Fjaðrafok út af ECT

Það varð töluverður ys og þys út af engu í viku 38/2019, þegar vefmiðill nokkur tók af óþekktum ástæðum að bera saman alþjóðlegan sáttmála, "Energy Charter Treaty" og Orkupakka 3 (OP#3).  Eins og sjá má í viðhengi með þessari vefgrein, er þarna ólíku saman að jafna.  

Engu var líkara en með þessu upphlaupi hafi átt að koma höggi á Miðflokkinn vegna þess, að formaður og varaformaður hans gegndu stöðum forsætisráðherra og utanríkisráðherra, þegar Ísland gerðist aðili að þessum alþjóðlega sáttmála, þar sem jafnvel Sviss á aðild.  Potturinn og pannan í þessu máli hefur hins vegar væntanlega verið fagráðherrann, ráðherra orkumála, iðnaðarráðherrann Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra Sjálfstæðisflokksins.  

Utanríkisráðherra kemur hins vegar að öllum slíkum samningum við erlend ríki, og hann undirritaði fyrir Íslands hönd, og dr Ólafur Ragnar Grímsson, fullgilti þennan samning.  Það er athyglisvert í þessu sambandi, að Norðmenn, sem búa yfir gríðarlegum orkulindum, eru aðilar að samninginum, en hafa enn ekki fullgilt hann.

Það er jafnframt athyglisvert, hversu litla þinglega meðferð samningar af þessu tagi fá.  Látið er duga að kynna mál, sem ekki þarfnast lagabreytingar og ekki fela í sér fjárhagsskuldbindingar, í utanríkismálanefnd, ef þá svo mikið er viðhaft.  Leikmanni virðist eðlilegra, að samnin sé þingsályktunartillaga og fjallað um hana í þinginu, en Skrifstofa Alþingis hefur staðfest, að við afgreiðslu ECT var alls ekki brugðið út af vananum, eins og þó hefur verið látið liggja að. 

Hvers vegna var talið rétt, að Ísland gerðist aðili að ECT ?  Líklegast er, að þrýstingur hafi verið á það að hálfu íslenzkra fyrirtækja, sem stunda fjárfestingar, rannsóknir, ráðgjöf og verktöku, utan EES, t.d. í Þriðja heiminum, svo kallaða, þar sem eignarréttur og lagarammi um framkvæmdir er með öðrum hætti en hérlendis.  Íslenzk fyrirtæki hafa t.d. stundað starfsemi í Afríku og Asíu á sviði jarðhitanýtingar, og þeim gæti gagnazt ECT, ef í harðbakka slær.

ECT var vissulega hugsaður til að hvetja til orkuflutninga yfir landamæri, eins og OP#3, en lengra nær samanburðurinn ekki.  Það er fátt annað sameiginlegt með þessum tveimur gjörningum, og þess vegna fánýtt að taka að sér að bera saman þessa tvo gjörninga.  Annar er sáttmáli jafnrétthárra þjóða um fjárfestingar í orkugeiranum og meðferð ágreiningsmála, sem þær kunna að leiða af sér, en hinn er samningur með yfirþjóðlegu sniði, þar sem víðtæk völd eru veitt embætti (Landsreglara), sem fært er undir ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) og ACER - Orkustofnun ESB, sem er undir stjórn Framkvæmdastjórnar ESB, sjá nánar viðauka með þessum pistli.   

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband