Glámskyggni orkupakkasinna á Íslandi

Því er haldið fram í fúlustu alvöru í opinberri umræðu á Íslandi, að innleiðing Orkupakka #3 (OP#3) muni engu breyta fyrir Íslendinga, og síðan er hausinn bitinn af skömminni með því að bæta við, að OP#3 muni hins vegar miklu máli skipta fyrir Norðmenn.  Jafnvel iðnaðarráðherra, sem ætti að vita betur, heldur því blákalt fram, að OP#3 sé "bara" framhald af OP#2 í viðleitni ESB til að auka við neytendavernd.  Með þessum málflutningi hefur iðnaðarráðherra sett á svið leikverk fáránleikans og dæmt sig úr leik sem ábyrgur stjórnmálamaður, sem hægt er að treysta og taka mark á.  Væri henni og öðrum fylgispökum áhangendum OP#3 innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins nú hollast í sálarháska sínum að lesa vel og vandlega Morgunblaðsgrein Arnars Þórs Jónssonar, dómara, þann 27. júlí 2019, sem nefnist "Fullveldið skiptir máli", en þar er um að ræða sígild andmæli vel upplýsts og hugsandi manns við því ólýðræðislega ferli, sem EES-samningurinn býður upp á, og nú krystallast í stórmáli, OP#3. Meðferð stjórnvalda á þessu máli er í hrópandi mótsögn við réttlætistilfinningu þorra fólks og rótgrónar hugmyndir um lagasetningu í réttarríki, sem Arnar Þór rekur allt aftur til ársins 930.

Sú grundvallarbreyting frá OP#2 felst í OP#3 að stofnsetja Orkustofnun ESB, ACER, sem á að einbeita sér að eflingu millilandatenginga og fær til þess töluverðar valdheimildir, eins og lesa má um í skýrslu Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst og Stefáns Más Stefánssonar, og þær munu síðan aukast verulega með OP#4, eins og sést af minnisblöðum höfundar þessa pistils um OP#4 í viðhengi með honum.  

ACER fær líka völd innanlands, einkum yfir Landsneti, og yfir raforkumarkaðinum, sem á að laga að Innri markaði ESB.  Þá leiðir samþykkt OP#3 til stofnunar embættis Landsreglara ("National Energy Authority") undir stjórn ACER/ESA, sem verður algerlega óháður íslenzkum yfirvöldum og hagsmunaaðilum, en verður samt æðsta yfirvald raforkumála í landinu og tekur við mörgum skyldum Orkustofnunar og Iðnaðarráðuneytis á orkumálasviði.

Meginskyldur Landsreglara verða 2 samkvæmt OP#3:

1. Að stuðla að myndun vel virks markaðar

2. Að ryðja öllum hindrunum úr vegi tengingar Íslands við Innri raforkumarkað ESB um sæstreng

1. skylda Landsreglara felur í sér, að markaðurinn mun stjórna allri raforkuvinnslu á Íslandi á grundvelli raforkuverðs, og vinnslufyrirtækin munu þá leitast við að hámarka tekjur sínar án tillits til þjóðarhagsmuna hvað þá neytendaverndar, sem felast í orkuöryggi, t.d. að koma í veg fyrir tæmingu miðlunarlóna að vetri áður en leysingar hefjast að vori, með samræmdri orkulindastýringu fyrir allt landið. Þetta kerfi verður síður en svo neytendavænt, því að hér mun strax  myndast seljendamarkaður, eins og við sjáum þegar glitta í, þar sem orkuvinnslufyrirtækin munu stýra framboðinu m.v. að hámarka tekjur sínar.  Það er mikil glópska og/eða yfirdrepsskapur að halda því fram, að Landsreglarinn muni auka hér neytendavernd. Slíkt munu reynast hér alger öfugmæli.  (Kjósendur iðnaðarráðherra þurfa endilega að fá skýringu á þessari gerð neytendaverndar beint frá henni sjálfri.)  

2. skylda Landsreglarans mun án vafa leiða til lagningar aflsæstrengs til útlanda innan áætlaðs tíma fyrir Ice-Link á forgangsverkefnaskrá ESB um millilandatengingar, sem er 2027.  

Viðskiptahugmyndir, sem hingað til hafa verið viðraðar um aflsæstreng, þ.e. annaðhvort að virkja framleiðslugetu 5-10 TWh/ár fyrir stöðugan útflutning um einn eða tvo sæstrengi eða að virkja lítið og flytja út afgangsorku á dýrum tímum í Evrópu, eru orðnar úreltar með orkustefnu ESB og innleiðingu OP#3-4 á Íslandi. Hvernig víkur því við ?

Raforkuvinnsla með vindmyllum í Evrópusambandinu nemur nú um 13 % af heildar raforkuvinnslu þar, og markmið ESB er 28 % árið 2030 og enn meir árið 2050, þegar ESB ætlar að verða kolefnishlutlaust.  Af því að vindmyllur (og sólarhlöður) framleiða raforku slitrótt af náttúrulegum ástæðum, sárvantar ESB afl úr umhverfisvænum orkulindum til að fylla í skarðið að deginum, þegar lygnt er.  Hugmyndin er sú, að Noregur og Ísland, "die umweltfreundliche, europäische Batterien", hjálpi til við að fylla upp í þetta skarð, þótt meira þurfi þar til að koma, og þar munu vatnsorkuver meginlands Evrópu þjóna veigamiklu hlutverki eftir gríðarlega aukningu vélaafls þeirra.  

Til þess að Ísland geti tekið þátt í þessum leik, þarf að auka aflgetu íslenzkra virkjana feiknarlega, a.m.k. að tvöfalda uppsett afl í núverandi virkjunum og virkja fleiri vatnsföll með aflgetu í yfirstærð, svo að virkjanirnar geti sent frá sér miklu meira afl í nokkrar klukkustundir í senn en svarar til mögulegs meðalafls í virkjun vegna takmarkaðs miðlunarforða vatns.  Jarðgufuverin henta rekstrarlega illa í þetta, því að þau eru tregstýranleg og þurfa að mestu fast álag til að virka vel.  Þessi rekstrarháttur vatnsorkuvera er umhverfislega mjög gagnrýniverður hérlendis.   

Til þess að þessar hugmyndir hugmyndafræðinga ESB á orkusviði raungerist, þarf að auka mjög fjárhagslegan styrk og fjárfestingarlöngun vatnsorkufyrirtækja í eigu ríkisins.  Þar er kominn grundvöllurinn að ásókn Evrópusambandsins í einkavæðingu vatnsorkuveranna.  Til að efla þennan fjárfestingarþrótt enn meir á Íslandi, mun ACER/Landsreglari sennilega beita sér fyrir uppskiptingu Landsvirkjunar, svo að erlendir fjárfestar fái hér enn meira svigrúm til að fjárfesta í vatnsorkuverum.  Til þess þarf ekki annað en kæru til ESA um brot á samkeppnisviðmiðunum ESB (allt of stór markaðshlutdeild). Með uppskiptingu Landsvirkjunar rýkur öll viðleitni til orkulindastýringar í þágu orkuöryggis og sanngjarns raforkuverðs fyrir neytendur út í veður og vind.

Vatnsréttindin og vatnsorkuvirkjanir verða boðin út á EES-markaðinum til að brjóta einkavæðingunni leið.  Þjóð, sem telur tæplega 0,4 M manns, mun ekki hafa roð við tæplega 500 M manns á þessum frjálsa markaði.  Vatnsorkuvirkjanirnar munu hver á fætur annarri lenda í eigu erlendra stórfyrirtækja á sviði raforkuvinnslu.  Þau munu halda sínum réttindum í 30 ár, og ávöxtunarkrafa þeirra verður miklu hærri en nú tíðkast í raforkuvinnslu á Íslandi. 

Fjárfestingarþörfin verður gríðarleg, og Landsnet verður jafnframt skyldað til að leggja öflugar loftlínur frá virkjununum og niður að lendingarstað sæstrengjanna. Þetta stendur svart á hvítu í OP#4, en OP#3 er eins konar bráðabirgða útgáfa af honum.  Raforkuverð á Íslandi hækkar óhjákvæmilega upp í evrópskt verð (verð umhverfisvænnar orku í Evrópu að frádregnum flutningskostnaði).  Hið sárgrætilega er, að þetta verður allt hægt að gera í óþökk þjóðarinnar á grundvelli lögleiðingar orkupakkanna frá ESB.  Þar á bæ sitja menn ekki auðum höndum undir forystu Martins Selmayr, aðstoðarmanns forseta Framkvæmdastjórnarinnar, sem stjórnar Evrópusambandinu með harðri hendi frá degi til dags. Það er þjóðhættuleg glámskyggni fólgin í því að yppa öxlum, brosa í sjónvarpsmyndavélina og segja við fréttamenn, að OP#2 sé bara "eðlilegt" framhald á OP#3, sem við verðum að innleiða út af EES-samningnum.  Þetta er líklegast ljótasta nauðhyggja valdamanna, sem sézt hefur á Íslandi frá landnámi. 

Lítum á eina hlið umhverfisþáttar þessa máls.  Slík slitrótt sala raforku til Evrópu þýðir mjög ójafna miðlun úr lónum hér, sem geta þá farið frá hraðri lækkun vatnsyfirborðs og upp í hækkun að nóttu, þegar borgar sig að kaupa rafmagn til landsins við þessar ömurlegu aðstæður.  Slíkt er vafalaust ekki hollt fyrir lífríkið þar og bakka lónanna, en verst verður það fyrir lífríki ánna og getur reynzt fólki, sem nytjar árnar neðan miðlananna, skeinuhætt. 

Snögg minnkun  vatnsrennslis þurrkar upp bakka og eyrar og veldur hæglega fiski- og seiðadauða.  Klakar geta að vetri botnfrosið, stækkað síðan ört, beint vatnsrennslinu að mótlægum bakka og sorfið hann þá illilega, svo að til landskaða horfi.  Sömuleiðis getur klaki brotnað, farið af stað og myndað klakastíflur.  Afleiðingin getur orðið rennslistruflanir inn í virkjanir og stórflóð að vetri yfir tún og annað gróðurlendi.  Þessi ójafni rekstrarháttur íslenzkra virkjana hentar þess vegna afkaplega illa og ber að forðast hérlendis, en það er engin von til þess, að stjórnendur orkumála ESB, ACER og Landsreglarinn á Íslandi taki nokkurt tillit til þess, þegar baráttan við loftslagsvána og orkuöryggi Evrópu eru annars vegar. Landsmenn geta maldað í móinn, en meira geta þeir varla gert, og geta þeir þakkað glámskyggnum þingmönnum sínum það að verðleikum, sem lögðu blessun sína yfir Orkupakka #3.  

Eina ráðið til að koma í veg fyrir þessa martröð er að fella OP#3 á Alþingi og vísa málinu þar með í samningaferli í Sameiginlegu EES-nefndinni. 

 

  

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Snilldarpistill hjá þér Bjarni.

Það er stór spurning hvað veldur þessu ólæsi þeirra sem komast

á þing og algjörum skorti á dómgreind.

Það hlýtur að vera eitthvað í vatninu á þingi sem veldur þessum.

Allavega hefur bjórinn á klaustri ekki þessar alvarlegu afleiðingar..:)

Sigurður Kristján Hjaltested, 29.7.2019 kl. 13:32

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Sigurður;

Það er gaman, að þú skulir kunna vel að meta pistilinn.  Blessaðir þingmennirnir ættu nú að fara að hugsa sinn gang og brjótast undan oki utanríkisráðherra, sem álpaðist til að pukrast við að skrifa undir OP#3 í Sameiginlegu EES-nefndinni 5. maí 2017.  Vegna pukursins varð enginn til að vara hann við, og hann hafði bara eigin búrókrata og aðra slíka í Brüssel til að styðjast við.  Það er náttúrulega engin vitglóra í að leika sér þannig með fjöregg þjóðarinnar.  Þetta voru mistök, sem þingið hefur tækifæri til að leiðrétta.  Láti þingmenn það ógert, nú þá munu þeir bíta úr nálinni með það. 

Bjarni Jónsson, 29.7.2019 kl. 18:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband