Af sanngirnis- og viðskiptasjónarmiðum

Morgunblaðið hefur fjallað ítarlega um Straumsvíkurvandamálið, eða væri nær að nefna það Háaleitisvandamálið ?  Staksteinar láta sér fátt óviðkomandi vera, og fjölluðu 13.02.2020 um nauðsyn ákvarðanatöku nú til að draga úr efnahagsvandanum fremur en að magna hann með ákvarðanafælni, sem hrjáir suma ráðherra.  Téðir Staksteinar um þetta málefni voru undir heitinu: 

"Rétti tíminn er nú".

Þeim lauk þannig:

"Hagsmunirnir, sem í húfi eru [í Straumsvík], hlaupa á milljarðatugum á ári [til 2036].  Slíkar tölur kalla á, að staðan sé tekin alvarlega og rætt, hvaða þýðingu fyrirtækið [ISAL] hafi, og hvaða áhrif það hefði, ef þess nyti ekki lengur við.  

Hefur Landsvirkjun aðra kaupendur að þeirri orku, sem nú er seld til Straumsvíkur ?  Bíða önnur störf þeirra, sem þar starfa ?  Landsmenn velta fyrir sér spurningum af þessu tagi, og fyrirtækið þeirra, Landsvirkjun, og ríkisvaldið, geta aldrei orðið stikkfrí í svo stóru máli."

Mogginn er sem jafnan með fingurinn á púlsi þjóðlífsins og víðs fjarri því að vera þar utan gátta, sem því miður er rétta lýsingin á ýmsum öðrum stórum og litlum fjölmiðlum hérlendis, svo að ekki sé nú minnzt á ósköpin í Stjórnarráðinu eða í háhýsinu ofarlega á Háaleitisbrautinni, þeirri góðu götu. Það er hverju orði sannara, að ríkisstjórnin getur ekki setið prúð hjá með hendur í skauti á meðan þessu fram vindur.  Vonandi kynna ráðamenn sér rækilega grein Elíasar B. Elíassonar, verkfræðings, í Morgunblaðinu 25.02.2020, þar sem hann m.a. gefur til kynna, að ISK sé ekki nægt sveiflujöfnunartæki fyrir íslenzka  atvinnulífið, heldur þurfi raforkuverðið að koma þar jafnframt til skjalanna. Það er skarplega athugað, enda er íslenzka hagkerfið nú þegar raforkuknúið að miklu leyti og verður það alfarið í kjölfar orkuskiptanna.   

Til að setja örlítið meira kjöt á beinið má geta þess, að um er að útflutningstekjur upp á 55 mrdISK/ár eða um 5 % af útflutningstekjum landsins, og um 30 % af þeirri upphæð renna til raforkukaupa (af Landsvirkjun) og um 10 % fara í launakostnað.  Innlendur kostnaður fyrirtækisins er um 45 % af tekjunum.  Samkvæmt Hagfræðistofnun Háskóla Íslands eru um 1250 störf beint og óbeint tengd starfseminni í Straumsvík.  Við lokun ISAL mundi atvinnuvandi þeirra bætast við vanda tæplega 10 þúsund atvinnulausra íbúa landsins um þessar mundir.  Þeir spanna fjölmargar stéttir, og munu fæstir strax geta gengið í önnur störf í núverandi efnahagslægð, og nánast enginn í betur launuð störf.  Vandi Hafnarfjarðar verður mestur af sveitarfélögunum, enda líklega um helmingur starfsmanna ISAL Hafnfirðingar, og verksmiðjulóðin í landi Hafnarfjarðar. Tekjutap Hafnarfjarðarbæjar mundi vafalaust fara yfir 1 mrdISK/ár fyrstu misserin á eftir.  

Um er að ræða rúmlega 3,0 TWh/ár, sem Landsvirkjun hefur líklega engan kaupanda að á sömu kjörum í nánustu framtíð og fyrirtækið setur upp gagnvart RTA/ISAL.  Þetta er um fimmtungur af orkuvinnslugetu Landsvirkjunar, sem taka mun mörg ár að mjatla út til nýrra og e.t.v. gamalla viðskiptavina.  Ef mál þróast á versta veg og Landsvirkjun tapar þar að auki kaupskyldukröfunni á hendur RTA fyrir dómi um megnið af umsaminni orku, þá gæti tjón Landsvirkjunar og  Landsnets með vaxtakostnaði orðið um mrdISK 200. Af hálfu Landsvirkjunar er glannalega teflt og óviturleg áhætta tekin með þvergirðingslegri afstöðu í garð gamals viðskiptavinar. 

Málflutningur forstjóra Landsvirkjunar frá því, að yfirlýsing RTA var gefin út í Straumsvík 12.02.2020, hefur vakið furðu pistilhöfundar fyrir margra hluta sakir, t.d. vegna þess, að leynd hvílir yfir samninginum, en það aftrar honum ekki frá að kalla hann sanngjarnan, þótt almenningur eigi þess ekki kost að leggja mat á það. Í Kastljósþætti RÚV 24.02.2020 virtist hann túlka tilkynningu RTA/ISAL sem reykbombu í áróðursstríði.  Það er hættuleg rangtúlkun á alvarlegri stöðu, sem fyrirtækið varð að gera almenningi og verðbréfamörkuðum kunnuga.  Hann hefur, eins og áður segir, verið með fullyrðingar, sem almenningi er ómögulegt að sannreyna vegna leyndarinnar, sem RTA/ISAL að fyrra bragði lagði til, að aflétt yrði.  Dæmi um þetta er viðtal Þorsteins Friðriks Halldórssonar í Markaðnum 19.02.2020 við forstjóra Landsvirkjunar og forstjóra Elkem á Íslandi:  

"Sanngjarn samningur en ekki ódýr".

Hörður Arnarson sagði þar m.a.:

"Varðandi raforkuverðið teljum við, að samningurinn sé sanngjarn fyrir bæði fyrirtækin [ISAL og LV].  Vissulega er hann ekki ódýr, en hann er sanngjarn.  Á heildina litið tel ég álverið ágætlega samkeppnisfært í iðnaði, sem býr við krefjandi aðstæður."

 Þetta er undarlegur málflutningur, uppfullur af huglægu mati, algjörlega án rökstuðnings.  Það er skákað í því skjólinu, að umræðuefnið er sveipað leyndarhjúpi, sem forstjórinn þykist í orði kveðnu vilja afnema, en efast má um heilindi þeirra orða.  Honum verður afar tíðrætt um sanngirni, en hér skal hins vegar fullyrða og rökstyðja hið gagnstæða.  Samningur LV við RTA/ISAL 2011 var og er ósanngjarn.

Samningurinn er gerður í einokunarumhverfi, sem er ekki umhverfi Innri orkumarkaðar ESB, þótt aðferðarfræði hans um jaðarkostnaðarverðlagningu í nýjum samningum hafi verið beitt þarna af hálfu LV.  Orkukaupandanum var einfaldlega stillt upp við vegg, því að hann gat ekki leitað til samkeppnisaðila LV, því að þeir höfðu ekki "vöruna", sem hann vantaði, á boðstólum, þ.e. 430 MW afl og um 3500 GWh/ár orku. Viðskiptavinurinn (RTA/ISAL) stóð þá frammi fyrir því að taka hatt sinn og staf, stöðva allar fjárfestingar (mrdISK 65), sem hann var þá á miðju kafi í, eða að veðja á bjartsýnar spár um þróun álverðs, sem þá stóð í 2000-2300 USD/t. 

Hefði þróun álverðs aðeins fylgt þeirri verðlagsvísitölu, sem LV heimtaði, að orkuverðið fylgdi, hefði hækkunin numið 16 % þar til nú og stæði  í 2500 USD/t um þessar mundir, en er í raun undir 1700 USD/t samkvæmt LME-skráningu, sem þýðir lækkun um 21 % frá samningsgerð. Enginn sanngjarn maður kemur auga á snefil af sanngirni í svo einhliða samningi, þar sem annar aðilinn hefur allt sitt á hreinu, en enginn varnagli er settur til að verja hagsmuni hins, ef spár um þróun markaða bregðast. 

Nú nemur raforkukostnaður ISAL í USD/tAl um 34 % af skráðu álverði, LME.  Ekkert viðskiptalega rekið álver getur skilað nokkurri framlegð við þær aðstæður, og þar af leiðandi eru fyrirtækinu allar bjargir bannaðar í núverandi stöðu.  Eigandinn á ekkert val, og að tala um áróðursbrellu í þessu sambandi, eins og forstjóri Landsvirkjunar leyfir sér að gera, ber vott um dómgreindarleysi.  Við upphaf samningsins 2011 nam þetta hlutfall um 24 %, sem er við þolmörkin fyrir álver á frjálsum markaði.  Samningur, sem veldur slíkri breytingu, er ekki aðeins ósanngjarn; hann er óbærilegur.  Nú hefur stjórn RTA misst þolinmæðina gagnvart þvermóðskunni, sem mætir fyrirtækinu af hálfu LV, og mun að öllum líkindum stöðva starfsemina og þar með fjárhagstapið, um leið og málaferli munu hefjast út af kaupskylduákvæðum samningsins, sem LV gæti fyrirgert með því að neita sanngirniskröfum mótaðilans. Ríkisstjórnin, fulltrúi eiganda LV, verður að grípa í taumana til að forða þjóðarbúinu frá stórtjóni.

Í þessari "Markaðsgrein" Þorsteins Friðriks var einnig fróðlegt viðtal við forstjóra Elkem á Íslandi, sem sagði sínar farir ekki sléttar í viðskiptunum við Landsvirkjun.  Þar (á Háaleitisbraut) virðist vera eitthvað mikið að stjórnarháttum, því að fyrirtækið hefur borið langt af leið og er alls ekki að ávaxta þær orkulindir, sem því er falið að nýta, með þjóðhagslega hagkvæmasta hætti til langframa litið.  Þegar hver viðskiptavinur Landsvirkjunar um annan þveran kemur fram og ber sig afar illa undan fyrirtækinu, er ljóst, að þetta fyrirtæki er ekki að rækta langtíma viðskiptasamband við viðskiptavini sína hérlendis.  Þar með er það að rífa niður, það sem byggt hefur verið upp, og setja gríðarlega hagsmuni landsmanna í algert uppnám.  Hér skal fullyrða, að stjórn Landsvirkjunar hefur til slíks ekkert umboð nú, jafnvel þótt hún gæti sýnt fram á, að hún gæti selt virkjaða og ónotaða orku úr landi um sæstreng f.o.m. 2028, sem hún ekki getur:

"Forstjóri Elkem á Íslandi segir óljóst, hvað taki við, þegar samningurinn við Landsvirkjun rennur út árið 2029.  Raforkuverðið sé komið að þolmörkum."

Það er engu líkara en Landsvirkjun hafi það nú sérstaklega á stefnuskrá sinni að úthýsa stóriðjunni úr landinu og ryðja þannig brautina fyrir útflutning á rafmagni um aflsæstreng.  Alþingismenn verða að gera sér grein fyrir því, hvað er raunverulega að gerast.  Núverandi ástand er óviðunandi, því að það gerir fyrirtækjunum ókleift að gera fjárfestingaráætlanir, sem leggi grunn að tækniþróun, vöruþróun og jafnvel framleiðsluaukningu þeirra í framtíðinni.  Þetta er ein af ástæðum þess, að fjárfestingar fyrirtækja í landinu í heild sinni hafa hrapað, sem mun gera núverandi dýfu hagkerfisins bæði dýpri og langvinnari en ella. 

Ekki dettur stjórnendum Statkraft í Noregi, systurfyrirtækis Landsvirkjunar þar, eða Stórþingi og ríkisstjórn, að haga sér með þessum óábyrga hætti, þótt þar séu nú þegar fyrir hendi millilandatengingar, sem nýta mætti í miklu meira mæli til útflutnings raforku en nú er gert, enda er þróun orkuverðs í Evrópu algerlega undir hælinn lögð.  Nei, norska ríkið hleypur undir bagga í erfiðleikum stóriðjunnar, m.a. Elkem, og greiðir niður raforkuverð til þeirra með um 6 USD/MWh (20 mrdISK/ár) samkvæmt upplýsingum starfsmanna Landsvirkjunar í nýlegri blaðagrein.  Það er enginn að biðja um það hér, heldur aðeins, að ríkisvaldið sýni sanngirni í sinni einokunarstöðu í stórsölu rafmagns og taki tillit til þess, að raforkuverð á Íslandi þarf að nota sem sveiflujöfnunartæki fyrir lítið og viðkvæmt hagkerfi.   Sú einokunarstaða er einsdæmi í Evrópu, og þess vegna er stórhættulegt að beita hér hugmyndafræði orkupakka ESB við verðlagningu rafmagns. 

""Vandinn er sá, að samkeppnishæfni verksmiðjunnar [á Grundartanga] á Íslandi samanstendur af fleiri þáttum en raforkunni einni og sér, og raforkan var sá þáttur, sem gerði það að verkum, að það borgaði sig að reka verksmiðju á Íslandi", segir Einar Þorsteinsson, forstjóri Elkem á Íslandi í samtali við Markaðinn." 

Þarna hittir forstjóri Elkem á Íslandi naglann á höfuðið, en það er einmitt lóðið, að samkvæmt orkupökkunum eiga orkufyrirtækin við samningsgerð sína ekki að taka tillit til þátta eins og meiri flutningskostnaðar og vinnuaflskostnaðar viðskiptavina sinna en samkeppnisaðila þeirra.  Ef þessi atriði eru hins vegar ekki höfð í huga í íslenzku einokunarumhverfi á þessu sviði, þá verða stórslys, eins og við erum að horfa upp á núna.  Fíllinn í postulínsbúðinni er að leggja hana í rúst, og iðnaðarráðherra horfir þæg á og er þegar byrjuð að tala aftur um æskilegar athuganir á sæstrengslögn til Íslands, sem hún hefur samt þagað um, síðan ríkisstjórnin lét hérlenda bakhjarla Ice-Link, Landsvirkjun og Landsnet, beina því til ESB að fjarlægja hann af verkefnaskrá innviðaverkefna, PCI, sem framkvæmdastjórn ESB síðan gerði.  Þetta er engin hemja.

Forstjóri Fjarðaáls, Tor Arne Berg, hafði þetta að segja við Markaðinn:

"Tor Arne Berg, forstjóri Fjarðaáls, segist ekki geta tjáð sig um raforkusamning álfyrirtækisins við Landsvirkjun, enda sé hann trúnaðarmál.  "Það er þó alveg ljóst, að álverið var reist hér á landi vegna þess, að hér var í boði langtímasamningur á stöðugri orku", segir hann.  "Helzta ógnin, sem steðjar að áliðnaði um þessar mundir, er offramleiðsla í Kína, sem kemur til vegna óeðlilegra niðurgreiðslna frá ríkinu.  Þetta hefur orðið til þess, að álverð hefur fallið á alþjóðlegum markaði, sem þrengir mjög að samkeppnisstöðu í þessari grein", bætir forstjórinn við."

Það er rétt hjá þessum forstjóra, að fáanlegir langtíma samningar um raforku úr landskerfi, sem nýtir einvörðungu orkulindir, sem kalla má endurnýjanlegar, hvetja erlenda fjárfesta til að fjárfesta á Íslandi.  Þetta er samt ekki nóg.  Ef rafmagnsverðið, sem í boði er, er hið sama eða hærra en í Noregi eða í öðrum löndum með fáanlega kolefnisfría raforku, þá fæst fjárfestirinn ekki til að fjárfesta hér, vegna þess að hann lítur á heildarkostnað sinn.  Hann verður einfaldlega hæstur á Íslandi, nema rafmagnsverðið lækki niður fyrir samkeppnislöndin.  Hversu mikið er rannsóknarefni, en gæti numið 10 USD/MWh. Þetta vissu menn gjörla hjá Landsvirkjun hér áður fyrr, en nú er það greinilega gleymt og grafið og öldin önnur á Háaleitisbrautinni.  

 

Það kom ýmislegt fleira markvert fram í viðtali Þorsteins Friðriks við forstjóra Elkem á Íslandi.  Í máli hans kemur fram, að viðhorf Landsvirkjunar til fyrirtækisins veldur því, að stjórnendur fyrirtækisins búast við að þurfa að leggja upp laupana árið 2029, og þess vegna er ekki lengur fjárfest til framtíðar í verksmiðjunni.  Höfuðvandi orkukræfs iðnaðar á Íslandi er sá, að hjá langstærsta orkubirgi hans ríkir fjandsamlegt viðhorf í garð stóriðjunnar, sem felst í stuttu máli í að blóðmjólka hana, á meðan hún tórir. Þeir, sem efast um þetta, ættu að hlusta á Kastljósþátt RÚV 24.02.2020 og lesa Morgunblaðsgrein Elíasar B. Elíassonar 25.02.2020. Síðan virðist ætlunin vera að selja orkuna til útlanda um sæstreng.  Skipta verður þegar um stjórnarstefnu í þessu ríkisfyrirtæki og taka upp sjálfbæra viðskiptastefnu, svo að báðir aðilar hagnist á viðskiptunum. 

"Ef við skoðum þættina, sem hafa áhrif á afkomu okkar, má segja, að sá þáttur, sem vegur þyngst sé markaðsverð á afurðum.  Það sveiflar afkomunni upp og niður.  En ef við skoðum samkeppnishæfni verksmiðju okkar á Íslandi - Elkem er með 27 verksmiðjur á heimsvísu - þá samanstendur hún af þremur meginþáttum og hefur gert það frá upphafi", segir Einar.

"Þar má fyrst nefna flutningskostnað.  Við flytjum öll hráefni inn og allar afurðir út.  Þetta hefur veikt samkeppnisstöðu okkar gagnvart keppinautum í Evrópu", segir Einar. 

Annar þáttur, sem vegur þungt, er innlendur kostnaður og launakostnaður.  Öll þjónusta, sem Elkem kaupir innanlands, er beintengd við launaþróun, og þessi kostnaður er mjög óhagstæður að sögn Einars.  Verksmiðja Elkem á Íslandi er sú dýrasta innan samstæðunnar, hvað laun varðar. 

"Þriðji þátturinn er raforkan, en hún er ástæðan fyrir því, að verksmiðjan er yfirleitt á Íslandi.  Raforkuverðið var hagstætt og gerði það að verkum, að verksmiðja á Íslandi var samkeppnishæf.  Eftir niðurstöðu gerðardóms má segja, að þessi samkepnisþáttur sé að miklu leyti horfinn", segir Einar."

Þarna lýsir forstjóri Elkem á Íslandi nákvæmlega sömu aðstæðum og eiga við um álver á Íslandi.  Vegna staðsetningarinnar eru flutningar aðfanga og afurða dýrari á hvert tonn fyrir verksmiðjurnar hérlendis en hjá samkeppnisaðilum.  Launakostnaður, vörur og þjónusta, eru dýrari hér.  Aðeins rafmagnið getur skapað samkeppnisforskot, sem verður a.m.k. að vega upp ofangreindan viðbótar kostnað, svo að erlendir fjárfestar kæri sig um að vera með starfsemi hér.  Gróft reiknað má ætla, að rafmagnið (orka+flutningur) verði að vera 10 USD/MWh lægra hjá álverunum hér en hjá samkeppnisálverum.  Ofan á þetta koma niðurgreiðslur hins opinbera, sem í Noregi nema um 6 USD/MWh og á meginlandinu um 9,5 EUR/MWh, jafngildi um 10,3 USD/MWh. Fróðlegt verður að sjá niðurstöðu verktakans Fraunhofers, sem iðnaðarráðherra hefur keypt til að semja fyrir sig skýrslu um málið.  Því verður samt vart trúað, að iðnaðarráðuneytið búi ekki yfir nægilega haldgóðum gögnum um þetta mál nú þegar.

"Ef við skoðum meðalafkomu síðustu ára - á bilinu 10-13 ár - þá má segja, að raforkuhækkunin hafi að stórum hluta étið upp allan hagnaðinn.  Þetta þýðir, að við höfum verið og erum að leita leiða til að hagræða og fækka fólki."

Sama er uppi á teninginum hjá ISAL.  Fyrir 2012 var hagnaður samfleytt í a.m.k. 15 ár, en segja má, að með núverandi raforkusamningi sé loku skotið fyrir það, að fyrirtækið geti skilað hagnaði (rafmagn 30 % af tekjum).  Þetta kallar Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, "sanngjarnan" samning.  Það er frumstæð blekkingartilraun, sem eykur ekki hróður hans. 

Spyrja má, hvort nokkurt vit sé í því fyrir eigandann (ríkissjóð), að Landsvirkjun reki nú þá stefnu að blóðmjólka gamla sem nýja viðskiptavini ?  Nú er hart í ári hjá viðskiptavinunum, og þá er rétti tíminn til að endurskoða þessa misheppnuðu samninga og hreinlega ekki hægt að bíða með það til 2024. 

"Vandinn er tvíþættur að sögn Einars.  Annars vegar er fyrirtækið að glíma við skammtímaáhrif af hærra raforkuverði, og hins vegar vakna spurningar um, hvað taki við, þegar samningurinn rennur út árið 2029."

Skammtímaáhrifin af óprúttinni stefnu Landsvirkjunar gagnvart viðskiptavinunum er, að þeir leitast við að fækka starfsmönnum, eins og framast er kostur, og skera öll önnur útgjöld niður við trog.  Þetta er ekki þjóðhagslega hagkvæmt hérlendis, þar sem laun í stóriðjunni eru tiltölulega há, og þau þurfa að hafa fjárhagslegt bolmagn til tæknivæðingar og nýsköpunar.

  Við uppkvaðningu gerðardómsins um raforkuverð til Elkem á Íslandi lýsti Landsvirkjun yfir óánægju með hann.  M.v. þekkt vinnubrögð Landsvirkjunar í seinni tíð má þess vegna gera ráð fyrir því, að Landsvirkjun muni heimta hærra orkuverð af Elkem á Íslandi og sitji við sinn keip, þótt viðskiptavinurinn neyðist þá til að hætta starfsemi. Þetta horfir mjög einkennilega við, því að ekki er vitað til, að Landsvirkjun hafi neinn viðskiptavin í handraðanum, sem geti og vilji borga uppsett verð Landsvirkjunar fyrir þessa orku, sem til Elkem fer.  Þetta sýnir í hvers konar ógöngur einokunarfyrirtæki getur ratað, þegar óbilgirni er við stjórnvölinn.  Viðskiptasambönd, sem Landsvirkjun átti þátt í að byggja upp áður, rífur hún nú niður  af fullkomnu fyrirhyggjuleysi.

""Það, sem hrjáir okkur mest, er spurningin um, hvað tekur við eftir 2029.  Ef það stefnir í enn hærra raforkuverð, þá lítur þetta afskaplega illa út, og við þurfum svar við þeirri spurningu mjög fljótt vegna þess, að við höfum stöðvað fjárfestingu í uppbyggingu.

Þegar við fjárfestum í uppbyggingu, þurfum við að horfa meira en 9 ár fram í tímann.  Við höfum þurft að setja ýmis góð mál á ís, t.d. verkefni, sem snúa að endurnýtingu á orku og varma, á meðan óvissan er, eins og hún er í dag", segir Einar."

Þegar orkupakkalöggjöfinni er fylgt út í æsar, fylgir henni óvissa af þessu tagi fyrir viðskiptavini orkufyrirtækjanna, vegna þess að þeir hafa ekki í önnur hús að venda með viðskipti sín ólíkt því, sem við á á orkumarkaði ESB.  Það er hins vegar falleinkunn fyrir núverandi stjórn ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar, sem er í einokunaraðstöðu á sviði raforkusölu til orkukræfs iðnaðar, að hún skuli halda Elkem á Íslandi í svo illvígri spennitreyju, að fyrirtækið sjái sig neytt til að halda að sér höndum og í raun og veru að stefna á lokun, þegar núverandi raforkusamningur rennur sitt skeið á enda.  

Það er lydduháttur af stjórnvöldum að láta stjórn og forstjóra Landsvirkjunar komast upp með þessa fáheyrðu hegðun.  Eigandi Landsvirkjunar verður hér að taka í taumana.  Nú þarf landið á að halda öllum þeim heiðarlegu erlendu fjárfestingum, sem völ er á, eða eins og máltækið segir: "allt er hey í harðindum".  Þá er auðvitað fyrir neðan allar hellur, að Landsvirkjun rói í allt aðra átt.  Hvaða hagsmunum telur stjórn Landsvirkjunar sig vera að þjóna með því að stöðva fjárfestingar og síðan að hrekja erlenda fjárfesta úr landi ?  Það er ekki einu sinni heil brú í þessu frá þröngu viðskiptalegu sjónarhorni Landsvirkjunar séð.

""Afurðaverðið mun sveiflast upp og niður, en samkeppnishæfnin hefur versnað svo mikið, að við þurfum að reka verksmiðjuna betur en aðrir innan Elkem og líklega betur en flestir okkar keppinautar, til þess að það sé arðbært að vera hérna.  En arðsemin til lengri tíma litið er ekki mjög spennandi, og það er ólíklegt, að við myndum byggja verksmiðju á Íslandi í dag."  Þá nefnir Einar, að Landsvirkjun hafi ekki verið sátt við niðurstöðu gerðardóms og talið, að raforkuverðið ætti að vera hærra.  Því sé líklegt, að Landsvirkjun muni fara fram á hærra verð en rekstur Elkem getur staðið undir, þegar núgildandi samningur rennur út."

 Þarna hafa menn það svart á hvítu, hvernig komið er fyrir viðskiptavild Íslands hjá alþjóðlegum framleiðslufyrirtækjum, sem nota mikla orku til starfsemi sinnar.  Þau vantreysta Landsvirkjun fullkomlega og hafa engan hug á nýrri starfsemi og mjög takmarkaðan áhuga fyrir áframhaldandi starfsemi.  Fyrir Jón og Gunnu, sem horfðu á Kastljósþátt RÚV að kvöldi 24.02.2020 með Guðrúnu Hafsteinsdóttur, formanni stjórnar Samtaka iðnaðarins, og Herði Arnarsyni, þarf þetta ekki að koma á óvart, því að það skein í gegnum málflutning Harðar, að hann leggur fæð á stóriðjufyrirtækin í landinu. Fyrir eigandann er sú staða gjörsamlega óviðunandi.

Ætla má, að gerðardómurinn, sem Einar nefnir, hafi reynt að finna verð, sem væri samkeppnishæft við aðrar verksmiðjur, að teknu tilliti til viðbótar kostnaðar á Íslandi.  Sú staðreynd, að Landsvirkjun telur úrskurðað orkuverð of lágt, er góð vísbending um, að hún er á algerum villigötum með verðlagningu sína. 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Þormar

Í gær var þáttur í þýsku sjónvarpsstöðinni, ZDF, er nefndist "Das Ende der Energiewende".

Í Þýskalandi fer andstaða gegn vindorkuverum mjög vaxandi, fólk vill ekki hafa slík mannvirki nálægt sér. Nú þykir útséð um að Þýskaland geti í fyrirsjáanlegri framtíð séð sér fyrir nægilegri vistvænni raforku.

Í þættinum kom fram hugmynd um að kaupa orku í formi vetnis frá sólríkum löndum, þ.á m. núverandi olíuríkjum, en það skyldi eingöngu framleitt með sólarorku. Verð á henni árið 2050 var áætlað um 12 cent/kvst.

Hörður Þormar, 27.2.2020 kl. 17:15

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Hörður;

Já, það er að hægja mjög á uppsetningu vindmyllna í Þýzkalandi af umhverfisástæðum.  Þær skerða einfaldlega lífsgæði fólks og fénaðar.  Þú þurfa Þjóðverjar að fara að hrökkva eða stökkva með kjarnorkuverin.  Ég held þeir hljóti að hætta við að loka sínum öruggustu verum og þrói síðan nýja kynslóð kjarnorkuvera.  Raforkuverðið, sem þú nefnir, samsvarar 130 USD/MWh.  Núverandi hagkerfi getur ekki staðið undir svo háu orkuverði.  Það er mjög erfitt að spá fyrir um orkuverð.  Landsvirkjun er t.d. að tapa mikið á því að heimta það af Century/Norðuráli 2016, að raforkuverðið tengdist Nord Pool skráningu.  Þar hefur verðvísitalan helmingazt síðan í nóvember 2019, og er verðið um 20 USD/MWh. Skárra hefði verið að halda gömlu álverðstengingunni.  

Bjarni Jónsson, 27.2.2020 kl. 18:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband