Óveður á Íslandi

Á hverjum áratugi virðast geisa 1-2 óveður á Íslandi, sem setja raforkukerfi landsins og fjarskiptakerfi í einhverjum landshluta á hliðina; aldrei þó á öllu landinu í einu.  Hvar tjónið verður, hefur farið eftir vindáttinni.

Þetta mikla tjón og truflun á framleiðslukerfum er þó  ekki óhjákvæmilegt, og nú eigum við þess kost að fjárfesta okkur út úr þessu ófremdarástandi, sem er búið að vera of lengi við lýði vegna vanefna í upphafi fremur en þekkingarleysis á aðstæðum.  Menn ákváðu einfaldlega að hraða Byggðalínu, og að þjóðfélagið, sem þá var vant straumleysi, yrði í staðinn að taka á sig tjónið, þegar það dyndi yfir.  Þessi tími er liðinn.  Nútímaþjóðfélag krefst öryggis og stöðugleika. Tjónið verður svo hátt, að það borgar sig einfaldlega ekki að velja ódýrustu lausnina.

Landsmenn búa enn utan Suð-Vesturlands við búnað frumbýlingsáranna.  Í minnum er hvassviðri og mikil ísing, sem sleit í sundur einu tengingu Búrfellsvirkjunar við höfuðborgarsvæðið í byrjun 8. áratugarins.  Þá bjargaði neyðarrafstöð Landsvirkjunar í Straumsvík ISAL-verksmiðjunni frá langvarandi framleiðslustöðvun, og íbúar höfuðborgarsvæðisins nutu jafnframt góðs af orku frá þessari stöð þá.  Nú hefur þessari mikilvægu neyðarrafstöð Landsvirkjunar í Straumsvík verið lokað á þessum áratugi að vegna skrifborðsákvörðunar um hagræðingu í rekstri og hún seld.  Rökin voru jafnframt þau, að afhendingaröryggi raforku hefði aukizt svo mikið, að hennar væri ekki lengur þörf. Það er því miður ekki rétt mat, eins og slæmt ástand 220 kV lína á SV-landi í saltroki hefur hvað eftir annað verið til vitnis um. Þá hefur orðið að lækka rekstrarspennu meginflutningskerfisins svo mikið, að yfirálag ógnaði búnaði og draga hefur orðið úr framleiðslu.  Íbúar SV-lands búa við falskt öryggi, eins og aðrir íbúar landsins, þótt í minni mæli sé.

2.-4. febrúar 1991 gekk óveður yfir suðvestanvert landið með suðlægum áttum, ísingu og mikilli seltu.  Slitnuðu þá 220 kV línur í Hvalfirði og í Gnúpverjahreppi með þeim afleiðingum, að höfuðborgarsvæðið og álverksmiðjan í Straumsvík (ISAL) urðu straumlaus.  Þá var varastöðin í Straumsvík keyrð á fullum afköstum, og tíðar ferðir olíubíla þangað urðu verksmiðjunni til bjargar.  Rafmagn kom ekki á verksmiðjuna aftur fyrr en um 8 klst síðar.  Það kom á síðustu stundu til að bjarga verksmiðjunni frá algerri stöðvun, því að neyðarrafstöðin var orðin of lítil fyrir langvarandi straumleysi og raflausn keranna, sem flytur strauminn frá forskautunum, var við frostmark sitt, þegar spenna kom aftur á línur.  Rúmlega 6 % keranna frusu, svo að taka varð þau úr rekstri og endurfóðra. 

Algert framleiðslutap varð, á meðan stofnkerfið var á hliðinni, og afkastaminnkun vegna fækkunar kera í rekstri og vegna lægri straumnýtni lengi á eftir.  Endurfóðra þurfti kerin, sem stöðvuðust, og ending hinna rýrnaði mikið. 

Alls má áætla tjón ISAL vegna þessa straumleysis að upphæð MUSD 20 eða mrdISK 2,5.  Það gefur einingarkostnað ISAL vegna óafhentrar orku í það skiptið 13 kUSD/MWh eða 1,6 kISK/kWh.  Þetta var af stærðargráðunni 1000 sinnum sölutap Landsvirkjunar.  (Landsvirkjun átti og rak þá jafnframt flutningskerfið.) Þetta er rakið hér til að sýna, að kostnaður straumleysis leggst að langmestu leyti á orkukaupandann.  Mjög svipað á við mikilvirka kúabændur og álver. Kýrnar framleiða lítið sem ekkert í straumleysi, sumar veikjast jafnvel og drepast, en allar hinar selja ver lengi á eftir og endast jafnvel ver en ella. Tryggingar bæta iðnaðinum hluta tjónsins.  Er vonandi, að bændum verði bætt að einhverju leyti hlutfallslega mikið tjón þeirra.  

Evrópusambandið miðar við, að tapskostnaður notenda á hverja óafhenta orkueiningu sé á bilinu 5-25 EUR/kWh, og þetta kostnaðarbil ber að leggja til grundvallar hönnun raforkukerfa.  Hjá ISAL nam hann í þetta skiptið 12 EUR/MWh.  Ef straumleysið hefði varað hálftíma lengur, hefði verksmiðjan stöðvazt og tjónið farið í um 30 kUSD/MWh eða nokkuð upp fyrir efri mörk ESB, enda gerast atburðir af þessu tagi nánast aldrei þar vegna meira afhendingaröryggis raforku. Við getum komizt þangað, og það borgar sig. Ef téð straumleysi 1991 hefði staðið helmingi skemur, hefði tjónið náð að neðri mörkum ESB.  

Þann 12. desember 2019 birtist á forsíðu Fréttablaðsins snemmbúin og snöggsoðin áætlun aðalhagfræðings Íslandsbanka, Jóns Bjarka Bentssonar, sem var með allt of lága kostnaðaráætlun um tjónið í óveðrinu í viku 50/2019.  Hann reiknar með vinnutapi 2 klst að meðaltali fyrir allt starfandi fólk. Þetta kann að vera svo fyrir þá að hámarki 150 k starfsmenn, sem ekki lentu í ófærð og langvarandi straumleysi, en fyrir þá að lágmarki 30 k starfsmenn, launþega og sjálfstætt starfandi, sem lentu í ófærð og langvarandi straumleysi, nam vinnutapið a.m.k. 20 klst að meðaltali.  Þá verður kostnaður vinnutaps að lágmarki mrdISK 3,6, sem er 2,6 sinnum meira en aðalhagfræðingurinn áætlar.  Heildartjónið hefur vart verið undir mrdISK 5,0, en aðalhagfræðingurinn áætlaði heildartjónið aðeins um mrdISK 2,0. 

Það er óskynsamlegt að gera minna úr tjóni af völdum óveðurs og straumleysis en efni standa til, því að þá verður hvatinn minni til úrbóta.  Það ríður á að gera innviðina traustari, því að hættan á tjóni sem þessu verður annars viðvarandi.  Ef svipaður vindstyrkur verður næst í suðlægum áttum, þá mun verða mikið tjón á Suður-Vesturlandi, kannski meira en varð nú á norðanverðu landinu.  Með SV-átt kemur mikil selta, sennilega meiri en varð á Norðurlandi vegna hærra sjávarhitastigs.  Við frostmark hleðst saltur ís á víra, einangra og burðarvirki, sem teygir á vírum allt niður að jörðu og skapar ljósbogahættu, sem getur valdið straumleysi á höfuðborgarsvæðinu og stórtjóni á atvinnustarfsemi SV-lands. Þar er mikið um viðkvæma starfsemi gagnvart straumleysi og lítið um neyðarrafstöðvar.

Jón Bjarki Bentsson rifjaði einmitt upp í Fréttablaðsviðtalinu óveðrið mikla í febrúarbyrjun 1991.  Þá hrundi 220 kV lína í Hvalfirði og önnur í Gnúpverjahreppi vegna veðurofsa og ísingar, og seltu gætti líka á einangrurum.  Við þetta varð straumlaust á höfuðborgarsvæðinu og hjá ISAL í Straumsvík í um 8 klst, eins og áður segir.  Jón Bjarki telur, að framreiknað tjón þá hafi aðeins numið um mrdISK 3,6.  Það er allt of lágt, vegna þess að einvörðungu hjá álverinu í Straumsvík varð búnaðartjón og framleiðslutjón uppfært um MUSD 20 eða mrdISK 2,5.  Jón Bjarki virðist hafa gleymt þessum kostnaði, þannig að heildarkostnaðurinn þá hefur ekki orðið undir mrdISK 6,1.

Þarna skall hurð nærri hælum í Straumsvík, og munaði aðeins nokkrum mínútum, að framleiðsla allra keranna stöðvaðist.  Sum þeirra stöðvuðust, og ending hinna styttist verulega vegna áraunar, og slíkt er dýrt.  Þetta tjón jafngilti, að óafhent orka, orka, sem Landsvirkjun gat ekki afhent, en ISAL gat tekið við, hafi kostað notandann 13 kUSD/MWh að jafngildi 1,6 kISK/kWh, sem þá var næstum 1000 sinnum sölutjón Landsvirkjunar. 

Af þessu sést, að orkukaupendur eiga miklu meiri hagsmuna að gæta en orkuseljendur, og þetta ójafnræði verður Alþingi og ríkisstjórn að hafa í huga, þegar viðbrögðum vegna straumleysis í viku 50/2019 verður hleypt af stokkunum. Það er ríkið, sem verður að gæta hagsmuna notenda gagnvart orkugeiranum, og þingmönnum ber að fylgjast gaumgæfilega með, hvernig málum vindur fram og krefjast upplýsinga, eins og þeir hafa nú gert.

Í þetta skiptið slapp áliðnaðurinn fyrir horn.  Sú staðreynd, að aðeins önnur 400 kV lína Landsnets af tveimur (n-1 kerfi) yfir Hallormsstaðaháls og niður til Reyðarfjarðar gaf sig í aftakaveðri og ofankomu á Hálsinum, sýnir, að það er hægt að hanna, setja upp og viðhalda rafkerfi, sem þolir veður, sem búast má við á 10 ára fresti að sögn forsætisráðherra, og það ætti einmitt að verða krafan.  Þar með er ekki sagt, að kerfið (400 kV) þoli meira og sjaldgæfara veður, eins og bilunin á Hallormsstaðahálsi sýndi, og þess vegna verður ekki hjá neyðarrafstöðvum komizt, þar sem mest er í húfi.  

Vandi raforkugeirans er þríþættur.  Skipulagsmálum fyrir framkvæmdir hans er beinlínis óskynsamlega fyrir komið, svo að undirbúningskostnaður verður að óþörfu allt of hár, og ekki sér fyrir endann á töfunum. Mestur er þó tjónkostnaðurinn, sem af töfunum leiðir.  Hagsmunir þeirra, sem töfunum valda, eru dvergvaxnir í samanburði við hagsmuni hinna, sem fá ekki orku vegna tafa, bæði vegna takmarkaðrar flutningsgetu og tjónkostnaðar við bilanir.  

Nú er komið á daginn, að tafir við leyfisveitingar hafa gert slæmt ástand enn verra um allt norðanvert landið í norðanáhlaupi, sem gerði 10. desember 2019 og stóð í þrjá sólarhringa með fannfergi.  Í slíku neyðarástandi verður kostnaður notenda vegna hverrar kWh, sem ekki fæst, hæglega meira en þúsundfalt verð orkunnar, sem ekki fæst, og undir hælinn er lagt, hvort ástandið veldur fjörtjóni.

Það er í raun fáránlegt að ætlast til þess, að framkvæmdaaðili semji um legu línu, sem tengja á saman landshluta, við hverja sveitarstjórn um sig.  Þær geta t.d. haft ólíkar skoðanir á legunni á mörkum sveitarfélaganna.  Samgönguráðherra hefur nefnt þá lausn, að "landsskipulag" höggvi á þennan hnút, og slíkt fyrirkomulag virðist eðlilegt fyrir vegalagningu og línulagnir.  Nú þurfa stjórnvöld og Alþingi að hafa hraðar hendur við stefnumörkun þessara mála í ársbyrjun 2020. Almannahagur liggur við. 

Í öðru lagi þarf að ákveða, hvers konar veður flutnings- og dreifikerfin eiga að standa af sér.  Meginflutningskerfið (hringtengingin) þarf að geta staðið af sér vind, ísingu og seltu, sem búast má við hérlendis í einhverjum landshluta (af mismunandi áttum) a.m.k. einu sinni á áratug, þ.e. sambærilegar aðstæður þeim, sem komu upp á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi, í viku 50/2019. Þetta þýðir, að útleysing á nýrri Byggðalínu ætti að verða sjaldnar en á 10 ára fresti. Til þess þarf að reisa nýja línu frá Brennimel og norður um land til Fljótsdalsvirkjunar.  Hún þarf að vera sérstyrkt eftir aðstæðum og sennilega er þjóðhagslega hagkvæmast, vegna kostnaðar raforkunotenda við hverja óvænta útleysingu, að byggja hana sem 400 kV línu, þótt hún verði rekin á 220 kV.  Sú lausn gafst vel á Hallormsstaðahálsi í norðanbálinu í v. 50/2019, þar sem önnur 400 kV línan gaf sig, en hin stóðst veðurhaminn, og sú lausn hefur gefizt vel (og betur en 220 kV línur) í óveðrum og saltviðri á Suð-Vesturlandi, en þar eru 3 slíkar línur. Línurnar á Hallormsstaðahálsi eru af sterkustu útfærslu 400 kV lína.

Þá verða aðveitustöðvarnar að vera í húsi, og þá stefnu hefur Landsnet þegar markað.  Annars verða aðveitustöðvarnar óboðlega veikir hlekkir í keðjunni, og þá getur sá búnaður verið hefðbundinn 220 kV búnaður, sem er ódýrari en 400 kV búnaður.  Landsnet og dreifiveiturnar ættu síðan að hafa val um annaðhvort að halda sig við tréstæður á 66 kV og neðar og vera þá með varaafl fyrir allt viðkomandi þéttbýli eða að leggja jarðstrengi úr ólíkum áttum, þar sem a.m.k. annar leggurinn fær afl frá nýrri Byggðalínu, og láta varaafl duga fyrir viðkvæmasta álagið, s.s. sjúkrahús og hitaveitu.

Í þriðja lagi er svo fjármögnunin.  Hjá Landsneti og dreifiveitunum eru gjaldskrárnar látnar fjármagna fjárfestingar og rekstur.  Það veldur því, að þær verða of háar fyrir samkeppnishæfnina.  Þar sem átak er nú framundan, til að útrýma núverandi veikleikum, þurfa þessi fyrirtæki viðbótar fjárstreymi, og það er fullkomlega eðlilegt, að það komi frá arðgreiðslum raforkuvinnslufyrirtækjanna. Sú var staðan fyrir innleiðingu Orkupakka ESB nr 1, að arði af raforkuvinnslunni var veitt til uppbyggingar flutningskerfisins.    

Hvað sagði forstjóri Landsnets, Guðmundur Ingi Ásmundsson, um stöðu Landsnets eftir ófarir óveðursins í viku 50/2019 ?  Það kom m.a. fram í viðtali við Morgunblaðið föstudaginn 13. desember 2019 undir fyrirsögninni:

"Óskilvirkt leyfisveitingakerfi tefur fyrir":

"Landsnet telur, að styrkja þurfi flutningskerfi raforku á Norðurlandi og fjölga varaleiðum.  Uppbygging kerfisins, t.d. byggðalínunnar á Norðurlandi, hefur tafizt.  Ástæðan er óskilvirkt leyfisveitingakerfi og óskýrar reglur að sögn Guðmundar Inga Ásmundssonar, forstjóra."

Það er deginum ljósara, að viðbót við núverandi Byggðalínu er löngu tímabær af nokkrum ástæðum.  Núverandi 132 kV Byggðalína hefur allt of litla flutningsgetu m.v. flutningsþarfir, hún er að megninu til á tréstæðum, og þær elztu orðnar hálffimmtugar og líklegt, að fúi og tæring séu tekin að draga úr burðarþoli hennar, sem verður ófullnægjandi, þegar rok og ísing herja á hana samtímis.  Einangrunargetan minnkar einnig með tímanum, svo að bilunarhættan verður mikil, þegar rok, ísing og selta herja á hana samtímis. Það má búast við slíku a.m.k. 2 á áratugi í hverjum landshluta, en búast má við óveðri, sambærilegu óveðrinu 10.-12. desember 2019, á 10 ára fresti samkvæmt munnlegri skýrslu forsætisráðherra til Alþingis á lokadegi þingsins fyrir þinghlé í desember 2019.  

Við þessar aðstæður er ljóst, að engir hagsmunir eru svo ríkir, að þeir eigi að komast upp með margra ára tafir á úrbótum, sem varða þjóðaröryggi.  Hlutverk löggjafans hlýtur að vera að grípa nú í taumana, þótt fyrr hefði verið, með löggjöf, sem losar um þá framkvæmdastíflu, sem Landsnet hefur búið við.

Þá vaknar spurningin um, hvaða úrbótaáform hefur Landsnet ?  Fyrirtækið hefur áform um að reisa 220 kV línu frá Klafastöðum (Brennimel) nálægt Grundartanga norður um land og austur að Fljótsdalsvirkjun.  Fyrirhugað er að reisa hana á röramöstrum, svipuðum og eru í nýju Þeistareykjalínunni að Bakka, sem reyndar bilaði í óveðrinu fyrir norðan í viku 50/2019.  Aflflutningur yfir Hallormsstaðaháls frá Fljótsdalsvirkjun að Reyðarfirði hélzt óskertur í óveðrinu 10.-12. desember 2019, þótt önnur línan af tveimur, sem eru sterkasta útgáfa af 400 kV línum, gæfi eftir undan veðurhami og ísingu, enda er Hallormsstaðaháls alræmt veðravíti. 

Í ljósi nútímakrafna til afhendingaröryggis raforku, sem hljóta að vera að standast öll veður, sem búast má við á 10 ára fresti og skemmri fresti og í mesta lagi 2 klst straumleysi við 50 ára veður, er ástæða til að meta, hvort verjanlegt er að fjárfesta í 400 kV línu á a.m.k. hluta þessarar um 500 km leiðar.  Kostnaðarmunurinn alla leið er líklega aðeins mrdISK 10, og þegar þess er gætt, að tjónið af völdum jólaföstuóveðursins 2019 (v.50) nam e.t.v. um mrdISK 5,0 og fer vaxandi með tímanum, er ljóst, að 400 kV lína myndi borga sig upp á viðunandi tíma (innan við 20 árum).  Rekstraröryggislega munar líklega mest um miklu meiri einangrunargetu og mótstöðu gegn hrævareldum yfir einangrun af völdum seltu, sem verður tíðara og meira vandamál hérlendis með hækkandi sjávarhita og tíðari hvassviðrum.  

Hér ber að hafa í huga, að í ljósi slæmrar reynslu af 220 kV línum í óveðrum, þar sem selta náði í hvössum SV-áttum alveg upp að Sigölduvirkjun, var farin sú leið að tengja saman Sultartangavirkjun og Búrfellsvirkjun með 400 kV línu ásamt því að tengja Sultartangavirkjun við aðveitustöðina á Brennimel og Búrfellsstöðina við aðveitustöð á Lyklafelli (Sandskeiði) með slíkum línum, sem þá eru alls 5 á landinu um þessar mundir.  Allar þessar þrjár 400 kV línur SV-lands eru hryggjarstykkið í auknu afhendingaröryggi Suð-Vestanlands, og íbúar annarra landshluta eiga fullan rétt á, að sams konar búnaður verði notaður til að draga úr hættu á rafmagnstruflunum vegna veðurs þar.  

Aftur að téðu viðtali við Guðmund Inga:

"Við fengum gríðarlegan vind og mikla ófærð, og svo hlóðst saltmengaður ís á línurnar, sem liggja með ströndinni.  Á Norður- og Austurlandi var afar slæmt veður, en í raun fengum við útleysingu rafmagns um allt land.  Þetta reyndi mikið á raforkukerfið.  Það stóðst mjög vel á Suður- og Vesturlandi, en það sama er ekki hægt að segja um stöðuna á Norðurlandi, þar sem verulegar skemmdir urðu og á tímabili á Austurlandi."

Það gerist örsjaldan, að rafmagn fari af sunnan heiða í norðan bálviðri, og hið sama á við norðan heiða, þegar hvassviðri geisa af suðlægum áttum. Þess vegna var það enginn mælikvarði á gæði raforkukerfa á Suður- og Vesturlandi, að þau skyldu verða fyrir litlum sem engum truflunum í viku 50/2019.  Þau geta hæglega hrunið í næsta suð-vestanroki, sérstaklega ef hitastigið verður þá nálægt 0°C.  Það er bitur reynsla fyrir því, að jafnvel 220 kV línurnar sunnanlands loga allar í slíku veðri, en 400 kV línurnar haldast inni.  Landsnet verður þá að lækka 220 kV kerfisspennuna niður úr öllu valdi, sem getur valdið skemmdum á búnaði, og dugar ekki alltaf til, svo að viðkomandi línur rofna sjálfvirkt frá (liðavernd).

Tjón hjá notendum í langvarandi straumleysi getur hæglega orðið meira en 1000-föld töpuð orkusala. Tjón Landsnets varð mikið, en mest verður alltaf tjón orkukaupendanna.  Þegar stóriðjan gerir langtímasamninga, setur hún fram kröfur um gæði raforkunnar og þar með afhendingaröryggi.  Oftast njóta almennir notendur góðs af því, t.d. er sú reyndin á höfuðborgarsvæðinu.  Enginn er hins vegar í aðstöðu til að verja hagsmuni almennings sem raforkunotenda, nema fulltrúar hans á Alþingi.

Þingmönnum ber í störfum sínum að verja hag umbjóðenda sinna gagnvart raforkugeiranum, t.d. með lagasetningu.  Það er sanngirnismál, sem þingmenn allra kjördæma ættu að geta sameinazt um, að allir íbúar landsins  búi við sambærilegt afhendingaröryggi að hálfu flutningsfyrirtækisins Landsnets, a.m.k. á hæstu kerfisspennunni, sem er 220 kV.  Nú stendur til að reisa nýja 220 kV línu um norðanvert landið allt frá Hvalfirði til Fljótsdals.  Það er mjög til bóta fyrir rekstraröryggið, að Landsnet hefur ákveðið, að nýjar aðveitustöðvar fyrirtækisins verði innanhúss.  Hins vegar hefur fyrirtækið ekki skoðað lagningu 400 kV línu, síðan Búrfellslína 3 var lögð að Lyklafelli á Sandskeiði. 

Það verður aldrei hægt að tryggja landsmönnum öllum jafnan og réttlátan aðgang að stofnrafkerfi landsins, sem þeir eiga þó að jöfnu, nema beitt sé beztu fáanlegu tækni í öllum landshlutum, og hún er í þessu tilviki lína, rekin á 220 kV, en einangruð fyrir 400 kV.  Það mundi strax stórbæta stöðuna, að slík lína yrði lögð frá Brennimel til Varmahlíðar um Hrútafjörð og Blöndu.

Síðan ræddi Guðmundur Ingi ástæður þess, að framkvæmdir fyrirtækisins eru alltof seint á ferðinni:

Það er fyrst og fremst vegna þess, hversu hægt hefur gengið að fá leyfi til framkvæmda.  Undanfarin 3 ár höfum við ekki getað framkvæmt nema ríflega helminginn af því, sem við höfum áætlað."

Það er ólíklegt, að Landsnet hefði verið orðið óháð gömlu 132 kV Byggðalínunni á Norðurlandi, þótt fyrirtækið hefði engu mótlæti mætt að hálfu Landverndar og landeigenda, en ófarirnar í óveðrinu 10.-12. desember 2019 hefðu ekki orðið jafnsvakalegar og raun bar vitni.  Tjón og angist hefðu orðið minni.

  Stjórnarráðið ber hins vegar ábyrgð á, að dráttur á drátt ofan er látinn viðgangast árum saman með þeirri afleiðingu, að allt norðanvert landið er látið reiða sig á flutningslínu, sem reist var af vanefnum, er úrelt orðin, óáreiðanleg í stórviðrum og stendur atvinnuþróun stórra byggðarlaga fyrir þrifum vegna lítillar flutningsgetu og veikburða hönnunar.  Þetta er gríðarlegur áfellisdómur yfir undanförnum ríkisstjórnum og embættismönnum þeirra.  Auðvitað tók Stjórnarráðið í fullkomnu ábyrgðarleysi einn "Yes, Minister" á vandamálið núna,og ríkisstjórnin skipaði toppembættismenn Stjórnarráðsins, sem sofið hafa á verðinum, til að gera tillögur um úrbætur.  Ánægjulegt er hins vegar, að Alþingi glórir í, að ríkisvaldið hefur brugðizt almenningi í landinu, sem byggt hefur upp tæknivædda atvinnustarfsemi, sem reiðir sig á, að samfélagslegir innviðir rafmagns og fjarskipta séu traustir, og samþykkt einróma kröfugerð um svör við áleitnum spurningum á hendur ríkisstjórninni.

Ríkisstjórnin og embættismenn hennar hefur hátíðirnar til að hugleiða svörin, en Stjórnarráðið getur ekki frestað mikið lengur að straumlínulaga leyfisveitingaferlið, og samgönguráðherra virtist gera sér grein fyrir því, þegar ósköpin dundu yfir, að sumar framkvæmdir ættu aðeins heima undir nýrri lagasetningu um landsskipulag á forræði ríkisvaldsins.  Forstjóri Landsnets virðist vera orðinn hundleiður á að starfa, bundinn í báða skó:

""Það þarf að endurskoða allt ferlið, einfalda það og hafa reglur skýrari. Síðan þarf að setja mannskap og fjármagn inn í þær stofnanir, sem um þetta fjalla."  Hann nefnir umhverfismat og skipulagsmál í þessu efni."

Guðmundur Ingi nefnir hins vegar ekki þá ríkisstofnun, sem hefur eftirlit með fyrirtæki hans, en það er Orkustofnun, OS.  Í Orkustofnun er farið yfir fjárfestingar- og rekstraráætlanir Landsnets, en í eftirlitsstofnuninni er engan veginn sambærileg kunnátta, fagþekking, á viðfangsefnum flutningskerfisins og hjá Landsneti.  Orkustofnun er ekki í neinum færum að velja á milli tveggja eða fleiri tæknilegra kosta á grundvelli hagsmuna umbjóðendanna, almennings í landinu, til langs tíma.  Þess vegna er ábyrgðarleysi fólgið í því, að OS geti skorið niður viðhaldskostnað eða fjárfestingar, sem tæknimenn Landsnets hafa lagt til í nafni rekstraröryggis, starfsmannaöryggis eða kerfisþarfa til skamms eða langs tíma.  

Fjármögnun Landsnets og dreifiveitnanna er ábótavant.  Þetta hefur leitt til hárra gjaldskráa.  Það er ekkert vit í því, að á meðan innviðir grotna niður með gríðarlegum kostnaði fyrir notendur, skili orkuvinnslufyrirtækin gróða til eigenda sinna.  Þessum gróða á að beina til Landsnets og dreifiveitnanna til að fjármagna átak til styrkingar flutningskerfisins og til að færa dreifikerfin í jörð og dreifistöðvar í hús.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Bjarni

Vissulega þarf að einfalda stjórnsýsluna og skipulagsvald yfir línulögnum. Forstjóri Landnets vill þó gera meira úr þeim vanda en efni standa til, a.m.k. í því óveðri er skóp norðurlandið í síðustu viku. Til dæmis féll Sauðarkrókslína, nánast alveg. Fyrir nokkrum árum lágu fyrir öll leyfi til Landsnets um uppbyggingu þeirrar línu.

Annað dæmi. Ekki reyndist unnt að keyra 66kV línuna í vestur til Hvammstanga, þangað sem nýlega hafði verið tekin niður og seld vararafstöð fyrir heilsugæsluna. Ástæða þess að ekki reyndist unnt að fá rafmagn úr austri var einn og hálfur kílómeter þeirrar línu sem enn var ofanjarðar. Þessi lína er reyndar í umsjá Rarik, en það breytir í sjálfu sér engu. Það var þó ekki skipulagsleysi sem hamlaði því að þessi einn og hálfur kílómeter fór ekki í jörð, heldur eignarétturinn. Landeigendur eiga jú sitt land, en það á Rarik erfitt með að skilja. Þeir velja sér leið, koma síðan heim á bæ og leggja fram plagg sem þeir kalla samning og landeigandi skal samþykkja, samning sem inniheldur skilyrði sem erfitt er fyrir marga að samþykkja, skilyrði sem rýra verulega eða með öllu yfirráðarétt landeiganda yfir því landi sem strengurinn fer um. Þekki dæmi þess að bóndi hafi misst þannig land innan sinnar girðingar, þar sem strengurinn var að öðru leyti lagður í landi ríkisins, meðfram veginum, en Rarik vildi endilega fara inn fyrir girðingu bónda á einum kafla, algerlega að ástæðulausu. Reyndar sparaði Rarik sér einhverja örfáa metra í streng, en bóndinn missti möguleikann á að nýta það land til skógræktar, illmögulegt fyrir hann að rækta það og hann hefur ekkert um það að segja hver eða hverjir fari um hans land, svo fremi þeir segist vera á vegum Rarik. Í flestum tilfellum er hægt að finna leið sem báðir aðilar eru sammála um, en Rarik hefur valið þá stefnu að hætta frekar við lagningu jarðstrengja en að gefa eftir þá leið sem hún hafði ætlað að fara.

Þá komum við að spennuvirkinu í Hrútatungu. Þetta spennuvirki dreifir orku um stórt svæði og er tenging við Vestfirði. Svo undarlegt sem það er þá sló þessu spennuvirki út nánast strax og vind fór að hreifa, löngu áður en veðrið náði hámarki. Það bendir til þess að spennuvirkið hafi verið einstaklega viðkvæmt er veðrið skall á, ekki verið séð um að hreinsa það og því mikil saltmengun verið til staðar áður en veðrið skall á. Eitthvað var að varaafli fyrir ljósleiðarann og datt hann því mjög fljótt úr sambandi einnig og stjórnstöðin í Reykjavík því ekki lengur tengd spennuvirkinu. Enginn var til staðar til að taka stjórn yfir og því ekki hægt að reyna endursetningu þess. Senda þurfti mannskap af stað í óveðrið til að reyna að bjarga málum. Það náðist að endursetja spennuvirkið nærri tveim sólahringum seinna og allt þar til í morgun hefur það verið ýmist inni eða úti. Þarna var eitthvað stórkostlegt að. Þarna liggur sökin hvorki hjá skipulagsvaldi né landeiganda, heldur alfarið í lélegu eða engu fyrirbyggjandi viðhaldi!

Hitt má svo þakka fyrir og ekki víst að lukkan verði jafn hagstæð næst, en það er að byggðalínan yfir Holtavörðuheiði skildi halda. Sá sem þetta skrifar vann við lagningu hennar sumarið og haustið 1975, svo hún er orðin gömul og feyskin.  

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 21.12.2019 kl. 17:28

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Uppi á Holtavörðuheiði og á Vatnsskarði er Byggðalínan á stálmöstrum, muni ég rétt.  Seltan er fljót að setjast í óhreinindi á postulíninu.  Seltan getur útskýrt hegðun Hrútatunguvirkisins, en ég hef ekki séð útskýringar Landsnets á tíðum útslætti þar.  Liðavernd eða einhverju öðru kann sumpart að vera um að kenna.  Það hefði verið mikill kostur að hafa 2 menn í Hrútatungu til viðbragðs í upphafi.  Liðavernd sýnir væntanlega jarðhlaup við seltuútleysingu, og þá er endurinnsetning úr Reykjavík óráðleg.  Ég vann á Laxárvatni við Blönduós haustið 1976 við uppsetningu á aðveitustöð í Byggðalínu þar.  Það lá mikið á að gangsetja stöðina fyrir jólin vegna hættu á að skammta þyrfti rafmagn í Húnaþingi um jól og áramót 1976.  Spennusetning tókst giftusamlega.

Bjarni Jónsson, 21.12.2019 kl. 18:34

3 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Sæll síðuhöfundur.

Þessi lesning þín er fullrar athygli virði. Það sem stendur þó upp úr lesningunni er að það er ómöguleiki þess að halda úti 100% öryggi á afhendingu raforku um landið. Við vitum báðir og þú sagðir réttilega að varaafl í Kapelluhrauni hélt ISAL gangandi og ef ekki væri fyrir slíkt, hefði illa farið.

Þetta atriði gildir um allt land og stjórnvöld verða að setja sér línu um hverju á að bjarga, hvers vegna og taka þeim afleiðingum. Nú þykjast stjórnvöld ekki hafa neitt um málið að segja vegna Ohf væðingar en það er alrangt. Þau halda á öllum hlutabréfunum og geta sagt viðkomandi fyrir verkum eins og þeim sýnist.

Það er ágætt að halda þessu til haga.

Kveðja góð að Austan

Sindri Karl Sigurðsson, 21.12.2019 kl. 23:10

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Einmitt, Sindri Karl.  Varaaflsmálin hafa tekið einkennilega stefnu.  Það er t.d. út í hött að afnema neyðarrafstöð í þéttbýli, af því að fyrir hendi séu 2 tengingar í jörðu, ef þær koma báðar frá sömu aðveitustöð í gömlu Byggðalínu.  Áreiðanleiki hennar hefur verið gróflega ofmetinn, og það hefur tafið fyrir umbótum.  Vitleysan í Landvernd um, að Byggðalínan gæti flutt almenningi nægt afl, ef ekki væri stóriðjan, er kolsvart afturhald og fullkomið vanmat og reyndar skilningsleysi á þætti stóriðju við uppbyggingu flutningskerfisins.  Nú þarf að taka upp þráðinn frá því fyrir Orkupakka 1 og beina gróðanum af raforkuvinnslunni til uppbyggingar á raforkuöryggi fyrir alla landsmenn.

Bjarni Jónsson, 22.12.2019 kl. 11:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband