1.3.2020 | 14:01
Á meðan Róm brennur
Sunnudagspistill iðnaðarráðherra, Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, 23.02.2020, hét að sönnu:
"Miklir hagsmunir undir".
Hann hófst með minningarorðum um heiðursmanninn Jakob Björnsson, rafmagnsverkfræðing, og var upphafið þannig:
"Jakob Björnsson, fyrrverandi orkumálastjóri, lézt í liðinni viku. Hann var orkumálastjóri í tæpan aldarfjórðung, eða frá 1973 til 1996, og tók eftir það virkan þátt í þjóðmálaumræðu um orkumálefni. Skýr og afgerandi sjónarmið hans um stóriðju voru áberandi í greinaskrifum hans. [Hann var eindreginn stuðningsmaður þess konar orkunýtingar á Íslandi - innsk. BJo.]"
Jakob Björnsson kenndi við Verkfræði- raunvísindadeild Háskóla Íslands, þegar þessi pistilhöfundur nam þar til verkfræðiprófs í s.k. fyrrihlutanámi þar og var einmitt skipaður þar prófessor af ráðherra vorið, sem pistilhöfundur útskrifaðist þaðan, 1972.
Á þriðja og lokaári þessa fyrri hluta naut þessi pistilhöfundur leiðsagnar hins góða læriföður um myrkviði doðrants eins mikils eftir sænskan prófessor, og bar doðranturinn nafnið "Electrisitetslära". Útskýringar, dæmaleiðsagnir og leiðbeiningar í tímum og í föðurlegum samtölum hans við dolfallna stúdenta að kennslustundum afstöðnum féllu í frjóan jarðveg og voru afar uppörvandi yfirhlöðnum stúdentum. Þannig kynntist pistilhöfundur þessum sómamanni og góða kennara og síðan lítils háttar sem ráðleggjanda eftir heimkomu 1976 að loknu embættisprófi í rafmagnsverkfræði frá Norges Tekniske Högskole í Þrándheimi og vinnu við hönnun rafkerfa um borð í stærsta olíubor- og vinnslupalli Noregs fram að þeim tíma, Statfjord. Minningin um framúrskarandi mann og verkfræðing mun lifa.
Iðnaðarráðherra tíndi síðan til "margvíslegan ávinning af stóriðju". Það er þó vonandi ekki þannig, að iðnaðarráðherra ætli að láta skeika að sköpuðu um það, hvort orkusækinn iðnaður heyri brátt sögunni til á Íslandi, en það er engum vafa undirorpið, að sú mun verða raunin, nema ríkisstjórnin grípi strax í taumana og leggi línuna, sem leiða mundi samstarf Landsvirkjunar og viðskiptavina hennar inn á heillavænlegri brautir en raunin hefur verið síðast liðinn áratug.
Ábyrgð og frumkvæðisskylda iðnaðarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra er mest í þessum efnum, en svo vill til, að þar er um að ræða varaformann og formann Sjálfstæðisflokksins. Flokkur þeirra bjó þau út með gott veganesti á síðasta Landsfundi, vorið 2018. Þau þurfa þess vegna ekki að velkjast í vafa um vilja flokksfólks í þessum efnum. Þeirra er nú að láta hendur standa fram úr ermum. Eftirfarandi kom fram í ályktun Atvinnuveganefndar, sem Landsfundur samþykkti nánast einróma:
"Landsfundur stendur heilshugar á bak við hugmyndir um atvinnuuppbyggingu innanlands í tengslum við hagkvæma nýtingu orkuauðlinda. Íslenzk útflutnings- og framleiðslufyrirtæki skulu njóta þess samkeppnisforskots, sem felst í notkun á grænni íslenzkri orku. Landsfundur leggst gegn því, að græn upprunavottorð séu seld úr landi. Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenzkum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins."
Á þessum grundvelli hafa ráðherrar Sjálfstæðisflokksins fullt lýðræðislegt umboð til þess að vinda ofan af þeirri öfgafullu og hættulegu verðlagsstefnu, sem nú er rekin af hálfu ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar gagnvart viðskiptavinum hennar, þar sem stórtækustu afleiðingarnar verða augljóslega þær að binda enda á nýtingu innlendra orkulinda til framleiðslu á áli og kísilmálmi fyrir erlenda markaði.
Í Kastljósþætti RÚV 24.02.2020 var Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, annar viðmælenda þáttastjórnandans um upprunavottorð raforku. Þar ýjaði téður forstjóri að því, að erlend stórfyrirtæki á Íslandi stunduðu óleyfilegar bókhaldsbrellur með kostnað aðfanga og afurðaverð sín. Með þessu er forstjórinn kominn út í pólitík, sem enginn hefur falið honum að stunda og hlýtur að hafa afleiðingar fyrir hann, því að það að sá fræjum grunsemda opinberlega um ávirðingar almennt um alla þessa skráðu viðskiptaaðila í kauphöllum heimsins er grafalvarlegt mál og stenzt auðvitað ekki gagnrýna hugsun. T.d. RTA/ISAL í Straumsvík framleiðir einvörðungu álsívalninga af ýmsum melmum og gildleikum. Viðskiptavinirnir eru fjölmargir, yfir 200 framleiðendur alls konar álprófíla fyrir bíla- og byggingariðnaðinn o.fl. Hvernig dettur þessum manni í hug að bera það á borð fyrir alþjóð, að hugsanlega sé RTA/ISAL að selja þessum fjölmörgu viðskiptavinum sínum sínum vörur á undirverði ?
Annað úr þessum þætti, sem bendir til illvígrar pólitíkur af hálfu þessa manns í garð viðskiptavina Landsvirkjunar í eigu erlendra félaga, voru viðbrögð hans við gagnrýni Guðrúnar Hafsteinsdóttur á útflutning upprunavottorða "hreinnar" orku. Hann brást við henni með spurningu um, hvort Samtök iðnaðarins vildu færa alþjóðlegum félögum mrdISK 10-20 á 20 árum. Þetta er óburðugur málflutningur og nánast óskiljanlegur. Er Landsvirkjun að selja upprunaheimildir úr landi til að þær standi ekki stóriðjufyrirtækjum á Íslandi til boða ? Þá verða auðvitað fleiri útundan, því að samkvæmt þessu bókhaldi eru aðeins 11 % seldrar raforku á Íslandi úr endurnýjanlegum orkulindum. Um þetta barnalega stríð forstjórans við stóriðjuna í landinu á orðtakið við, að sér grefur gröf, þótt grafi.
Iðnaðarráðherra hefur enn ekki framfylgt skýrum fyrirmælum Landsfundar til sín um að stöðva sölu upprunavottorða úr landi, enda hefur hún ekki heimild til að grípa með svo almennum hætti inn í starfsemi Innri orkumarkaðar EES. Hún getur hins vegar bannað ríkisfyrirtækjum að stunda þessi viðskipti og gæti t.d. lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis til að freista þess að fá stuðning Alþingis við þá stefnumörkun. Hvers vegna hreyfir hún hvorki legg né lið ? Það er sennilega vegna þess, að hún er andstæð slíku banni, en þá er hún sem ráðherra Sjálfstæðisflokksins komin í andstöðu við stefnumörkun flokksins, sem hlýtur að grafa undan hennar pólitíska ferli innan flokksins. Er þingflokki Sjálfstæðisflokksins stætt á að bera ábyrgð á slíkum ráðherra ?
Þetta er ekki eina stefnumörkun Landsfundar, sem ráðherrar flokksins og reyndar megnið af þingflokkinum hefur beinlínis unnið gegn. Í fersku minni er baráttan um Orkupakka 3 frá ESB, en ekki fer á milli mála, að Landsfundarályktunin hér að ofan, sem hafnar frekara framsali yfir íslenzkum orkumarkaði til stofnana ESB, samræmist engan veginn stuðningi flestra þingmanna flokksins við ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að staðfesta gjörning Sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 5. maí 2017, sem fól m.a. í sér stofnun embættis Landsreglara (falið undir hatti Orkumálastjóra), sem hefur m.a. með höndum eftirlit með virkni íslenzks raforkumarkaðar og eftirlit með stofnun orkukauphallar að forskrift ESB. Landsreglarinn situr samræmingarfundi hjá ACER-Orkustofnun ESB.
Aftur að tilvitnaðri grein ÞKRG. Hún taldi þar fram ýmsa kosti stóriðjustefnunnar, og var einn þessi:
"Stóriðjustefnan hefur því verið jákvætt framlag Íslands til loftslagsmála, ekki neikvætt, eins og sumir halda fram."
Jakob, heitinn, Björnsson var einmitt óþreytandi við að benda á þessa staðreynd. Heimsmeðaltal af myndun koltvíildisjafngilda í álverum (rafgreining, álsteypa, forskautasamsetning og kerfóðrun) ásamt raforkuvinnslu fyrir þessa framleiðslu er um 11 tCO2eq/tAl, en á Íslandi er þessi losun vel undir 2 tCO2eq/tAl. Við núverandi framleiðslustig áls þýðir þetta, að álverin á Íslandi spara andrúmsloftinu að öllum líkindum 9 MtCO2eq/ár, sem er 64 % meira en nemur allri skráðri losun hérlendis. Til þess liggja 3 meginástæður: Aðalástæðan er orkuöflunin, en hún losar sáralítið koltvíildi í samanburði við orkuöflun úr jarðefnaeldsneyti, sem er algengust erlendis. Önnur ástæðan eru góð tæknileg tök á rafgreiningarferlinu hérlendis, sem þýðir, að mjög lítið er losað af sterkum gróðurhúsalofttegundum á borð við CF4 og C2F6. Þriðja ástæðan er, að rafvæðing steypuskálaofna er langt komin hérlendis og einnig rafvæðing forskautavinnslunnar og kerfóðrunar.
"Í fimmta lagi er stóriðja þrátt fyrir allt fremur stöðug. Gríðarleg fjárfesting liggur að baki, sem ekki verður rifin upp með rótum svo glatt, öfugt við ýmsa aðra starfsemi. Og sveiflurnar geta jafnað út aðrar sveiflur í hagkerfinu. Það sýndi sig m.a. eftir bankahrunið, en ISAL var mögulega eina fyrirtækið, sem réðist í tugmilljarða fjárfestingarverkefni [mrdISK 70-innsk. BJo] beint í kjölfar þess."
Álframleiðslan á Íslandi er reyndar dálítið háð duttlungum náttúrunnar, eins og hinir höfuðatvinnuvegir þjóðarinnar, vegna þess að innrennsli í miðlunarlón vatnsaflsvirkjananna er tilviljunum háð. Ráð er fyrir því gert, að orkubirgirinn geti skert bæði afl og orku í þurrkaárum með vissum skilmálum um allt að 10 % frá hámarksnotkun. Nú sjáum við, að orkuviðtakinn, ISAL, skerðir forgangsorkukaup sín um 15 % vegna stöðunnar á álmörkuðum og á íslenzka raforkumarkaðinum.
Það er ekki algengt, að álverksmiðjur séu fluttar á milli staða, en þess eru þó dæmi, a.m.k. að hluta. Hluti af þýzku verksmiðjunni í Töking var t.d. fluttur upp á Grundartanga 1997.
"Lítill vafi er á því, að sjálf orkusalan hefur orðið arðbærari með hækkandi verði. Það er ekki óeðlilegt, að verð hækki með tímanum; að afslættir séu einkum í boði í upphafi. Og það er ekki stefna okkar að nánast gefa stórfyrirtækjum orkuna til þess að fá störf í staðinn, sem hefur verið nálgunin í a.m.k. einhverjum tilvikum í Kanada, svo [að] dæmi sé tekið."
Hér slær út í fyrir höfundinum. Hún athugar ekki, að vinnslukostnaður rafmagns hefur hækkað í tímans rás að raunvirði vegna þess, að fyrst völdu menn að virkja á hagkvæmasta stað, næsti virkjunarstaður var dýrari á orkueiningu og svo koll af kolli. Þess vegna er ekki gefið, að lágt verð í byrjun hafi verið Landsvirkjun óhagstæðara en hærra raforkuverð síðar. Hitt er aftur á móti staðreynd, að með skuldalækkun Landsvirkjunar hefur meðalkostnaður hennar á MWh lækkað og að ágóðinn hefur þá hækkað mikið, því að samtímis hefur verðið hækkað, og þar stendur hnífurinn einmitt í kúnni.
Að hætti ESB hefur verðlagning Landsvirkjunar til stórnotenda tekið mið af jaðarkostnaðarverði, þ.e. kostnaði næstu virkjunar á MWh. Mismunurinn á ESB og Íslandi að þessu leyti er hins vegar sá, að frjáls samkeppni margra birgja heldur aftur af þeim verðhækkunum, sem kaupendur verða að sætta sig við. Hér er ekkert aðhald að seljanda í einokunarstöðu, þegar hann virðist kæra sig kollóttan um það að tryggja langvarandi viðskiptasamband með sjálfbærum samningum. Það dettur engum í hug "að nánast gefa stórfyrirtækjum orkuna". Þótt verðið til ISAL yrði lækkað um 30 %, svo að raforkukostnaður fyrirtækisins sem hlutfall af tekjum yrði svipaður og í upphafi samningsins 2011, yrði samt myljandi gróði af rekstri Landsvirkjunar.
Það er ankannalegur málflutningur af hálfu ráðherrans, að dæmi séu um, að Kanadamenn nánast gefi stórfyrirtækjum orkuna til að fá störf í staðinn. Í Qubeck og í British Columbia eru stór vatnsföll með stórvirkjunum. Algengt er þar, að stórfyrirtæki hafi fengið virkjanaleyfi og sjái starfsemi sinni, t.d. álverum, fyrir raforku, og selji afganginn inn á landskerfið. Þetta er allt annað fyrirkomulag en ráðherrann lýsir.
Nokkru síðar vék Þórdís Kolbrún að aflsæstreng til útlanda:
"Auðvitað er augljóst, að enginn getur látið sér detta það í hug að selja orkuna frekar um sæstreng án þess að taka allan þennan auka-ávinning með í reikninginn. Jafnaugljóst er, að það væri vitleysa að útiloka um alla framtíð, að það reikningsdæmi geti einhvern tímann gengið upp og banna skoðun á því."
Þetta er þversagnakenndur texti hjá ráðherranum, sem bendir til, að hún sé á báðum áttum. Það er einmitt stefna orkupakkanna frá ESB, að orkufyrirtækin skuli við verðlagningu sína einvörðungu horfa í eiginn barm og engan gaum gefa að þeim "auka-ávinningi", sem annars konar, mildari og víðsýnni verðlagsstefna kynni að hafa. Það er sorglegt, að ráðherrann hefur enn ekki skilið inntak orkupakkanna frá ESB. Í umræðunni um Orkupakka 3 hélt hún því fram, að samkeppnisfyrirkomulag orkupakkanna hefði bætt hag neytenda. Þetta var rekið ofan í hana með skýrslu "Orkunnar okkar" í ágúst 2019. Á sviði stórsölu með raforku er nánast engin samkeppni á milli orkubirgjanna á Íslandi, heldur einokunarfyrirkomulag. Þess vegna eru þessi mál nú komin í algert óefni.
Það er kominn tími til, að þessi iðnaðarráðherra fari að skilja kjarna orkumálanna á Íslandi, hætti að daðra við aflsæstreng á milli Íslands og Innri markaðar ESB, sem núverandi forstjóri Landsvirkjunar vissulega hefur rekið áróður fyrir og er þar trúr orkustefnu ESB, eins og hún birtist í Orkupakka 3, og fari að vinna af einurð í þágu hagsmuna íslenzks iðnaðar og þar með íslenzku þjóðarinnar.
Að lokum skrifaði ráðherrann:
"Ég hef áður vakið máls á því, að skynsamlegt væri að auka gagnsæi um orkusamninga. Það er forsenda vitrænnar umræðu í stað misvel ígrundaðra ágizkana um samkeppnishæfni okkar, þar sem gerólík sjónarmið heyrast. Ég hef lagt mitt af mörkum til þess með því að fá óháð erlent greiningarfyrirtæki til að kortleggja samkeppnisstöðu stóriðju með áherzlu á orkuverð. Það verður fróðlegt að rýna í niðurstöður hennar vor."
Nú hafa iðnaðarráðherra og forstjórar ISAL og Landsvirkjunar öll lýst yfir vilja sínum til að opinbera orkusamningana við stóriðju á Íslandi. Hefði ráðherrann verið sjálfri sér samkvæm, þá hefði hún birt erindisbréf ráðuneytisins til ráðgjafans Fraunhofers á vefsetri ráðuneytisins. Þetta er enn því miður leyndarskjal. Hvernig til tekst með að varpa ljósi á samkeppnishæfni íslenzkrar stóriðju, veltur á ýmsu. Hefur Fraunhofer aðgang að bókhaldi annarra stóriðjufyrirtækja í heiminum, sem eru á sama markaði og íslenzku álfyrirtækin ? Mun Fraunhofer gera grein fyrir umframkostnaði íslenzkrar stóriðju vegna staðsetningar hennar á Íslandi (t.d. flutningskostnaði og launakostnaði) ? Þetta eru mikilvæg atriði, og gagnsemi skýrslu frá rándýrum ráðgjafa er alveg undir erindisbréfinu til hans komin. "Það varðar mest til allra hluta, að undirstaðan sé réttlig fundin."
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.