8.3.2020 | 17:44
Styr stendur á milli LV og SI
Það hefur ekki farið framhjá blaðalesendum og sjónvarpsáhorfendum, að styr stendur á milli Landsvirkjunar (LV) og Samtaka iðnaðarins (SI). Um nokkurra ára skeið hefur stjórn SI verið á öndverðum meiði við orkufyrirtækin um útflutning s.k. upprunaábyrgða fyrir raforku. Á heimasíðu samtakanna, https://www.si.is, er m.a. greining Samtakanna á þessu fyrirbrigði, frá 19.02.2020, og niðurstaðan er á þann veg, að þessi útrás þjóni ekki hagsmunum íslenzks atvinnulífs í heildina.
Eftir að tilkynning RTA/ISAL í Straumsvík var gefin út þann 12.02.2020 um það, að eigandinn héldi vart lengur út stöðugt og mikið tap af rekstri ISAL, fóru að birtast einkennilegar skeytasendingar frá forstjóra LV um, að orkusamningur LV við ISAL væri sanngjarn og hinn alþjóðlegi eigandi fyrirtækisins væri bara kominn í áróðursstríð við LV, fyrirtæki þjóðarinnar, til að knýja fram raforkuverðslækkun. Mátti skilja á forstjóranum, að lækkun væri óþörf, enda ætti tapið sér aðrar orsakir. Þessi málflutningur forstjóra LV er fáheyrður og engu líkara en hann sé kominn í krossferð gegn stærstu viðskiptavinum LV. Spyrja má, hvort þessi málflutningur sé uppi hafður með samþykki stjórnar LV og eiganda fyrirtækisins, því að forstjórinn er hér kominn langt út fyrir viðskiptaleg mörk og farinn að reka bullandi pólitík. Allur málflutningur hans er þýddur samstundis og sendur á borð eiganda ISAL og líklega fleiri fjárfesta. Verður hvorki séð, að hann geti orðið viðskiptahagsmunum LV til framdráttar né orðspori Íslands sem heimahöfn erlendra fjárfestinga til að nýta endurnýjanlegar og kolefnisfríar orkulindir Íslands. Þvert á móti bendir margt til, að málflutningur forstjóra LV verði vegna eignarhaldsins á LV túlkaður erlendis sem stefna stjórnvalda, og það stórskaðar ímynd Íslands sem áhugavert fjárfestingarland. Skraf forstjóra stærsta orkufyrirtækis landsins getur orðið landinu þungbærari baggi en útflutningur hans á upprunavottorðum orkunnar, sem fyrirtæki hans vinnur úr íslenzkum orkulindum. Stjórnvöld verða tafarlaust að setja forstjóranum stólinn fyrir dyrnar og sýna gjörólíka afstöðu og stefnumörkun í verki. Linkind og léttúð í þessu máli getur orðið almenningi dýrkeypt.
Samtök iðnaðarins (SI) hafa með réttu haldið því fram, að raforkuverð til miðlungsstórra og stórra raforkunotenda væri í seinni tíð (frá 2011) ekki lengur samkeppnishæft við alþjóðlega markaði. Fyrir þetta og fyrir andstöðu SI við útflutning upprunaábyrgða raforku hefur forstjóri LV opinberlega beint spjótum sínum að SI. Dæmi um þetta gaf á að líta í Morgunblaðinu 22.02.2020 í grein Harðar Arnarsonar undir heitinu:
"Hverra hagsmuna gæta Samtök iðnaðarins ? - Fimm spurningar til samtakanna".
Hún hófst þannig:
"Samtök iðnaðarins og Samál hafa nú um nokkurt skeið staðið í áróðursherferð gegn orkufyrirtækjum í eigu almennings á sama tíma og Rio Tinto, aðildarfyrirtæki þeirra, reynir að fá lækkað raforkuverð.
Reynt er að halda því að almenningi, að Ísland sé ekki "land endurnýjanlegrar orku, og tilraunir gerðar til að koma í veg fyrir, að orkufyrirtækin geti aukið verðmætasköpun fyrir íslenzkt samfélag með þátttöku í viðskiptum með upprunaábyrgðir."
Það er með endemum, að forstjóri LV skuli blanda saman þessum tveimur óskyldu málum. Það er gefið í skyn, að SI og Samál ráðist á LV fyrir útflutning hennar á upprunaábyrgðum, til að hún þurfi að berjast á tveimur vígstöðvum í þeirri von, að Rio Tinto Aluminium verði betur ágengt í viðleitni sinni að draga LV að samningaborðinu. Þessi málflutningur sæmir ekki forstjóra langstærsta raforkufyrirtækis landsins og bendir til, að forstjórinn sé úti á túni sem slíkur og farinn að stunda sína einkapólitík gegn stóriðjufyrirtækjunum í landinu. Auðvitað á hann sínar skoðanasystur og -bræður um þetta hugðarefni sitt, en rekur hann erindi stjórnar Landsvirkjunar, þegar hann hagar sér svona, svo að ekki sé nú minnzt á fulltrúa eigandans, ríkisstjórnina og meirihluta þingheims ?
Nú er svo komið, aðallega fyrir tilstilli LV, að í bókahldi EES og Landsreglarans (Orkustofnunar) koma 55 % seldrar raforku hérlendis úr jarðefnaeldsneyti, 34 % úr kjarnorkuverum og aðeins 11 % úr sjálfbærum orkulindum. Almenn notkun, utan langtímasamninga, nemur um 20 % heildarsölunnar. Öllum almenningi standa miðað við þetta ekki til boða vottorð um sjálfbæran uppruna raforkunnar, sem hann kaupir, því að ESB leggur bann við tvítalningu sömu orkunnar í þessu bókhaldi, og á því er hnykkt í Orkupakka 4 að viðlögðum sektum.
Það er grundvallaratriði á Innri orkumarkaði EES, að engum fyrirtækjum sé mismunað á þessum markaði, heldur njóti þau jafnstöðu án tillits til eignarhalds, staðsetningar og starfsemi. Í Greinargerð SI frá 19.02.2020 er komizt að því, að þessi jafnstöðuregla sé brotin á Íslandi, a.m.k. í tilviki upprunaábyrgðanna:
"Fyrirtækjum á Íslandi er mismunað í kerfi upprunaábyrgða. Upprunaábyrgðir fylgja raforku til almennings og fyrirtækja á almennum markaði, en orkufyrirtækin undanskilja orkusækin fyrirtæki á borð við álver, kísilver og gagnaver. Þau fá ekki upprunaábyrgðir, nema greiða fyrir þær. Það er gagnrýnivert og sætir furðu, að orkufyrirtæki í opinberri eigu mismuni íslenzkum fyrirtækjum með þessum hætti. Austurríki og Spánn hafa sett lagalegar hindranir fyrir sölu upprunaábyrgða."
Landsreglaranum ber að líta á jafnstöðu fyrirtækja innan alls Innri markaðar EES. Hann lætur sig engu varða misskiptingu innan lítils bleðils á því svæði. Öðru máli á að gegna um Alþingismenn. Þeir eiga nú að fara að fordæmi þingmanna í Austurríki og á Spáni að þessu leyti og t.d. að semja um það þingsályktunarillögu, að orkufyrirtækjum, sem trúað hefur verið fyrir nýtingu endurnýjanlegra og kolefnisfrírra orkulinda Íslands, og fengið upprunavottorð í samræmi við það (frá Orkustofnun), skuli bjóða viðskiptavinum sínum á heildsölumarkaði "græn skírteini" gegn vægu gjaldi, er spanni kostnaðinn við umstangið af þessum "grænu skírteinum".
Þannig yrði viðskiptavinum orkufyrirtækjanna sparaður sá kostnaður, sem formaður og framkvæmdastjóri SI hafa fullyrt opinberlega, að hljótist af því að hafa ekki í höndunum þessi skírteini ásamt þeim bletti, sem falli á ímynd Íslands, þegar sjáist þau hlutföll um uppruna orkunnar, sem af útflutningi "grænu skírteinanna" leiðir. Framkvæmdastjóri SI hefur fullyrt, að heildarkostnaður íslenzks atvinnulís af þessu útrásaruppátæki orkufyrirtækjanna nemi margföldum útflutningsverðmætum þeirra. Forstjóri LV hefur beðið hann um að sýna fram á þetta, en ekki verður þess vart í svörum SI á heimasíðu samtakanna við 5 spurningum forstjórans. Ekki verður því trúað, að einvörðungu sé um ágizkun eða huglægt mat framkvæmdastjórans að ræða.
Reynsla höfundar þessa vefpistils er sú, að evrópskir viðskiptavinir hafi verið með á nótunum, en utan Evrópu fylltust menn tortryggni, þegar þeir sáu afleiðingar af útflutningi upprunavottorðanna, og einkum var erfitt að útskýra þessar ankannalegu tölur um uppruna í jarðefnaeldsneyti og kjarnorku fyrir fólki úr Vesturheimi. Ekki er höfundi þessa pistils þó kunnugt um, að viðskipti hafi tapazt eða viðskiptakjör versnað vegna þess arna. Það stendur upp á Samtök iðnaðarins að skýra frá því.
Að lokum er nauðsynlegt að árétta, að verðhækkunarstefna Landsvirkjunar fyrir afurð sína, rafmagnið, er algerlega úr takti við verðþróun orku almennt í heiminum síðan 2011. Til þess að samkeppnishæfni ISAL nú verði sú sama og á upphafstíma nýja orkusamningsins 2011, þarf raforkuverðið að lækka um 30 %. Um þetta snýst deilan.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.