14.1.2020 | 18:28
Öflugt orkukerfi grundvöllur vaxandi verðmætasköpunar
Það er til fyrirmyndar, að kunnáttumenn raforkufyrirtækjanna skrifi greinar í dagblöðin um stefnu þeirra og verkefni í fortíð, nútíð og framtíð, almenningi til glöggvunar á þessum mikilvæga málaflokki, sem snertir hag allra landsmanna. Slíkt hefur Gnýr Guðmundsson, rafmagnsverkfræðingur og yfirmaður greininga hjá Landsneti, tekið sér fyrir hendur meðal annarra, og birtist ágæt grein hans:
"Hvernig bætum við afhendingaröryggi raforku á landsbyggðinni"
í Fréttablaðinu 7. janúar 2020.
Segja má, að tilefnið sé ærið, þ.e.a.s. langvarandi straumleysi á norðanverðu landinu vegna bilana í loftlínum og aðveitustöðvum vegna óveðurs 10.-12. desember 2019.
Gnýr telur lykilatriði að reisa nýja Byggðalínu með meiri flutningsgetu en sú gamla og að hýsa aðveitustöðvarnar. Í þessu skyni ætlar Landsnet að reisa 220 kV línu á stálmöstrum í líkingu við nýju línuna frá Þeistareykjavirkjun að kísilverksmiðjunni á Bakka við Húsavík. Hún þótti standa sig vel í jólaföstuóveðrinu í desember 2019, en þó þurfti að stöðva rekstur hennar í 3 klst til að hreinsa af henni ísingu næst sjónum.
Það var s.k. 10 ára veður á jólaföstunni, og það er ekki ásættanlegt fyrir neytendur, að meginflutningskerfið láti undan óveðri í tugi klukkustunda samfleytt á 10 ára fresti að meðaltali. Engin aðveitustöð í meginflutningskerfinu á að verða straumlaus lengur en 1,0 klst á ári vegna óvænt vegna bilunar.
Á grundvelli margra ára ísingar- og selturannsókna Landsnets ætti fyrirtækið að geta veitt forsögn um hönnun styrkinga fyrir nýju Byggðalínuna, þar sem mest mæðir á vegna ísingar og vinds (samtímis). Einnig er mikilvægt að hagnýta þekkingu á seltustöðum til að auka s.k. skriðlengd ljósboga yfir einangrunarskálarnar með því að velja skálar með stærra yfirborði en hefðbundnar skálar og að fjölga þeim eftir þörfum. Möstrin og þverslárnar þurfa að taka mið af þessu. Fé er ekki vel varið í nýja Byggðalínu, nema hún tryggi viðunandi rekstraröryggi, einnig í 10 ára veðri, en við verðum hins vegar að búast við lengra straumleysi í 50 ára veðri og verra ásamt óvenjulegum jarðskjálftum og eldgosum. Á sumum stöðum (veðravítum) kann þá að vera þörf á hönnun lína m.v. 400 kV rekstrarspennu, eins og reyndar er í 5 220 kV línum á landinu og gefizt hafa vel. Burðarþol og seltuþol þeirra er meira en venjulegra 220 kV lína.
Verður nú vitnað í grein Gnýs:
"Í kerfisáætlun má m.a. finna langtímaáætlun um nýja kynslóð byggðalínu. Hún verður byggð úr stálmöstrum, sambærilegum þeim, sem byggð voru á NA-landi [Þeistareykjalínur-innsk. BJo], sem síður brotna þrátt fyrir ísingu, og mun hafa flutningsgetu, sem fullnægir þörfum landsins næstu áratugina. [Það er mikilvægt, að hægt verði án línutakmarkana að flytja orku á milli landshluta eftir Byggðalínu til að jafna stöðu í miðlunarlónum, því að innrennsli er misskipt í þau frá ári til árs eftir landshlutum - innsk. BJo.]
Þegar verkefninu verður lokið, verða virkjanakjarnar í mismunandi landshlutum samtengdir með fullnægjandi tengingum, og þannig minnka líkur á, að einstök svæði verði rekin í s.k. eyjarekstri og þar með í hættu á að verða fyrir straumleysi við truflun. Einnig mun ný kynslóð byggðalínu gefa nýjum framleiðsluaðilum víða á landinu færi á að tengjast kerfinu og auka þannig skilvirkni og afhendingaröryggi enn frekar."
Með nýjum framleiðsluaðilum á Gnýr sennilega við smávirkjanir og vindmyllugarða, en hængurinn á tengingu þeirra er í mörgum tilvikum hár tengingarkostnaður vegna fjarlægðar. Viðbótar kostnaðurinn lendir á virkjunaraðilum, en samkvæmt Orkupakka #4 á Landsneti.
Það er brýnt að flýta framkvæmdum Landsnets frá því, sem miðað er við í núgildandi kerfisáætlun, þannig að ný 220 kV lína frá Klafastöðum (Brennimel í Hvalfirði) til Fljótsdalsvirkjunar verði tilbúin í rekstur fyrir árslok 2025. Til að hindra að sú flýting valdi hækkun á gjaldskrá Landsnets er eðlilegt, að arður af Landsvirkjun fjármagni flýtinguna. Alþingismenn þurfa að beita sér fyrir þessu á vorþingi 2020, sjá tilvitnanir í tvo stjórnarþingmenn í lok pistils.
"En uppbygging meginflutningskerfis dugir ekki ein og sér til að tryggja afhendingaröryggi. Samkvæmt stefnu stjórnvalda eiga allir afhendingarstaðir [Landsnets-innsk. BJo] í landshlutakerfum að vera komnir með tvöfalt öryggi eigi síðar en árið 2040 (N-1).
Eins og staðan er í dag, eru þó nokkrir afhendingarstaðir í flutningskerfinu, þar sem ekki er um að ræða tvöfalt öryggi, m.a. á Norðurlandi, en einnig á Austurlandi, Vestfjörðum og á Snæfellsnesi. Kerfisáætlun Landsnets hefur m.a. tekið mið af þessari stefnu, og í framkvæmdaáætlun má finna áætlun um tvítengingar hluta af þessum afhendingarstöðum. Má þar nefna Sauðárkrók, Neskaupstað og Húsavík, en aðrir staðir eru einnig á langtímaáætlun, s.s. Dalvík, Fáskrúðsfjörður og sunnanverðir Vestfirðir."
Það er allt of mikill hægagangur í stefnu stjórnvalda við að tvöfalda orkumötun inn að þéttbýlisstöðum, þ.e. að gera rafmagnsflutninginn innan landshlutakerfa að (n-1) kerfi (hringtenging). Þá má önnur fæðingin detta út án þess, að neytendur verði þess varir. Stjórnvöld ættu tafarlaust að breyta markmiðinu um þessa tvítengingu úr 2040 í 2030 og fjármagna flýtinguna, eins og hina, með vaxandi arði af starfsemi Landsvirkjunar. Allir þessir notendur rafmagns, sem hér um ræðir, eiga fullan rétt á því að sitja við sama borð og aðrir landsmenn með tvítengingu frá stofnkerfi rafmagns, og það er skylda stjórnvalda, að gera raunhæfar ráðstafanir til að koma því í kring. Alþingi verður að koma orkuráðherranum í skilning um þetta og/eða styðja við bakið á henni til að svo megi verða á einum áratugi frá jólaföstuóförunum 2019.
Sem dæmi má nefna, að á Dalvík og á sunnanverðum Vestfjörðum á sér stað mikil og vaxandi verðmætasköpun, þar sem fjárfest hefur verið í milljarðavís ISK í atvinnutækjum. Að bjóða íbúum og fyrirtækjum þessara staða upp á bið í allt að tvo áratugi eftir viðunandi rafmagnsöryggi er óásættanlegt, og Alþingi hlýtur að vera sama sinnis. Þingmenn, sem hafna þessari flýtingu, geta varla horft framan í kjósendur í NV- og NA-kjördæmi í næstu kosningabaráttu.
"Kostnaður við lagningu jarðstrengja á 66 kV spennu er á pari við loftlínur, og lagning 66 kV jarðstrengja er víðast hvar tæknilega möguleg. Þó eru svæði, þar sem skammhlaupsafl er það lágt, að ekki er unnt að leggja allar nýjar 66 kV línur í jörðu, og er bygging loftlínu því óhjákvæmileg á þeim svæðum."
Á Vestfjörðum er einmitt ein af orsökum ónógra spennugæða m.v. þarfir nútíma tækjabúnaðar og mikillar sjálfvirkni í atvinnurekstri, að skammhlaupsafl raforkukerfis Vestfjarða er lágt. Það stafar af langri 132 kV geislatengingu við stofnkerfi landsins og fáum og litlum virkjunum á svæðinu. Það er auðvelt að bæta úr hinu síðarnefnda, því að hagkvæmir virkjanakostir finnast á Vestfjörðum, og er a.m.k. einn þeirra kominn í nýtingarflokk Rammaáætlunar og er þegar í undirbúningi. Það er brýnt að virkja sem mest af virkjanakostum í Rammaáætlun á Vestfjörðum. Þar með eru slegnar a.m.k. tvær flugur í einu höggi. Skammhlaupsaflið vex þá nægilega mikið til að hægt sé að færa allar loftlínur Vestfjarða í jörðu, og afhendingaröryggi raforku eykst til mikilla muna án þess að þurfa að grípa til olíubrennslu í neyðarrafstöðinni á Bolungarvík.
Það er vaxandi skilningur á Alþingi fyrir því, að núverandi áform stjórnvalda um uppbyggingu raforkukerfis landsins taka allt of langan tíma. Sigurður Bogi Sævarsson birti frétt í Morgunblaðinu 27. desember 2019 undir yfirskriftinni:
"Þjóðaröryggi í orkumálum verði tryggt".
Hún hófst þannig:
"Endurskoða þarf löggjöf á Íslandi, þar sem helztu innviðir samfélagsins eru greindir og staða þeirra tryggð m.t.t. þjóðaröryggis. Vegir, brýr, virkjanir, flugvellir og fjarskipti geta fallið undir þessa löggjöf og síðast en ekki sízt flutningskerfi raforku.
Þetta segir Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, sem eftir nýárið ætlar að óska eftir skýrslu frá stjórnvöldum um stöðu þessara mála. Sé ástæða til, megi leggja fram lagafrumvarp um málið."
Gríðarleg og vaxandi verðmætasköpun á sér stað á þeim landssvæðum, sem urðu fyrir rafmagnstruflunum á jólaföstu 2019. Það er ein af forsendum frekari fjárfestinga þar, að nægt raforkuframboð og afhendingaröryggi þess til jafns við Suð-Vesturlandið verði tryggt. Það er jafnframt réttur íbúanna. Það má skoða þetta í samhengi við fína grein Jóns Gunnarssonar, ritara og þingmanns Sjálfstæðisflokksins í Kraganum, í Fréttablaðinu, 20. nóvember 2019,
"Nei, er svarið".
Hún hófst þannig:
"Tækifæri okkar í uppbyggingu verðmætasköpunar, sköpun nýrra og fjölbreyttari starfa í tengslum við öfluga byggðaþróun, eru mikil. En stefnu- og aðgerðarleysi okkar í raforkumálum ásamt heimatilbúnum erfiðleikum við uppbyggingu dreifikerfis raforku gerir það að verkum, að fjölmörg tækifæri fara forgörðum eða eiga mjög erfitt uppdráttar."
Ritari Sjálfstæðisflokksins finnur, hvar skórinn kreppir, og veit, hvað þarf til að koma stöðunni í viðunandi horf. Það er ástæða til að ætla, að sama eigi við um meirihluta þingheims. Nú er hagkerfið staðnað og þar af leiðandi vaxandi atvinnuleysi. Til að brjótast út úr stöðnuninni þarf að hefjast handa sem fyrst við virkjanir, sem komnar eru vel á veg í undirbúningi, setja aukinn kraft í styrkingu flutnings- og dreifikerfa raforku og bæta samgöngukerfi landsins, í þéttbýli og í dreifbýli, af nýjum þrótti. Til að viðhalda samkeppnisstöðu landsins dugar ekki að láta innviðina grotna niður.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Aldrei að gefast upp, þú reynir stanslaust að vinna Íslandi gagn. Gleðilegt nýtt ár og þakk fyrir það gamla.
Egilsstaðir, 15.01.2020 Jónas Gunnlaugsson
Jónas Gunnlaugsson, 15.1.2020 kl. 23:06
Ég óska þér sömuleiðis gleðilegs nýs árs og þakka samskiptin á gamla árinu.
Bjarni Jónsson, 17.1.2020 kl. 20:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.