Glittir í ljóta afleiðingu af OP#1 og OP#2

Það hefur verið margsýnt fram á, hversu illa orkubálkalöggjöf Evrópusambandsins á við íslenzkar aðstæður.  Sú stefnumörkun að taka upp löggjöf Evrópusambandsins (ESB) á sviði raforkumála um EES-samninginn fyrir Ísland var röng og hefur dregið langan dilk á eftir sér.  ESB stefnir á einkavæðingu raforkuvinnslunnar, og ríkisafskipti af þeirri starfsemi eru bönnuð.  Þar af leiðandi var sú kvöð tekin af Landsvirkjun með raforkulögum 2003, sem reist voru á OP#1, að sjá landsmönnum jafnan fyrir nægu framboði af forgangsorku, bæði heimilum og fyrirtækjum.  Markaðurinn átti að sjá um þetta, en markaðsaðstæður á Íslandi eru þannig, að markaðurinn bregzt þessu hlutverki. Að innleiða hér markaðsstýrt viðskiptakerfi raforku mun óhjákvæmilega framkalla hér viðvarandi seljendamarkað og þar með talsverða raforkuverðhækkun, þótt engin verði aflsæstrengur til útlanda.  

Nú er komið í ljós, að hætta er á aflskorti í landinu frá 2022 og þar til virkjun, sem verulega munar um, kemst í gagnið, en engin slík er á döfinni.  Hér getur þannig orðið stórfellt samfélagslegt tjón í boði Alþingis og innleiðingar þess á löggjöf ESB á orkusviði. Hætt er við, að enn meira tjón verði hér eftir innleiðingu OP#3 og markaðsstýringar á raforkukerfinu í kjölfarið. Þetta stafar af því, að markaðsstýringin er ekki þess umkomin að tryggja bæði nægt afl og orku, enda útvega eldsneytismarkaðirnir orkuna í ESB.  Það vantar hér fjárhagslega hvata til að bæta við nýjum orkuverum, og það vantar samræmda orkulindastýringu fyrir allt landið, sem tekur mið af að viðhalda afhendingaröryggi raforku til allra neytenda í stað þess að hámarka tekjur hvers orkuvinnslufyrirtækis, eins og markaðsstýringin er hönnuð fyrir. Á meginlandi Evrópu lækkar orkuvinnslukostnaður fyrirtækis, sem bætir við nýju orkuveri. Það er vegna bættrar nýtni og meiri sjálfvirkni í nýjum orkuverum en gömlum.  Á Íslandi hækkar hins vegar orkuvinnslukostnaðurinn með nýrri virkjun vegna þess, að hagkvæmustu kostirnir hafa þegar verið virkjaðir.  

Ef/þegar embætti Landsreglara kemst á koppinn, sem fylgir samþykkt OP#3, þá mun hann koma hér á laggirnar orkukauphöll. Orkuvinnslufyrirtækin munu verðleggja raforkuna m.v. að hámarka tekjur sínar, alveg óháð því, hvort of lítil orka verður tiltæk (úr miðlunarlónunum) næstu vikurnar. Á Íslandi veldur markaðsstýring orkuvinnslunnar viðvarandi seljendamarkaði, sem alls staðar jafngildir háu verði. Orkustefna ESB, en orkupakkar ESB eru aðferð ESB við að innleiða orkustefnu sína í aðildarlöndunum, felur þess vegna í sér lífskjararýrnun fyrir íslenzka neytendur og verulega lakari samkeppnishæfni fyrirtækjanna, sem mun koma niður á þjóðartekjum og atvinnustigi í landinu, sjá minnisblað um OP#3 í viðhengi með þessum pistli. 

Landsreglarinn, væntanlegur hæstráðandi á landinu í raforkugeiranum, mun ekki taka í mál að gera eitthvert eða einhver fyrirtæki ábyrg fyrir nægu raforkuframboði.  Slíkt yrði brot á ætlunarverki yfirboðara hans hjá ESB um  einkavæðingu og frjálsan samkeppnismarkað á raforkuvinnslusviði.  Reyni íslenzk yfirvöld slíkt, mun Landsreglarinn óðara setja reglugerð til ógildingar slíkrar tilraunar rétt kjörinna yfirvalda landsins.  Þetta er eitt dæmi af mörgum um yfirþjóðlegt vald, sem hér verður leitt til öndvegis, ef Alþingi afléttir hinum stjórnskipulega fyrirvara af OP#3.  

Frétt Ásgeirs Ingvarssonar í Morgunblaðinu 8. júlí 2019,

"Aukin hætta á aflskorti" , hófst þannig:

"Samkvæmt nýrri skýrslu Landsnets er hætta á því, að á einhverjum tímapunkti árið 2022 verði framboð á raforku á Íslandi ekki nægilegt til að svara eftirspurn. ... Núna sýnir spáin, að árið 2022 fara líkur á aflskorti yfir viðmiðunarmörk og gæti leitt til þess, að á álagstímum þurfi að draga úr framboði á raforku á vissum svæðum eða til tiltekinna kaupenda."

Þann 12. júlí 2019 lét forstjóri RARIK opinberlega í ljós áhyggjur sínar af því, að ástandið væri í raun mun alvarlegra en Sverrir Jan Norðfjörð lætur þarna í ljós.  Miðað við tíðarfarið undanfarið og drjúga aukningu orkunotkunar þarf ekki að koma á óvart, að um er að ræða yfirvofandi hættu á orkuskorti strax næsta vetur samkvæmt Tryggva Þór Haraldssyni.  Aflskorturinn verður algerlega af mannavöldum, og það er hægt að skrifa hann með húð og hári á kostnað gildandi orkulöggjafar frá Evrópusambandinu (ESB) í landinu, þ.e. OP#2. 

Í því lagaumhverfi, sem orkumarkaðinum er búið á Íslandi, ræður hann ekki við viðfangsefnið, sem þessi löggjöf ætlast til af honum. Hann ræður ekki einu sinni við að koma í veg fyrir aflskort, sem er þó hlutverk markaðsstýringar raforkukerfisins í EAB, en þar sjá hins vegar eldsneytismarkaðirnir um að sjá fyrir nægri orku.  Innleiðing OP#3 getur hæglega leitt til öngþveitis á íslenzka orkumarkaðinum.  Það verður farið úr öskunni í eldinn.  

Í stað þess að fela í sér neytendavernd, eins og stuðningsmenn þessarar Evrópulöggjafar hampa í tíma og ótíma án þess að vita, hvað þeir eru að tala um, þá verður þessi ESB-löggjöf að martröð íslenzka raforkunotandans, sem verður sviptur aðgengi að "vörunni", sem er afkomu hans lífsnauðsynleg, rafmagninu.  Þetta sýnir, að á eyju, eins og Íslandi, sem er rafmagnslega ótengd við umheiminn, gengur það ekki upp að skilgreina rafmagn sem vöru, enda er ekki hægt að skila keyptu rafmagni, eins og hægt er með vörur.  

Rafmagn á að vera þáttur í grunnþjónustu samfélagsins við íbúana og þar með fyrirtækin, sem þeir lifa á. Þar af leiðandi þarf að koma hér á samræmdri orkulindastýringu, sbr viðhengið.  Á Íslandi eru yfir 90 % innviðanna, sem þarf til að framleiða, flytja og dreifa þessari grunnþjónustu, í eigu hins opinbera.  Valið stendur nú um að einkavæða raforkuvinnsluna með því að samþykkja OP#3 og OP#4 og búa til seljendamarkað fyrir raforku eða að hafna OP#3 og leita samninga við ESB á vettvangi Sameiginlegu EES-nefndarinnar um nauðsynlegar undanþágur frá OP#3, sem m.a. feli í sér leyfi til samræmdrar orkulindastýringar og raunverulegt vald Orkustofnunar til að hafna umsókn um sæstreng og vald Alþingis til að banna undirbúning sæstrengs hérlendis (hjá Landsneti).  Þetta er val á milli missis forræðis orkulindanna með óheftri markaðshyggju innan EES og dálítillar forræðishyggju á þessu lífsnauðsynlega sviði landsmanna.  Það þýðir ekki lengur að berja hausnum við steininn.  Orkupakki#2 veldur stórtjóni á Íslandi, og OP#3 mun valda enn meira tjóni, sem við sjáum ekki fyrir endann á.  Iðnaðarráðherra verður að hætta stuðningi sínum við OP#3.  Að öðrum kosti axlar hún sem ráðherra orkumála fulla pólitíska ábyrgð af tugmilljarða ISK tjóni af völdum yfirvofandi afl- og orkuskorts.  

Það er ekki nóg með, að orkustefna stjórnvalda, sem er orkustefna ESB, hafi beðið skipbrot, heldur hefur "loftslagsstefnan" strandað líka og markmið um orkuskipti rokið út í veður og vind, því að þau voru alfarið reist á hugmyndinni um nægt afl og orku, þ.m.t. næga ótryggða orku í flestum árum.  Þetta kemur fram í tilvitnuðu viðtali við Sverri Jan Norðfjörð, framkvæmdastjóra þróunar- og tæknisviðs Landsnets:

"Skýrslan skoðar raforkujöfnuð landsins í heild sinni, og segir Sverrir erfitt að segja til um, hvar í dreifikerfinu séu mestar líkur á, að vandinn komi fram, en væntanlega yrði brugðizt við með því að draga úr framboði á rafmagni til notenda, sem þegar eru skilgreindir sem skerðanlegir.  Væru það t.d. fiskvinnslur, sem nota rafmagn til fiskbræðslu, og hitaveitur.  "Þessir kaupendur geta í sumum tilvikum brugðizt við með því t.d. að nota olíu á meðan vöntun er á raforku.""

  

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Í dag sagði ég þig vera rafmagnstæknifræðing.setti það í sviga því menntun og nöfn detta stundum tímabundið úr mér; Bið innilega afsökunar Bjarni minn: Rafmagnsverkfræðingur. 

Helga Kristjánsdóttir, 25.7.2019 kl. 23:46

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þetta er nú engin goðgá, Helga, og ekki leiðum að líkjast, ef svo má að orði komast.  

Bjarni Jónsson, 26.7.2019 kl. 10:30

3 Smámynd: rhansen

Eg horfi nu bara með  skelfingar á þetta allt  ,nog finnst mer að hhugsa til eftir rigningalitið sumar  að hugsa um vatnskort og jafnframt rafmagsskort á Islnadi næsta vetur 

hvað þá annað og verra !  Takk fyrir góðan pistil Bjarni  Jónsson ..

rhansen, 26.7.2019 kl. 17:08

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ef Landsreglarinn fær að koma hér á fót markaðsstýringu raforkuvinnslunnar, þá verður vatnið í miðlunarlónunum ekki sparað til vorsins.  Þar sem verðið ákvarðast af framboði og eftirspurn, mun raforkuverð hækka mjög á útmánuðum, og meðalverðið verður vafalaust hærra en nú er.

Bjarni Jónsson, 26.7.2019 kl. 18:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband