Aflskortur í vændum og raforkuverð hækkar

Á viðskiptasíðu Morgunblaðsins 8. júlí 2019 var vakin athygli á nýrri skýrslu Landsnets, þar sem boðaður er aflskortur f.o.m. 2022, ef svo heldur fram sem horfir.  Það þarf enginn að halda, að virkjanafyrirtækin hafi ekki vitað af þessu, enda kom fram hjá forstjóra RARIK skömmu síðar, að þar á bæ byggjust menn við orkuskorti þegar næsta vetur (2019/2020).

  Slíkar fréttir boða gósentíma fyrir raforkuvinnsluna. Stjórnendur fyrirtækjanna vita, að í markaðskerfi virkar frétt af þessu tagi til hækkunar raforkuverðs, þótt tilkostnaðurinn vaxi ekki neitt.  Í frjálsri samkeppni í orkukauphöll er þetta mjög áberandi, og eiga verðhækkanir þar einmitt að mynda hvata til að reisa nýjar aflstöðvar.  

Hér er hins vegar aðdragandinn að nýjum vatnsorku- eða jarðgufuvirkjunum, tilbúnum og tengdum inn á netið, miklu lengri en fyrir sólarhlöður, vindmyllur eða gasknúin og kolaknúin raforkuver Evrópu.  Þar af leiðandi virkar þetta óhefta markaðskerfi neytendum í óhag hérlendis, þ.e. raforkuverð mun stíga mikið og afl- og jafnvel orkuskortur síðustu veturna fyrir nýja virkjun getur orðið tilfinnanlegur.  Enginn þarf að segja blekbónda það, að Landsvirkjun og öðrum orkuvinnslufyrirtækjum hafi ekki þegar í fyrra verið kunnugt um í hvað stefnir með framboð og eftirspurn afls árið 2022 og á næstu árum á eftir.  Samt er engin virkjun, utan smávirkjana og Hvalárvirkjunar (55 MW), í deiglunni.  Þetta er tilræði við raforkukaupendur, sem verða algerlega varnarlausir gagnvart gríðarlegum raforkuverðhækkunum í orkukauphöll, sem verður fylgifiskur Orkupakka #3 (OP#3). 

Yfirvöldum landsins verða bönnuð öll inngrip í verðlagsþróunina eftir OP#3-4 og einnig bönnuð afskipti af orkufyrirtækjunum, t.d. til að hvetja þau til að virkja.  Í Orkusambandi ESB á raforkuvinnslan að vera leiksvið einkafyrirtækja í frjálsri samkeppni. Það mun ekki líða á löngu innan þessa orkusambands, þar til ríkisstjórnir verða dæmdar af ESB-dómstólnum til að selja vatnsréttindi (virkjanaréttindi) á opnum markaði, og þær munu þess vegna ekki lengi fara með eigendahlutverk yfir vatnsaflsvirkjunum.  Þar með verður ekki lengur hætta á, að ríkið skekki samkeppnisstöðuna á þessum markaði innan EES.

Samkvæmt orkustefnu ESB á raforkumarkaðurinn að sjá um nægt aflframboð, og eldsneytismarkaðurinn að sjá um nægt orkuframboð á hverjum tíma.  Íslenzkur orkumarkaður er allt annars eðlis og getur ekki séð um hvort tveggja.  Hér þarf annað fyrirkomulag, sem hentar orkulindum Íslands, en Landsreglarinn mun ekki leyfa án undanþágu frá ESB í Sameiginlegu EES-nefndinni.  

Hver sem örlög OP#3 verða á Alþingi, þarf ríkið í nafni fullveldisréttar síns að stofna til embættis orkulindastjóra, sem hafi með höndum samstýringu allra virkjana landsins, sem máli skipta fyrir orkubúskap landsins, með svipuðum hætti og Landsvirkjun stundar nú innan sinna vébanda.  Með lagasetningu um embætti orkulindastjóra fái hann í hendur tæki, sem tryggi, að virkjanafyrirtækin hefji virkjanarannsóknir og virkjanaundirbúning í tæka tíð, til að nægt framboð raforku verði jafnan mögulegt, vald til að takmarka stærð jarðvarmavirkjana á hverju svæði, svo að aflrýrnun svæðis verði innan viðmiðunarmarka og jafnframt vald til að stýra vatnshæð miðlunarlóna, svo að orkuöryggi sé tryggt.  Lagasetning um þetta nýja embætti þarf jafnframt að tryggja því aðgang að nægum upplýsingum um allar virkjanir, sem það telur máli skipta fyrir orkubúskap landsins, svo að það geti gegnt hlutverki sínu.  Orkulindastjórinn á að tryggja beztu sjálfbæru nýtingu allra þessara virkjana landsins með því að hámarka vinnslu hverrar virkjunar til langs tíma, og ákvarðanir hans skapi orkumarkaðinum ramma til að starfa innan.

 

Það voru mistök á sinni tíð að reyna ekki að fá  undanþágu frá orkubálkum Evrópusambandsins.  Það er ekki seinna vænna en að stöðva þessa vegferð nú með því að hafna OP#3, svo að færi gefist á að ræða sérstöðu Íslands á orkusviðinu innan vébanda EES í sáttatóni við ESB.

Þann 10. júlí 2019 birtist í Morgunblaðinu afrakstur samtals Höskuldar Daða Magnússonar, blaðamanns, og Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, í tilefni fréttar blaðsins daginn áður af skýrslu Landsnets um væntanlegan aflskort.

Það er skemmst frá að segja, að Höskuldur virðist hafa fengið samband við geimveru, sem kallar sig Hörð Arnarson.  Upphafið var þannig:

"Þetta snýst aðallega um að gera sér grein fyrir því, hvaða þarfir samfélagið hefur og að uppfylla þær þarfir."

 

Hvers vegna í ósköpunum hefur Landsvirkjun ekki þegar hafið framkvæmdir við næstu virkjun ?  Þar á bæ fara menn ekkert í grafgötur með þróun eftirspurnarinnar.  Það er algerlega óábyrg afstaða hjá ríkisfyrirtæki með rúmlega 70 % markaðshlutdeild að láta myndast hér aflskort og síðar orkuskort í ljósi þess gríðarlega samfélagslega kostnaðar, sem af slíku leiðir.  Nú er samdráttur hagkerfisins hafinn, þannig að framkvæmdatíminn núna og á næstu árum er hagstæður.  

"Aðspurður segir Hörður, að öryggi stórnotenda sé tryggt.  Í þann flokk falla flest gagnaver, sem sprottið hafa upp á liðnum árum eða eru í undirbúningi."

Þetta er undarlega að orði komizt, en sýnir, að forstjóri Landsvirkjunar telur fyrirtæki sitt einvörðungu vera skuldbundið með orkuafhendingu til "stórnotenda".  Þegar talað er um afhendingaröryggi raforku, er yfirleitt átt við forgangsorku, en ekki ótryggða orku.  Almennir notendur, heimilin og fyrirtæki á almennum töxtum, eru áskrifendur að forgangsorku.  Það má ekki skerða orkuafhendingu til almennings á undan forgangsorkuskerðingu fyrirtækja með samninga um forgangsorku og ótryggða orku. Að sjálfsögðu er ótryggt afl og orka skert fyrst. Hins vegar er í samningum ekki reiknað með þörf á afl- eða orkuskerðingu af mannavöldum, þ.e. tilbúnum skorti,  eins og nú blasir við, heldur af náttúrunnar völdum (force majeur), t.d. í vatnsleysisárum, eða vegna bilana.  Hér er annað uppi á teninginum nú, og ef þörf verður á skerðingu forgangsafls, þá verður skerðingin að vera hlutfallslega jöfn á alla viðskiptavini; "pro rata", eins og það heitir í samningum.  Það er ekki hægt að fullyrða, að "öryggi stórnotenda sé tryggt", ef aflskortur reynist meiri en nemur ótryggðu afli.  Hér kunna málshöfðanir að hefjast vegna markaðsmisnotkunar orkuvinnslufyrirtækjanna.  

""Það þarf hins vegar að huga sérstaklega að orkuöryggi fyrir heimilin og smærri fyrirtæki", segir Hörður."

Þessi framsetning undirstrikar fáránleika núverandi stöðu.  Enginn er ábyrgur fyrir afhendingu forgangsorku til almennra notenda, og forstjórinn virðist halda, að þeir verði skertir á undan fyrirtækjunum, sem Landsvirkjun hefur sérsamning við.  Þetta er algerlega fáránlegt.  

Síðan kemur rúsínan í pylsuendanum, sem sýnir í hvílíkt óefni búið er að stefna íslenzkum raforkumálum með OP#1 og OP#2.  Vandinn er sá, að OP#2 ætlar markaðinum að sjá um þessi mál.  Þegar Landsreglarinn kemur til skjalanna með OP#3, versnar staðan, því að eitt af hans hlutverkum er að hafa eftirlit með, að reglum Evrópusambandsins um frjálsan markað fyrir raforkuvinnslu og raforkusölu sé hlítt. Þá verður "engin miskunn hjá Magnúsi".  

"Hann [Hörður] segir jafnframt, að eins og staðan er í dag sé óljóst, hver beri ábyrgð, komi upp sú staða, sem teiknuð er í skýrslu Landsnets, og hvaða úrræði viðkomandi [?] hafi.  Stjórnvöld hafi með umræddri skýrslu Landsnets fengið hvatningu til úrbóta."

Samkvæmt núgildandi OP#2 og OP#3-4 ber markaðnum að sjá fyrir nægu afli og orku á hverjum tíma.  Ekkert fyrirtæki og engin ríkisstofnun eru ábyrg.  Ábyrgðin er löggjafans að hafa leitt lagabálka til öndvegis á Íslandi, sem þangað eiga ekkert erindi og geta ekki virkað, eins og þeim er ætlað, við íslenzkar aðstæður.  Eðlilegast væri að afnema þessa lagabálka, þegar í ljós kemur, að þeir eru ónothæfir, en það er ekki hlaupið að því, þótt 63 þingmenn yrðu um það sammála, sem aldrei verður, heldur væri fyrsta skrefið á þeirri vegferð að stöðva OP#3 í stað þess að magna vitleysuna þannig, að eina undankomuleiðin úr öngþveiti verði að segja upp EES-samninginum.   

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Á Suðurnesjum var keypt 50 megavatta túrbína í Reykjanesvirkjun, sem engin not eru fyrir af því að að gufuaflið í Svartsengisvirkjun og Reykjanesvirkjun fer þverrandi vegna rányrkju og HS orka er búið að skulbinda sig til að selja stórnotendum. 

Þess vegna leitar HS orka að virkjanamöguleikum víða um land í örvæntingu sinni. Gufuaflið á Suðurnesjum þverr óhjákvæmilega. 

Ómar Ragnarsson, 22.7.2019 kl. 10:45

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jónas;

Það er aðallega tvennt, sem gerir að verkum, að markaðskerfi Evrópusambandsins á sviði raforkuvinnslu gengur ekki upp á Íslandi.  Annars vegar, að niðri í Evrópu sjá eldsneytismarkaðirnir um orkuþáttinn og raforkufyrirtækin um aflþáttinn.  Á Íslandi getur raforkumarkaðurinn ekki séð um hvort tveggja, og hins vegar er það fákeppnin, sem leiðir fyrirtækin út í markaðsmisnotkun ("manipulation").  Innleiðing OP#3 án tillits til íslenzkra aðstæðna mun þar af leiðandi leiða til skelfingar.

Bjarni Jónsson, 22.7.2019 kl. 10:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband