Stefna SI um raforku - rýni II

Í skýrslu Samtaka iðnaðarins - SI um raforkumál frá 16.10.2019 er næst á eftir Innganginum gerð grein fyrir "Stefnu Samtaka iðnaðarins á sviði raforkumála".  Hún er í 11 liðum, og verður hér fjallað um hvern fyrir sig:

  1.  "Raforka framleidd á Íslandi sé nýtt til verðmætasköpunar innanlands, því [að] öflugur iðnaður er undirstaða búsetu og verðmætasköpunar." - Þetta er alveg rétt, en í skýrslunni hefðu þurft að koma fram útreikningar, sem sýna, að andstæðan, útflutningur rafmagns um sæstreng, verður fyrirsjáanlega ekki þjóðhagslega hagkvæmur. Nú er komið í ljós, að verðlagning OR á heitu vatni og rafmagni er framleiðslufjandsamleg í samanburði við verðlagninguna í Noregi og Hollandi, en rafmagnsverðið til garðyrkjustöðvar í Reykjavík er 65 % hærra en til garðyrkjustöðvar í Noregi samkvæmt viðtali við garðyrkjubóndann í Lambhaga í Reykjavík í Bændablaðinu 07.11.2019.  Þetta sýnir tvískinnunginn hérlendis í umræðunni um losun gróðurhúsalofttegunda, því að afleiðing óskynsamlegrar orkuverðlagningar er tilfinnanlegur missir markaðshlutdeildar íslenzkra framleiðenda hérlendis. 
  2. "Horft verði til arðsemi af framleiðslu og flutningi raforku á Íslandi í víðu samhengi, ekki eingöngu út frá hagsmunum einstakra orkufyrirtækja, heldur þjóðarbúsins í heild." Þetta er gríðarlega mikilvægt, að hljóti brautargengi sem þáttur í orkustefnu hins opinbera núna, þegar Landsvirkjun predikar hámörkun á arðsemi orkulindanna til að réttlæta gríðarlegar og óverjandi hækkanir til iðnaðarins.  Það er forkastanlegt, að ríkisfyrirtæki skuli komast upp með svo þröngsýna stefnu, sem aðeins miðar við að hámarka arðgreiðslur í "þjóðarsjóð", sem vilji er innan ríkisstjórnarinnar til að stofna.  Langþráð eigendastefna Landsvirkjunar verður að vinda ofan af þessari sérvizku forstjórans, sem hlýtur þó að njóta stuðnings stjórnar Landsvirkjunar, en hver er stefna iðnaðarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra ?  Af hverju láta þau það viðgangast árum saman, að stefna Sjálfstæðisflokksins frá stofnun Landsvirkjunar 1965 um að gera raforkusölusamninga til langs tíma, sem báðir mættu vel við una, sé fótum troðin af manni, sem ráðinn var að Landsvirkjun 2010 í valdatíð Steingríms J. Sigfússonar sem "yfirráðherra" vinstri stjórnarinnar 2009-2013 ? Þessi maður hafði aldrei að orkumálum komið, en tjáð sig opinberlega með neikvæðum hætti um orkusækinn iðnað í tíma og ótíma.
  3. "Samkeppnishæft raforkuverð í alþjóðlegu samhengi sé tryggt vegna þess mikilvæga ávinnings, sem hlýzt af raforkunýtingu í fyrirtækjum á Íslandi." Hér þarf að taka fram, hvaða "alþjóðleg[a] samhengi þetta er. Fyrir flest iðnfyrirtæki er það væntanlega Innri markaður EES, en einnig Bandaríkin, Rússland, Asía o.fl. Fyrir álverin er samkeppnisumhverfið t.d. Persaflóaríkin og Kína, því að íslenzk álver keppa á mörkuðum við álver þaðan. Orkuverð til þeirra er lægra en það, sem orðið hefur ofan á við framlengingu orkusamninga Landsvirkjunar.  Ætti það að klyngja aðvörunarbjöllum, því að allir aðrir kostnaðarliðir eru jafnframt lægri, nema fyrir kælivatnið. Landsvirkjun er í einokunarstöðu, þegar kemur að framlengingu orkusamninga og hefur ekki sýnt næga ábyrgðartilfinningu í þeirri stöðu m.t.t. langtímahagsmuna landsins. ON/Veitur eru að selja Gróðrarstöð í Reykjavík rafmagn á 10,4 ISK/kWh, en norsk gróðrarstöð fær rafmagnið á jafngildi 6,3 ISK/kWh.  Hollenzk gróðrarstöð fær rafmagnið á ívið lægra verði en sú norska og dönsk stöð á ívið hærra verði.  Verðlagning orku til íslenzkra framleiðslufyrirtækja er komin í algerar ógöngur og er að eyðileggja samkeppnishæfni Íslendinga. SI og öll samtök framleiðenda hérlendis verða að skera upp herör gegn þröngsýnni verðlagsstefnu orkufyrirtækjanna, því að ella mun hún leggja framleiðslustarfsemina í rúst.
  4. "Efnahagslegur ávinningur raforkuvinnslu og raforkunýtingar á Íslandi verði veginn með umhverfissjónarmiðum og loftslagsávinningi með skynsömum og hagkvæmum hætti". - Það þarf að reikna út þennan efnahagslega ávinning út frá þeirri verðmætasköpun, sem mikil raforkuvinnsla gerir mögulega, og bera hana saman við raforkuvinnslu inn á aflsæstreng til útlanda og/eða "eitthvað annað", sem í seinni tíð hefur verið flutningur og móttaka erlendra ferðamanna. Hefði að ósekju mátt sjást tilraun til þess í þessari skýrslu SI. "Umhverfiskostnaðurinn" við orkuvirkjanir er óvíða meiri en hér vegna inngripa í viðkvæma náttúru, sem eru óhjákvæmilegur fylgifiskur virkjana hérlendis. Þó er fjöldi vindmyllna og sólarhlaða í Evrópu nú kominn að þolmörkum í huga almennings. Í Rammaáætlun er gerð tilraun til að leggja mat á umhverfiskostnaðinn, og eðlileg viðmiðun er, að hann megi aldrei vera meiri en núvirt verðmætasköpun virkjunar. Ef umhverfiskostnaðurinn er hærri, ber að setja virkjunarkostinn í verndarflokk.  Ekki er víst, að Landsreglarinn muni virða þessa reglu eftir innleiðingu OP#4 (Hreinorkupakkans), því að eftir það þarf mjög sterk rök til að standa gegn virkjun endurnýjanlegra orkulinda og tengingu þeirra við stofnkerfið gegn föstu gjaldi, óháð vegalengd að virkjun.  Loftslagsávinninginn er vissulega hægt að verðleggja líka.  Framleiðsla áls á Íslandi sparar t.d. á hverju ári losun gróðurhúsalofttegunda, sem nemur 2,5 faldri losun Íslendinga á landi m.v. framleiðslu áls með rafmagni frá kolakyntu orkuveri. Íslenzki grænmetismarkaðurinn nemur um 25 kt/ár, og reikna má með, að flutningur á slíku magni til landsins mundi valda losun á 100 kt/ár CO2.  Þetta er um 10 % af árlegri losun vegumferðar á Íslandi um þessar mundir, og íslenzkir grænmetisbændur eru þá með sinni 52 % markaðshlutdeild að spara losun rúmlega 50 kt/ár CO2 eingöngu vegna minni millilandaflutninga, en þetta má sennilega tvöfalda, af því að flestir erlendir kollegar þeirra fá orkuna til sinnar framleiðslu að mestu leyti frá jarðefnaeldsneyti.  Að fá ekki vatni haldið yfir gróðurhúsaáhrifum á hlýnun jarðar og að leggja ylræktina hérlendis í rúst fer ekki saman.  
  5. "Gengið verði lengra í aðskilnaði framleiðslu og flutnings raforku á Íslandi og tengsl milli Landsvirkjunar og Landsnets verði rofin til að tryggja gagnsæi og heilbrigðan raforkumarkað." - Ísland bað um og fékk undanþágu hjá Sameiginlegu EES-nefndinni á eignarhaldslegum aðskilnaði Landsnets, LN, og orkuvinnslufyrirtækjanna LV, ON, RARIK, HS og OV. Til að breyta þessu eignarhaldi þarf að kaupa gömlu eigendurna út, en nýi eigandinn má ekki eiga hagsmuna að gæta sem núverandi eða tilvonandi viðskiptavinur LN. Það má út af fyrir sig hugsa sér að bjóða LN út á EES-markaðinum, en það er ólíklegt, að fjárfestar hafi áhuga, því að LN er einokunarfyrirtæki og starfar undir ströngu eftirliti Orkustofnunar, nú Landsreglarans, um tekjumörk. Gróðavonin þar er varla fyrir hendi.  Þá er eiginlega ríkissjóður einn eftir.  Hann á að vísu mikilla hagsmuna að gæta í orkuvinnslufyrirtækjunum flestum, en enginn veit, hversu lengi það varir, því að með bréfi ríkisstjórnarinnar 19.05.2016 til ESA samþykkti hún kröfur ESA um að veita einkafyrirtækjum, væntanlega innan EES, jafnstöðu á við ríkisfyrirtæki við úthlutun nýtingarréttinda náttúruauðlinda hvers konar.
  6. "Ferlið við tekjumörk [afmörkun tekna-innsk. BJo] Landsnets sé gagnsætt og fyrirsjáanlegt, og að sú arðsemi, sem Landsneti er leyfð [afmörkuð], ráðist af raunverulegum fjármagnskostnaði fyrirtækisins, en sé ekki fræðileg stærð, sem byggir á matskenndum þáttum." - Það, sem skiptir máli í þessu sambandi, er, að Orkustofnun fer yfir fjárfestingaráætlanir Landsnets og hefur neitað fyrirtækinu um leyfi til að endurnýja gamlan búnað, þótt nauðsynlegt sé að endurnýja hann til að viðhalda rekstraröryggi fyrirtækisins.  Þetta nær engri átt, því að sérfræðiþekkingin er hjá Landsneti, en ekki Orkustofnun, í þessu tilviki.  Þess vegna er nú orðin uppsöfnuð fjárfestingarþörf hjá Landsneti, sem væntanlega mun endurspeglast í gjaldskránni, er frá líður.  Í nafni afhendingaröryggis raforku verður Landsnet að fá rýmri fjárheimildir.  Hvernig tekjumörkin verða reiknuð, er nú viðfangsefni Landsreglarans að gefa út.
  7. "Skilyrði verði sköpuð til að auka samkeppni meðal raforkuframleiðenda á Íslandi, sem þýðir, að minnka þarf hlutdeild þess fyrirtækis, sem er með yfir 70 % markaðshlutdeild." - Hér slær út í fyrir SI.  Það er engin greining fyrir hendi, sem sýnir, að einkavæðing á hluta Landsvirkjunar mundi verða neytendum hagfelld. Þessu afdrifaríka stefnumiði er slegið ábyrgðarlaust fram í trúarhita, en ekki gætt að sérstöðu íslenzka raforkumarkaðarins.  Að fjölga birgjum um einn á þessum markaði breytir honum ekki úr fákeppnismarkaði. Það, sem tapast, er hagkvæmni stærðarinnar, sem er veruleg í þessum geira, og þekking tvístrast, t.d. á orkulindastýringu, sem lengi hefur verið aðalsmerki Landsvirkjunar. Landsvirkjun er skuldbundin til orkuafhendingar samkvæmt nokkrum langtímasamningum, og sumir þeirra eru tengdir nokkrum mannvirkjum.  Hvernig eiga nýju fyrirtækin að geta staðið við skuldbindingar þess gamla ?  Það er óhugsandi, og slík uppskipting er riftunarástæða gagnaðilans án nokkurra skuldbindinga.  Hér hafa markaðskálfar hlaupið út um víðan völl og dottið ofan í skurð. Nú fara "loksins" í hönd tímar mikillar arðsemi fjárfestingar í þeirri náttúruauðlind landsins, sem vatnsorkan er.  Þá koma fram arfaslakar hugmyndir um stofnun sjóðs fyrir arðgreiðslur ríkisorkufyrirtækja annars vegar og sölu á hluta stærsta fyrirtækisins hins vegar.  Miklu nær er að láta þjóðina njóta góðs af beint með lækkun raunorkuverðs.  Sjóðsstofnun mun kalla á hækkun raunorkuverðs, og sjóði fylgir ávöxtunaráhætta auk þess, sem fé er tekið út úr hagkerfinu á tímum mikillar uppbyggingarþarfar innviða. Það er út í hött að rökstyðja íslenzkan "orkusjóð" með olíusjóðnum norska.  Þar er "námugröftur" á ferð, og Norðmenn miðla auðæfunum með þessum hætti til komandi kynslóða.  Sama aðferð á ekki við um endurnýjanlegar náttúruauðlindir. Ef Landsvirkjun verður sundrað, verður að gefa öllum orkuvinnslufyrirtækjunum jafna stöðu á markaði, en nú má Landsvirkjun ekki eiga smásölufyrirtæki, eins og hin fyrirtækin mega.  Ef þessi arfaslaka hugmynd verður að raunveruleika, þá verður jarðgufan ósamkeppnishæf við vatnsföllin vegna skorts á sveigjanleika.  Orka jarðgufustöðvanna er einfaldlega ekki eins verðmæt og orka vatnsorkuveranna.  Þetta mun líklega leiða til verðhækkana á markaði.  Þannig leiðir blindur haltan, ef sundrun Landsvirkjunar verður framkvæmd í nafni neytendaverndar. 
  8. "Leitað verði til raforkunotenda á Íslandi við vinnslu orkuspáa, svo [að] ekki komi til þess, að skortur verði á raforku, sem hamlar verðmætasköpun."  -  Þetta er gott og blessað, en allsendis ófullnægjandi.  Hættan á orkuskorti er yfirvofandi, svo lengi sem hvorki gengur né rekur með nýjar virkjanir yfir 10 MW.  Þegar Landsreglarinn hefur aðlagað íslenzka raforkumarkaðinn að Innri markaði ESB með því að koma á laggirnar markaðsstýringu raforkuvinnslunnar, þá mun hættan á vatnsskorti miðlunarlóna stóraukast, því að orkulindastýring Landsvirkjunar verður þar með lögð fyrir róða, illu heilli.  Þá þarf aðili á vegum ríkisins að hafa vald til að grípa í taumana og stýra vatnstöku úr lónum.  Það er hægt að gera með því að beita markaðslögmálum.  Ríkið á öll helztu miðlunarlónin, getur yfirtekið þau og verðlagt vatnið eftir aðstæðum. Sem dæmi kostar það ekkert snemmsumars, þegar horfur eru á fyllingu, en tekur að kosta á haustin og verður dýrast á útmánuðum. Hættan á orkuskorti verður þó ekki veruleg með landið ótengt erlendum rafkerfum, því að raforkuframleiðendur eru skuldbundnir til stöðugrar orkuafhendingar samkvæmt veigamiklum (>80 % hlutdeild) langtímasamningum.  Freistingin til að tæma lónin getur orðið óviðráðanleg eftir aflsæstrengstengingu við útlönd.
  9. "Regluverk sé skýrt, og eftirlit með íslenzkum raforkumarkaði sé virkt og skilvirkt, en ekki íþyngjandi." - Ekki er áberandi, að þessu hafi verið ábótavant á undanförnum árum, en með tilkomu Landsreglarans undir stjórn ESA/ACER verður breyting, og þá gæti eftirlitið orðið þyngra í vöfum, nákvæmara og dýrara, t.d. með einokunar- og sérleyfisfyrirtækjunum.
  10. "Settur verði á fót skammtímamarkaður með raforku líkt og í nágrannaríkjum Íslands, þar sem raforka er keypt og seld á markaði, sem einkennist af frjálsri verðmyndun og gagnsæi." - Það er ekki með ábyrgum hætti hægt að rökstyðja orkukauphöll á Íslandi með vísun einvörðungu til "nágrannaríkja Íslands".  Hvers vegna er það ábyrgðarlaust ?  Það er vegna þess, að orkukerfi Íslands er einstætt og ólíkt orkukerfum allra annarra Evrópuríkja.  Þess vegna þarf að fara fram greining á því, hvers konar fyrirkomulag hentar íslenzkum neytendum bezt. Vísi að henni er að finna í skýrslu Orkunnar okkar frá 16.08.2019.  Þar er komizt að þeirri niðurstöðu, að slíkur "skammtímamarkaður" verði að vera með ívafi orkulindastýringar, en sá er galli á gjöf Njarðar, að slík tíðkast ekki á Innri markaðinum og verður sennilega dæmd brjóta í bága við reglur hans um frjálsa samkeppni.
  11. "Ákvarðanir um uppbyggingu og viðhald raforkuflutningsmannvirkja byggi á skýrum hagkvæmnis- og umhverfissjónarmiðum." - Vandamálið við þetta er, að ákvarðanir eru kæranlegar, sem tafið getur mjög fyrir framkvæmdum og gert þær dýrari en ella, auk þess sem tafirnar geta og hafa valdið búsifjum hjá orkunotendum, sem hafa lent í orkusvelti eða óþolandi truflunum á orkuafhendingu. Hvernig þvælzt er fyrir bráðnauðsynlegum framfaramálum almennings í nafni einkaeignarréttar og jafnvel einstaklingsfrelsis hefur gengið allt og langt og verður að setja þröngar skorður eftir samþykki Skipulagsstofnunar ríkisins og framkvæmdaleyfi viðkomandi sveitarfélaga. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband