ESB leggur áherzlu á einkavæðingu vatnsorkuvera

Sérstakt og samstillt átak er nú í gangi hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) og spegilmynd hennar EFTA-megin, ESA, til að sá hluti virkjanageirans í EES, þar sem ríkiseign virkjana er mest áberandi, vatnsorkuverin, hverfi sem mest úr ríkiseign og einkaframtakið fái tækifæri á jafnréttisgrundvelli að bjóða í þessi vatnsréttindi, þegar þau renna út, og hefur þá verið miðað við stuttan tíma samanborið við endingartímann eða 30 ár. Eigendaskipti af þessu tagi og stytting bókhaldslegs afskriftatíma ein og sér eru til þess fallin að hækka raforkuverð frá þessum virkjunum, en ESB fórnar þarna neytendaverndinni á altari vaxandi fjárfestingarþarfar vegna endurnýjanlegra orkulinda.  Stækkun vatnsorkuveranna hangir á spýtunni.  

Tvennt vakir fyrir ESB-mönnum í þessu sambandi.  Í fyrsta lagi að framfylgja orkustefnu ESB, sem m.a. kveður á um frjálsa samkeppni í raforkuvinnslunni án nokkurra ríkisafskipta.  Í öðru lagi að fá aukið fjármagn inn í eignarhaldsfélög vatnsorkuveranna til að fjárfesta í stækkun orkuveranna, sérstaklega að stórauka þar uppsetta aflgetu, sem sé þess þá umkomin að fylla upp í framleiðslulægðir endurnýjanlegrar orku, sem valda aflskorti á virkum dögum á meginlandi Evrópu, sem nú þarf að bæta upp með rafafli frá orkuverum knúnum jarðefnaeldsneyti.  

 

Í júlí 2018 birtist fróðleg grein í "Le Monde diplomatique" um baráttu Frakka við framkvæmdastjórn ESB út af útboði á vatnsréttindum.  Hún hét:

"Baráttan um vatnið" og í undirfyrirsögn stóð:

"ESB krefst þess, að Frakkland skapi samkeppni um vatnsaflið.  Opinber rekstur á vatnsorkulindum Frakklands hefur lengi verið kostur fyrir hagkerfi landsins og náttúruna.  Nú hefur ESB ákveðið, að vatnsorkulindirnar verði einkavæddar."

Þessi barátta Frakka við framkvæmdastjórn ESB hefur tekið á sig mynd verkfallshótana og verkfalla starfsmanna vatnsorkuvera til að knýja stjórnvöld til að standa í lappirnar gagnvart Framkvæmdastjórninni.  Líklegt má telja, að hún vísi nú þessum ágreiningi til ESB-dómstólsins.  Dómur hans mun vísa EFTA-dómstólinum veginn, ef/þegar hann fær sams konar deilumál norsku ríkisstjórnarinnar og ESA til úrskurðar.  Ekki er vitað til, að íslenzka ríkisstjórnin hafi gert nokkurn ágreining við ESA út af bréfi þessarar Eftirlitsstofnunar EFTA, dags. 20. apríl 2016 til Íslands.  Er slíkt ráðleysi og sofandaháttur með miklum eindæmum.  

Électricité de France (EdF) var stofnað við þjóðnýtingu raforku- og gasvinnslunnar í Frakklandi 1946. Frá 10. áratuginum hefur verið dregið úr veldi fyrirtækisins með lögum frá Brüssel, sem innleidd eru í París.  Árið 1993 samþykkti ríkisstjórn jafnaðarmannsins Pierre Bérégovoy s.k. Sapin-lög að kröfu Brüssel, sem takmörkuðu gildistíma virkjunarleyfa, og innfærði jafnframt kröfuna um útboð og samkeppnisvæðingu geirans. 

Árið 2004 varð EdF hlutafélag, og það gat þá í raun ekki lengur forðazt samkeppni, þegar virkjanaleyfi rann út, en allt þar til nú hefur samt verið komið í veg fyrir einkavæðingu vatnsorkuvera í Frakklandi með mismunandi hætti.

Þann 22. apríl 2010 tilkynnti þáverandi umhverfis- og orkuráðherra, Jean-Louis Borko, að 51 útrunnið virkjanaleyfi, sem jafngiltu 20 % af frönskum vatnsorkuverum, skyldi endurnýja með útboði.  Ríkisstjórn Francois Fillons tvísté á milli skipana frá Brüssel og harðrar andstöðu verkalýðsfélaga starfsmanna EdF, og bauð virkjanaleyfin aldrei út.  "Nicolas Sarkozy og Francois Fillon efndu ekki loforð sitt við framkvæmdastjórn ESB um að opna lúgurnar fyrir frjálsri samkeppni í staðinn fyrir að fá að stýra raforkuverðinu áfram", sagði Marc Boudier, formaður Félags óháðra franskra raforku- og gasvinnslufyrirtækja, Afieg; stærsti þrýstihópur orkugeirans með mörg dótturfyrirtæki stórra evrópskra orkusamstæðna innan sinna vébanda. Það er algerlega í blóra við orkustefnu ESB og lög um frjálsa samkeppni fyrir vörur (og þjónustu), að ríkið stýri raforkuverðinu, og sýnir, að París er á allt annarri bylgjulengd en Brüssel í þessum efnum. 

Umhverfisráðherrann 2012-2013, Delphine Batho, lagðist gegn markaðsvæðingunni og bætti við, að hún vildi halda í opinbert vatnsorkufyrirtæki (EdF).  Markaðsvæðingarmenn gerðu þegar gagnárás á hana.  Batho var tekin fyrir af Pierre Moscovski - sem nú er fjármálaframkvæmdastjóri ESB - og hætti við áhættusamt verkefni sitt um vissa þjóðnýtingu raforkuvinnslunnar.  Hún er nú þingmaður flokksins Génération Écologie, sem er umhverfisverndarflokkur.  Hún er þar formaður núna og gerir eftirfarandi athugasemd við aðgerðir frönsku ríkisstjórnarinnar í þessu máli undanfarin 20 ár. 

"Frakkland hefur ekki hafið báráttu, nema þá með hangandi hendi, fyrir því að varðveita opinbera stjórnun á vatnsorkunni.  Franska ríkið felur sig á bak við framkvæmdastjórn ESB, en það er það sjálft, sem er ábyrgt fyrir löggjöfinni, allt frá Sapin-lögunum."

Framkvæmdastjórnin krefst þess, að útrunnin virkjanaleyfi með "fljótandi gildistíma" (leyfin framlengjast sjálfvirkt) fyrir um 30 vatnsorkuver verði strax endurnýjuð á grundvelli útboðs.  Þann 7. maí 2018 lét hún 8 ríkisstjórnir ESB-landa vita formlega, að "bæði löggjöfin og framkvæmd hennar hjá frönskum og portúgölskum yfirvöldum brjóti í bága við ESB-réttinn".

Þann 22. október 2015 sendi Framkvæmdastjórnin frönsku ríkisstjórninni bréf, þar sem fram kom, að Framkvæmdastjórnin teldi, að viðhald óbreytts ástands skapaði ójafnræði á milli markaðsaðila varðandi aðgang að vatnsauðlindinni fyrir raforkuvinnslu, sem gefi EdF kost á að varðveita eða styrkja "... ríkjandi stöðu sína á raforkumarkaði Frakklands."

Fram að árinu 2023 mun 1/3 af frönskum leyfum fyrir vatnsorkuvirkjanir renna út, þ.e.a.s. fyrir 150 miðlunarlón.  Ráðherra grænna orkuskipta, Francois de Rugy, hefur gefið í skyn, að "í haust", þ.e. haustið 2018, muni markaðsvæðingin hefjast, en ríkisstjórnin gæti mætt miklum andbyr á þinginu, og það reyndust orð að sönnu.  Hubert Wulfranc frá franska kommúnistaflokkinum lagði 5. apríl 2018 fram þingsályktunartillögu, þar sem þess er krafizt, að ríkisstjórnin biðji framkvæmdastjórn ESB um að undanskilja vatnsaflið frá markaðsvæðingu, eins og Þýzkaland gerði eftir mikil mótmæli alþýðu þar í landi.  113 þingmenn af 577 frá öllum þingflokkunum skrifuðu undir þingsályktunina.  

"Hugmyndina um, að markaðsvæðing sé alltaf hagstæð, ber að endurskoða.  Það er mikilvægt, að þingið taki fast á vatnsaflsmálinu og hefji baráttu við Brüssel.  Landið verður að vakna", sagði Julien Aubert, varaformaður hins íhaldssama flokks "Lýðveldissinnanna", sem venjulega styður frjálsa samkeppni á markaði á flestum sviðum, á sameiginlegum blaðamannafundi ábekinga þingsályktunartillögunnar.

Þessi frásögn í "Le Monde diplomatique" er mjög athyglisverð og sýnir, að afstaða fólks til vatnsréttindanna er svipuð í Þýzkalandi, Frakklandi, Noregi og á Íslandi og áreiðanlega víðar.  Andstæðingar markaðsvæðingar afnotaréttar vatnsorkuauðlindarinnar koma bæði úr röðum frjálslyndra markaðssinna á flestum sviðum og kommúnista. 

Á Íslandi sannast þetta með markaðssinnana á sjálfstæðismönnum, en þeir eru flestir andvígir því að leiða orkustefnu ESB til öndvegis á Íslandi með innleiðingu hvers orkupakkans á fætur öðrum í landsrétt. Vilja þeir nú spyrna við fótum. Enn halda vinstri grænir sig við hrossakaupin, sem þeir gerðu við hina ríkisstjórnarflokkana, þar sem þeir skuldbundu sig til að styðja OP#3 gegn stuðningi við fóstureyðingafrumvarp Svandísar.  Til að bjarga sér fyrir horn verða þeir nú að gera hinum stjórnarflokkunum grein fyrir því, að þeir verði að hverfa frá stuðningi sínum við OP#3 í ljósi upplýsinga um orkustefnu ESB, sem leiðir til skefjalausrar einkavæðingar raforkuvinnslunnar.  Með svipuðum hætti ætti Framsóknarflokkinum að vera farið, ef allt er með felldu þar á bæ.burfellmgr-7340

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þökk sè þér, Bjarni, fyrir þessa þessa fræðandi snilldar-samantekt. Heill sé þér, varnarmaður landsins! Guð gefi þér og þjóðinni sigurinn.

Sorglegt var að sjá vanheilagt hrossakaupabandalag Valhallar og Vinstri grænna, á kostnað bæði ófæddra barna og þjóðarinnar í orkupakkamálinu. Tek undir kröfuna um riftun þeirra hrossakaupa!

Jón Valur Jensson, 1.8.2019 kl. 12:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband