, en Framkvæmdastjórn ESB virðist líta á það sem grundvallarmál fyrir orkustefnu sína, að virkjanir séu ekki í ríkiseigu.  Með úrskurði frá EFTA-dómstólnum mun líklega koma forskrift að einkavæðingu vatnsorkuvirkjana í eigu íslenzka ríkisins.  Þar er t.d. um að ræða allar virkjanirnar á Þjórsár-Tungnaársvæðinu og Kárahnjúkavirkjun.  Blekbónda er mjög til efs, að meirihluti geti orðið á Alþingi fyrir slíkri einkavæðingu raforkuvinnslunnar, en vegna EES-samningsins munu þingmenn ekki taka neina ákvörðun um þetta mál, sem máli skiptir.  Hlýtur nú flestum að blöskra ólýðræðislegt eðli þessa milliríkjasamnings, og Stjórnarskráin liggur óbætt hjá garði í öllum atganginum.  Hér mun eitthvað verða undan að láta, en Alþingismenn ætla þó flestir að kyssa á vöndinn og innleiða OP#3 og þar með Evrópurétt um utanlandsafltengingar við Ísland.  Þar með mun áhugi erlendra orkufyrirtækja á íslenzkum virkjunum aukast til muna.   

Norski olíu- og orkuráðherrann snerist snöfurmannlega til varna fyrir hagsmuni norska ríkisins með bréfi til ESA 5. júní 2019, sem var svar við opnunarbréfi málsins að hálfu ESA gagnvart Norðmönnum 30. apríl 2019.  Svo virðist sem íslenzki iðnaðarráðherrann ætli hins vegar að bíða átekta, því að viðbrögð iðnaðarráðuneytisins við svipuðu bréfi ESA 2016 til Íslands voru að skipa nefnd, sem enn er "að störfum".  Um þessa frammistöðu íslenzka iðnaðarráðherrans er líklega viðhöfð norska kaldhæðnin: "hun glimrer med sit fravær" (það ljómar af henni í fjarveru hennar).

Það stefnir víða í stórátök vegna kröfunnar um takmarkaðan gildistíma (hámark 30 ár) virkjanaleyfa og útboða á nýjum leyfum og gömlum starfsleyfum, sem reist eru á vatnsréttindum (eignarréttur).  Hvar stendur íslenzka ríkisstjórnin og þingheimur í þessu máli ?  Vonandi er meirihlutinn ekki úti að aka, því að þá glutrar hann niður erfðasilfri þjóðarinnar, um leið og sjálfstæði landsins rýrnar meira en landsmenn hafa efni á.  Það er engu minni ástæða til að halda umráðarétti yfir nýtingu vatnsréttinda á landinu í höndum landsmanna en nýtingu lögsögunnar í kringum landið.  Forysta ESB veit vel, að hún getur ekki stjórnað raforkumálum Evrópu, ef meðferð og nýting orkulinda af skornum skammti lýtur ekki löggjöf Sambandsins.  Því miður eru ýmsir hérlendis með glýju í augum yfir markaðsvæðingu Evrópusambandsins, en skilja ekki, að hún er aðeins verkfæri stjórnendanna í Brüssel til að tryggja "framleiðsluvél" Sambandsins næg aðföng með hagstæðasta hætti.   

b) Raforkuflutningar innanlands eru og verða einokunarstarfsemi Landsnets, en hún verður í gjörgæzlu Landsreglarans. 

Samræmingarstjóri ("compliance officer") verður ráðinn til Landsnets, og verður hann varðhundur ESB, sem fylgist með starfsemi og áformum Landsnets og gætir þess, að fylgt sé reglum og áætlunum ESB.  Hann gefur Landsreglaranum og ACER skýrslur.  Landsreglarinn mun skilgreina forsendur að gjaldskrám Landsnets, rýna þær og hafna/samþykkja. 

Niðurgreiðslur á flutningskostnaði verða óleyfileg ríkisafskipti.  Alls konar aukakostnaður mun hlaðast á Landsnet vegna Landsreglarans og fyrirhugaðrar þátttöku í RCC-Svæðisbundinni samræmingarmiðstöð kerfisstjóra í norðanverðri Evrópu.  Þar að auki verður Landsnet skyldugt að tengja allar umhverfisvænar virkjanir (án  verulegrar koltvíildislosunar) og verður sjálft að greiða viðbótar kostnað vegna fjarlægðar frá flutningskerfi Landsnets.  Fyrirfram ákveðnir tengistaðir Landsnets munu heyra sögunni til. Þetta er auðvitað gríðarlegur hvati til virkjana á endurnýjanlegum orkulindum.   

c) Dreifiveiturnar munu starfa undir sérleyfisákvæðum útgefnum af Landsreglaranum.    

Niðurgreiðslur á dreifingarkostnaði verða óleyfilegar, nema tímabundið, ef "almannahagur krefst", og "almannahagur" verður skilgreindur af ESB. Reynslan af Landsreglaranum, t.d. frá Svíþjóð, er, að hann hækkar gjaldskrár dreifiveitna langt umfram verðlagshækkanir.  Þegar sænski orkuráðherrann ætlaði að knýja fram lækkun á gjaldskrám, þá sló framkvæmdastjórn ESB á fingurna á honum og upplýsti hann um, að samkvæmt lagabálkum OP#3 ætti ráðherra alls enga aðkomu að stjórnun dreifiveitnanna eða gjaldskrám þeirra. Aukning á arðsemiskröfu dreifiveitnanna er ætluð til að örva fjárfestingar í dreifiveitunum og draga úr orkutöpum, en viðskiptavinirnir stynja undan.

d) Heildsalan fer fer fram í orkukauphöll. Viðskipti takast, þar sem verðhugmyndir kaupenda og seljenda mætast.  Enginn er ábyrgur fyrir því, fremur en nú, að heildarframboð afls og orku verði alltaf nægilegt.  Verðið hækkar, þegar skortur er í augsýn.  Í þessu kerfi er engan veginn víst, að nýjar virkjanir verði tilbúnar í tæka tíð frekar en í núverandi kerfi, þar sem stefnir í aflskort árið 2022 og jafnvel orkuskort veturinn 2019/2020 samkvæmt forstjóra RARIK. Þetta sýnir, að OP#2 hefur brugðizt landsmönnum. Hann getur ekki virkað í íslenzku umhverfi.  Það er ótækt, að enginn beri ábyrgð á þessu ástandi. 

Orkuráðherrann verður pólitískt ábyrgur fyrir stórtjóni, sem orðið getur af þessum völdum. Hún er með vinnuhóp að störfum í ráðuneytinu, sem á að skila af sér í haust.  Það er hlægileg stjórnsýsla.  Úrræði, ef einhver verða, koma alltof seint, og OP#2, og í enn meiri mæli OP#3, bindur algerlega hendur stjórnvalda.  Ráðherrann er í vonlausri stöðu.  Berst heitt og innilega fyrir innleiðingu löggjafar á orkusviði, sem gera iðnaðarráðuneytið valdalaust á þessu grundvallarsviði íslenzks þjóðarbúskapar.  Enginn stuðningsþingmaður þessa ráðslags getur sloppið frá því heilskinnaður, því að kjósendur vita vel, hvað til þeirra friðar heyrir.   

Auðlindastýring verður óleyfileg í markaðskerfi ESB, þ.e.a.s. miðlæg stjórnun nýtingar á miðlunarforða og jarðgufuforða verður bönnuð.  Sú staða dæmir markaðskerfi ESB ónothæft stjórnkerfi í orkugeiranum hérlendis.

e) Fyrir millilandatengingar hafa ríkisstjórnir og þjóðþing enga aðkomu innan Orkusambands ESB, sem ríkisstjórn Íslands stefnir að með innleiðingu OP#3, að Ísland eigi aðild að. 

Hin endurskoðaða ACER reglugerð #2019/942 eykur völd ACER varðandi nýlagnir á milli landa og rekstur millilandatenginga.  Í þessari reglugerð, gr. 11, er ACER falið miðlægt hlutverk fyrir þróun nýrra verkefna á sviði millilandatenginga fyrir rafmagn og gas. Orðhengilsmenn og sleipir lögfræðingar geta þá ekki borið lengur þann fáránleika á borð, að valdheimildir ACER eigi aðeins við virki í rekstri, en eigi ekki við verkefni millilandatenginga.

 

Í því orkustjórnkerfi Evrópusambandsins, sem hér hefur verið lýst, er alls ekki gert ráð fyrir aðkomu rétt kjörinna stjórnvalda við neina ákvarðanatöku.  Allir lagabálkar OP#3 snúst um að taka öll völd úr þeirra höndum og færa til embættismanna ESB.  Með OP#4 eru flestir lausir endar hnýttir, hvað þetta varðar.  Það er fullkominn misskilningur íslenzkra Alþingismanna, að þeir geti haldið áfram að setja lög um sæstrengi til útlanda eða gjaldskrár í blóra við Evrópuréttinn.  Sé þeim talin trú um þetta núna, er verið að blekkja þá með ósvífnum hætti til fylgilags við OP#3.  

Haraldur Benediktsson skrifar í umræddri grein:

"Yfirráð yfir orkunni eru okkur heilög.  Það er því alvörumál að vera ætlað að vilja framselja yfirráð og eignarhald á orkuauðlindum landsins.  Ekkert er fjær okkur."

Þessu trúir blekbóndi þessa vefseturs, en virðulegur Alþingismaður, Haraldur Benediktsson, og félagar hans í þingflokki sjálfstæðismanna verða (í Guðs bænum) að draga réttar ályktanir af þeirri yfirvofandi vá, sem landsmönnum stafar af því að innleiða stjórnkerfi Evrópusambandsins á orkumálasviði á Íslandi og lýst var hér að framan.

Nokkru síðar tekur Haraldur til við að rekja raunir dreifbýlisnotanda vegna "flutnings" á rafmagni.  Þar sem hann nefnir RARIK, á hann sennilega við dreifingu rafmagns og þó hugsanlega summuna af þessu tvennu.  Frá innleiðingu OP#1 (ný raforkulög 2003) hefur raunrafmagnsverð í landinu til almennra notenda hækkað um 7 %-8 % og enn meir til dreifbýlisnotendenda, sem mátt hafa sæta mikilli ósanngirni, sem orkuráðherra og þingmenn hafa því miður ekki leiðréttð með sameiginlegri gjaldskra þéttbýlis og dreifbýlis innan hverrar dreifiveitu. Téð hækkun er reist á gögnum Hagstofunnar og mun birtast í skýrslu, sem gefin verður út í næsta mánuði.  Þetta er alger áfellisdómur yfir orkulöggjöf ESB hérlendis og ætti að fá dreifbýlisfólk til að bíta í skjaldarrendur og tjá þingmönnum sínum með skýrum og ótvíræðum hætti, að stuðning þeirra við Orkupakka#3 muni þeir ekki líða þeim.

  Með OP#3 mun Landsreglarinn taka gjaldskrárkaleikinn af ráðherranum.  Er hún þess vegna svona áfjáð í að innleiða OP#3 ?  Hætt er þó við, að raforkunotendur fari úr öskunni í eldinn.  Ráðherra mun þvo hendur sínar af því, en munu kjósendur, sem allir eru raforkunotendur, endurkjósa þennan ráðherra ?  Það er ekkert vit í því.

"Veruleikinn er sagna beztur og reynslan.  Dreifbýlisnotandi rafmagns hjá RARIK hefur séð reikning vegna flutnings á rafmagni frá árinu 2005-2018 hækka um 108 %, á meðan almennt verðlag hækkaði um 45 %.  Þrátt fyrir að á sama tíma hafi niðurgreiðslur til jöfnunar á flutningskostnaði úr ríkissjóði hækkað um liðlega 30 %.  Er því ekki að undra að vantraust sé á enn einum orkupakkanum."

Orkuráðherrann hefur haldið því fram í pistilplássi, sem hún hefur í SunnudagsMogganum, að orkuverð til notenda hafi staðið í stað að raunvirði frá innleiðingu OP#1. Það er rangt ("disinformation"), eins og greint er frá að ofan.  Hún virðist þá alls ekki hafa verið að hugsa um dæmigerðan raforkunotanda þar í NV-kjördæminu.  Haraldur verður að taka það að sér að jarðtengja þennan Alþingismann í NV og orkuráðherra.

Haraldur nefnir niðurgreiðslur úr ríkissjóði.  Eins og komið hefur fram, verða þær í uppnámi eftir OP#3, enda hvorki í verkahring ráðherra né þingmanna að ákveða þær þá, og með OP#4 verður alls ekki séð, að þær verði leyfilegar.

"Það er því fagnaðarefni, að iðnaðarráðherra hefur þegar hafið vinnu til að vinda ofan af því misrétti á milli landsmanna, sem innleiðing á orkupakka 1 og 2 var.  Það er almennur stuðningur við, að allir landsmenn njóti þess að hafa sambærilegan aðgang að orkuframleiðslunni.  Að því verður að vinna og er kannski ein helzta niðurstaða umræðunnar undanfarna mánuði um orkumál."

 Hvernig í ósköpunum dettur þingmanninum í hug, að leiðin til að bæta böl dreifbýlisins, sem af innleiðingu OP#1 og OP#2 leiddi og þingmaðurinn lýsti í grein sinni, sé að bæta gráu ofan á svart og samþykkja innleiðingu á OP#3 ?  Leiðin til þess að bæta úr þessu böli er að hafna OP#3, stöðva þessa vegferð og reyna að fá völdin yfir orkumálunum aftur í hendur kjörnum fulltrúum fólksins. Það gerist ekki með þjóðaratkvæðagreiðslu um sæstreng eftir innleiðingu OP#3. Iðnaðarráðherra þarf að útskýra, hvers vegna hún hefur látið umrætt misrétti viðgangast þann tíma, sem hún hefur verið ráðherra orkumála.  Er það vegna þess, að hún rekst á lagalega veggi Evrópuréttarins, svo að jafnvel undir OP#2 hafi ráðherra ekkert svigrúm ?

Að lokum skal hér tilfæra þann þátt téðrar greinar, sem mesta umræðu hefur vakið:

"Sú hugmynd er hér sett fram að áskilja það í innleiðingu orkupakka 3 að setja lagaákvæði um, að slík [utanlands]tenging verði aðeins með samþykki þjóðarinnar í sérstakri atkvæðagreiðslu. Sæstrengur og bygging grunntengivirkja fyrir slíka tengingu verði því aðeins, að meirihluti landsmanna samþykki það í atkvæðagreiðslu."

 Það er eins og Haraldur Benediktsson, Alþingismaður, haldi, að hér verði allt við það sama, eftir að hann og félagar hans innleiða hér Evrópurétt á sviði millilandatenginga með því að innleiða OP#3.  Hann skilur ekki, að með þeim gjörningi setur hann Evrópuréttinn og þar með lagabálkana í OP#3 skör hærra en íslenzk lög.  Er hann virkilega svo barnalegur að ímynda sér, að þjóðaratkvæðagreiðsla á Íslandi um sæstrengslögn, sem Evrópusambandið er áfram um, að verði að veruleika, hafi meira vægi gagnvart Landsreglara, ACER og framkvæmdastjórn ESB en "fyrirvarinn", sem nú er ætlunin að binda í landslög, en víkur, undir eins og sæstrengsverkefninu verður ýtt af stokkunum ?

 

  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband