Skrýtin afstaða þingmanna til orkumálanna

Í Morgunblaðinu 2. september 2019 gat að líta skoðun nokkurra þingmanna á umræðunum um Orkupakka #3 (OP#3) undanfarið. Sínum augum lítur hver á silfrið, og ástæða er til að staldra við eitt dæmi:

"Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks, segir ekkert hafa komið fram undanfarið, sem gefi tilefni til annars en málið verði samþykkt, eins og stefnt hafi verið að.  Birgir telur, að umræða um stefnumótun í orkumálum haldi áfram í framhaldinu.  "Mörg af þeim atriðum, sem andstæðingar orkupakkans hafa haldið á lofti, tengjast annarri stefnumótun en þeirri, sem felst í þriðja orkupakkanum sjálfum", segir hann og nefnir, að þar sé t.d. ekki fjallað um eignarhald á orkuauðlindum og -fyrirtækjum og ekki um lagningu sæstrengs."

Með samþykkt Alþingis á OP#3 er Ísland gengið í Orkusamband Evrópu (Energy Union of Europe), sem stjórnað er af framkvæmdastjórn ESB.  Þar með hefur Alþingi gert orkustefnu ESB að orkustefnu Íslands varðandi rafmagn (ekki jarðgas).  Þeir þingmenn (stjórnarliðsins) eru að vísu til, sem halda því fram, að Orkusamband Evrópu sé ekki til, en þeir ættu að kynna sér málin betur áður en þeir túðra út í loftið:

Orkusamband .

Í orkustefnu ESB er kveðið á um, að öll aðildarlöndin skuli tengjast Innri orkumarkaðinum.  Á honum fara viðskipti fram í orkukauphöllum, og þess vegna þarf Ísland að taka upp markaðsstýringu raforkuvinnslunnar með kostum hennar og göllum. Það verður að aðlaga íslenzka raforkumarkaðinn að t.d. Nord Pool, áður en hann tengist Innri markaði ESB fyrir raforku.  Þannig er ekkert val um það, hvort markaðurinn eða t.d. hagsmunir notenda m.t.t. orkuöryggis eiga að ráða ferðinni.  Það er þó fullveldisréttur Íslands að ráða þessu, en hann er brotinn með OP#3. Ekkert hefur sézt frá lagaspekingum um þessa hlið fullveldisframsals til  ESB með innleiðingu OP#3. Þetta skapar lagalega óvissu (hættu á málshöfðunum) við þá framkvæmd.

Til þess að tryggja "frelsin fjögur" í framkvæmd á þessum markaði vill ESB ganga úr skugga um, að ríkisvaldið hygli ekki fyrirtækjum sínum á þessum markaði.  Í því skyni er í raun reynt að ýta ríkisfyrirtækjum út af þessum markaði og reynt að fá einkafyrirtæki inn á hann í staðinn.  Þar með eru líkur á, að fjárfestingarvilji í þessum geira aukist, sem er talið einkar mikilvægt varðandi vatnsorkulindina, því að vatnsorkuver geta "spilað" mjög vel með vindorkuverum, sem eru uppistaðan í orkuverum Evrópu án koltvíildislosunar.  Til þess þarf hins vegar að auka mjög uppsett afl vél- og rafbúnaðar í vatnsorkuverunum, sem útheimtir mikið fé.

Við þessar aðfarir beita Framkvæmdastjórnin og ESA þremur gögnum fyrir sig gagnvart Noregi, þ.e. þjónustutilskipun 2006/123/EB, tilskipun um opinber innkaup nr 2014/23/EB og ákvæðum um athafnafrelsi í sáttmálanum um virkni ESB, TFEU, gr. 49 og 56.  Þessum gögnum er hægt að beita gegn EFTA-löndunum á grundvelli EES-samningsins, en OP#3 kemur þar ekki sérstaklega við sögu. Gagnvart Íslandi var hins vegar beitt EES-samninginum, gr. 61(1) um bann við ríkisaðstoð við fyrirtæki á samkeppnismarkaði og tilskipun 2000/60/EB, sem er hluti af EES-samninginum og var innleidd hér með vatnsnýtingarlögum nr 36/2011. Verður nánari grein gerð fyrir úrskurði ESA nr 075/16/COL um brot á ákvæðinu um bann við ríkisaðstoð við úthlutun orkunýtingarréttinda í vefpistli síðar. Þar kemur fram grundvallarmunur á afstöðu íslenzkra og norskra stjórnvalda til þessara mála. 

Því er haldið fram, að þessi barátta Framkvæmdastjórnarinnar og ESA jafngildi ekki kröfu um einkavæðingu vatnsorkuvirkjana. Það er hálmstrá þeirra, sem ríghalda vilja í EES-samninginn, hvað sem tautar og raular. Í reynd fara þessar stofnanir þó fram á útboð á orkunýtingarleyfum vatnsréttinda ríkisins til um 30 ára í senn innan ESA, svo að allir sitji við sama borð og markaðsverð fyrir réttindin séu tryggð. 

Allir sjá, að íslenzk fyrirtæki standa höllum fæti á þeim markaði, einnig hin öfluga Landsvirkjun, gagnvart erlendum risum í orkuvinnslugeiranum.  Afleiðingin verður, að nýtingarrétturinn til 30 ára og þar með viðkomandi virkjun lendir hjá fjársterkum erlendum  einkafyrirtækjum. Slíkt er óviðunandi fyrir Íslendinga, og þessar aðfarir stríða sennilega gegn Stjórnarskrá, því að þær eru þvingaðar fram af erlendu valdi. Þessi erlendu fyrirtæki gætu sótzt eftir að margfalda uppsett afl viðkomandi virkjana, þegar búið væri að tryggja tengingu Íslands við Innri markaðinn.  Auðvitað þyrftu þau leyfi Orkustofnunar og fleiri stofnana til þess, en eftir samþykkt OP#3, svo að ekki sé minnzt á "Hreinorkupakkann"-HP (OP#4), munu íslenzk yfirvöld lenda í miklu stímabraki við ESA og jafnvel fjárfestana, sem kann að enda fyrir EFTA-dómstólinum, ef þau ætla að standa í vegi fyrir leyfisveitingum til fjárfestinga í endurnýjanlegum orkulindum.    

Það er einkennilegt af Birgi Ármannssyni að segja, að OP#3 fjalli ekki um sæstreng, þótt "submarine cable" komi kannski ekki upp í leitarvélinni hans.  OP#3 fjallar að mestu leyti um regluverk fyrir uppbyggingu og rekstur innviða til samtengingar landa við Innri markaðinn.  Það eru svo miklar yfirþjóðlegar heimildir í OP#3 til að greiða götu fjárfesta í millilandatengingum, að ólíklegt má telja, að íslenzka ríkið geti staðið í vegi slíks, ef verulegur áhugi er fyrir slíku innan ESB, eins og greinilega kom fram hjá fjölda íslenzkra lögfræðinga í umræðunni í aðdraganda innleiðingar á OP#3.    

Hér mun ákæra Framkvæmdastjórnarinnar á hendur belgísku ríkisstjórninni 25.07.2019 fyrir að taka til sín endanlegt ákvörðunarvald um m.a. tengingu belgíska flutningskerfisins við útlönd verða prófmál fyrir Ísland.

Ráðuneytin UTR og ANR halda því samt fram, að engin líkindi séu með belgísku og íslenzku innleiðingunni.  Að forminu til er það rétt, en að inntakinu til eiga þessar innleiðingar aðalatriðið sameiginlegt, þ.e. að draga úr völdum Landsreglara í blóra við það, sem fyrirskrifað er í OP#3. ESB-dómstóllinn setur EFTA-dómstólinum fordæmi.  Þess vegna veltur á mjög miklu fyrir Ísland, hvernig dómur ESB-dómstólsins fellur.  Lítilla tíðinda er að vænta af þessum vettvangi fyrr en eftir þann dóm, e.t.v. 2020. 

Því miður virðast þingmenn reiða sig á matreiðslu ráðuneytanna á öllum hliðum þessa orkupakkamáls.  Glöggskyggni ráðuneytisfólks hefur þó reynzt alvarlega ábótavant varðandi Evrópuréttinn, eins og "kjötmálið" sýnir, þar sem Alþingi samþykkti regluverk ESB á landbúnaðarsviði með fyrirvara, sem reyndist "húmbúkk", einskis virði, og varð landsmönnum rándýr.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Kristinsson

Blessaður Bjarni!

Mjög góð úttekt Hjá þér! Við Búum við stjórn leysi.Vegirnir eru að molna niður undan þungaflutningunum, á meðan er mokað inn í landið óþurftarfólki sem kostar svo mikið að því verður að halda LEYNDU.

Leift er að drepa hreinkýrnar frá kálfunum sem að lifa ekki af.

Vonandi fer eins fyrir ríkisstjórninni og kálfunum.

Óskar Kristinsson, 14.9.2019 kl. 20:29

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þegar stjórnendur reynast ekki starfi sínu vaxnir, má hiklaust halda því fram, að stjórnleysi ríki.  Það höfum við séð í orkumálunum, í umferðarmálunum, og þegar Mannréttindadómstóllinn, neðri deild, tjáði sig um veitingu dómaraembætta við Landsrétt.  Það var engin ástæða til að láta Sigríði Andersen fá reisupassann út af því máli, því að Hæstiréttur Íslands hafði dæmt öðruvísi, og hann gildir á Íslandi (sem betur fer).

Bjarni Jónsson, 14.9.2019 kl. 22:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband