18.12.2019 | 11:34
Að halda hlýnun undir 2°C er ekki hægt úr þessu
Samkvæmt reiknilíkani IPCC er tómt mál úr þessu að tala um að takmarka hlýnun andrúmslofts við 1,5°C-2,0°C, eins og stefnumörkun Parísarsamkomulagsins 2015 hljóðaði upp á. Ástæðan er sú, að árlega hefur losun á heimsvísu aukizt um 1,5 % síðan þá og nemur nú 43 mrdt/ár CO2. Þá gengur hvorki né rekur að þróa viðunandi tækni við að fjarlægja koltvíildi úr andrúmsloftinu, en á næstu 80 árum þarf að fjarlægja mrdt 730 af CO2 úr andrúmsloftinu samkvæmt miðgildi útreikninga IPCC, og einnig að minnka árlega losun um 7,6 % á hverju ári, þar til nettó-losun verður engin. M.v. undirtektir á alþjóðlegri loftslagsráðstefnu í desember 2019, COP 25, næst þessi minnkun losunar ekki á næstunni.
Afköstin við að fjarlægja CO2 eru nú aðeins um 40 Mt/ár eða 0,4 % af því, sem nauðsyn er samkvæmt IPCC. Öll þessi barátta er vonlaus, eins og barátta Don Kíkóta við vindmyllurnar var á sinni tíð. Skynsamlegra er að veita fé í aðlögun að hlýnun um 3°C til viðbótar við hlýnunina frá kuldaskeiði "Litlu ísaldar" (0,8°C), t.d. með því að búa innviði landsins undir meiri öfgar í veðurfari, sem okkur er sagt, að búast megi við. Forsætisráðherra sagði á Alþingi 17.12.2019, að búast mætti við óveðri eins því, sem hrjáði norðanvert landið 10.-12. desember 2019, á 10 ára fresti.
Samkvæmt þekktum lotubundnum hitastigssveiflum á jörðunni mun samt e.t.v. á þessu árþúsundi kólna aftur mun meir en þessari hlýnun nemur. Til lengri tíma verður þá kuldinn skæðari óvinur lífs á norðurhveli en hitinn.
Morgunblaðið hefur gert góða grein fyrir straumum og stefnum í loftslagsmálum, og þann 27. nóvember 2019 flutti það frétt undir ískyggilegri fyrirsögn:
"Losunin eykst enn og nú stefnir í 3,2 stiga hlýnun":
"Ríki heims missa af tækifærinu til að koma í veg fyrir mjög alvarlegar afleiðingar loftslagsbreytinga, ef ekki verður gripið til tafarlausra aðgerða til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda að því, er fram kemur í nýrri skýrslu Umhverfisverndarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNEP.
Stofnunin segir, að losun gróðurhúsalofttegunda þurfi að minnka um 7,6 % að meðaltali á hverju ári til 2030 til að koma í veg fyrir, að hlýnun jarðar verði meiri en 1,5°C m.v. áætlaðan hita á jörðinni fyrir iðnbyltinguna. Sú blákalda staðreynd blasi hins vegar við, að losunin hafi aukizt að meðaltali um 1,5 % á ári á síðustu 10 árum."
Af viðbrögðum þjóða heims við ákalli UNEP má ráða, að ekki sé tekið fullt mark á þeirri stofnun, eða aðrir hagsmunir þjóðanna vega þyngra. Hvað þýðir það á heimsvísu að draga úr losun CO2 um 7,6 %/ár ? Það jafngildir 3,3 mrdt/ár CO2 (3,3 milljörðum tonna á ári) eða bruna um 1 mrdt af kolum. Þetta nemur um 13 % af kolabruna á heimsvísu. Í ljósi þess, að kolabrennsla á heimsvísu jókst um 0,9 % árið 2018 (um 70 Mt), er algerlega óraunhæft að búast við nokkrum samdrætti á næstu 5-10 árum í námunda við það, sem UNEP telur nauðsynlegt til að halda hlýnun innan 2°C.
"Umhverfisverndarstofnun SÞ segir, að jafnvel þegar loforð aðildarríkja samningsins séu tekin með í reikninginn, stefni í, að hlýnunin verði 3,2°C. Vísindamenn hafa sagt, að svo mikil hlýnun hafi mjög alvarlegar afleiðingar fyrir þjóðir heims. Stofnunin sagði, að þótt horfurnar væru slæmar, teldi hún enn mögulegt að ná því markmiði, að hlýnunin yrði ekki meiri en 1,5°C, en viðurkenndi, að til þess þyrfti að gera fordæmalausar breytingar á hagkerfi heimsins, sem byggðist enn að miklu leyti á notkun olíu og jarðgass."
Þetta er skrýtinn texti, þar sem versta mengunarvaldinum, kolunum, er sleppt. Að hjá Umhverfisstofnun SÞ skuli enn vera talið, að unnt sé að halda hlýnun undir 2°C m.v. 1850, bendir til, að þar á bæ treysti menn ekki hlýnunarlíkani IPCC, sem reist er á áhrifum gróðurhúsalofttegundanna á hitastig lofthjúpsins.
Ari Trausti Guðmundsson, Alþingismaður, hefur tjáð sig um loftslagsmál og gerði það t.d. í Morgunblaðinu 11. nóvember 2019 í grein sinni:
"Olía og gas - nei, enn einu sinni".
Hún hófst þannig:
"Til þess að ná því mikilvæga markmiði að halda aftur af hlýnun loftslagsins og jafnvel snúa þróuninni þarf að ríghalda í ákveðið markmið: Aðeins má vinna og nota 30 %-40 % þekktra birgða í jörð af kolum, olíu og gasi. Um þetta er þarflaust að deila."
Þetta er engin röksemdafærsla hjá þingmanninum, sem slær þarna fram fullyrðingu, sem honum væri í lófa lagið að sanna á grundvelli kenninga IPCC. Hvers vegna er þarflaust að deila um það, að ekki megi brenna meiru en 30 % -40 % af þekktum birgðum kola, olíu og jarðgass ? Þessi framsetning hangir í lausu lofti hjá þingmanninum.
Þekktar birgðir þessa eldsneytis eru u.þ.b. 1500 mrdt olíujafngildi, sem myndu gefa frá sér meira en 4600 mrdt koltvíildi við bruna. Þriðjungurinn nemur um 1500 mrdt CO2 út í andrúmsloftið. Það eru 35 ár með núverandi losun og tvöfalt gildið, sem IPCC telur, að draga þurfi út úr andrúmsloftinu til næstu aldamóta til að halda hlýnun innan 2°C markanna frá 1850 eða hækkun um 1,2°C frá núverandi meðalhitastigi andrúmslofts jarðar.
Ef Ari Trausti Guðmundsson heldur, að óhætt sé að brenna svona miklu jarðefnaldsneyti, þá er hægt að álykta, að hann telji líkan IPCC ofáætla stórlega hlýnun andrúmslofts af völdum koltvíildis. Það gætir víða tvískinnungs í þessari lofthjúpsumræðu.
Á grundvelli þess, sem hér hefur verið tínt til um forða jarðefnaeldsneytis, en ekki á grundvelli greinar Ara Trausta, er þó hægt að samþykkja meginboðskapinn í grein hans, sem er þessi:
"Íslendingar eiga að hafna því að opna á mögulega vinnslu olíu og gass við Jan Mayen. Gildir einu, þótt hagnast megi á henni."
Það eru bæði siðferðileg, pólitísk, umhverfisleg og efnahagsleg rök, sem mæla með þessari höfnun. Með því leggjum við okkar litla lóð (max mrdt 10 (6 % af ol.)af áætluðum forða 168 mrdt af olíu og 200 mrdt af gasi) á vogarskálar þess, að stigið verði á bremsur nýtingar þekkts olíu- og gasforða með þróun kolefnisfrírra orkugjafa, við tökum mjög sjaldgæft skref á meðal ríkja, sem ráða yfir lindum jarðefnaeldsneytis, við tökum ekki áhættu af mengunarslysi af eldsneytisvinnslu í íslenzkri efnahagslögsögu, og við tökum enga fjárhagsáhættu vegna uppbyggingar dýrra innviða vegna vinnslu, sem kannski verður aldrei arðsöm. Fyrir arðsemi þarf olíuverð sennilega að fara yfir 80 USD/tu.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Fræðimenn mættu vera duglegri við að
tefla fram LÍNURITUM OG SPÁLÍKÖNUM
þegar að verið er að ræða þessi mál.
Jón Þórhallsson, 18.12.2019 kl. 15:50
Ég sakna líka meiri umræðu um samspil spáar um hlýnun til skamms tíma (100-1000 ár) og spáar um mun meiri kólnun til langs tíma (1´000-100´000 ár). Allt púðrið fer í hlýnunina, en sagan í borkjörnum jökla segir frá fimbulkulda (12°C kólnun) í lotum upp á 100´000 ár og síðan hlýnun í 10´000 ár.
Bjarni Jónsson, 18.12.2019 kl. 18:54
Það eru að verða núna 20 ár síðan kenningin um hlýnun jarðar vegna magns CO2 var afsönnuð. En það stöðvar engan. Vegna þess að málið snýst ekkert um að bjarga heiminum frá einu eða neinu, heldur um peninga.
Þú átt að borga kolefnisgjald. Vegna þess að fokk þú og allt þitt krú. Og ef þú mótmælir senda Svíar á þig vangefna stelpu sem segir þér að skammast þín.
Vísindi og spálíkön mega sín lítils gagnvart endalausum áróðri dauða-söfnuðarins. Sem hefur sértrúardeildir sem klæða sig eins og flugur og líma sig við strætó. (https://www.msn.com/en-gb/news/other/climate-change-protesters-glue-themselves-to-lib-dem-bus/vi-BBXKwMJ)
Þú getur hætt að beita rökum. Fólkið sem þú ert að reyna að rífast við eru týpur sem í fúlustu alvöru dubba sig upp í býflugu-búninga og líma sig við farartæki.
Ásgrímur Hartmannsson, 18.12.2019 kl. 19:03
Ég er ekki sammála hugmyndinni um mannlega hlýnun og skýt hér á kolefnistrúna:
https://jonvalurjensson.blog.is/blog/jonvalurjensson/entry/2243792/
En ætli gamli harðlínu Maóistinn Ari Trausti sé enn svo mikill Kínakommi, að hann vilji ekki anda á félaga sína í Peking vegna síaukinnar kolabrennslu þeirra?
Jón Valur Jensson, 18.12.2019 kl. 21:22
Eigum við ekki bara að vera bjartsýn? Kannski verða orkuskiptin arðbær: http://www.aftenposten.no/
Hörður Þormar, 18.12.2019 kl. 23:18
Hörður: Orkuskiptin hafa hingað til reynzt Íslendingum mjög arðbær, og þau munu verða það. Byggðalínan var í upphafi reist af vanefnum til að styðja við orkuskiptin utan höfuðborgarsvæðisins. Þá var deilt um, hvort virkja ætti í héraði eða að reiða sig á orku frá stórvirkjunum, sem þá voru einvörðungu sunnanlands. Reynslan sýnir, að hvort tveggja er nauðsynlegt, en verst er falskt öryggi Byggðalínu á fallanda fæti. T.d. fékk Akureyri í þetta skiptið raforku frá Kröflu, en gamla Byggðalínan hefur einmitt viðkomu þar. Sterk og traust Byggðalína ásamt nýtingu hagkvæmra og umhverfisvænna virkjanakosta í héraði verða hryggjarstykkið í raforkuöryggi framtíðarinnar.
Bjarni Jónsson, 19.12.2019 kl. 11:33
Það efast enginn um að jörð hafi hlýnað, en margir efast um að réttum aðferðum sé beytt til að ráða við það og afleidd vandamál.
Sú stefna ESB og IPCC að berjast gegn hlýnun með því að hver þjóð auki vægi endurnýjanlegrar orku heima hjá sér var dauðadæmd frá upphafi. Þessari stefnu var ungað út af sósíaldemókrötum Evrópu með hjálp ríkisstjórnar Clinton Bandaríkjaforseta og hlaut ekki almennt samþykki fyrr en samþykkt var að lyfta þróunarríkjum upp á sama lifistandard og vestrænu ríkjunum með hjálp þeirra auðugu. Árangur þessarar stefnu er að ríku þjóðirnar draga mátt úr sjálfum sér og hafa ekki efni á að gæta eigin öryggis almennilega hvað þá hjálpa hinum fátæku svo um munar. Þetta sjá andstæðingarnir, Rússar og Kínverjar og því náðist samkomulag um næstu skref í París, meðan Obama var forseti, um leið til að koma verði kolefnakvóta til vanþróaðra ríkja. Trump sagði sig frá þessu, enda átti USA að borga allt sem kostaði einhvern pening. Á sama tíma er kjarnorka næstum bannorð, en þar er besti möguleikinn til að ná einhverjum árangri sem heitið getur. Baráttan gegn hýnun er orðið rekin með hreinu trúboði einhvers sértrúarsöfnuðs í vestrænum þjóðfélögum.
Á meðan þessi stefna hefur verið við líði hefur áherslan á vísindalegar rannsóknir á náttúrufari jarðar verið á allt of þröngu sviði loftslagsmála þannig að trúnaður á þessi vísindi er að minnka en að sama skapi vex hávaði hinna trúuðu, nú síðast með því að tefla fram börnum og vekja hræðslu hjá ungum konum við að eignast börn. Fólk er farið að líta á þennann sértrúarsöfnuð sem meiri ógn en hlýnun jarðar.
Elías B Elíasson, 20.12.2019 kl. 21:05
Baráttan gegn hlýnun minnir á trúboð, það er rétt. Þar er nú kominn frelsari (Greta Thunberg), sem gæti orðið píslarvottur líka, og þar er syndafall yfirvofandi, ef ekki er breytt rétt. Þróunarríkin fyrrverandi, sem heimsvæðing vestrænna hagkerfa (e. globalisation) lyfti úr örbirgð til bjargálna, skella skollaeyrum við þessu trúboði, enda helzt aukin orkunotkun algerlega í hendur við batnandi lífskjör. Losun þessara þjóða er yfir helmingur heildar og vaxandi.
Það er vitað út frá rannsóknum á gríðarlöngum borkjörnum úr Grænlandsjökli, að fimbulkuldi ríkir í kuldabeltunum og tempruðu beltunum í um 100 k ár, og á milli þessara kuldaskeiða eru hlýskeið um 10 k ár. Hitastigsmunur á milli þessara skeiða getur farið í 12°C, en er nokkuð vitað um ástæður þessa ?
Bjarni Jónsson, 21.12.2019 kl. 10:54
Takk fyrir þetta, Bjarni, og það var fínt líka að fá Elías með í umræðuna, hvort tveggja uppbyggilegt og fræðandi.
Jón Valur Jensson, 23.12.2019 kl. 00:31
Takk fyrir þetta, Bjarni, og það var fínt líka að fá Elías með í umræðuna, hvort tveggja fræðandi og uppbyggilegt.
Jón Valur Jensson, 23.12.2019 kl. 00:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.