7.9.2019 | 15:03
Lísa í undralandi orkunnar
Þær eru margar Lísurnar, sem hreiðrað hafa um sig í undralandi orkumálanna og tjá sig nákvæmlega samkvæmt því að vera staddar í gerviveröld embættis- og stjórnmálamanna, sem átta sig ekki á orkustefnu Evrópusambandsins (ESB) og orkulöggjöfinni, sem þeim er gert að innbyrða í sneiðum, s.k. orkupökkum.
Eina birtingarmynd þessa hugarheims gat að líta í Fréttablaðsgrein Bryndísar Haraldsdóttur, Alþingismanns sjálfstæðismanna í "Kraganum", 30. ágúst 2019,
"Betri raforkumarkaður":
Greinin hófst þannig:
"Frá gildistöku EES-samningsins árið 1994 hafa átt sér stað gríðarlegar breytingar og framfarir í orkumálum hér á landi."
Þessi hástemmda lýsing er rétt, en þessi þróun varð án atbeina EES-samningsins. Árið 1996 var hafizt handa við að reisa kerskála 3 og að stækka raforkukerfi ISAL fyrir hann og fleiri ofna í steypuskála. Samtímis hófst Landsvirkjun handa við Sultartangastöð, og í kjölfarið kom Norðurál og Vatnsfellsstöð. Árið 2007 var Fljótsdalsstöð, stærsta virkjun landsins, 690 MW, 5000 GWh/ár, tekin í notkun ásamt álveri Alcoa, Fjarðaáli, á Reyðarfirði.
Hafizt var handa við allar þessar virkjanir og viðreigandi flutningsmannvirki á grundvelli orkusölusamninga við engilsaxnesk fyrirtæki með heimilisfesti utan EES. Tollfrjáls aðgangur fyrir ál til ESB var þegar tryggður með viðskiptasamningi Íslands og ESB frá 1973, svo að EES-samningurinn kom ekkert við sögu þessa mikla framfaraskeiðs í iðnvæðingu Íslands. Það er alveg út í hött að tengja uppbyggingu íslenzka raforkukerfisins, sem nú er hið langstærsta m.v. íbúafjölda, við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Tiltölulega litlar fjárfestingar hafa komið þaðan hingað til, hvað sem síðar verður.
"Um leið og ný lög tóku gildi [2003], tók uppbygging raforkumarkaðar á Íslandi mið af reglum EES-svæðisins og um leið innri markaðar Evrópusambandsins og hefur gert allar götur síðan. Ákvörðun var tekin um, að vinnsla og sala raforku yrði í markaðskerfi, á samkeppnisgrundvelli - sem er í anda sjálfstæðisstefnunnar. Reglur voru settar um starfsemi orkufyrirtækja samhliða í því skyni að stuðla að aukinni samkeppni og koma neytendum til bóta [sic !?]."
Hér er frjálslega farið með sannleikann, svo að úr verður villandi texti fyrir þá, sem ekki vita betur. Reglur um markaðsfyrirkomulag, sem mælt er með í OP#2 og gilda á innri raforkumarkaði ESB, hafa enn ekki verið innleiddar á Íslandi. Landsreglarinn mun fá það sem eitt af sínum aðalverkefnum eftir innleiðingu OP#3, auk ákvörðunar gjaldskráa Landsnets og dreifiveitna, að innleiða hér markaðsstýringu raforkuvinnslunnar.
Með þessu fyrirkomulagi innri markaðarins bjóða framleiðendur tiltekið afl, MW, fyrir hverja klukkustund sólarhringsins, og notendur/smásalar bjóðast til að kaupa tiltekin MW á hverri klukkustund fyrir tiltekin verð. Þar sem framboðs- og eftirspurnarferlar skerast, ákveður markaðsstjórinn verðið. Seljendur, sem buðu hærra verð og kaupendur, sem buðu lægra verð, missa af viðskiptum í það skiptið.
Þetta fyrirkomulag verður skylt að innleiða samkvæmt OP#3, þótt það henti ekki alls kostar hérlendis. Með þessu fyrirkomulagi einskorðast starfsemi orkuvinnslufyrirtækjanna við að hámarka tekjur sínar, en enginn þarf að huga að afhendingaröryggi orkunnar, hvað þá, að nokkur sé ábyrgur fyrir því. Þannig er hætt við, að fyrirtækin tæmi lón sín, því að skammtímaviðhorf þeirra er að nýta allt sitt miðlunarvatn, á meðan verðið er hátt. Þetta getur komið harkalega niður á neytendum, því að tjón þeirra er margfalt meira en seljendanna vegna orkuskorts.
Hér þarf að sníða agnúana af óheftri markaðsstýringu orkukauphallarinnar til að verja neytendur tjóni vegna mistaka við innleiðingu, sem stafa af því, að horft er framhjá gjörólíku eðli íslenzka orkukerfisins m.v. orkukerfi meginlandsins. Þingmaðurinn hefur ekki orð á neinu af þessu í sinni grein, sem þó var bent á í aðdraganda samþykktar Alþingis á OP#3 og er fjallað um í skýrslu Orkunnar okkar frá 16.08.2019.
Hér skal fullyrða, að orkupakkarnir eru ekki "í anda sjálfstæðisstefnunnar" með vísun til Landsfundarsamþykkta, þótt þingmaðurinn fullyrði það út í loftið. Sem lægst og stöðugast raforkuverð ásamt áherzlu á afhendingaröryggi raforku, þ.e.a.s. orkulindastýring, er hins vegar í anda sjálfstæðisstefnunnar. Það staðfesti Jón Gunnarsson, Alþingismaður sjálfstæðismanna í Kraganum, í tímamótagrein sinni í Mogganum, 6. september 2019. Henni verða gerð betri skil á þessu vefsetri seinna.
Bryndís Haraldsdóttir vill líta á rafmagn sem vöru. Fyrir okkar aðstæður hérlendis er þá þjóðhagslega hagkvæmast að líta á rafmagnið sem hráefni, sem er nauðsynlegt til að framleiða flestar vörur og til að veita margháttaða þjónustu. Fyrir samkeppnishæfni á innanlands- og utanlandsmörkuðum er þá augljóslega lykilatriði, að meðalverðið sé sem lægst og verðsveiflur sem minnstar. Það er fullveldisréttur okkar að haga nýtingu og markaðssetningu náttúruauðlindanna eftir eigin höfði, en þurfa ekki að taka við fyrirmælum um það frá yfirþjóðlegu valdi. Yfirþjóðlegt vald á Íslandi hefur yfirleitt gefizt illa og er alger tímaskekkja nú á tímum. Skaðlegt inngrip erlends valds í orkuvinnslustýringu landsins er einmitt það, sem gerist við innleiðingu Landsnets og Landsreglara á markaðsstýringu raforkuvinnslunnar, eins og Evrópusambandið vill hafa hana, svo að Ísland verði aðlagað Innri markaðinum, ef/þegar sæstrengurinn kemur. Margir munu verða hundóánægðir með virkni þessa kerfis og telja sig bíða tjón af. Af þeim sökum má búast við málaferlum, e.t.v. hópmálssókn á hendur Landsreglaranum, sem á þessum ósköpum ber ábyrgð.
"Nú er komið að þeim þriðja [orkupakka], sem enn byggir á hugmyndinni um raforkumarkað, þar sem neytendur hafa valfrelsi. Að baki þriðja orkupakkanum búa sjónarmið um hvata til hagræðingar innan raforkugeirans, að raforkukaupendum sé tryggt samkeppnishæft raforkuverð, betri þjónusta og stöðugri og öruggari afhending rafmagns. Þá er í þriðja orkupakkanum einnig að finna ákvæði um neytendavernd með það að markmiði að bæta og samþætta samkeppnishæfa raforkumarkaði innan EES."
Af þessum texta er ljóst, að þingmaðurinn, höfundur greinarinnar, er að lýsa áhrifum innleiðingar OP#3 á meginlandinu, en hún hefur ekki hugmynd um, að áhrifin verða allt önnur og miklu verri af innleiðingu hans í umhverfi, sem hann er ekki sniðinn fyrir. Hún og hinir 45 þingmennirnir, sem samþykktu þessa innleiðingu, eru með samþykktinni að leggja miklar byrðar á landsmenn. Þeir voru varaðir við því í aðdragandanum og eiga sér þess vegna engar málsbætur.
Í skýrslu Orkunnar okkar, 16.08.2019, er sýnt fram á, að raunhækkun raforkukostnaðar fjölskyldna á tímabilinu 2003-2018 nemur 7 %-8 % á hverja kWh. Á sama tímabili lækkuðu skuldir orkugeirans sem heildar, og þess vegna hefði átt að verða raunlækkun raforkukostnaðar, en ekki hækkun, ef allt væri með felldu. Byrðar fjölskyldna og atvinnulífs af OP#1-2 nema líklega 10 %- 20 % af rafmagnskostnaði, og byrðarnar munu margfaldast með OP#3 vegna gjaldskrárhækkana af völdum Landsreglarans, eins og orðið hafa t.d. í Svíþjóð, og af orkuverðshækkunum, sem tíundaðar eru hér að ofan.
Þessar verða afleiðingarnar fyrir almenning, þegar ríkisstjórn og Alþingi vita ekki, hvað felst í viðamikilli erlendri löggjöf, sem verið er að lögleiða hér.
Til að sýna lesendum, hversu gjörsamlega þingmenn geta verið úti á þekju, er hér birt niðurlag greinarinnar, sem hér hefur verið til umfjöllunar:
"Öflugur raforkumarkaður er mikilvægur íslenzkum heimilum, og er þriðja orkupakkanum ætlað að styðja enn frekar við þá góðu vegferð, sem við erum á. Andstæðingar þriðja orkupakkans hafa ekki rökstutt heimsendaspár sínar um glötuð yfirráð yfir íslenzkum auðlindum, enda eiga spádómarnir ekki við rök að styðjast."
Þessi málflutningur er óboðlegur frá þingmanni í utanríkismálanefnd, þar sem umfjöllun orkupakka hefur verið einna mest, en hann er ekki einsdæmi úr þeim ranni. Orkupakkarnir hafa ekki gagnazt heimilunum, heldur hafa þeir orðið þeim fjárhagsleg byrði, og keyrt getur um þverbak með OP#3. Dæmi um skert fullveldi yfir orkulindunum er einmitt, það sem minnzt er á hér að ofan, að sennilega mun Landsreglarinn, sem mun starfa hér sem ríki í ríkinu, ekki leyfa að aðlaga markaðsstýringu raforkuvinnslunnar að íslenzkum aðstæðum með því að heimila beitingu orkulindastýringar, þegar nauðsyn krefur, því að slíkt trufli frjálsa samkeppni á milli orkuvinnslufyrirtækjanna.
Það er fremur óvarlegt af þingmanninum að fullyrða, að reynslan muni afsanna varnaðarorð efasemdarmanna um OP#3. Þvert á móti bendir reynslan frá öðrum löndum, sem innleitt hafa OP#3, ekki sízt vatnsorkulöndum, til þess, að miklar væringar séu framundan, þar sem hlaupa mun á snæri efasemdarmanna. Nægir að nefna deilur Framkvæmdastjórnarinnar út af úthlutun ríkisins á orkunýtingarleyfum vatnsréttinda til ríkisfyrirtækja, bréf ESA sama efnis til ríkisstjórna Íslands og Noregs, og stefnu Framkvæmdastjórnarinnar gagnvart ríkisstjórn Belgíu fyrir ESB-dómstólnum. Þar er um óleyfilega takmörkun á valdsviði Landsreglara að ræða, þótt annað form sé á valdtakmörkuninni en hérlendis. Einnig er líklegt, að tiltektir Landsreglarans muni mælast illa fyrir, eins og reynslan frá Svíþjóð sýnir. Stjórnarliðar, nema Ásmundur Friðriksson, og aðrir samþykkjendur OP#3 eiga því ekki náðuga daga framundan fram að næstu Alþingiskosningum, ef að líkum lætur.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.